Næsta tímabil

Mynd: Everton FC.

Undirbúningstímabilinu er lokið, eins og kunnugt er, og hvað höfum við lært um liðið á þeim tíma? Helst það að engin stökkbreyting verði á liðinu frá síðasta tímabili — allavega hvað varðar fyrsta val í liðið. Mér sýnist, líkt og Executioner’s Bong sem birtu ágæta greiningu á tímabilinu sem er framundan, sem þetta verði að mestu sömu leikmenn sem koma til með að byrja leikina en þeir sem keyptir voru í glugganum komi til með að veita þeim sem fyrir voru aðhald og detti því ekki beint inn í liðið. Það er næsta víst að Martinez leggi línurnar upp öðruvísi en Moyes, líklega kemur hann t.d. til með að spila með þrjá í vörninni (man bara eftir einu skipti sem Moyes reyndi það, í seinni tíma allavega) og nokkuð ljóst að Martinez kemur til með að leggja höfuðáherslu á að halda boltanum vel, spila nánast alltaf út frá markverði og reyna að byggja upp spil frá aftasta manni. Lítum aðeins á stöðurnar:

Markverðir: Howard og Robles bítast þar um stöðuna og þó maður hafi hrifist af Robles í þeim leikjum sem hann hefur spilað þá virkar Howard í fantaformi í augnablikinu — kannski þar sem hann er kominn með almennilega samkeppni aftur. Hef í raun ekki séð hann svona heitan í nokkurn tíma og get ekki skrifað á hann neitt af mörkunum sem hann fékk á sig.

Miðverðir: Jagielka og Distin virka á mig áfram sem fyrstu valkostir í miðvarðarstöðunni en þar sem Martinez vill oft spila með þrjá koma Heitinga og Stones til með að berjast um þriðju stöðuna þar en Stones hefur komið skemmtilega á óvart á undirbúningstímabilinu og þessi unglingaliðs-landsliðsmaður lítur út fyrir að vera algjörlega frábær kaup frá ekki stærra liði en Barnsley. Heitinga er því líklegur til að vera notaður í miðjustöðu eitthvað áfram. Duffy hefur hins vegar ollið mér pínulitlum vonbrigðum — bjóst við meiru af honum eftir frábæra frammistöðu þegar hann leysti af vegna meiðsla á síðasta tímabili í nokkrum leikjum en mér sýnist hann ekki hátt skrifaður hjá Martinez. Antolín Alcaraz er meiddur í augnablikinu og hefur lítið sem ekkert sést á vellinum. Reikna ekki með að sjá hann í byrjunarliðinu í bráð en það verður fróðlegt að sjá hvar Heitinga stendur þegar Alcaraz er orðinn heill.

Bakverðir: Coleman og Baines hljóta að vera fyrsti kostur í stöðu bakvarða (eða „wingback“ ef Martinez spilar þriggja manna vörn). Oviedo hefur komið skemmtilega á óvart þegar hann leysir Baines af en Luke Garbutt, þó ungur og efnilegur sé (og valinn í enska landsliðið aftur á dögunum, ásamt Barkley og Stones), er væntanlega þriðji valkostur og væri líklega best að hann verði lánaður til annars liðs til að öðlast reynslu. Ég held jafnframt að greyið Hibbert fái ekki jafn stórt hlutverk í uppstillingu Martinez og hann gerði undir Moyes og ég væri ekki hissa þó hann væri kominn niður fyrir bæði Stones (og Coleman) í goggunarröðuninni.

Varnarsinnaðir miðjumenn: Fellaini er væntanlega fyrsta val hjá Martinez, Fellaini til mikillar ánægju (þó hann hafi staðið sig vel framar á vellinum). Gibson stóð sig frábærlega í mörgum af undirbúningsleikjunum en hann meiddist (vonandi lítillega) í síðasta vináttuleik og því gæti Osman séð sér leik á borði. Ég hélt að bæði Osman og Hibbert væru smám saman að hverfa á braut með komu Martinez en það gæti verið líf í Osman áfram (enda getur hann spilað nokkrar stöður). Ég sé hins vegar ekki að Francisco Junior sé að fara að ógna þeim miðað við það sem ég hef séð af honum. Velti því fyrir mér hvort hann sé einfaldlega nógu sterkur.

