Everton – Man City 2-0

Mynd: Everton FC,

Everton tók á móti Englandsmeisturum Man City á Goodison Park í dag og var búist við… nei… ætlast var til að þeir myndu reka af sér slyðruorðið eftir skelfilegt bikartap í FA bikarnum um síðustu helgi þar sem eiginlega allir lykilmenn liðsins léku vel undir getu. Það var því erfitt að bíða í heila viku eftir næsta tækifæri til að sýna það að baráttan er enn til staðar í liðinu og sömuleiðis hungrið í að gera betur. Og það sýndu þeir svo aldeilis í dag.

Uppstillingin: Mucha, Baines, Distin, Heitinga, Coleman, Pienaar, Gibson, Osman, Mirallas, Fellaini, Anichebe. Osman fyrirliði og varamenn: Springthorpe, Oviedo, Jelavic, Naismith, Neville, Barkley og Duffy.

Það var aðeins eitt lið inni á vellinum fyrstu 15 mínúturnar — Everton, sem var með boltann 65% tímans og í stöðugri sókn. Það tók City menn 17 mínútur að komast í sókn í fyrsta skipti og yfir 20 mínútur voru liðnar áður en þeir náðu (slöku) skoti að marki. Á þeim tíma var Everton búið að skora löglegt mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu þegar Mirallas fékk sendingu inn fyrir vörn City hægra megin í teignum, lagði boltann fyrir sig með hægri og afgreiddi hann snyrtilega með vinstri upp í þaknetið hjá Joe Hart. En því miður var línuvörðurinn búinn að flagga þó endursýning sýndi að Mirallas var ekki rangstæður.

Það kom þó ekki að sök því á 31. mínútu barst boltinn frá hægri kanti frá Coleman yfir til Osman sem var algjörlega á auðum sjó og lét vaða af mjög löngu færi (sjá mynd), smellhitti boltann sem fór í sveig upp í vinstra hornið uppi (nálægt samskeytunum) og Hart algjörlega strand í markinu. Þetta mark Osmans verður pottþétt í baráttunni um mark tímabilsins hjá klúbbnum og  kannski mögulega víðar.

Þarf eitthvað að ræða þetta frekar?

Það helsta annað markverða í fyrri hálfleik var þegar Fellaini komst framhjá varnarmanni inni í teig en var hindraður af leikmanni City sem einfaldlega hélt utan um hann og kom í veg fyrir að hann komst áfram. Stuðningsmenn Everton alveg brjálaðir að fá ekki víti en stuðningsmenn City bentu á að ef þetta hefði gerst hinum megin á vellinum hefðu Everton menn kvartað. Nema hvað, þetta gerðist hinum megin á vellinum í síðasta leik Everton gegn City og þá var dæmt víti, og jafnvel minni ástæða til að gefa það þá. Enski þulurinn var, hins vegar, á því nú að þetta væri ekkert annað en víti.

City átti skot rétt framhjá á 39. mínútu en að öðru leyti var ekki mikið að gerast hjá þeim í fyrri hálfleik enda leyfði Everton þeim ekki að komast upp með neina meistaratakta. 1-0 staðan í hálfleik og Everton menn ósáttir við að vera aðeins 1-0 yfir. City menn að horfa á leikinn sögðu að þetta væri verðskuldað.

Leikurinn breyttist töluvert á 60. mínútu þegar Pienaar var rekinn út af fyrir sitt annað gula spjald og missir hann því allavega af leiknum gegn Stoke næst. Fellaini fékk líka gult spjald í fyrri hálfleik og missir því af næstu tveimur leikjum (Stoke og Tottenham). Ekki alveg það sem við þurfum… Hvað um það.

City menn sóttu í sig veðrið við að vera manni fleiri og komust í ákjósanleg færi en þeir komu aldrei boltanum framhjá Mucha, sem átti einfaldlega frábæran leik í markinu (Howard hvað??). Á 66 mínútu varði Mucha úr dauðafæri frá Tevez sem var kominn einn á móti markverði og frákastið barst til hliðar þar sem Millner (einnig hjá City) var kominn í dauðafæri, einn á móti markverði, en Mucha varði aftur meistaralega!

