Everton – Aston Villa 3-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Aston Villa í dag á sólríkum vetrardegi í Everton borg. Everton menn og konur voru ákaflega bjartsýn fyrir leikinn og litu á Aston Villa sem gefna veiði enda hvorki gengið né rekið hjá þeim síðasta mánuðinn og þeir aðeins náð tveimur stigum af 21 mögulegu. Ég gat ómögulega fengið mig til að spá Everton sigri fyrir leikinn þar sem leikir þessara liða eru yfirleitt í járnum og lítið sem skilur liðin að auk þess sem Villa hefur reynst Everton erfiður ljár í þúfu á Goodison undanfarið. Aðeins einn af síðustu 6 leikjum fyrir þennan leik hafði unnist, fjórir endað með jafntefli og 2 tapast. Eftir leikinn í dag er hlutfallið 1-5-2 (S:J:T) því Everton gerði 3-3 jafntefli við liðið sem á pappírunum hefði átt að gefa þrjú stig.

Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga og Distin í miðverðinum, Jagielka í hægri bakverði (andvarp), Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Osman og Gibson á miðjunni, Fellaini fyrir aftan Anichebe frammi. Varamenn: Mucha, Jelavic, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Neville, Duffy.

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvers vegna Heitinga fær að taka stöðu Jagielka (og Jagielka þar með settur úr stöðu sinni yfir í hægri bakvörð) þegar við erum með „náttúrulegan“ hægri bakvörð á bekknum (Neville). Heitinga reyndar stóð sig ágætlega í 2-1 sigri gegn West Brom, þó hann hafi átt sök á marki West Brom, en það er ekki sanngjarnt gagnvart Jagielka að setja hann í bakvörðinn því hann er búinn að vera frábær allt tímabilið á meðan Heitinga hefur verið brokkgengur. Eina skýringin er að Neville hafi verið tæplega leikfær, enda kom Oviedo inn á í hægri bakvörðinn þegar Heitinga var tekinn út af.

Nánast allt gekk upp hjá Villa í leiknum. Þeir skoruðu úr sinni fyrstu sókn, strax á 2. mínútu, þegar Benteke fær sendingu fram og tekur einfaldlega sprettinn framhjá Heitinga (sem vissi varla sitt rjúkandi ráð) og skýtur framhjá Howard, stöngin inn á fjærstöngina. Þetta og skalli Agbongalahore sem gaf mark á 24. mínútu voru, svei mér þá, einu boltarnir sem rötuðu á mark Everton í fyrri hálfleik!!!

Ég var reyndar verulega ósáttur við að dómarinn skyldi ekki dæma hendi á leikmann Villa í aðdragandanum á seinna markinu, en þetta var greinilega þeirra lukkudagur gegnum allan leikinn þannig að ekki að furða þó það hafi farið fram hjá honum. Ég var líka mjög ósáttur við bæði Heitinga og Fellaini fyrir að stökkva ekki upp í boltann og skalla frá.

Í millitíðinni skorað Anichebe reyndar jöfnunarmark af miklu harðfylgi eftir að Mirallas gaf langa sendingu á hann inn í teig og Anichebe með mann að djöflast í bakinu á sér snýr sér framhjá honum að nærstönginni og skorar hjá fjærstönginni. Flott mark hjá honum þar sem hann nýtir sér kraftinn vel til að skapa færi og afgreiða færið frábærlega. Jelavic var greinilega ekki skemmt á bekknum enda sá hann fram á að verma bekkinn nokkuð lengur. Hann getur þó lítið kvartað yfir því.

Everton var betra liðið í leiknum, með boltann mun meira, átti mun fleiri skot og mun fleiri sem hittu á rammann. Það leit alltaf út fyrir að Everton væri líklegra til að skora. Villa menn báru höfuð og herðar yfir Everton í nýtingu færa sem og í brotum, sem voru fjölmörg — þar af eitt víti sem var ekki dæmt og ein afskaplega ljót tækling á Baines sem átti að vera rautt en var bara gult. Dómarinn var þó sjálfur sér samkvæmur þegar Osman braut illa á Villa manni og gaf honum bara gult, en hann hefði gjarnan mátt leggja línurnar fyrr, að mínu mati.

