Everton vs. Man City

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Man City á Goodison Park í deildarleik á morgun (lau) kl. 12:45. Það er vonandi að Everton haldi uppteknum hætti gegn City en árangur Everton gegn þeim er 8-1-2 (25 stig af 33 mögulegum). Að einum tapleik á Goodison Park undanskildum þarf að fara aftur til ársins 1992 til að finna síðasta tapleik gegn þeim. Árangur Mancini á Goodison er slæmur (og ekki furða að upp úr hafi soðið nýlega — sjá mynd) — því hann hefur ekki náð stigi í þremur leikjum á Goodison. Formið í deildinni hjá Everton er þó ekkert til að hrópa húrra fyrir: 3-3-2 frá áramótum en City með 5-2-1 með sigrum á Arsenal og Chelsea, meðal annars. Bæði lið koma til með að mæta mjög hungruð til leiks — Leikmenn Everton verða staðráðnir í að bæta upp fyrir tapið í FA bikarnum en Manchester City líta á næstu þrjá leiki sem leiki sem þeir verða að vinna til að reyna að halda í við nágranna sína í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.

Sergio Aguero og Vincent Kompany eru báðir meiddir og sumir halda því fram að Carlos Teves sé meiddur líka. Rodwell er eftir sem áður meiddur, nokkuð sem við gleðjumst ekki yfir því hann á gott eitt skilið. Finnst ótrúlegt að Mancini hafi keypt hann af Everton á 12 milljónir punda, þrátt fyrir langa meiðslasögu hans með Everton — en það er ekki Rodwell að kenna og Everton kom vel út úr þeim viðskiptum. Howard og Jagielka báðir meiddir hjá okkur og Hibbo fjarverandi líka. Líkleg uppstilling: Mucha, Baines, Distin, Heitinga, Coleman. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Osman og Gibson á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic, nema Anichebe fái séns – ætli það séu ekki 50-50 líkur á því. Vonandi nær ungliðinn Conor McAleny allavega að verma bekkinn en hann hefur verið mjög heitur með U21 árs liðinu og skorað 6 mörk í 6 leikjum frá því hann kom aftur úr meiðslum.

Við eigum skilið betra viðhorf leikmanna en við sáum í síðasta leik gegn Wigan og það er mikilvægt að leikmenn Everton sýni að baráttuviljinn sé enn til staðar. Sir Alex Ferguson sagði á síðasta tímabili að Everton hefði gert út um titilvonir United (í 4-4 jafnteflisleik í deildarleik eftir skelfilegt tap í FA bikar) og vonandi gerir Everton út um titilvonir City á þessu tímabili (eftir skelfilegt tap í FA bikar). Ég vonast því eftir sigri Everton, og reyndar eftir því að Jelavic fari loksins að skora og að Everton fari að sýna sama flæði í leikjum og í upphafi tímabils en ætla að vera varfærinn í spánni enda verður þetta mjög erfiður leikur (sjá tölfræði í greiningu Exectioner’s Bong). 1-1 jafntefli: Nasri skorar og svo jafnar Osman. Það má þó ekkert fara úrskeiðis og þeir leikmenn sem fylla í skarð þeirra sem eru meiddir þurfa að eiga góðan leik, eins og aðrir.

Í síðustu færslu voru linkar á vídeó af nokkrum skemmtilegum leikjum Everton hefur átt við Man City og hér eru tveir í viðbót, 2-1 sigur á Goodison á þarsíðasta tímabili (sjá vídeó) og 1-0 sigur í febrúar 2006 (sjá vídeó).

Örstutt af landsliðsmálum en Osman og Baines voru kallaðir til liðs við enska landsliðið en Jagielka er fjarverandi vegna meiðsla. Þær fréttir bárust einnig að Hallam Hope hefði einnig verið kallaður í U19 ára landsliðhóp Englendinga en hann er þar með fimmti (!!) Everton leikmaðurinn í þeim hópi og er það vel! Hann mun því hitta þar fyrir félaga sína John Lundstram, Tyias Browning, Matthew Pennington og John Stones.

Kosningu um leikmann febrúarmánaðar sem og mark febrúarmánaðar er lokið. Distin var valinn leikmaður mánaðarins og markið sem Mirallas skoraði gegn Oldham valið mark mánaðarins. Þetta er í fyrsta skiptið sem Mirallas á mark mánaðarins fyrir Everton en tvö mörk frá Baines og tvö frá Jelavic hafa verið valin á þessu tímabili, sem og eitt frá Osman.

9 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  þetta verður erfitt , spái 0-2 fyrir city

 2. Ari S skrifar:

  Þetta verður auðvelt, spái 2-1 fyrir Everton. Jelavić með allavega 1 mark 🙂

 3. Einar G skrifar:

  Heimta sigur í afmælisgjöf 🙂 Er að byrja 20. árið sem Everton aðdáandi og finnst við hæfi að fagna því með sigri 🙂

 4. Halli skrifar:

  Ég er mjög efins um þennan leik og set spurningamerki við spilamennsku liðsins á undanförnum vikum. Ég mundi vilja sjá breytingar mér fannst Barkley koma líflegur inn síðast.

  Mucha

  Coleman Jhonny H Distin Baines

  Gibson. Fellaini

  Mirallas. Barkley. Pienaar

  Jela/Bic Vic

 5. Elvar Örn skrifar:

  Svartsýnis hjal er þetta Halli, City teknir í bakaríið í dag.

  • Halli skrifar:

   Mjög flottur leikur hjá okkar mönnum Elvar og rétt hjá þér vera fullir sjálfstrausts fyrir alla leiki við eigum fyrir því

 6. Halli skrifar:

  Mjög flottur leikur hjá okkar mönnum Elvar og rétt hjá þér vera fullir sjálfstrausts fyrir alla leiki við eigum fyrir því

 7. Ari S skrifar:

  Ég biðst afsökunar á vitlausri spá minni. Sagði að City myndi skora 1 mark……

  En ég hafði rétt fyrir mér að við myndum skora 2 mörk og að Jelavić myndi gera eitt þeirra!!!!!! Kappinn kominn í gang (gerir sennnilega þrennu á móti Fulham og ég fæ treyjuna hans þá he he )

  Glæsilegur sigur hjá okkar mönnum í dag. Coleman er að verða okkar „Bale“ eins og ég hef haft á tilfinningunni lengi. Mucha frábær og það verður erfitt fyrir Howard að komast aftur í liðið áný. Allavega myndi ÉG ekki setja Mucha úr liðinu eftir þessa frammistöðu í dag. Hann var frábær!

  Ein voru menn eins og Anichebe og Gibson voru frábærir.

  Áfram Everton að eilífu!

 8. Finnur skrifar:

  Erfitt hvað? 🙂
  http://everton.is/?p=4177