Distin fékk ákjósanlegt tækifæri til að skora úr skalla eftir horn en boltinn rétt yfir slána. Mucha varði svo frábærlega stuttu síðar frá Zabaleta.

Á 85. mínútu fær Fellaini boltann í hendina inni í teig og um leið og það gerðist fékk maður hland fyrir hjartað því augljóst var að dómarinn myndi flauta og dæma víti og Everton gæti ekkert yfir því kvartað að missa sigurleik í jafntefli á lokamínútunum. Enn og aftur. Nema hvað, heilladísirnar voru með okkur… Hann dæmir brotið utan teigs og City mennirnir í salnum voru brjálaðir á meðan Everton stuðningsfólkið klóraði sér í kollinum og skildi ekkert í vitleysunni í dómaranum. Þangað til sjónvarpsstöðin sýndi brotið frá annarri hlið þar sem í ljós kom að boltinn fór fyrst í hendina á Osman (sem var utan teigs) og svo í hendina á Fellaini (sem var innan teigs). Hárrétt ákvörðun hjá dómaranum að gefa aukaspyrnu utan teigs og sem betur fer fór skotið úr aukaspyrnunni beint í vegginn þannig að ekkert kom úr þeirri aukaspyrnu. Þá gátum við aldeilis andað léttar!

City menn lögðu allt kapp á að jafna og gerðu harða hríð að marki Everton þannig að lokamínúturnar voru svo taugatrekkjandi að varla var hægt að sitja en vörn Everton hélt þó, þó Everton liðið væri manni færri. Og þó 1-0 sigur hefði verið sætur átti þetta eftir að batna því rétt undir lok leiksins kom yndisleg rúsína í pylsuendanum þegar Naismith stal boltanum af leikmanni City, sendi á Fellaini sem brunaði í skyndisókn, fékk tvo menn í sig og sendi boltann til hægri á Jelavic sem var á auðum sjó. Sá brunaði í átt að vítateig en breytti svo um stefnu (til að leika á varnarmann) og fór í áttina að „D-inu“ og tók skot utan teigs. Boltinn í varnarmann og breytti um stefnu og yfir Joe Hart í markinu.

2-0 fyrir Everton og Jelavic loksins kominn í gang aftur eftir langa markaþurrð! Moyes var svo kátur að hann stökk inn á völlinn og skók hnefann á áttina að marki City. Þess má geta að Moyes fagnaði 11. ári sínu með Everton fyrir tveimur dögum síðan og þetta var flott gjöf frá leikmönnum í tilefni áfangans en aðeins Wenger og Ferguson hafa verið lengur en hann við stjórnvölinn hjá sínum liðum.

Það var ekki á leikmönnum City að sjá að þeir væru Englandsmeistarar enda yfirspilaðir af Everton á löngum köflum í leiknum. Everton heldur því áfram að gera City skráveifur. Þess má geta að þetta er líklega annað tímabilið í röð Everton ákveður hver er meistari, en Sir Alex Ferguson kvartaði sáran yfir því að Everton hafi gert út um titilvonir United á síðasta tímabili og Mancini gerir væntanlega það sama nú.

Einkunnir Sky Sports: Mucha 7, Baines 7, Distin 8, Heitinga 7, Coleman 9, Pienaar 6, Osman 8, Gibson 7, Mirallas 7, Fellaini 8, Anichebe 8. Varamenn: Naismith 5, Jelavic 6 — sem segir meira um hversu seint þeir komu en að þeir hafi verið lélegir (það er þeim tveimur og Fellaini að þakka — og engum öðrum — að Everton skoraði seinna markið). City með 6 í meðaleinkunn, aðeins Zabaleta, Nastasic, Tevez og Silva náðu upp fyrir 6 (allir með 7 í einkunn).

