Helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

Það er ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg, áður en fjallað er um Norwich leikinn sem er framundan á laugardaginn.

Fyrri Oldham FA bikarleikurinn er að baki og endurtekinn leikur við þá framundan (með erfiðan útileik við Norwich inn á milli — nánar um hann síðar). Everton náði í leiknum við Oldham að snúa taflinu við eftir að hafa lent marki undir en komst yfir í leiknum. Það var því erfitt að horfa á liðið fara illa með jafn mörg góð færi til að klára leikinn og missa unnin leik niður í jafntefli á lokasekúndunum — ekki síst vegna þess að markið var ólöglegt. En, þó maður upplifi þetta jafntefli eins og tap þá verður að horfa til þess að Everton er enn í bikarnum, endurtekni leikurinn við Oldham er á heimavelli og ef hann vinnst er annar heimaleikur framundan (gegn Wigan). Það er því ekki skrýtið að veðbankar greini frá auknum líkum á því að Everton vinni bikarinn en þeir voru að færa Everton upp fyrir Chelsea sem eiga erfiðan leik gegn United framundan. Everton er því nú talið þriðja líklegasta liðið til að vinna bikarinn, á eftir Manchester liðunum tveimur — og hver veit nema þau tvö mætist í næstu umferð? Það væri gaman að sjá repeat af 1995 úrslitaleiknum: Everton – Man U og Fellaini með sigurmarkið úr skalla í þetta skiptið (líkt og Paul Rideout fyrir Everton þá). 🙂 Það má alltaf láta sig dreyma. En þetta eru bara dagdraumar — við tökum einn leik í einu (Oldham). Það getur allt gerst í FA bikarnum. En þá að ungliðunum sem eru að gera það gott þessa dagana:

Everton U21 árs liðið sigraði Middlesbrough U21 2-0 á heimavelli (Southport leikvellinum). Everton liðið var mun betra í leiknum og lítið að gera í markinu hjá Mucha. John Lundstram, sem má geta að er fyrirliði enska U19 ára landsliðsins, skoraði fyrra mark Everton á 18. mínútu eftir stoðsendingu frá Vellios og Lundstram var næstum búinn að skora aftur í seinni hálfleik en markvörður Middlesbrough varði vel. Seinna mark Everton kom svo frá Ross Barkley sem fékk boltann á vinstri kantinum og brunaði upp völlinn, inn í teig og setti boltann framhjá markverði úr þröngu færi. Hægt er að sjá vídeó af helstu leikatriðum hér. U21 árs liðið er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki (9 stig og 6-0 í markatölu) og eru í efsta sæti í Group 1 riðlinum, þó þeir hafi spilað einum leik færri en liðið í öðru sæti (Chelsea U21). Everton U21 er jafnframt eina U21 liðið sem hefur ekki fengið á sig mark (í öllum þremur riðlunum).

Hinn áðurnefndi 19 ára John Lundstram, sem skoraði fyrra markið var svo í dag lánaður til Doncaster Rovers sem eru í þriðja sæti í ensku C deildinni. Lundstram hefur leikið 13 leiki með U21 árs liði Everton á tímabilinu og skorað 2 mörk og mun nú vera hjá Doncaster í allavega einn mánuð til að öðlast meiri reynslu.

Everton U18 ára liðið er líka að gera það gott en U18 ára liðið sigraði Arsenal U18 2-4 á útivelli í 5. umferð FA bikarkeppninnar. Everton lenti undir á 11. mínútu en svöruðu aðeins tveimur mínútum síðar með marki frá Matthew Pennington. Everton byrjaði svo seinni hálfleik með látum, skoruðu á 46. mínútu (Chris Long), 48. mínútu (Conor Grant) og á 55. mínútu (Harry Charsley). Arsenal náði að klóra í bakkann með marki á 70. mínútu. Hægt er að sjá helstu leikatriði í vídeói frá Arsenal TV hér.

