Everton – Reading 3-1

Mynd: Everton FC.

Þessi leikur var óvenjulegur fyrir margra hluta sakir. Fyrir leikinn var tilkynnt að markvörðurinn Howard yrði ekki með og því Mucha í markinu (hans fyrsti deildarleikur með Everton eftir að hafa komið á free transfer árið 2010). Strax í upphafi var miðvörðurinn Jagielka sparkaður niður og Heitinga kom inn á fyrir hann. Þar með tveir máttarstólpar liðsins sem hafa leikið nær alla, ef ekki alla leikina á tímabilinu fjarri góðu gamni gegn Reading. Að auki sótti Everton (allavega í fyrri hálfleik) meira upp hægri kantinn en þann vinstri en Coleman og Mirallas fundu sig vel. Baines er alltaf góður en var nokkuð frá sínu besta í þessum leik. Allt saman harla óvenjulegt.

Liðsuppstilling: Mucha, Baines, Distin, Jagielka (Heitinga inn á fyrir hann á 5. mínútu), Coleman, Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Gibson og Osman á miðjunni og Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi.

Leikurinn var líka óvenjulegur fyrir þær sakir að Everton komst yfir í fyrri hálfleik, en í síðustu sjö skipti sem það hefur gerst hefur Everton ekki náð að sigra. Þar varð þó breyting á í dag, því Everton óð í færum (eins og oft áður) en náði að nýta óvenjumörg þeirra (sem er nýlunda).

Reading átti þó besta færið í upphafi leiks (18. mínútu) þegar boltinn barst til La Fondre (að mig minnir) fyrir framan markið (nálægt marki) en fast skot hans sveigði til hægri og endaði í stönginni utanverðri, rétt við samskeytin. Reading hefði með réttu getað tekið forskotið þar en heppnin með Everton. En þar með var þetta nánast upptalið fyrir Reading.

Osman (eða Gibson, ekki viss) sá Jelavic á hlaupunum frammi (á 32. mínútu) og sendi langa sendingu fram sem kom Jelavic í dauðafæri einn á móti markverði, móttakan flott en skotið ekki nógu gott og markvörður varði í horn. Eyðirmerkurganga Jelavic heldur áfram en hann átti erfitt uppdráttar, ekki bara í skotum heldur einföldum sendingum á mótherja. Moyes myndi þó benda á að Jelavic er að koma sér í dauðafærin, sem er nauðsynlegt til að þetta fari að detta með honum, sem það hlýtur að gera á endanum. Mirallas átti flott skot utan teigs á 32. mínútu en markvörður Reading vel á verði.

Everton var, að venju, mun meira með boltann og átti hættulegri færi en það tók þó 42 mínútur að nýta sér yfirburðina þegar Fellaini gaf á Coleman og báðir tóku sprettinn upp völlinn, Coleman upp kantinn en Fellaini inn í teig. Coleman gerði mjög vel að fara framhjá vinstri bakverði Reading og senda flottan bolta fyrir. Þar var Fellaini á hárréttum stað og skoraði týpískt Fellaini skallamark. 1-0 fyrir Everton og 1-0 í hálfleik.

Pienaar var ekkert að flækja málin á 58. mínútu þegar hann skoraði annað mark Everton. Hann fékk einfaldlega boltann við miðlínu, brunaði upp hægra megin, svo í átt að vítateig og þrumaði boltanum (sjá mynd) af löngu færi framhjá markverði Reading. Stórglæsilegt mark.

Mirallas átti skot á 61. mínútu sem fór framhjá markverði Reading og hárfínt framhjá fjærstönginni þar sem Fellaini var mættur og, að manni fannst, hefði getað skorað ef hann hefði bara áttað sig nógu snemma og rennt sér á boltann. Úrvals færi forgörðum.

Pienaar lagði hins vegar upp þriðja mark Everton á 65. mínútu með stungusendingu gegnum vörn Reading á Mirallas sem kom á hlaupinu gegnum vörn Reading vinstra megin í teignum, komst einn á móti markverði og blekkti hann með því að halla sér í skotinu eins og hann ætlaði að setja boltann í fjærhornið, en skaut svo í nærhornið og skoraði auðveldlega. Everton komið 3-0 yfir.

Mirallas var ekki hættur því hann átti flott skot af löngu færi á 74. mínútu sem markvörður varði í horn.

Um tíma leit út fyrir að Everton myndi halda hreinu (með Mucha en ekki Howard í markinu í þokkabót!) þar sem lítið var að gerast hjá Reading í sókninni, varla að þeir sköpuðu sér færi. Það breyttist þó á 83. mínútu þegar þeir áttu flotta sendingu af vinstri fyrir markið og Robson-Kanu skallaði auðveldlega í markið hjá Mucha. 3-1 Everton og þannig endaði leikurinn.

Vel verðskuldaður sigur í höfn og hefði getað farið svona 6-2, ef liðin hefðu nýtt færin almennilega.