Mucha var annars algjörlega frábær í markinu og Coleman bar af á hægri kanti en hann fór oft mjög illa með Kolorov í vörninni. Þessi ungi írski bakvörður (sem var keyptur fyrir minna en vikulaun ákveðinna leikmanna í Evertonliðinu) virtist fara leikandi létt með að snúa varnarmönnum City á röngunni. Vörnin á líka hrós skilið. Einnig var Osman frábær og Gibson stóð sig mjög vel. Fellaini átti góðan leik (spjaldið eina neikvæða við hans leik) og Anichebe var frábær, út um allt, eltandi alla bolta og leiddi sóknina vel. Pienaar átti fínan leik en rauða spjaldið dregur hann niður.

Meira svona. Stoke næst. Pienaar og Fellaini í banni en mótlætið gefur Everton oft byr undir báða vængi.

Hvað viljið þið ræða? Endilega látið í ykkur heyra.

28 Athugasemdir

  1. Baddi skrifar:

    Frábær sigur okkar manna SANNGJARN sigur

  2. Elvar Örn skrifar:

    Tussu góð úrslit í dag. Enn séns á meistaradeildar sæti þrátt fyrir svartsýnisspár nokkurra félaga. Síðan er Liverpool að tapa 2-0, má enda svoleiðis takk.
    Já og Jelavic að skora.
    Þakka Einari G. að hafa ekki heimsótt mig í dag 🙂

  3. Gestur skrifar:

    frábær úrslit og allt opið aftur

  4. Halli skrifar:

    Ég er algjörlega til í að éta hræðsluskítinn sem ég gaf fyrir leik ofan í mig. Hvað getur maður sagt eftir svona leik annað en til hamingju með að vera Everton stuðningsmaður

  5. Halli skrifar:

    Maður leiksins að mínu mati Coleman frábær varnarvinna og stoðsending á Osman líflegur sóknarlega. Það var liðsheild sem vann þennan leik

  6. Halldór S Sig skrifar:

    Það gæti bara orðið erfit fyrir Howard að komast aftur í byrjunarliðið.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Mucha var stórkostlegur í þessum leik.

  8. Finnur skrifar:

    Howard? Hver er það?

    Ég var annars að skella inn leikskýrslunni — komst ekki í það fyrir fjölskyldufundi. 🙂

    Þetta var magnaður leikur og frábært að vera á Ölveri með fríðum flokki Everton manna og kvenna. Ekki skemmdi fyrir að nokkrir Man City stuðningsmenn mættu líka og voru bráðskemmtilegir — eiginlega með skemmtilegri stuðningsmönnum sem maður hittir fyrir, allavega samanborið við aðra hópa sem maður hefur séð til (hvort sem það er Chelsea, Liverpool eða Arsenal aðdáendur, eða hvað það nú er).

  9. Ari G skrifar:

    Frábær leikur Coleman magnaður. Loksins eru við komnir með alvöru hægri bakvörð. Vona að ég sjái Phil Neville aldreiaftur í Everton búningi nema í kveðjuleik. Vörnin örugg loksins sýndi Heitinga góðan leik. Anichepe er miklu betri en Jelavic hef alltaf sagt það. Núna þarf Everton að halda haus erfitt að missa Jagielka uppáhaldsleikmann minn í meiðsli. Ætla að vera hæfilega bjartsýnn núna spái að Everton nái 20 stigum í viðbót 6 sigrar 2 jafntefli 1 tap 68 stig gæti dugað í 4 sætið með smá heppni.

  10. Finnur skrifar:

    Vona það svo sannarlega en það er ekki auðvelt prógram eftir — 9 leikir (max 27 stig) og þrír af þeim við lið fyrir ofan Everton í töflunni:

    Stoke (heima)
    Everton hefur gengið ágætlega gegn þeim á heimavelli í gegnum tíðina en samt eru þessir leikir gegn rugbyliðinu í deildinni alltaf erfiðir. Ekki hjálpar til að við verðum án Pienaar og Fellaini. Þetta er must-win leikur.