Kantmenn: Steven Naismith hefur komið mér skemmtilega á óvart og ég held að við eigum eftir að þurfa að endurmeta hann eftir að hafa horft upp á nokkra meðalmennsku hjá honum á síðasta tímabili (enda að vinna sig upp úr meiðslum). Pienaar og Mirallas hljóta þó að vera fyrstu valkostir Martinez á köntunum en það sem ég hef séð af Mirallas hefur lofað _mjög_ góðu. Þetta gæti orðið tímabilið sem skýtur honum á stjörnuhimininn. Ég sé ekki að Gueye sé að fara að skáka Pienaar og ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá man ég í raun ekki eftir að hafa séð hann spila á undirbúningstímabilinu. Deulofeu er, í mínum huga, algjört spurningarmerki enn sem komið er. Spái því að hann verði eins og Mirallas á síðasta tímabili — við komum til með að sjá einstaka blossa þar sem hæfileikarnir, tæknin og hraðinn skína í gegn (kannski einstaka glæsimark?) en hann þarf tíma til að venjast ensku deildinni og mun eiga misjafna leiki.

Sóknarsinnaðir miðjumenn (holan): Þar sem Fellaini hefur verið færður aftar á völlinn vantar einhvern til að stíga upp og fylla í skarðið. Það eru þó nokkrir sem geta spilað þessa stöðu en mann langar helst að sjá Barkley blómstra hér. Hann hefur, að ég tel, hæfileikana en er aðeins of mistækur enn sem komið er, miðað við það sem ég hef séð. Osman, Mirallas og Naismith geta einnig leikið þessa stöðu, sem og Pienaar enda átti Moyes það til að rótera kantmönnum inn og út úr þessari stöðu í miðjum leik til að sjá hvað virkaði. Mér finnst þessi staða eiginlega mesta spurningarmerkið fyrir tímabilið. Það verður því gaman að sjá hvort einhverjum takist að eigna sér þessa stöðu í framhaldinu.

Sóknarmenn: Jelavic er loksins farinn að sýna sitt rétta andlit eftir mikla lægð á síðasta tímabili. Fyrsti valkostur að mínu mati og miðað við undirbúningstímabilið er hann mjög heitur. Kone og Anichebe koma til með að veita honum aðhald en ég sé ekki að Vellios og McAleny séu að fara að ógna þeim þó mig langi að sjá þá fá fleiri tækifæri. Svo er spurning hvort Deulofeu verði ekki prófaður í þessari stöðu þegar á þarf að halda?

Það er erfitt að meta hversu langt Everton getur náð á næsta tímabili. Þetta er tímabil breytinga með nýrri stjórn en jafnframt auknum krafti þar sem leikmenn þurfa að sanna sig fyrir nýjum stjóra og eiga eftir að koma liðum á óvart með nýjungum. Einhverjir leikmenn koma til með að stíga upp og axla meiri ábyrgð og aðrir sem passa ekki inn í kerfið verða látnir fara. Það er bara eins og gengur og gerist. Á svona umbyltingarskeiði er kannski rétt að vonast eftir jafn góðum (vonandi betri) árangri í deild og góðu gengi í bikar þar sem allt getur gerst, að sjálfsögðu.

Held ég sé ekki að gleyma neinu. Hver er ykkar skoðun? Sammála í öllu? Ósammála? Endilega látið í ykkur heyra.

11 Athugasemdir

 1. Ingi Þór Eyjólfsson skrifar:

  Ég er ansi hræddur um það að skortur á miðjumönnum (CM) muni koma niður á okkur. Gibson er einfaldlega of oft meiddur og getur aldrei verið framtíðarmaður þess vegna. Ég var hálfpartinn að vona að RM fengi mann í þá stöðu fyrir lokun gluggans.

