Valencia – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Leikurinn gegn Valencia hófst kl. 1:00, hægt verður að horfa á upptökuna hér.

Byrjunarliðið komið: Robles, Oviedo, Distin, Jagielka, Stones, Naismith, Gibson, Fellaini, Deulofeu, Barkley, Anichebe. Sýnist þetta vera fjögurra manna vörn, af pappírunum að dæma.

Leiknum seinkaði smá vegna leiksins á undan. Everton í nýja glæsilega útibúningunum, gulum og bláum. Valencia í appelsínugulum. Rétt tæplega 30 stiga hiti í Miami.

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað, lítið um færi. Valecia átti færi á 3. mínútu af vinstri kanti en enginn til að taka á móti. Oviedo klipptur niður á 5. mínútu. Myndi vera rautt á síðasta þriðjungi– en varnarmaður slapp með gult. Oviedo átti skot stuttu seinna sem breytti stefnu af Everton manni og fór út af. Ekki mjög mikið að gerast.

Everton komst í nokkrar skyndisóknir í fyrri hluta leiks, til dæmis á 15. mínútu en sending Barkley til vinstri alltof slök — of löng — sem eyðilagði momentið. Manni finnst vanta hraða í liðið, sérstaklega Mirallas og Pienaar í skyndisóknirnar og Deulofeu sem er með hraðann virkaði slakur — alltaf að reyna of mikið.

John Stones datt niður meiddur á 19. mínútu en harkaði af sér. Fór svolítið um mann — viljum ekki missa neina í meiðsli, sérstaklega ekki menn sem hafa verið mjög sprækir á undirbúningstímabilinu.

Nokkuð jafnræði með liðum, Everton aðeins meira ógnandi fyrstu 20 mínúturnar eftir smá shakyness í byrjun en svo náðu Valencia menn góðri pressu á markið upp úr 20. mínútu — skot á mark úr þröngu færi og skot upp úr horni en ekkert kom úr því, sem betur fer.

Deulofeu komst upp vinstri kant á 27. mínútu eftir sendingu frá Barkley en fyrirgjöfin hitti fyrir Valencia mann. Valencia menn áttu svo lúmskt skot aðeins mínútu seinna en boltinn fór rétt utan við stöngina vinstra megin neðarlega. Þeir áttu svo skot á 31. mínútu en beint á Robles. Valencia farnir að ógna meira.

Everton fengu svo algjört dauðafæri á 32. mínútu þegar Oviedo sendi stungusendingu inn á Naismith inn í teig en markvörður varði skotið vel með annarri hendi. Staðan hefði átt að vera 1-0 fyrir Everton þar.

Deulofeu var næstum kominn inn fyrir á 38. mínútu en varnarmaður bjargaði í horn. Hornið var skallað að marki af Jagielka og manni sýndist boltinn fara í hendi á varnarmanni en ekkert dæmt. Næsta horn fór forgörðum.

Það kom smá spenna annars í lokin þegar Anichebe algjörlega stakk af varnarmann á 43. mínútu og komst langleiðina að markverði en missti boltann of langt frá sér. 0-0 í háfleik. Anichebe út af í hálfleik, Jelavic inn á. Stones út af fyrir Coleman.

Valencia menn byrjuðu líflega og náðu upp smá pressu í byrjun seinni hálfleiks, unnu nokkur horn og áttu einhver skot en ekkert sem reyndi á Robles. Kannski helst skotið á 50. mínútu en samt ekkert of erfitt fyrir Robles að drepa þann bolta.

En svo skoruðu Valencia menn á 53. mínútu þegar leikmaður þeirra fékk boltann rétt fyrir utan teig og þrumaði honum niðri í vinstra hornið hjá Robles. 1-0 fyrir Valencia. Baines og Mirallas strax sendir að hita upp og mögulega fleiri. Þungavigtarmennirnir að koma inn á. Naismith út af fyrir Baines, Deulofeu út af fyrir Mirallas á 56. mínútu.

Mirallas lífgaði strax svolítið upp á sóknarleikinn og allt virtist fara í gegnum hann en hann var svolítið að láta dæma rangstöðu á sig (reyndar ekki alltaf réttur dómur) eða sendingarnar á hann ekki nógu góðar. Spurning hvort ekki náist að stilla strengina rétt með tíma.

