Opinn umræðuþráður

Mynd: Everton FC.

Þessi vika er inniheldur hrinu landsleikja þó hefðbundin dagskrá í Úrvalsdeildinni haldi áfram um helgina. Rétt að staldra við og líta á hvað hefur verið að frétta.

Ashley Cole, leikmaður Chelsea, sagði að hann finndi vel fyrir pressunni sem Baines er að veita honum í samkeppni um vinstri bakvarðarstöðuna í landsliðinu og Roy Hodgson, stjóri þessi liðs, viðurkenndi loksins að Baines og Ashley Cole væru jafningjar á vellinum. Hodgson sagðist eiga í vandræðum með að velja á milli þeirra en ég sé ekki af hverju það ætti að vera, Baines er orðinn betri en Cole og er ekki með þennan aukabagga sem fylgir Cole (ekki með brothættan ökkla, kallar meðlimi knattspyrnusambands Englands ekki „hálfvita“ og skýtur ekki eigin aðdáendur með riffli, svo dæmi sé tekið).

Baines aftur á móti er maður sem fer lítið fyrir utan vallar en spilar stórt hlutverk innan hans og lætur verkin tala með frábærum árangri. En ég er náttúrulega litaður og það gildir líka um Kevin Kilbane, sem er sammála mér. 🙂 Roy sagði þó að hann ætlaði að leyfa Cole að ná loksins 100. leiknum sínum gegn Brasilíu í kvöld en Baines hefur byrjað í fjórum af síðustu fimm leikjum Englendinga. Jagielka og Osman eru einnig í hópnum en Jagielka hefur einsett sér að verða fyrsti valkostur í miðverðinum og Osman fær vonandi að byrja sinn annan leik eftir að hafa verið besti maður Englendinga gegn Svíum í sínum fyrsta leik. Hægt er að sjá listi yfir landsleiki Everton manna hér. Stóra spurningin er náttúrulega hvort Fellaini verði orðinn klár fyrir leikinn gegn United um helgina en hann virtist meiðast í samstuði við markvörð Aston Villa á dögunum, þó hann hafi staðið upp og klárað leikinn. Hann kvartaði nefnilega undan verk í mjöðm á æfingu með belgíska landsliðinu og missir því væntanlega af vináttulandsleik þeirra gegn Slóvakíu.

Moyes fór fögrum orðum um Anichebe eftir leik Aston Villa og sagði hann hafa „skorað eitt, lagt upp annað og átt þátt í mörgu sem var afskaplega vel gert í leiknum“. Hann benti auk þess á að Anichebe hefur skorað 6 mörk í 12 byrjunarleikjum á tímabilinu sem er alls ekki slæmt og akkúrat það sem Everton vantaði í markaþurrðinni sem Jelavic hefur gengið í gegnum undanfarið. Klúbburinn setti á netið vídeó sem sýnir mörkin sem Anichebe hefur skorað á tímabilinum en í sömu grein minnist Anichebe á að árangur sinn á tímabilinu væri að miklu leyti Jelavic að þakka.

Af ungliðum okkar er það að frétta að vinstri bakvörðurinn Jake Bidwell framlengdi lán sitt hjá Brentford um mánuð. Hann hefur leikið 32 leiki fyrir þá en var í leikbanni í FA bikar-jafnteflinu gegn Chelsea, sem þeir voru óheppnir að vinna ekki eftir að hafa komist tvisvar yfir. Hann nær þó endurtekna bikarleiknum. Það er gaman að hugsa til þess að Everton á ekki bara Leighton Baines heldur báða vinstri bakverðina í unglingalandsliði Englands (þeir skipta stundum með sér hálfleikjum í landsleikjum) og nú á Everton líka hægri bakvarðarstöðuna í unlingalandsliðinu eftir að hafa keypt John Stones (sem tekið var viðtal við eftir Villa leikinn). Daily Mail sagði auk þess þegar hann var keyptur: „Stones is one of the most coveted young defenders in the country and is a real coup for manager David Moyes“. Athyglisvert. Stjóri Barnsley hafði svipaða sögu að segja, sagði að hann væri besti enski ungliðinn í vörn í dag. John Stones lék, ásamt fyrirliða U19 ára landsliðsins, John Lundstram (sem einnig er leikmaður Everton), með enska U19 unglingalandsliðinu á mánudagskvöld en þeim leik lauk með sigri á Dönum U19 3-1.

Man United leikurinn nálgast annars óðfluga en fjallað verður um hann síðar. Þangað til er hér athyglisvert viðtal við fyrrum United manninn Frank Stapleton sem sagði meðal annars að leikurinn verði hnífjafn og að United komi til með að fara mjög varlega gegn Everton eftir að hafa brennt sig illa í síðustu tveimur leikjum (4-4 jafntefli á Old Trafford og 1-0 sigur Everton á Goodison). Hann sagði einnig að að hans mati væru Manchester liðin einu liðin sem væru betri en Everton á Englandi í dag.

Í öðrum fréttum er það helst að gamla kempan Kevin Sheedy var á dögunum valinn í írska ‘Hall of Fame‘ knattspyrnunnar, sem setur hann á stall með einhverjum bestu fótboltamönnum sem Írar hafa átt. Til hamingju með það, Kevin.

Og í lokin, fyrst Heitinga hefur verið mikið á milli tannanna á fólki er rétt að benda á ágæta grein um hann á Blue Kipper. Orðið er annars laust í kommentakerfinu. Endilega látið í ykkur heyra varðandi allt tengt Everton sem ykkur brennur á vörum.

7 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Ég sá England Brasilíu leikinn. Ashley Cole fékk sinn 100. leik en hann byrjaði sem vinstri bakvörður og Leighton Bainse spilaði í seinni hálfleiknum. Það sem ég sá til Baines var að hann virkaði öruggur á allt sem hann gerði og stóð sig vel. Jagielka kom ekki inná og ekki heldur Osman. Englendingar voru mun betri og áttu skilið að sigra í þessum leik.

 2. Finnur skrifar:

  Mér finnst reyndar ágætt, þegar ég hugsa um það, að lykilmenn hjá okkur skuli hafa hvílt þennan tilgangslausa æfingaleik við Brasilíu. Sérstaklega í ljósi þess hvað gerðist hjá Arsenal:
  http://www.mbl.is/sport/enski/2013/02/07/thrir_arsenalmenn_meiddust/

 3. AriS skrifar:

  Já sammála en það er samt ekkert að marka okkar Superman #3 sem verður betri og betri með hverjum leik og meiðist sjaldan eða aldrei.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Já og Jelavic skoraði sem er besta mál.
  Nú er bara að mæta á Óld Trafford og endurtaka frammistöðuna í fyrsta leik tímabilsins.

 5. Halli skrifar:

  Er Fellaini tæpur fyrir Man u leikinn ?

 6. Finnur skrifar:

  Hann hlýtur að vera metinn sem tæpur þar sem hann kvartaði undan eymslum í mjöðm á æfingu með landsliðinu. Skilst að hann hafi samt verið á bekknum en ekki tekið þátt. Vonandi bara varúðarráðstöfun… 🙂

 7. Ari S skrifar:

  Vináttuleikjameiðsl… mér hefur oft fundist þau vera aðeins öðruvísi en venjuleg meiðsl leikmanna…… vonandi er hann að spara sig fyrir sunnudaginn 🙂