Heitinga átti einnig þátt í þriðja markinu þegar Villa náði léttum þríhyrningi á hægri kanti, sendi fyrir af löngu færi og þar er Heitinga sofandi á verðinum og í stað þess að mæta boltanum og skalla frá ákveður hann að skalla ekki heldur bíða eftir boltanum til að sparka frá. Áður en hann nær því þakkar Benteke snyrtilega fyrir sig með því að skalla — aftur stöngina inn og enginn séns fyrir Howard. 1-3 fyrir Aston Villa og Heitinga nú búinn að eiga þátt í öllum mörkunum. Spurning þó hvort Villa maðurinn var rangstæður í aðdragandanum — erfitt að segja.

Það var þungt í manni hljóðið á þessum tímapunkti. Villa menn að ná að sigra á útivelli í annað skipti á Merseyside á tímabilinu? Þrátt fyrir að pressan væri öll á mark Aston Villa gegnum allan leikinn, þá virtist sem Everton væri fyrirmunað að skora.

„Engar áhyggjur“, sagði Aston Villa maðurinn í salnum, „við erum jafntefliskóngarnir í deildinni!!“ — og það reyndust orð að sönnu því Fellaini tók nú til sinna ráða. Það tók hann aðeins átta mínútur frá marki Villa til að minnka muninn þegar hann brunaði inn í teig af vinstri kanti, sendi snöggt á Anichebe sem lagði hann fyrir hann strax aftur og Fellaini stakk tvo varnarmenn Villa af og skoraði af stuttu færi.

Um tíma leit auk þess út fyrir að þessi umferð væri að fara á versta veg — Everton ekki bara að tapa á meðan Arsenal og Chelsea voru að vinna heldur virtist Fellaini meiðast illa í samstuði sem og bæði Anichebe og Jagielka sem litu út fyrir að hafa meiðst líka. Maður andaði þó verulega léttar þegar þeir héldu allir áfram (að ekki sé minnst á að Newcastle næði snúa tapi af harðfylgi í sigur gegn Chelsea).

Moyes ákvað að hrista aðeins upp í þessu á 65. mínútu með því að skipta Heitinga út af fyrir Oviedo og Jelavic inn á fyrir Mirallas (og svo Naismith inn á fyrir Gibson á 90. mínútu). Maður náði þó ekki að anda léttar fyrr en rétt undir lok leiksins þegar maður var orðinn nánast úrkula vonar að fá stig úr leiknum.

Jöfnunarmarkið var skallamark frá Fellaini sem var nánast afrit af sigurmarkinu sem Fellaini skoraði gegn United á Goodison á tímabilinu — hornspyrna frá Baines sem Fellaini skallar í markið af stuttu færi þrátt fyrir að vera með varnarmann að djöflast í sér en Villa menn voru brotlegir í allavega einni hornspyrnu í leiknum ef ekki tveimur — því þeir brutu á Jelavic í þessari hornspyrnu að mér sýndist.

3-3 staðan og kominn séns að stela öllum stigunum en Everton fékk eitt eða tvo tækifæri til að gera það en tókst ekki. Jafntefli því niðurstaðan.

Tölfræðin skv. Goal veftímaritinu: Everton með boltann 68% vs. Villa 32%. Everton með 21 skot, þar af 8 sem hittu markið. Villa með 8 skot, þar af 3 sem hittum markið. Bæði lið með 3 mörk og Villa því með 100% nýtíngu á skotum sem hitta markið (!!). Auk þess fékk Everton 15 horn en Villa 2. Hvernig í ósköpunum lenti Everton 1-3 undir í leiknum??

En með jafnteflinu er Everton komið upp að hlið Tottenham sem eru í 4. sætinu á markatölu en eiga leik til góða (á morgun við West Brom á útivelli).

Einkunnir Sky Sports: Howard 5, Baines 7, Heitinga 5, Distin 6, Jagielka 6, Pienaar 7, Gibson 6, Osman 6, Mirallas 6, Fellaini 8, Anichebe 8. Varamenn: Jelavic 6, Oviedo 6, Naismith 5. Nokkuð sammála þessum eiknunnum, nema hvað Heitinga á varla fimmuna skilið (lélegasti leikur sem ég hef séð hann spila, enda afsakaði hann sig og lofaði betrumbót). Osman og Mirallas, aftur á móti, áttu aðeins meira skilið en 6. Villa menn fengu arfaslakar einkunnir úr leiknum — einhverjar þær verstu sem ég hef séð í nokkurn tíma, en 8 leikmenn (þmt. tveir varamenn) fengu FIMM í einkunn (!), þrír úr aðalliðinu voru með 6 í einkunn, einn með sjö og einn með átta.