    Tottenham (úti)
    Mjög erfiður leikur og ekki hjálpar til að við verðum aftur án Fellaini og Pienaar. Höfum ekki unnið Tottenham á þeirra heimavelli síðan 2008. Aldrei þó hægt að afskrifa Everton gegn liðunum við topp deildarinnar, eins og leikurinn í dag sýndi.

    QPR (heima)
    Þetta er leikur sem á pappírunum við eigum að vinna og verðum að vinna — þó ekki hafi það tekist í útileiknum. Ef Everton liðið heldur áfram að vera jafn aumingjagott og það hefur verið er aldrei að vita hvað gerist. Tala nú ekki um ef úrslitin verða hagstæð gegn Tottenham, þá gæti voðinn verið vís í þessum leik. 🙂

    Arsenal (úti)
    Árangur Everton á heimavelli Arsenal síðan 1996 eru tvö fracking *jafntefli*, for crying out loud. Þeir eru náttúrulega án RVP núna en þeir náðu samt hagstæðum úrslitum gegn Everton í heimaleiknum síðast, þar sem Everton lék mjög vel en þeir náðu óverðskulduðu jafntefli. Það er erfitt að bóka mörg stig út úr þessum leik.

    Sunderland (úti)
    Fulham (heima)
    Þetta eru leikir sem við eigum að geta unnið og einfaldlega verðum að vinna. Fá lið hata meira að mæta Everton en Sunderland og Fulham tapar nánast alltaf á móti Everton á Goodison.

    Liverpool (úti)
    Everton fékk nokkra sénsa á síðasta tímabili til að vinna lélegasta Liverpool liðið sem við höfum séð í áraraðir en alltaf léku okkar menn undir getu í þessum leikjum (áttum að vinna þá heima ef dómarinn hefði ekki stigið feilspor). Hver veit í hvaða stöðu Everton verður þegar kemur að þessum leik en það hefur ekki verið hægt að reikna með mörgum stigum úr þessum viðureignum.

    West Ham (heima)
    Everton tapar ekki mörgum á heimavelli gegn þeim en vinnur samt ekki nógu marga heldur… Allt of mörg jafntefli hér. Þurfum að bæta úr því.

    Chelsea (úti)
    Við verðum að vona að tímabilið sé búið hjá Chelsea hér og þeim sé skítsama um úrslitin því fyrir utan vítaspyrnukeppnina í FA bikarnum um árið höfum við ekki unnið á Stamford Bridge í ansi langan tíma (síðan 1990 og eitthvað). Aldrei að vita. Kannski verður Benitez rekinn eftir þennan Everton leik, eins og fleiri stjórar Chelsea hafa lent í?

    Enginn leikur er auðveldur en ef Everton nær að sigra „auðveldari“ leikina á móti Stoke, QPR, Sunderland, Fulham og West Ham gefur það 15 stig (63 stig frá núverandi stöðu). Þá á Everton eftir leiki gegn Tottenham, Arsenal, Liverpool og Chelsea — allt á erfiðum útivöllum f. Everton. Það þarf einn sigur og tvö jafntefli úr þeim viðureignum til að ná 68 stigum — sem er stundum nóg fyrir Champions League. Everton liðið hefur ekki ástæðu til að hræðast neitt af þessum liðum þannig að það er aldrei að vita hvað gerist. Það þarf samt töluverða heppni, og helst að ná góðum leik gegn liðunum fyrir ofan og hætta að vera jafn aumingjagott við hin liðin og raun ber vitni. 🙂

    Vonum það besta. Ég spáði Europa League fyrir tímabilið og stend við það en vonast eftir meiru. Liðið verður samt alltaf bara að huga að næsta leik. Hann skiptir öllu máli.

