Íslendingaferð á Goodison í apríl – Staðfest!

Í apríl gefst þér kostur á að fara með fríðu föruneyti að sjá Everton taka á móti Fulham á Goodison Park. Þegar hafa 10 meðlimir Everton klúbbsins á Íslandi, þar með talið öll stjórnin eins og hún leggur sig, skráð sig í ferðina, keypt flug og bókað hótel. Flogið verður með Easyjet frá Keflavík til Manchester að morgni 25. apríl (sem er fimmtudagur) og gist í þrjár nætur á Novotel hótelinu í Manchester. Leikurinn er kl. 14:00 á laugardeginum og kemur stjórnin til með panta miða á leikinn fyrir hópinn sem og að reyna að bóka einnig (fyrir þá sem hafa áhuga) skoðunarferð um völlinn, búningsklefa og sjá aðstöðuna alla á Goodison. Flogið er til baka að morgni til þann 28. apríl (sem er sunnudagur — daginn eftir leik).

Þetta hefur verið frábær upplifun í fyrri ferðum en meðlimir þessa hóps hafa farið u.þ.b árlega út að sjá Everton spila og hefur alltaf verið mjög eftirminnilegt. Ef þú hefur áhuga á að koma með okkur skaltu byrja á að senda tölvupóst á klúbbinn (sjá síðuna Hafa samband).

Athugið að ferðin er ekki skipulögð af ferðaskrifstofu og því er það á ykkar herðum (eftir að hafa staðfest mætingu) að kaupa flugmiða og bóka hótel. Stjórnin mun hins vegar sjá um að kaupa miða á völlinn og reyna að sjá til þess að hópurinn sé ekki dreifður um allan völl. Því fyrr sem bókað er, því meiri líkur eru á að það takist. Hér eru helstu upplýsingar sem þið þurfið á að halda:

Flug út: EasyJet flug númer 1806, áætluð brottför kl. 10:10 þann 25. apríl 2013 (fim).
Flug heim: EasyJet flug númer 1805, áætluð brottför kl. 07:20 þann 28. apríl 2013 (sun).
Athugið að Easyjet rukkar aukalega fyrir farangur (annan en handfarangur) en fyrir svona stutta helgarferð ætti að vera nóg að taka með föt til skiptana í bakpoka. Verð á flugi út, skv. vefsíðu EasyJet í kvöld, er um 156 evrur báðar leiðir eða um 27 þúsund íslenskar krónur (miðað við gengi dagsins). Verðið hækkar eftir því sem líður á þannig að ekki bíða of lengi með að panta.

Hótelið okkar er Novotel hótelið í miðbæ Manchester (sjá á Google Maps) og komum við til með að gista þar allar næturnar í ferðinni. Booking.com segir að verð fyrir hóteldvölina sé 264 pund fyrir þrjár nætur (sem gerir um 9 þúsund krónur nóttin á mann ef miðað er við tvo í hvert herbergi — morgunmatur ekki innifalinn). Einstaklingsherbergi er einnig möguleiki, ef þið viljið borga aðeins aukalega, en ef tveir stakir ferðalangar (af sama kyni) skrá sig getum við komið þeim í samband svo hægt sé að deila herbergi.

Fleiri hótel komu til greina þegar við skoðuðum möguleikana í Manchester, til dæmis bæði Holiday Inn (sjá Google Maps og vefsíðu þeirra) og Jury’s Inn (sjá Google Maps og vefsíðu þeirra) í Manchester, sem eru bæði í nágrenninu og aðeins ódýrari en Novotel. Fyrir þá sem vilja frekar gista í Everton borg bendum við á Jury’s Inn í Liverpool. Ekki má þó gleyma Hilton hótelinu í Liverpool, sem vill svo til að er hótelið sem Everton leikmennirnir hittast á á leikdegi og því oft hægt að berja hetjurnar augum. Hilton hótelið er rétt hjá Jury’s Inn en yfirleitt nokkuð dýrara.

