Biðinni brátt að ljúka

Mynd: Everton FC.

Aðeins þrír dagar í leik og spennan magnast. Deildarkeppnin er hafin hjá U21 árs liðunum og Everton U21 lauk sínum fyrsta deildarleik með 2-0 sigri á Wolves U21 (sjá vídeó).

Leikmenn Everton eru þó flestir með landsliðum sínum að leika vináttuleiki þessa dagana og maður krossar fingur (líkt og Roberto Martinez) að þeir komi allir heilir heim, líkt og eftir nýlokið undirbúningstímabil. Klúbburinn birti rétt í þessu yfirlit yfir landsleiki Everton manna og ekki var minnst þar orði á meiðsli sem veit bara á gott. Ég má til með að minnast á að Baines lagði upp sigurmark Englendinga í 3-2 leik gegn Skotum og Barkley lék seinni hálfleikinn með U21 árs liði Englands í 6-0 sigri á móti Skotum U21 (eins og fram hefur komið í kommentakerfinu). Hann þótti mjög góður og skoraði m.a. flott mark. John Stones lék allan leikinn í vörninni og hjálpaði félögum sínum að halda hreinu.

Nokkuð var gert úr fjarveru Fellaini í sigurleiknum gegn Real Betis og slógu blöðin því í kjölfarið föstu, enn á ný, að nú væri hann á leiðinni til United. Martinez útskýrði þó að hann hefði fengið ígerð í skurð á fæti og hefði spilað leikinn ef um keppnisleik hefði verið að ræða en þar sem landsleikur með Belgum væri skammt undan var tekin ákvörðun um að hann yrði hvíldur. Mikið hefur jafnframt verið rætt um Baines, en Martinez staðfesti að eitt tilboð hefði borist snemma, því hefði verið snarlega hafnað og ekki hefði borist annað. Hann liti svo á sem því máli væri lokið og er það bara hið besta mál.

Gibson aftur á móti náði sér í ligament meiðsli í upphituninni fyrir Real Betis leikinn og því óljóst hvort hann verði heill gegn Norwich um helgina. Þetta eru þó bara „fyrsta stigs“ meiðsli þannig að hann verður vonandi ekki lengi frá. Hibbert, Alcaraz og Gueye koma til með að missa af leiknum gegn Norwich vegna meiðsla og þurfa mislangan tíma til að jafna sig. Enginn af þeim þó mjög langan, að öllum líkindum.

Í öðrum fréttum: Unsworth birti nýjan dálk á Everton FC vefsíðunni og ræddi hann um fyrstu reynslu sína af Roberto Martinez, þegar Unsworth var að þjálfa hjá Preston og fór einnig fögrum orðum um Barkley. Og talandi um golden oldies (Unsworth) þá birti klúbburinn skemmtilegt vídeó af fyrrum félögum Dave Watson að mæra hann. Goðsögnin Graeme Sharp lét ekki sitt eftir liggja en hann er spenntur yfir því að sjá Jelavic á tímabilinu sem er framundan enda Jela í góðu formi þessa dagana með fjögur mörk í fjórum leikjum og varla spilað nema hálfleik í þremur þeirra. Mér telst svo til að hann hafi skorað þessi fjögur mörk á 211 mínútum, sem gerir mark á 53. hverri mínútu!

Örstutt um slúðrið í lokin, en Everton var orðað við eftirtalda: Aaron Cresswell, Josh Brillante og Scott Dann.

7 Athugasemdir

 1. Gunni D skrifar:

  Þetta verður spennandi.Sé ykkur vonandi á Ölveri á laugardaginn. Þangað til: Góðar stundir.

 2. Finnur skrifar:

  Tvennt mjög áhugavert kom fram í viðtölum við Martinez sem birt voru í morgun.

  Í fyrsta lagi staðfesti hann að „buy-out“ klausan í samningi Fellaini sé ekki lengur virk en lokadagsetingin var 31. júlí, en ekki e-n tímann í ágúst, eins og talað var um.
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/08/15/attacking-options-please-martinez

  Hann sagði einnig í sama viðtali að hann byggist ekki við frekari tilboðum í Baines.

  Og hann staðfesti einnig að enginn hefði meiðst í landsliðsleikjatörninni (hjúkk).
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/08/15/blues-fit-after-internationals

  Ekki nema tveir dagar í leik! 🙂

 3. Elvar Örn skrifar:

  Ég er reyndar mjög hissa að í öllum þessum umskiptum hjá Everton hafi enginn leikmaður verið seldur. Það gefur manni trú á að leikmenn séu sáttir með það hvert klúbburinn stefni.
  Það er auðvitað möguleiki á að 1-2 leikmenn verði seldir áður en leikmannaglugginn lokar en þá gerir maður ráð fyrir að fyllt verði í skarð þeirra. Það kæmi mér samt ekki á óvart þó að það yrðu ekki frekari breytingar á hópnum, þ.e. enginn keyptur og enginn seldur.

  Maður verður síðan að kíkja á ykkur á Ölver og kannski ég, Georg og Gunnþór gerum okkur bara ferð í haust til að hitta „gengið“ á Ölveri, hver veit?

  1 dagur, 20 klst og 27 mínútur í næsta leik, held ég fari að pússa Everton-skjávarpa-koníaksstofuna uppi á lofti og fylla á ískápinn.

  • Tryggvi Már skrifar:

   Er ekki Ölver bara staðsett heima hjá þér í vetur Elvar? Allaveganna fyrir okkur norðan heiða?

  • Finnur skrifar:

   > held ég fari að pússa Everton-skjávarpa-koníaksstofuna
   > uppi á lofti og fylla á ískápinn.

   Ég held að þú meinir „bjórkælinn“. 🙂

 4. Baddi skrifar:

  Sælir félagar,nú styttist í fyrsta leik og verum duglegir að mæta á ÖLVER og mætum tímanlega svo að við missum ekki herbergið OKKAR, kv Baddi.

 5. Einar G skrifar:

  Ég ætla að mæta á Ölver á Laugardaginn, ekki spurning. Kveðja norður í koníaksstofuna 🙂