  11. Ari S skrifar:

    Stoke spilar fast og við verðum að koma með krók á móti bragði og slá þá útaf laginu. Ekki láta þá komast upp með hluti eins og í síðasta leiknum gegn þeim þegar Fellaini lét reka sig útaf eftir að Stoke liðið var búið að komast upp með að faðma hann nánast allann leikinn. Við verðum samt að spila okkar leik og það var fínt að fá mark frá Jelavić í leiknum gegn Man City. Hann er kominn á bragðið. Eins býst maður við marki frá Osman í hverjum leik hann er alltaf að verða betri og betri….. 🙂

  12. Georg skrifar:

    Þetta var frábær leikur okkar manna. Coleman átti frábæran leik, bæði sóknarlega og varnarlega, klárlega maður leiksins. Þegar að Coleman og Mirallas eru upp á sitt besta þá eru þeir hættulegri en vinsti kanturinn okkar, það segir helling. Frábær karakter í liðinu eftir útreið síðustu viku. Heilt yfir spiluðu allir mjög vel og frábær pressa sem við settum allan leikinn á City. Við sáum til þess að þeir fengu ekki að spila sinn leik. Ef við spilum svona út leiktíðina þá getum við endað í 4-5 sæti. Mucha stóð sig líka frábærlega, hann á skilið að vera áfram í liðinu á meðan hann spilar svona.
    Áfram Everton!

  13. Elvar Örn skrifar:

    Hér er smá myndbrot fyrir þá sem eru á leið á Goodison í næsta mánuði.
    http://www.101greatgoals.com/blog/when-fans-commentate-an-evertonian-screams-just-fing-hit-it-before-jelavic-goal-v-man-city/?

  14. Finnur skrifar:

    Daily Express tilvitnun sem mér fannst alveg frábær:

    Certainly watching homegrown Osman consistently outmanoeuvre pedestrian £24million Javi Garcia showed you do not always get what you pay for.

    Seamus Coleman (£60,000) left Aleksandar Kolarov (£16m) trailing, Victor Anichebe (homegrown) put Edin Dzeko (£27m) to shame.

  15. Finnur skrifar:

    Takk fyrir myndbrotið Elvar. Ég var ekki búinn að sjá það. Fékk alveg ánægjuhroll niður eftir bakinu að horfa á það. Mikið hlakka ég til að mæta á völlinn. 🙂

  16. Dyncla skrifar:

    Las þetta á yahoo og vildi endilega deilu þessu:

    http://uk.eurosport.yahoo.com/news/premier-league-leon-osmans-wondergoal-genius-mis-kicked-134425243.html

    Svörin eru líka æðisleg. Persónulega er mér alveg sama hvort það hafa verið smá heppni með Osman. Heppni leikur oft stór hlut í flottum mörkum og flottum leikjum. Greinilega skrifað af poolara (eða súr City maður)

  17. Finnur skrifar:

    Þrír í Everton í liði vikunnar að mati Goal.com: Mucha, Coleman og Osman. Allir voru valdir í fyrsta skipti á tímabilinu nema Osman, sem hefur verið valinn einu sinni áður.
    http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/03/18/3833487/premier-league-team-of-the-week-rio-ferdinand-marks-england

  18. Elvar Örn skrifar:

    Phil Neville að gera það gott,,,,,,sem þjálfari.
    http://www.mbl.is/sport/enski/2013/03/19/phil_neville_thjalfar_u21_landslidid/
    Ættum að geta notað hann næstu árin í þjálfun varaliðs eða ungliða Everton, já og jafnvel sem aðstoðarþjálfari í framtíðinni.
    Hvað segja menn um það?

  19. Elvar Örn skrifar:

    Skv. þessari grein, þá braut Tim Howard tvö bein í hryggnum, þá myndi ég nú halda að hann spilaði ekki fleiri leiki á leiktíðinni ef svo er.
    http://www.liverpooldailypost.co.uk/sport/everton-fc/everton-fc-news/2013/03/20/99623-33030416/?
    Spurning hvort Everton geri nýjan samning við Jan Mucha eftir alveg magnaða frammistöðu í seinasta leik.