Hundfúll með jafntefli þegar uppi er staðið, þó ég hafi spáð því, en eins og leikurinn spilaðist er ég nokkuð sáttur að sjá Everton breyta töpuðum leik í jafntefli. Þessi stig töpuðust náttúrulega á arfaslökum varnarleik.

Í öllu jákvæðari fréttum þá vann U18 ára lið Everton deildarleik á útivelli gegn Bolton U18 1-2. Chris Long skoraði bæði mörk Everton eftir að Everton lenti undir.

21 Athugasemdir

 1. Ari G skrifar:

  Furðulegur leikur. Hræðilegur varnarleikur skil ekki af hverju að vera alltaf að breyta varnarleiknum. Áttum að reyna að leigja Lescott gott samt að kaupa þennan frá Barnsely örugglega framtíðarleikmaður þótt ég þekki hann ekkert. Anichebe og Fellaini langbestu menn Everton. Gott að ná jafntefli flottur leikur síðustu 15 mín. Allavega 2 töpuð stig í baráttunni um 3-4 sætið.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Er ekki mikill Neville-aðdáandi en hefði frekar viljað hafa hann í bakverðinum í dag og Heitinga uppi í stúku. Sá reyndar ekki leikinn en það sem ég hef lesið segir mér að hann hafi hreínlega gefið tvö mörk.

 3. Halli skrifar:

  Heitinga var besti maður Aston Villa í dag einnig var howard ekki með varði ekki einn bolta en Evertonliðið sóknarlega gott. Ég er alveg sammála Ingvari með Neville en hann hlýtur að hafa verið tæpur fyrst að þegar Heitinga er skipt út kom Oviedo í hægri bakk menn leiksins Fellani og Anichebe

  • Elvar Örn skrifar:

   Ég er reyndar ekki alveg sammála með Howard.
   Fyrsta skotið var erfitt þar sem Heitinga bauð Benteke á opið hús og gott skot sem erfitt var að verja.
   Næsta skot var óverjandi skalli af stuttu færi þar sem Heitinga var eins og lítil skólastelpa sem kann ekki að hoppa og Fellaini hefði getað gert betur þar einnig, ekkert við Howard að sakast þarna.
   Þriðja markið þeirra (rangstaða reyndar að mínu mati) er bara frábær sending og frábær fastur skalli í stöngina og inn, algerlega óverjandi.
   Ég held barasta að Howard hafi átt fínan leik en Heitinga ömurlegasta leik ever.

 4. AriS skrifar:

  Heitinga átti ekki góðan dag með erfiðasta manninn á bakinu allan leikinn. Gerði afdrifarík mistök í leiknum… en í fyrsta markinu……. samt ekki aaaallveeeg hans eign … … þá voru ÞRÍR leikmenn Everton eitthvað að dúlla með EINN leikmann Aston Villa nálægt miðju vallarins sem slapp frá þeim öllum…. og gaf snilldarstungusendingu á Benteke sem fór frekar auðveldlega framhjá Heitinga og síðan skoraði hann í HORNIÐ FJÆR!!! Hvað var það hjá Howard?????

  Ég er bara að benda á þó að Heitinga hafi verið klaufalegur í dag þá var þetta eki alveg 100% honum að kenna… ég er bara að tala um fyrsta markið…..

  En nóg um það, ég hafði það alltaf á tilfinningunni að við myndum vinna þennann leik. Reyndar slokknaði sú von þegar fimm mín. voru eftir en Felli sá um að koma okkur á sporið á ný… gaf mér von… og þegar hann skoraði á 90. mín og 6 mín bætt við þá var ég sannfærður um að við myndum vinna…. og Felli næstum því búinn að gera sitt þriðja og okkar fjórða….. en 3-3 .. 🙁

  Ætli Moyes sé ekki að hugsa um að hvíla Neville svo að hann geti tekið 300. leikinn sinn gegn Manchester United á Old Trafford. Þetta verður ógleymanlegur dagur hjá Neville og ég tala nú ekki um ef við vinnum…. en ég er alltaf bjartsýnn á sigur gegn þessu liði…. hehe 😉

  Áfram Everton!