 2. Andri skrifar:

  Ef við gefum okkur að ákveðnar breytingar á hópnum séu framundan, eitt er víst finnst mér með það. Heitingar verður seldur í þessum glugga og er það til hins betra. Þar sem fótboltinn hja RM verður mikið frábrugðin þeim sem DM spilaði, þá yrði gríðarlega sterkt að selja Baines og tel ég líklegt að svo verði. Maður keyptur í sem spilar frá miðju og í holuna. Þá yrði kominn betri mynd á hvernig hópurinn spilast, eitt er víst Fellaini er ekki á förum nema til virkilega bitastætt liðs. Sé það ekki gerast á þessu tímabili.

 3. Elvar Örn skrifar:

  Frábær samantekt hjá þér Finnur eins og alltaf.

  Ég held að með þriggja manna varnarlínu þá eigi Hibbert alveg einhvern séns að spila í henni (hægra megin) en ólíklegt að hann spili framar (kantmaður) eins og þú talar um en hann er ekki svo öflugur framávið.

  Ég er ekki alveg sammála með Duffy en hann hefur engann séns fengið á þessu undirbúningstímabili en fyrir ári var hann t.a.m. alveg frábær á því undirbúningstímabili og svolitið í takt við Stones í ár. Duffy er enn ungur að árum og menn verða jafnan ekki öflugir varnarmenn fyrr en um eða eftir 25 ára aldurinn.

  Alveg sammála með Barkley, þessi staða virðist henta honum í þessu leikkerfi en hann verður að læra að halda boltanum betur amk ef maður miðar við undirbúningstímabilið núna og þá sér í lagi seinasta leik sem var gegn Real Betis, það væri gaman að telja hve oft hann missti boltann í þeim leik. Ég hef áður nefnt að ég horfði á leik U-20 Englendinga á HM í sumar þar sem þeir léku að mig minnir geng Israel og Barkley var alveg stórbrotinn í þeim leik. Þessi drengur minnir mig óneytanlega á Rooney verð ég að segja.

  Deulofeu held ég að verði mistækur en á möguleika á að eiga flotta leiki og samlíking þín við Mirallas í fyrra er ansi góð tel ég þar sem hann er svona óslípaður demantur en spurning er hvaða staða henti honum best. Hann átti í basli gegn Real Betis og fannst mér mjög áberandi að hann reyndi alltaf að færa hægra megin við varnarmann og kom því varnarmanni lítið á óvart en þó átti hann 1-2 spretti sem lofuðu mjög góðu. Mér fannst reyndar varnarmaðurinn í Real Betis sem lék í þessari stöðu vera alveg magnaður. Mér finnst Coleman bara miklu öflugri í þessari stöðu í augnablikinu.

  Gary Neville sem í dag er kynnir á Sky sjónvarpsstöðinni sagði að Moyse ætti ekki bara að líta á Fellaini og Baines sem verðuga Man Utd kandídata því Coleman væri t.a.m. nægilega góður til að spila með United, ekki slæm meðmæli það.

  Jelavic er klárlega fyrsti kostur í framherjastöðunni en mig langar mjög mikið til þess að Martinez muni prufa uppstillingu með tveimur sóknarmönnum í ár, fannst það oft vanta hjá Moyse kallinum.

  Ég held að það sé rétt að Gueye eigi lítinn séns að spila í vetur og ég held að Oviedo geti leyst af bæði Baines og einnig Pienaar þar sem Oviedo virðist vera mjög fljótur og öflugur framávið og Graham Sharp hefur t.a.m. sagt að hann hafi komið sér mest á óvart á æfingum á undirbúningstímabilinu.