    Svo verða Fellaini og Pienaar í banni í næsta leik (eða leikjum) og hvernig væri nú að sjá Oviedo og Barkley fá einhver tækifæri, hmm.

    • Halli skrifar:

      Miðað við íhalssemi Moyes finnst mér líklegra að hann noti Neville og Naismith og Færi þá Mirallas í holuna og Osman á vinstri kant, en ég væri til að sjá Barkley og Oviedo í þessum leikjum. Með markmannsstöðuna að þá mundi ég vilja sjá Everton fara á eftir Lindegaard hjá Man U ef þeir ætla að taka Bekovic

      • Gestur skrifar:

        held hann setji Jelavic fram og Anichebe í holuna.
        eðlilegt væri að setja Oviedo á vinstri. Líst vel á að
        reyna við Lindegaard , hefur reynst okkur vel að
        frá menn frá Man.U. Tel að fá Lescott sé erfitt vegna
        hárra launa, en líst vel á það annars , hann stóð sig vel bæði í miðverði og vinstri bak og setti mörg mörkin fyrir Everton

  20. Halli skrifar:

    Hvað segja menn um að Julien Lescott komi aftur hann er sagður vera til sölu í sumar á 4 milljónir punda og er 30 ára er þetta ekki bara góður díll við vitum hvað hann getur

  21. Elvar Örn skrifar:

    Lescott á 4 mills væru mjög góð kaup.

  22. Finnur skrifar:

    Mitt innlegg við spurningarnar hér að ofan.

    Neville á örugglega eftir að verða fínn þjálfari, hvort sem það er í neðri flokkunum hjá Everton eða með U21 árs liðinu. Væri fínt að halda honum innan félagsins þegar hann hættir að spila.

    Mucha átti stórleik á móti Englandsmeisturunum og hélt hreinu — en fékk þrjú mörk á sig í leiknum þar á undan. Það er kannski ósanngjarnt að kenna honum um þau mörk en ætli það sé ekki líka best að leyfa honum að spila meira en þrjá leiki áður en maður dæmir hann. 🙂 Vil sjá hann veita Howard almennilega samkeppni og halda honum út úr liðinu fyrst um sinn eftir að Howard er orðinn góður. Svo mega þeir bítast um stöðuna.

    Annaðhvort Oviedo eða Osman verða á vinstri kanti í næstu tveimur leikjum. Finnst líklegra að það verði Oviedo og að Osman verði á miðjunni.

    Og ég tæki Lescott (og Lindegaard) fagnandi. Lescott líklegri en á þó ekki von á því að hann slaki á launakröfum sínum til að koma aftur til Everton, sem hann þyrfti að gera. Væri magnað að hafa báða miðverðina í enska landsliðinu, eins og Moyes sá fyrir sér á sínum tíma þegar hann keypti Lescott og Jagielka. Annars eru bæði Arsenal og litli bróðir á höttunum eftir miðverði — þeir síðarnefndu þurfa líklega tvo, miðað við frammistöðuna á tímabilinu.

  23. þorri skrifar:

    mitt innlegg ég hugsa að Neville væri ágætur þjálfari.Ég held að við ættum að gefa Mucha meiri tíma og möguleika Ég held að það væri briljant að hafa Oviedo á kantinum og colman á hinum megin og Osman á miðjuni Ég held að það verði gott að fá Lescott en er það nokkuð möguleiki á því.ég held að það væri mjög gott að hafa þá frami Jelavic og Anichebe.Hvernig líst ykkur á að selja Fellani.

  24. Finnur skrifar:

    Er svo sem ekki að reka á eftir því að hann verði seldur en það yrði ekki heimsendir. Fengjum gott verð fyrir hann og ég treysti Moyes vel í fjárfestingum.