  • Elvar Örn skrifar:

   Hehe, ósammála hér einnig.
   Fyrsta markið var 101% Heitinga að kenna, horfði á endursýningu og það er líkast til að Heitinga sé sýndur hægt (já svona Carragher style). Ég held bara að Howard sé að búast við því að Heitinga loki meira á hann til að þrengja skotvinkilinn en svo var ekki, Heitinga gefur Benteke boðskort á opið færi.
   Ef Neville var tæpur, þá af hverju ekki frekar að hafa Heitinga í hægri bak (já eða glænýja unga bakvörðinn okkar) og nota okkar lang besta miðvörð í miðvarðarstöðu (Jagielka)?
   Ég skal lofa ykkur að Heitinga byrjar ekki í miðverði í næsta leik, no f.. way.

   • Finnur skrifar:

    Heitinga er búinn að gefa það út að hann kemur ekki til með að taka að sér hægri bakvörð í framtíðinni. Þannig að ef Coleman og Hibbert eru meiddir og Neville tæpur þá er Jagielka líklegri að láta sjá sig í hægri bakverði en Stones að vera blóðgaður strax í Úrvalsdeildinni.

    Sannaðu til. Ef Neville er ekki nógu góður í hægri bakvörðinn í næsta leik (og Hibbo heldur ekki orðinn nógu góður — Coleman verður pottþét frá) þá komum við til með að sjá Heitinga í miðverðinum aftur og Jagielka í hægri bakverði.

    • Elvar Örn skrifar:

     Mér finnst arfaslakt að menn neiti að spila í vissum stöðum þegar stjórinn telur það koma liðinu best að spila svo.
     Ekki séns að Heitinga byrji í miðverði gegn United, held við verðum að veðja tveimur köldum uppá það, hehe.
     Myndi frekar nota Jagielka í miðverði og Oviedo í hægri bak ef Hibbo, Coleman og Neville eru frá.

 5. AriS skrifar:

  Reyndar sýndi klukkan 90+3 þegar Felli jafnaði…

 6. Finnur skrifar:

  Fellaini valinn í lið vikunnar að mati Goal tímaritsins en það er í sjöunda skiptið sem hann er valinn á tímabilinu. Hann er, líkt og Baines síðast, með flestar tilnefningar af þeim sem valdir voru í lið vikunnar. Eini sem kemst nálægt honum er Gareth Bale með 5 tilnefningar. http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/02/04/3724474/premier-league-team-of-the-week-super-sissoko-stars-again-as

 7. Elvar Örn skrifar:

  Fellaini og Anichebe voru alveg magnaðir fannst mér í þessum leik. Anichebe er nú að koma manni illilega á óvart.
  Eftir að vera komnir 1-3 undir verð ég að segja að karakterinn er mikill í þessu liði og ófáir leikirnir þar sem Everton lendir undir en nær að bjarga í jafntefli (þó gjarnan verið betra liðið í þeim leikjum).
  Flott spil á köflum, völlurinn betri en seinast (gegn WBA) og mikil batamerki frá 0-0 leikjunum í janúar, þá sérstaklega í sókn og miðju en djí við eigum ekki að fá á okkur 3 mörk gegn Villa en þeir gerðu það í 3 tilraunum á rammann, góð nýting það.
  Easy 3 stig í næsta leik heldur voninni um Meistaradeildarsæti 🙂

 8. Elvar Örn skrifar:

  Það verður gaman að sjá hvort Moyse nái að fá meira út úr hægri kantinum með Mirallas heilann og spurning hvort John Stones fái sénsa á leiktíðinni í hægri bakverði en honum er líkt við Baines (á nú eftir að sjá það).
  Ég held nú að það séu um 3 vikur í Coleman ennþá en ég hef mikla trú á að hann og Mirallas geti einnig nýtt þennan kant betur.
  Baines og Pienaar hafa verið frábærir í vetur og mér finnst Oviedo líta fantavel út og spurning hvort ekki sé hægt að nýta hann betur, t.d. færa Pienaar á hægri (eða miðju) ef Mirallas er fjarverandi en maður skilur vel að Moyse vilji ekki hrófla við Baines-Pienaar tengingunni.
  Jagielka og Distin í miðverði, punktur.
  Satt best að segja vil ég frekar sjá Duffy í miðverði heldur en Heitinga en ég hef mikla trú á Heitinga í defensive Midfielder.
  Mér fannst Jelavic koma sterkur inn í leiknum og það verður gaman að sjá hvernig Moyse stillir upp liðinu gegn Man.Utd næstu helgi.

