Everton vs. Stoke

Mynd: Everton FC.

Landsleikjatörnin er að baki og alltaf gleðiefni þegar landsliðsmenn Everton mæta aftur á æfingasvæðið, heilir á húfi, eftir fína frammistöðu með landsliðum sínum. Mörg landslið léku tvo leiki í hléinu. Rætt hefur verið um fyrri landsleik liðanna, en síðan þá hafa Mirallas og Fellaini leikið með Belgum gegn Makdóníu í 1-0 sigri, Skotar (Naismith) töpuðu 2-0 fyrir Serbum, Króatar (Jelavic á bekknum) sigruðu Wales 2-1 og Írar (Coleman) gerðu 2-2 jafntefli við Austurríki.

Áður en fjallað er um næsta deildarleik er rétt að víkja aðeins að síðasta leik en Jelavic var úrskurðaður markaskorarinn í 2-0 sigrinum á Englandsmeisturum City á dögunum — ekki að þyrfti að sannfæra Everton fólkið mikið um það. Round aðstoðarþjálfari kom einnig inn á það í viðtali að Moyes hefði sýnt styrk sinn sem stjóri þegar hann lyfti leikmönnum upp á hærra plan gegn City eftir lágpunktinn á móti Wigan í bikarnum.

En þá að næsta leik: Gegn Stoke á Goodison Park kl. 17:30. Liðin hafa mæst 56 sinnum á Goodison Park í gegnum tíðina (í öllum keppnum) en Everton hefur unnið 36 leikjanna (rúm 64%), tólf jafntefli (rúm 21%) og Stoke unnið 8 leiki (rúm 14%). Everton hefur þó gengið brösulega með þá að undanförnu; síðustu tveir leikir enduðu með jafntefli (báðir á útivelli) að ekki sé minnst á tvö töp þar á undan (heima og heiman). Þar á undan hafði Everton ekki tapað á móti Stoke í 11 leikjum (síðan 1982) og unnið 8 þeirra. Stoke hefur gengið hörmulega síðan um jólin síðustu (í 15 leikjum): Þeir unnu Liverpool 3-1 á annan í jólum en eina Úrvalsdeildarliðið sem þeir hafa unnið síðan er Reading (2-1) og aðeins B deildarliðið Crystal Palace hefur lotið í lægra haldi fyrir þeim á sama tíma. Þeir hafa jafnframt tapað 5 síðustu leikjum sínum á útivelli og aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum leikjum (heima og heiman).

Þeir eru þó með fullskipað lið því enginn hjá Stoke er meiddur og Huth kemur aftur úr þriggja leikja banni. Hjá Everton eru Pienaar og Fellaini í tveggja leikja banni og Hibbert er meiddur sem og Howard og Jagielka. Hinir tveir síðastnefndu er sagðir eiga möguleika í leikinn en líkleg uppstilling verður að teljast: Mucha, Baines, Distin, Heitinga, Coleman. Oviedo á vinstri, Mirallas á hægri, Osman og Gibson á miðjunni. Jelavic og Anichebe frammi. Þess má geta að Anichebe hefur sett markið á tveggja stafa tölu í markaskorun á tímabilinu (er nú með 7 eins og Jelavic), en Anichebe er að ná sínu besta tímabili með Everton frá upphafi enda ekki verið hrjáður af meiðslum mikið á tímabilinu og nær 50. leiknum ef hann byrjar. Og er það vel.

Stoke er í 11. sæti fyrir leikinn með 34 stig en Everton í 6. sæti með 48 stig og hafa þeir aldrei áður tapað jafn fáum leikjum í Úrvalsdeildinni eftir jafn marga leiki (5 tapleikir í 29 leikjum) og aðeins Manchester liðin tvö að bítast um titilinn sem hafa tapað færri leikjum.

Það verður erfittt að toppa City leikinn og rétt að tempra væntingarnar eftir þann leik því þetta verður mjög erfiður leikur, eins og Round kom inn á, eins og allir leikir gegn Stoke.

Á meðan við bíðum leiks er rétt að rifja upp nokkra skemmtilega sigurleiki nýlega gegn Stoke, til dæmis: 2-3 sigur árið 2008 (mörk frá Yakubu, Anichebe og Cahill), 3-1 sigur árið 2009 (mörk frá Jo, Lescott og Fellaini) og 1-0 sigur árið 2010 með marki frá Yakubu.

En þá að öðru… Úrvalsdeildin stóð fyrir könnun (Premier League Fan Survey) meðal stuðningsmanna liða deildarinnar og var lagður spurningalisti fyrir yfir 30 þúsund manns til að meta afstöðu stuðningsmanna til liða sinna. Margt athyglisvert kom þar fram, meðal annars:

99% stuðningsmanna Everton eru jákvæðir gagnvart sínum klúbbi og þar af segjast 75% vera mjög jákvæðir. 84% stuðningsmanna Everton telja jafnframt að félagið sé vel rekið. Goodison Park lenti einnig í einu af fjórum efstu sætunum þegar kemur að því að taka vel á móti gestum (e: most welcoming) og viðhorfið gagnvart starfsfólkinu á vegum klúbbsins á leikdegi var næst best allra liða. Sjá nánar hér. Gaman að þessu.

Spái 1-0 sigurleik af miklu harðfylgi á morgun gegn Stoke. Langar að sjá bæði Anichebe og Jelavic skora en ætla að skjóta á að Baines nái að setja eitt. Hver er ykkar spá? Einnig: Ef báðir eru heilir, viljið þið sjá Mucha spila leikinn eða Howard? Hvað með Jagielka vs. Heitinga?

2 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Skemmtileg tilvitnun úr Daily Express:

    „Tony Pulis, who has spent £99million and recouped £13.3m since leading Stoke to promotion in 2008, has brushed off criticism. Moyes, who has spent £61.5m and brought in £71.5m over the same length of time, …“

    … og samt er Everton með í baráttunni um Evrópusæti enda með sitt besta lið sem við höfum séð í áraraðir… Ekki slæmt það.

  2. Gunnþór skrifar:

    1-1 vantar likilmenn í liðið,og alltaf þegar okkar menn geta komið sér í þægilea stöðu á töflunni gera menn yfirleitt uppá bak því miður.