Valencia menn komust inn í sendingu á 64. mínútu og brunuðu í sókn og tóku skot sem fór rétt framhjá en Mirallas bjó til færi hinum megin með því að leika á varnarmann og spretta fram völlinn. Fjórir Everton menn fylgdu og voru fleiri en varnarmenn Valencia sem sváfu á verðinum. Fyrirgjöf Mirallas þó örlítið of löng en Oviedo náði honum hinum megin (vinstra megin) í teig en sending hans of há. Synd að ekki skyldi hægt að nýta þetta eftir góðan undirbúning hjá Mirallas.

Lítið að gerast næstu mínúturnar þangað til Valencia komust í dauðafæri á 69. mínútu, einn á móti markverði en Robles varði glæsilega.

Skyndisókn hjá Everton á 76. mínútu en Fellaini missti boltann. Frústrerandi seinni hálfleikur — spilið ekki að ganga nógu vel og sóknir að fara forgörðum áður en þær urðu að einhverju bitastæðu. Fellaini og Gibson að tapa baráttunni á miðjunni, ekki skorti áhugann eða orkuna í hlaupunum á Fellaini (allavega framan af) en þetta var bara ekki að virka hjá þeim tveimur. Gibson skipt út af fyrir Osman á 85. mínútu — eiginleg allt of seint. Osman hleypti smá neista í þetta en þegar hann kom inn á voru menn orðnir þreyttir á að hlaupa í steikjandi hita.

Kone inn á fyrir Jelavic á 88. mínútu. Það kom líka smá neisti með honum, en ekki vildi bálið kvikna. Valencia fengu færi undir lokin en Robles varði vel á síðustu sekúndunum.

Robles stóð sig vel í markinu og verður ekki kennt um markið. Miðverðirnir okkar litu vel út að vanda og Stones líka og Oviedo fínn en miðjan ekki að gera sig í leiknum, að mínu mati. Naismith var besti miðjumaðurinn í fyrri hálfleik og Mirallas í þeim seinni en varð fyrir vonbrigðum með bæði Gibson og Fellaini og Barkley datt inn og út úr leiknum. Lítið sást af sóknarmönnunum okkar í leiknum, Anichebe einna bestur af þeim í fyrri hálfleik en Jelavic sást varla í seinni.

Á heildina litið var þetta slakasti leikur Everton í keppninni og seinni hálfleikurinn mjög slakur — Mirallas sá eini sem lífgaði smá upp á hann og maður spyr sig af hverju Pienaar spilaði bara einn leik. Vantaði svolítið upp á leikskipulag og leikmenn virkuðu þungir og hægir — líklega ekki jafn vanir hitanum og Valencia mennirnir. Lokastaðan 1-0 fyrir Valencia.

Real Betis næst — sem verður fyrsti heimaleikur Martinez-ar.

6 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Voru það ekki elstu mennirnir sem að spiluðu ekkert í gær? Howard og Pienaar. Kannski hann (kallinn í brúnni, Martinez) sé með það á hreinu hvað þessir menn geta og ætli sér að spila þeim þegar tímabilið byrjar?

  Mér fannst þeta ekki góður leikur eins og kemur fram hérna að ofan. Fór að sofa snemma (kl 9) og vaknaði svo til að sjá leikinn reyndar vaknaði ég hálftíma of seint en það kom ekki að sök þar sem að leikurinn frestaðist aðeins og byrjaði um það bil háltíma síðar en dagskráin sagði til um.

  Þótti mjög spennandi að sjá til Deulofeu í byrjun en ekki kom mikið út frá honum. Það var ein sókn sem ég man eftir í fljótu bragði þar sem að Bakrley hefði getað gefið til ægri á Deulofeu sem hefði þá verið dauðafrír… í stað þess sendi Barkley boltann til vinstri og sú sókn rann út í sandinn…. Eitthvað fannt mér það fara í taugarnar á Deulofeu enda er hann ungur að árum…. hann virtist reyndar fara í fýlu og gat bara alls ekkert í leiknum.

  Þetta var slakast leikur hjá okkar mönnum í ferðinni (verða að fara að drífa mig í vinnuna) en mjög gott að fá að etja kappi við svona sterk lið. Ég held að Valencia sé með nokkuð gott lið og gæti alveg verið í toppnum á spönsku deildinni, kannski lið til þess að komast í annað af efstu tveimur sætum í spænsku deildinni.