Miðar á leikinn: Fyrst af öllu er að láta okkur vita að þið ætlið að mæta. Þegar þið hafið skráð ykkur í ferðina og keypt flugfar pöntum við miða á leikinn fyrir ykkur. Miðaverð er ekki alveg ljóst en kæmi á óvart ef það verði ekki undir 10 þúsund krónum.

Heildarkostnaður af þessu ætti því að hlaupa á um það bil 64 þúsund krónum. Flug: 27 þúsund, hótel: 9 þúsund nóttin í þrjár nætur og miði á leik: 10 þúsund. Hægt er að lækka kostnaðinn með því að velja annað hótel og miðaverðið er varlega áætlað — líklegt að kosti aðeins minna. En svo kemur á móti að ferð til og frá flugvelli og ferð á völlinn er náttúrulega ekki innifalinn en oft tækifæri í svona hópum til að deila leigubíl, o.s.frv. Rétt að benda á að fyrri pakkaferðir hafa kostað í kringum 100-110 þúsund krónur þannig að þetta er ekki nema rétt rúmlega helmingur af því.

Fyrsta skrefið er þó að láta í ykkur heyra og bóka komu í ferðina. Við erum þessa dagana að huga að miðakaupum í gegnum félagið úti og það væri gott að afgreiða það í einu lagi, ekki bara til að minnka umstangið heldur líka til að reyna að tryggja að hópurinn sitji að mestu saman. Ekki bíða því með að staðfesta áhuga.

22 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Ég hlakka alltaf til að fara á Goodison

 2. Finnur skrifar:

  Segðu! Ég hef farið tvisvar og fannst þetta meiriháttar í bæði skiptin. Ég hlakka mikið til ferðarinnar.

 3. Elvar Örn skrifar:

  Búinn að pakka.
  Þetta verður Legendary.

 4. Ari S skrifar:

  David Moyes verður 50 ára gamall 25. apríl….. 🙂

 5. albert gunnlaugsson skrifar:

  25. apríl er sumardagurinn fyrsti. Ég skrái mig hér með í ferðina. kv. albert

 6. Finnur skrifar:

  Frábært! 🙂

 7. Elvar Örn skrifar:

  Þá eru komnir 11 Íslenskir Everton menn í þessa ferð. Eigum við að ræða það eitthvað?
  Það væri gaman að skjóta inn nöfnum og aldri á þessum félögum. Þess má þó geta að aldur er afstæður og það hefur sannast í seinustu ferðum þessarar félagsskapar.

  Munið þið fyrir um 4 árum þegar við vorum í Evertonborg og klukkan var um 8 að kveldi og við ætluðum að fara á hinn rómaða matsölustað „Blue Bar“ sem er í eigu Robbie Fowler og við skutluðumst þangað í leigubíl en leigubílstjórinn vissi alveg hvar þetta var. Þegar inn var komið og við tilbúnir að háma í okkur kaloríumiklar veitingar þá tók þess í stað á móti okkur fjölmargar mjög svo léttklæddar myndarlegar dömur og kom í ljós að við vorum á nektarstað (blue bar) og klukkan bara 8 ef hún náði því. Nánast óþægileg lífsreynsla.
  Þess má svo geta að hinn rétti Blue Bar var across the street frá hótelinu okkar (líklega 3ja mínútna rölt) já og mjög góður matur þar 🙂

  Fleiri sögur koma síðar.

 8. Finnur skrifar:

  Endilega, Elvar!