Einkunnir Sky Sports: Mucha 7, Baines 7, Distin 6, Heitinga 7, Coleman 8, Pienaar 9, Osman 7, Gibson 6, Mirallas 8, Fellaini 8, Jelavic 6. Jagielka, sem fór meiddur út af á 5. mínútu fékk 6, Anichebe (inn á á 74.) fékk 7 og Hitzelsperger sem fékk nokkrar mínútur í lokinn fékk 6. Pienaar klárlega maður leiksins, með mark og stoðsendingu og var alltaf ógnandi. Markvörður Reading var þeirra besti maður með 8, þrír í byrjunarliðinu fengu 7 en restin fékk 6.

Moment leiksins var þó þegar Pienaar sendi bolta upp hægri kantinn þar sem Fellaini tók á sprettinn og reyndi skot nánast úti við hornfána sem minnti á frægt mark frá Marco Van Basten, kom í sveig að marki, datt niður er að marki kom og var næstum búið að fara yfir markvörð Reading sem þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja. Hefði verið algjörlega ótrúlegt mark.

17 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Fínn leikur hjá okkar mönnum voru að koma sér í mikið af færum og nýttu 3 var mjög ánægður með liðsvinnuna og Pienaar maður leiksins að mínu mati

  2. Gunnþór skrifar:

    flottur sigur,verðum svo miklu hættulegri með hægri vænginn svona virkann.

  3. Teddi skrifar:

    🙂 skál fyrir sigri 🙂

  4. Finnur skrifar:

    Moyes staðfesti í viðtali að hann byggist við því að Jagielka þyrfti meðferð vegna ökklans (eftir ljóta tæklingu Adam La Fondre). Að minnsta kosti þyrfti að sauma nokkur spor til að loka sárinu.
    http://www1.skysports.com/football/news/11671/8534246/
    Ekki er búist við Jagielka á vellinum næstu tvær vikurnar allavega. Spurning hvað tekur við eftir það.

    Howard missti af leiknum vegna meiðsla í baki (eftir 210 Úrvalsdeildarleiki í röð) og Gibson er að spila meiddur og þarf líklega uppskurð í sumar en þangað til tekur hann það rólegra en venjulega í bæði hornum og þrumuskotum utan af velli. Baines var auk þess sagður vera að spila með einhver meiðsli en þau eru annaðhvort gróin eða ansi lítið að há honum.

    Það þarf ekki mikið að bera út af þar sem hópurinn er lítill, að vanda, en miðað við þennan leik þarf ekki að hafa miklar áhyggjur…

  5. Finnur skrifar:

    Executioner’s Bong með greiningu sína á leiknum:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/03/03/everton-3-1-reading-tactical-deconstruction/
    Punkturinn sem stóð upp úr að mínu mati er hversu öflugur hægri kanturinn reyndist þar sem glufur opnast alltaf upp á gátt fyrir hægri kantinn þegar lið reyna allt til að stoppa Baines og Pienaar á vinstri kanti.

  6. Gunnþór skrifar:

    sammála þér með það Finnur.

  7. Finnur skrifar:

    Pienaar í liði vikunnar að mati Garth Crooks hjá BBC :
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/21648368

    Og greyið Rodwell meiddist aftur í leik með City í dag. Skipt út af á 25. mínútu. Það á ekki af honum að ganga, blessuðum.

  8. Finnur skrifar:

    Já, fór hann ekki til Healing Hans, fræga Bayern München læknisins sem hélt því fram að vandamálið væri nú leyst? Sami maður og Mirallas fór til með sín meiðsli – maður fer að hafa áhyggjur af því að þetta sé bara skottulæknir. 🙂

  9. Elvar Örn skrifar:

    Var að lesa að Everton væri meðal annarra liða með áhuga á Albert Finnbogasyni, alltaf spennandi að fá Íslending í liðið, hmm.
    Er eitthvað að frétta af árshátíðinni, verður eitthvað af henni?

  10. Einar G skrifar:

    Veit einhver hvort að bikarleikurinn verði sýndur á einhverjum bar á Akureyri um helgina??

  11. Elvar Örn skrifar:

    Einar, ég veit ekki hvernig þetta er með pöbbana hér á Akureyri en þú getur kíkt bara á mig og horft hér ef vilt. Er með varpa og HD á smáu lofti í bílskúrnum og er bara einn sem komið er Þar sem Georg er í Reykjavík, spurning hvort Gunnþór kíkji við?

  12. Einar G skrifar:

    Takk fyrir gott boð erum þrír hérna og leitum okkur að pub ómögulegt að ráðast inn á kallinn

  13. Hallur j skrifar:

    Leikurinn gæti verið sýndur á kaffi jónson

  14. Einar G skrifar:

    Elvar þú kannski hringir i mig um kl 11 i síma 8431534 þá væri eg til i að þiggja boðið

  15. Elvar Örn skrifar:

    Ég bauð honum Einari G. í heimsókn hér á Akureyri og horfðum á leikinn saman, höfum reyndar aldrei hist áður.
    Mér fannst nú ekki fylgja honum alveg nægilega mikil lukka í þessum Wigan leik,hmmmm.