  • Finnur skrifar:

   Ég var reyndar búinn að gleyma Duffy. Já, ég get séð að kominn sé tími á að droppa Heitinga fyrir Duffy. Það er reyndar leikur við United næst, en samt — Duffy stóð sig frábærlega í stóru leikjunum á síðasta tímabili þegar meiðsli í miðverðinum hrjáðu Everton.

   • Elvar Örn skrifar:

    Já og ekki má gleyma því að Duffy er einnig mjög sterkur í teig andstæðinganna í föstum leikatriðum. Væri mjög til í að sjá hann en ég er þó viss um að hann byrji ekki gegn efstu liðunum og sér í lagi ekki gegn United.

 9. Elvar Örn skrifar:

  Fellaini æfði ekki í dag með landsliði Belga vegna mjaðmareymsla en Belgar leika í vikunni og að sögn er óvíst hvort Fellaini geti spilað þann leik og gæti því ekki öruggt að hann spili gegn United um helgina, púff.

 10. Haraldur Anton skrifar:

  Djöfull er ég kominn með mikið ógeð af Heitinga, þetta er töffari en hann má spila sem vara vara á miðjunni eða hafa hann í bakverðinum ef hann vill það ekki þá þurfum við að fá pening fyrir hann. Það er eitt sem ég hugsa um áður en ég gagnrýni Heininga þegar hann axlaði Cole í undanúrslitum það var bara töff.

 11. Ari S skrifar:

  Við fengjum nú ekki mikinn pening fyrir Heitinga ef að væntanlegir kaupendur myndu lesa þessa síðu. Sennilega þyrftum við að borga MEÐ honum. Þvílík útreiðin sem hann fær hérna……. 😉

  Veit vel að hann er búinn að vera slakur og sennilega var hans slakasti leikur með Everton síðasti leikurinn hans. Við vitum að þetta er fínn leikmaður og var kosinn leikmaður ársins í fyrra hjá Everton, ekki gleyma því.

  Markmaðurinn er líka í vörn liðsins hann er síðasti varnarmaðurinn. Hann Á alltaf að reikna með því að leikmenn geri mistök því að ÞÁ á hann að vera tilbúinn og bjarga því sem hægt er að bjarga.

  Það gerði hann ekki í markinu sem að Benteke skoraði með Heitinga á bakinu. Heitinga, gerði mistök en ég er alls ekki að reyna að breiða YFIR þau hérna að ofan. Bara benda á að aðrir áttu sinn þátt í þessum mistökum líka.

  Svo er nú líka annar vinkill á þessu atviki, þetta var svæðið hans Distin. Af hverju var hann ekki þarna þar sem hann átti að vera? Kannski eru einu mistökin sem að Heitinga gerði þarna, var að hann var bara of seinn..? 😉

  Tim Howard hefði svo sannarlega mátt gera betur þarna, ég fer ekkert ofan af því. Við þurfum að gera ráð fyrir nýjum markmanni fljótlega finnst mér. Helst næsta sumar. Hann er búinn að eiga sinn þátt í mrögum mörkum sem viðhöfum fengið á okkur hingað til á þessu tímabili.

  Ég vil biðja ykkur um að taka þetta ekki OF alvarlega sem ég er að segja hérna. Ég er þó að meina allt sem ég segi kæru vinir og ég hef hvergi séð þetta skrifað á ensku þannig að þetta kemur einungis beint úr mínu höfði……. 🙂

 12. Elvar Örn skrifar:

  Já versta er að fá á sig þrjú mörk sem gerist orðið mjög sjaldan hjá okkur og það gegn Aston Villa á Goodison, það er nú bara rugl útaf fyrir sig.

  En hérna er skondið viðtal sem Wayne Rooney tekur við Osman og Baines fyrir landsleik Englendinga og Brasilíu.
  http://www.thestilescouncil.com/fatv/fatv-wayne-rooney-manchester-united-interviews-leighton-baines-and-leon-osman-everton/?

  Svo má Finnur fara að skella inn pósti fyrir Man Utd leikinn þó ekki sé nema til að tala meira um ágæti Heitinga 🙂

 13. Finnur skrifar:

  Gaman að linknum, Elvar. Takk fyrir hann. 🙂

  Jú, ég þarf að fara að skella inn pósti, þó ekki nema væri opnum umræðuþræði. Það er líka bunki af fréttum sem ég hef ekki farið yfir ennþá hvort eru þess virði að spjalla um þær. 🙂

 14. Finnur skrifar:

  Gjörðu svo vel, Elvar (og þið hin):
  http://everton.is/?p=3820
  🙂