  Sjálfur gleymi ég því ekki þegar við Gunnþór vorum aðeins á eftir ykkur á leiðinni aftur á hótelið og við löbbuðum framhjá Hilton hótelinu að kvöldi til og rekum augun í engan annan en Duncan Ferguson, sem var sko alveg til í að sitja fyrir á mynd áður en hann brunaði í burtu á glæsikerrunni. Good times! 🙂

 9. baddi skrifar:

  þetta eru geggjaðar ferðir og hlakka til að fara i þessa ,kv Baddi malari

 10. Elvar Örn skrifar:

  Baddi á einmitt eina rómuðustu þakkarræðu í þessum ferðum þar sem hann var að þakka þjóninum (kvenmaður) fyrir stórkostlega máltíð. Kem með söguna hér á eftir 🙂

 11. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  það bættust tveir grjótharðir Húsvíkingar í hópinn og þeir eru farnir að hlakka all verulega til.

 12. Elvar Örn skrifar:

  Magnað, hverjir eru þeir?
  Erum við þá orðnir 13 talsins?

 13. Finnur skrifar:

  Já, það er staðfest. Við erum orðnir 13 talsins með Sigurjóni og Aðalsteini, félaga hans frá Húsavík.

 14. Elvar Örn skrifar:

  Eru alllir að gista í Manchester? Á hvaða hóteli?
  Veit um Finn og félaga eins og fram kemur í fréttinni, en ekki alveg hve margir þeir eru eða hverjir.

  Væri gaman að fá nöfn allra, gististað og jafnvel aldur.

  Ég (Elvar Ör, 40 ára unglingur) Gunnþór, Georg og Haraldur Anton ætluðum að gista í heimahúsi í göngufjarlægð frá hóteli Finns en erum ekki búnir að útiloka að fara á sama hótel.

  Er skíthræddur við að leik verði frestað til Sunnudags en vona að sleppi.

 15. Finnur skrifar:

  Við erum allir í gistingu í Manchester:

  Elvar Örn – ágúst ’72.
  Georg – júní ’86
  Haraldur Anton – mars ’85
  Gunnþór – júní ’74
  Haraldur Örn – ágúst ’68
  Baldvin – nóvember ’66
  Óðinn – júlí ’62
  Eyþór – nóvember ’56
  Róbert (sonur Eyþórs) – febrúar ’91
  Finnur – júlí ’74
  Albert – júlí ’56
  Sigurjón – nóvember ’64
  Aðalsteinn – nóvember ’66

 16. Finnur skrifar:

  Það er náttúrulega ákveðin áhætta að taka EasyJet á sunnudagsmorgninum til baka en miðaverðið hjá þeim var bara allt of freistandi. Þeir fljúga náttúrulega ekki til baka um kvöldið á sunnudegi (annars hefðum við valið það) en ég segi fyrir mitt leyti: ef leiknum verður frestað fram á sunnudag þá væri hægt að taka lestina til London og fljúga með WOW heim (kostar 32.500 að fljúga á sunnudagskvöldinu en 18.500 á mánudeginum, sýnist mér).

 17. Ari G skrifar:

  Skemmtuð ykkur vel þarna. Vitið þið hvenær leikurinn við Oldham er?

 18. Ari G skrifar:

  Búið að að setja leik Oldham og Everton á þriðjudaginn á stöð 2 sport klukkan 19.45

 19. Finnur skrifar:

  Mikið rétt, Ari G.
  Sjá einnig http://everton.is/leikir

 20. Elvar Örn skrifar:

  Held að Haraldur Anton bró sé fæddur mars 1985 reyndar.

  Annars virðist þetta vera ferð eldri borgara, hehe, en við erum allir hættulega ungir í anda.

  Ef við skiptum liðum í tvennt, þ.e. ungir versus gamlir þá verð ég í ungum, hehe, snilld.

 21. Finnur skrifar:

  Tveir í viðbót voru að lýsa yfir áhuga á að mæta í ferðina. Kemur samt betur í ljós eftir mánaðarmót.

  Einnig bendi ég áhugasömum á að það er oddatölufjöldi á hópnum, sem þýðir að ef einhver stakur vill mæta í ferðina með okkur þá er hér tilvalið tækifæri til að spara sér hótelkostnað.