  Bara 3 dagar í fyrsta leik sem er útileikur gegn Norwich og það verður mjög spennandi að sjá hvernig ný uppstilling kemur til með að virka og þá sérstaklega í fjórum fyrstu leikjunum sem eru gegn Norwich, WBA, Stevenage og Cardiff því í fimmta leik tökum við á móti Chelsea og vonar maður að liðið slípist í fyrstu leikjunum áður en stóru liðin koma í heimsókn. Svo vonar maður auðvitað að enginn fari áður en leikmannaglugginn lokar því það gæti komið smá rót á liðið ef það kæmi upp og ég held að það sé einn að stóru kostunum í okkar liði hve lítil leikmannavelta er miðað við önnur lið.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Þess má geta að ég var alls ekki ánægður með Heitinga í miðvarðarstöðunni í fyrra en ég held að hann geti verið mjög öflugur fyrir framan miðverðina og stóð hann sig t.a.m. mjög vel þegar hann kom inná fyrir Gibson gegn Betis í seinasta leik. Ég vil ekki selja neinn nema það þurfi að selja því einn af stóru plúsunum í ár er sá hve hópurinn er breiður og í raun er mikið meiri pressa á allar stöður í dag sem er mjög gott aðhald fyrir leikmenn.

 5. Elvar Örn skrifar:

  Mirallas og Fellaini taka þátt í léttu gríni með landliðsmönnum Belga sem spila við Frakka í kvöld.
  http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2392407/Video-Watch-brilliantly-funny-video-Romelu-Lukaku-Belgian-squad-preparing-match-France.html

 6. Halli skrifar:

  Barkley spilaði seinni hálfleik með u-21 englendinga og skoraði og þótti besti maður vallarins í hálfleiknum. Ég er sammála mönnum með spenning fyrir tímabilinu. Ég væri líka til í að sjá liðið spila með 2 sóknarmenn í það minnsta á móti veikari andstæðingum. Ég spái því að Mirallas verði okkar besti maður í vetur og Jelavic markahæðstur og Barkley efnilegastur. Ég spái 5 sæti í vor

 7. Finnur skrifar:

  Hægt er að sjá markið sem Barkley skoraði í þessu vídeói…
  http://www.youtube.com/watch?v=EAwW85O_Jak?t=4m12s
  … en það er 9 mínútna langt. Mark Barkley birtist ef þið spólið að 5:20 og ef þið viljið sjá markvarðarmistök Skota spólið þá að 4:12.

  Flott einstaklinsframtak hjá Barkley — vinnur boltann af Skotunum á þeirra vallarhelmingi, lánar liðsfélaga sínum boltann í smá stund en tekur hann svo aftur og leggur hann í netið.

 8. Jón G skrifar:

  Fotbolti.net spáir Everton 7 sæti í deildinni á þessu tímabili
  Eru menn sammála eða ekki?

 9. Finnur skrifar:

  Það er erfitt að spá nákvæmt fyrir um sæti liða og ennþá erfiðara í ár þar sem nýr mannskapur er í brúnni sem ekki er komin reynsla á (hjá Everton). Þegar maður hins vegar les spána í gegn þá sést að þeir minnast ekki einu sinni á Jelavic (bara Anichebe og Kone) þannig að það er eins og þeir hafi einfaldlega ekki gert ráð fyrir að hann verði líklega fyrsta val frammi enda búinn að vera heitur á undirbúningstímabilinu (halelúja).

  En hvað um það — þetta er þeirra spá. Ekkert um það að segja.

  Ég væri ekkert ósáttur við 7. sætið og bikardollu til dæmis (svona á meðan liðið er að finna sig undir nýjum stjóra). 🙂

 10. Finnur skrifar:

  Til gamans má geta að fotbolti.net fengu, skv. greininni þeirra, 9 manns til að spá fyrir sig um endanleg úrslit í deildinni. Ég fletti þeim upp á Facebook og fann út hvaða lið þeir styðja (skv. því sem þeir eru búnir að like-a). Hérna er dreifingin:

  Liverpool 4
  Arsenal 1
  Crystal Palace 1
  Bayern Munchen 1
  Ekki vitað 2

  Það er enginn selection bias í þessu – neihhhh. :/

  Þessi spá segir mér eiginlega meira um fotbolta.net heldur en nokkuð annað.

 11. Einar G skrifar:

  5. sæti og úrslit í bikar jafnvel dolla 🙂