Martinez og næstu skref

Mynd: Everton FC.

Roberto Martinez sagði í viðtali í gær þegar hann tók við að hann hefði alltaf fundið fyrir mjög sérstöku andrúmslofti þegar hann hefði komið með lið sitt í heimsókn á Goodison og greinilegt að einstakt samband ríkti milli klúbbsins og stuðningsmanna hans. Hann rifjaði einnig upp þegar aðdáendur Everton klöppuðu á nýliðnu tímabili fyrir leikmönnum Wigan sem voru þá nýbúnir að slá Everton út úr FA bikarnum á Goodison Park — sem er nokkuð sem maður sér ekki alla jafna og sýndi í hvaða klassa stuðningsmenn Everton eru. Hann sagði jafnframt að „aðdáendur Everton þurfi að skilja að þeir eru mikilvægasti hluti klúbbsins“ og lykilatriði að skilja hvað þeir vilji og láta fótboltann endurspegla það.

Martinez sagði einnig að styrkja þyrfti liðið til að halda áfram að byggja ofan á þann árangur sem Moyes náði. Kenwright hefur sagt að aðalmarkmið Everton til skamms tíma sé að halda núverandi liði saman, að ekki sé ætlunin að selja neinn úr aðalliðinu — þó ljóst sé að Fellaini sé með klausu í samningnum sem leyfir honum að fara ef nægilega stórt tilboð berst (sagt er að það þurfi að vera 24 milljónir frá liði í Champions League). Ekki mikið við því að gera — ef það gerist þá gerist það; það kemur maður í manns stað. Kenwright sagði hins vegar að Martinez fær að nýta alla þá upphæð sem fæst af leikmannasölum til að styrkja liðið (að því gefnu að einhver verði seldur) — og gott betur, því þegar er búið að eyrnamerkja fjármagn til leikmannakaupa, þó ekki sé ljóst hversu mikið það er.

Ljóst er þó að þrír leikmenn úr aðalliðinu munu yfirgefa Everton nú í sumar en ekki verður framlengdur samningur við þá Thomas Hitzlsperger, varamarkvörðinn Jan Mucha og, eins og kunnugt var orðið, Phil Neville. Einnig hverfa nokkrir ungliðar á braut: Sam Kelly, Johan Hammar úr U21 árs liðinu og Jasper Johns, Tom Molyneux og George Waring úr U18 ára liðinu.

Klúbburinn tilkynnti jafnframt nokkra fyrirhugaða vináttuleiki á undirbúningstímabilinu fyrir 2013/14 tímabilið en meiningin er að leika útileiki við Austria Vín (14. júli), Accrington Stanley (17. júlí) og Blackburn Rovers (27. júlí). Eins og fram kemur í fréttatilkynningunni frá þeim hefur Everton aldrei leikið við Austria Vín en sá leikur ætti að vekja upp gamlar minningar af því þegar Everton vann erkifjendur þeirra Rapid Vín í úrslitum evrópska Cup Winners Cup, árið 1985. Þess má einnig geta að Accrington leikurinn verður jafnframt 125 árum eftir að sömu tvö lið tóku þátt í fyrsta enska deildarleiknum sem leikinn hefur verið frá upphafi, árið 1888. Everton heldur svo til Bandaríkjanna eftir þessa leiki til að taka þátt í sterku bikarmóti, eins og fram hefur komið.

Comments are closed.