Everton vs. Fulham

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Fulham á laugardaginn kl. 14:00 á Goodison Park og verða þar uppi í stúku 22 kátir og reifir Íslendingar á vegum klúbbsins okkar að styðja við bakið á okkar mönnum (þess vegna birtist þessi upphitun svona snemma).

Tölfræðin lítur afskaplega vel út. Everton hefur leikið 26 leiki við Fulham á heimavelli en af einhverjur ástæðum hefur enginn af þeim tapast og aðeins 5 endað með jafntefli. Stærðfræðiséníin í hópnum sjá strax að það gerir 20 og einn sigurleiki en ef Everton vinnur þá um helgina verður það jafnframt 10. leikurinn í röð sem þeir sigra Fulham á Goodison Park. Við Íslendingarnar komum til með að gera okkar besta til að leggja þeim lið og vonumst til að upplifa það.

Moyes viðurkenndi það í viðtali að jafnteflisleikirnir á útivelli gegn Arsenal og Tottenham og að ekki sé minnst á tapið gegn Sunderland hafi gert út um vonir þeirra til að ná Champions League sæti. Stefnan því sett á Europa League sætið og að enda ofar en naggrísirnir í sætinu fyrir neðan okkur.

Meiðslalistinn er ekki mjög langur hjá okkur en Jagielka var þó meiddur í síðasta leik og er þar skarð fyrir skildi því afleysingamaður hans, Heitinga, var ekki upp á sitt besta í síðasta leik. Hibbert á batavegi og hefur spilað undanfarið með U21 árs liðinu en á ekki von á að hann spili. Reikna með þessari uppstillingu: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Coleman. Pienaar og Mirallas á köntunum. Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Anichebe frammi. Vona þó heitt að Jagielka verði orðinn heill og að Barkley fái að spila rullu í leiknum.

Hjá Fulham er Sidwell í banni eftir að hafa fengið rautt gegn Arsenal. Diarra, Dejagah, Duff og Riether eru jafnframt sagðir meiddir.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 gerði jafntefli á útivelli við Southampton, 2-2. Sóknarmaðurinn George Waring skoraði fyrir Everton strax á 2. mínútu en Everton lenti svo 2-1 undir áður en varnarmaðurinn Curtis Langton jafnaði metin. Everton U18 eru því í fjórða sæti, Southampton í þriðja sæti með fjórum stigum meira en Everton en hafa spilað þremur leikjum fleiri.

Everton U21 árs liðið tryggði sér jafnframt efsta sætið í sínum riðli með 0-0 jafntefli á heimavelli gegn Sunderland en Everton áttu öll færin í leiknum og gerðu allt nema að skora. Hægt er að sjá vídeó af færunum hér. Þeir eru eina U21 árs liðið sem er taplaust í riðlunum og eiga aðeins tvo leiki eftir en þá tekur úrslitakeppnin um Englandsmeistaratitilinn við.

Af öðru má nefna að NSNO tók saman tölfræðina um það hversu mikið Baines hefur eflst á undanförnum tímabilum. Skemmtileg lesning þar.

Þrír leikmenn voru orðaðir við félagið á dögunum, enda tímabilið brátt á enda og fólk farið að spekúlera. Helst ber þar að nefna Alfreð Finnbogason en hann hefur verið orðaður við nokkra klúbba undanfarið. Heerenveen, félag hans hollenska, sagði þó að enginn hefði enn haft samband við þá. Einnig er Daylon Claasen, sóknarþenkjandi miðumaður með Lierse og landsliði Suður-Afríku, sagður vera á reynslu hjá Everton en hans samningur rennur út í sumar. Einnig var danski sóknarmaðurinn Andreas Cornelius nefndur.

Það er erfitt að bíða þess að mæta í eigin persónu að berja dýrðina á Goodison Park augum en hér eru tvö vídeó til að stytta okkur stundirnar: 2-1 sigur Everton á Fulham í mars 2002. Þetta var fyrsti leikur Everton undir stjórn David Moyes og byrjunin á nýju tímabili þar sem hann rétti af skútuna, bjargaði klúbbnum frá stöðnun og falli og kom honum í hóp efstu liða og líka ansi mörgum leikmönnum í landsliðið. Svo er hér einnig vídeó af 4-1 sigri Everton á Fulham í apríl 2007. Njótið vel!

15 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Erum við ekki að tala um svona ca 3-0 bara af því að við erum á vellinum Hvað eigum við að seigja Fellaini, Coleman og Baines úr víti.

 2. baddi skrifar:

  Kominn tími á að við Gunnsi fáum sigur í 4 tilraun. Spái 2-1 fyrir okkur,sjáááumst eftir nokkra klukkutíma kv Baddi.

 3. Finnur skrifar:

  2-1. Berbatov skorar, líklega kemur þeim yfir en svo taka Mirallas og Anichebe við.

 4. Orri skrifar:

  Ég spái 3-1 fyrir okkur.Svo óska ég ykkur góðrar ferðarog skemtunar.Ég reikna með að Ari vinur minn taki úr einum köldum fyrir mig á vellinum.

 5. Halli skrifar:

  Er einhver með mér í að að fara á betson á vellinum og setja 1 pund á að Hibbert setji hann

 6. Halli skrifar:

  And we riot

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Góða ferð og góða skemmtun. Verst að komast ekki með.
  Fór mína fyrstu og einu ferð á Goodison hingað til fyrir tæplega 5 árum einmitt á Everton – Fulham. Sá leikur fór 1-0 Saha með markið á lokamínútunum, vonandi þurfið þið ekki að bíða svo lengi.

  Annars hefur Fulham mér vitanlega svo mikið sem náð í stig á Goodison
  í úrvalsdeildinni, væri alveg týpiskt að þeir gerðu það núna en vonandi ekki.

 8. Helgi Hlynur skrifar:

  Góða ferð og verið klúbbnum til sóma. 😉 3-1

 9. Teddi skrifar:

  Þetta verður leikandi léttur 3-1 sigur.

  Baines með 2 og Jelavic tryggir þetta í lokin.

 10. Ari S skrifar:

  Var að setjast inn við tölvuna mína. Þetta var í einu orði sagt FRÁBÆR ferð og kannski setja menn inn hérna einhverjar góðar sögur og skemmtilegar.

  Ég mun gera það með tíð og tíma, takk fyrir samveruna félagar og eins og einn góður maður sagði í ferðinni, þetta var yndisleg ferð í alla staði:)

  Gott að vera kominn heim. Það skemmdi ekki að við fengum sigur og þrjú stig á Fulham, ekki er öll nótt úti enn við þurfum bara að vinna restina sem ætti alveg að vera hægt… 🙂

  kær kveðja, Ari

 11. Orri skrifar:

  Velkominn heim Ari.

 12. Ari S skrifar:

  Takk Orri 🙂

 13. þorri skrifar:

  verið velkomnir heim var ekki mikil steming á vellinum.

 14. Ari S skrifar:

  Jú frábær stemmning mikið gaman mikið fjör. 🙂 Næstum því fullur völlur nema þá kannski hálf tóm „away“ stúkan. En það heyrðist samt smá í þeim.