  Ovideo var mjög góður, það var það sem ég man eftir svona í fljótu bragði. Jagielka solid og Distin líka.

 2. Einar G skrifar:

  Takk fyrir skýrsluna að ofan, góð að vanda, ég nefninlega ætlaði að horfa á leikinn og vakti og vakti en eins og Ari sagði þá var seinkun sem rústaði því fyrir mér og sofnaður á sófanum líklega 5 mín fyrir kick off 🙂 Eru menn ekki alment bjartsýnir fyrir tímabilið?? Verður áfram hittingur á Ölver í vetur?

 3. Finnur skrifar:

  > Mér fannst þeta ekki góður leikur eins og kemur
  > fram hérna að ofan.

  Mér sýnist við séum á svipaðri línu. „Á heildina litið var þetta slakasti leikur Everton í keppninni og seinni hálfleikurinn mjög slakur“. 🙂

  > Eru menn ekki alment bjartsýnir fyrir tímabilið??
  > Verður áfram hittingur á Ölver í vetur?

  Jú, cautiously optimistic, eins og sá enski segir. 🙂
  Engar breytingar fyrirhugaðar með staðsetninguna — geri ráð fyrir að mæta á Ölver á fyrsta leik.

 4. Halli skrifar:

  Mjög slakur sóknarleikur varð liðinu að falli í þessum leik að mínu mati mér fannst einsog menn væru ekki tilbúnir í að spila þennan leik. Þetta er fyrsti leikurinn sem ég sé með liðinu nú í haust og var nú að vonast til að sjá kraftmeiri sóknarleik en við vitum að þeir sem hafa verið að bera uppi sóknarleikinn spiluðu lítið sem ekkért í þessum leik.

  Ég bíð allavega mjög spenntur eftir þessu tímabili.

 5. Elvar Örn skrifar:

  Menn mega ekki gleyma því að það voru margir nýjir að spreyta sig í þessum leik í byrjunarliðinu og mátti sjá það vel á spili liðsins.
  Robles var fínn í markinu, Jones var góður, Deulofeu var slakur framávið og latur til baka en samt sá maður glitta í hæfileika.
  Barkley kom sér oft í góða stöðu og dró til sín menn en hann átti slakar sendingar eða slæmar ákvarðanir þegar kom að sendingum. Oviedo var nokkuð góður.
  Kantarnir voru að mér fannst frekar lamaðir og vantaði þar Baines, Mirallas, Pienaar og Coleman og fannst mér ýmislegt breytast þegar Coleman og Mirallas komu inná en bara dugði ekki til.
  Margt gott í þessum leik, megum ekki gleyma því og þetta lið Valencia var að vinna Inter 4-0 í seinasta leik.
  Þetta er fyrsti leikurinn þar sem manni finnst eins og menn séu eilítið þugnir eða þreyttir og gæti það verið hitanum í Miami um að kenna.
  Mér fannst hvorki Anichebe né Jelavic vera slakir í þessum leik heldur kenni ég kantmönnum og framsæknum miðjumanni um það að þeir fengu úr allt of litlu að moða.

  Mér fannst þetta ekki eins slæmur leikur og ykkur greinilega en við hefðum hæglega getað náð jafntefli úr þessum leik.

  Maður þarf nú bara að gera sér ferð suður í vetur til að hitta ykkur kumpána á Ölveri.

  En er þetta nokkuð að fara að gerast? Er Íslenska pressan orðin jafn mikil slúður miðill og þeir bresku?
  http://visir.is/formlegar-vidraedur-hafnar/article/2013130809480
  Amk ekki skv.
  http://www.nsno.co.uk/everton-news/2013/08/martinez-no-bids-for-stars/?
  En tilboð og viðræður eru þó ekki það sama

 6. Elvar Örn skrifar:

  Hef séð nokkur viðtöl í kringum leikinn og það tala allir um hve heitt og sérstaklega hve mikill raki var meðan á leik stóð sem virtist vera Everton erfiðara en Valencia.

  Án efa skemmtilegasta Pre-Season sem ég hef horft á og í heild hefur liðið sjaldan eða aldrei litið svona vel út seinustu árin amk. Engin ástæða til svartsýni.