Everton U18 mæta því Norwich eða Birmingham City á heimavelli í 6. umferð. Kevin Sheedy var að vonum kátur með sigurinn, enda hafði Arsenal hvílt allt liðið sitt í deildarleiknum á undan (gegn Man City) til að mæta ferskir í bikarleikinn við Everton. Í deildinni eru U18 ára liðið í 4. sæti Elite grúppunnar, eftir tvo sigurleiki og einn tapleik. Þeir hafa þó leikið einum færri en liðið í 3. sæti og tveimur færri en liðið í 2. sæti og eru aðeins þremur stigum á eftir liðinu í efsta sæti.

Í furðufréttum dagsins er það helst að Royston Drenthe sagði að Moyes hefði bjargað ferli sínum með því opna augu hans fyrir því að hann stefndi í ræsið með vali sínu á lífsstíl á meðan á dvölinni í Liverpool stóð. Verst að hann sá ekki að sér fyrr því hann hafði hæfileikana til að spila í efstu deildinni ensku en hafði greinilega ekki andlegu hliðina í það. Batnandi mönnum þó best að lifa og allt það. Hann er nú á mála hjá rússneska félaginu Alania Vladikavkaz.

Hin furðufréttin er um Fellaini sem hefur verið að tjá sig í fjölmiðlum um að dómarar séu hliðhollari enskum leikmönnum í dómgæslunni en erlendum leikmönnum. Mér finnst það ólíklegt. Ég hef þó nokkra samúð með honum hvað það varðar að varnarmenn greinilega taka hann fyrir í leikjum því maður sér þá ítrekað halda utan um hann í föstum leikatriðum og reyna að klifra upp á axlirnar á honum í skallaboltum. Einnig hefur verið minnst á að þeir noti tækifærið þegar dómarinn sér ekki til og traðki á ristinni á honum til að reyna að espa hann upp. Þeir gera það sem þeir komast upp með til að stoppa hann, enda er hann stórhættulegur inni í teig andstæðinganna. Ég vil hins vegar meina að hann kemst upp með minna en aðrir — ekki vegna þess að hann er erlendur leikmaður — heldur vegna þess að hann er svo auðþekkjanlegur á velli og því líklegri til að fá spjald en margir aðrir á vellinum. Fólk man til dæmis betur eftir síðasta broti hans heldur en ef einhver minna áberandi á vellinum brýtur af sér tvisvar í röð. Hvað um það. Sitt sýnist hverjum.

Orðið er annars laust í kommentakerfinu.

4 Athugasemdir

 1. Haraldur Anton skrifar:

  Liverpool menn voru fljótir að láta í sér heyra eftir Fellaini commentið enda eru þeir fljótir til, þó toppmenn 🙂

 2. Finnur skrifar:

  Þeir mega gjarnan eyða orku í það. 🙂

 3. Ari S skrifar:

  Ég var ánægður aðheyra þetta sem að Drenthe sagði um Moeys. já batnandi mönnum er best að lifa þetta er einn hæfileikaríkasti leikmaður sem Everton hefur haft, fyrr og síðar.

  Hvað Fellaini varðar þá held ég að þetta sé bara í lagi að láta vita af sér í fjölmiðlum og vekja athygli ða síendurteknum faðmlögum við hann á vellinum. Shawcross dæmið var algerlega út úr kortinu („blatant foul“eins og englendingurinn myndi segja) og ógleymanlegt.

  Ég held áfram að vera bjartsýnn og býst við tveimur sigrum í næstu tveimur leikjum. Jelavić fer í gang og setur eitt í dag eða jafnvel tvö eða þrjú þegar hann kemst á bragðið …

 4. Finnur skrifar:

  > þetta er einn hæfileikaríkasti leikmaður sem Everton hefur haft, fyrr og síðar.

  Ari… Held þú sért að rugla Drenthe saman við Hibbert.

  🙂