Everton – West Brom 2-1

Mynd: Everton FC.

Algjörlega brilliant umferð að baki. Er hægt að biðja um meira en að liðin tvö fyrir ofan okkur OG liðin tvö fyrir neðan okkur geri jafntefli á meðan Everton landar um leið flottum 2-1 sigri á West Brom?

Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Jagielka (í hægri bakverði í fjarveru Coleman), Pienaar, Neville, Osman, Mirallas, Fellaini, Anichebe. Varamenn: Mucha, Gibson, Jelavic, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Gueye. Margir hefðu frekar viljað sjá Neville í hægri bakverðinum og Heitinga á miðjunni (svo Jagielka gæti tekið miðvörðinn) en á meðan Everton vinnur leikina kvartar maður ekki. Algjörlega frábært að sjá bæði Mirallas í byrjunarliðinu sem og lukkutröllið okkar, Gibson, á bekknum eftir langvarandi meiðsli. Jelavic loksins hvíldur. Réttilega að mínu mati — það hefur eiginlega verið ósanngjarnt gagnvart Anichebe að leyfa Jelavic að spila á kostnað Anichebe. Heitinga fékk séns í vörninni eftir hetjulega frammistöðu í bikarkeppninni.

Everton byrjaði leikinn ágætlega. Mirallas átti skot framhjá úr ágætu færi. Anichebe setti upp færi fyrir Fellaini sem brenndi af og Anichebe var næstum búinn að skora þegar hann fékk boltann í sig úr hreinsun varnarmanns West Brom en boltinn rétt yfir slána. Á heildina litið var Everton mun atkvæðameira, með boltann 63% samkvæmt BBC.

Fyrsta markið kom á 28. mínútu þegar Osman og Pienaar náðu vel saman og Osman gaf flotta sendingu upp völlinn á Baines, sem brunaði inn í teig, fékk tvo menn á sig en dúndraði boltanum á nærstöng framhjá Ben Foster í marki West Brom. 1-0. Everton komið yfir og það var fyllilega verðskuldað en West Brom átti bara eitt skot sem rataði á markið í öllum fyrri hálfleik á móti fjórum eða fimm frá Everton.

Seinna mark Everton kom rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Anichebe var klipptur niður í teignum af varamanni West Brom (sem var nýkominn inn á eftir að Thorne, leikmaður West Brom, hrundi niður eftir að hafa reynt að vera á undan Osman í bolta og fór út af meiddur á sjúkrabörum). Ekkert annað en víti, Baines öruggur í vítaspyrnunni að vanda, sendi markvörðinn í vitlaust horn og skaut lágt í hægra hornið. 2-0 fyrir Everton. Baines með annað mark sitt í leiknum (fyrsta skipti sem hann skorar tvö í leik, er mér sagt), annað mark sitt úr víti á tímabilinu og þannig var staðan í hálfleik (2-0). Baines er einfaldlega besti vinstri bakvörður í heimi. Þetta er ekkert flókið. Hann mætir ekki á æfingar með riffil og skýtur aðdáendur sína né sparkar í boltastráka. Hann bara vinnur sína vinnu af stakri prýði leik eftir leik eftir leik.

Það hefur verið Everton algjörlega fyrirmunað að halda hreinu í leikjum á tímabilinu og það fór svo í seinni hálfleik að West Brom næði marki. Lukaku fékk stungusendingu inn fyrir vörnina og náði að komast framhjá Howard en skotið á markið var arfaslakt. Heitinga, hins vegar, hetjan úr síðasta leik, ákvað að stoppa boltann (í stað þess að hreinsa frá) en ekki vill betur en svo en boltinn skoppar hærra upp en hann hefur líklega ætlað sér og Shane Long, sóknarmaður West Brom, laumast upp að honum og þakkar fyrir sig með því að skalla yfir hann í opið markið. Ég eiginlega vorkenni greyið Heitinga, sem var hálf-skömmustulegur, því hann hefur sýnt það í gegnum tíðina (sbr. lokin á síðasta tímabili) að hann er frábær þegar hann fær nokkra samfellda leiki í vörninni en hann bara nær ekki nógu mörgum leikjum í einu til að sýna það sem hann getur því Distin og Jagielka ná svo vel saman.

Gibson inn á fyrir Mirallas strax eftir markið. Mikið gleðiefni að sjá hann inn á aftur eftir langvarandi meiðsl og ekki að sjá að hann hefði verið nokkuð lengi í burtu. En eftir markið var aftur spenna í leiknum og Everton liðið virkaði ekki nógu traustvekjandi. Nokkuð um feilsendingar sem gáfu skyndisóknir hjá West Brom og einu sinni hefði getað illa farið þegar West Brom átti skot í tréverkið. Vörnin hélt þó og Everton átti sitt eigið skot í tréverkið (Pienaar í stöng) sem skapaði dauðafæri fyrir Osman í skotstöðu fyrir framan markið en hann hitti ekki á markið (!). Stundum finnst mér sem Moyes ætti að ráðleggja Pienaar og Osman að senda á ímyndaðan mótherja inni í markinu í stað þess að reyna skot, því þeir sýna oft meistaratakta í hárnákvæmum sendingum en hitta svo ekki á nánast opið markið úr skotstöðu. Hvað um það. Jelavic kom inn á fyrir Anichebe og var sprækur undir lokin en breytti ekki stöðunni. 2-1 sigur Everton í höfn.

Eitt stig í meistaradeildarsæti (Tottenham) eftir leikinn. Aston Villa heima næst.

NSNO valdi, mér til nokkurrar undrunar, Anichebe sem mann leiksins, þó Baines hafi skorað tvö mörk. Anichebe var fínn í leiknum en Baines á þennan skuldlaust. Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 9, Heitinga 6, Distin 7, Jagielka 6, Pienaar 9, Osman 7, Neville 6, Mirallas 5, Fellaini 6, Anichebe 8. Varamenn: Gibson og Jelavic fengu 6. Aðeins varamaðurinn Long (8), miðjumennirnir Thomas (7) og Dorrans (7) náðu yfir 6 í einkunn fyrir West Brom. Tveir fengu 5.

10 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja það hafðist.

 2. Ari G skrifar:

  Flottur fyrri hálfleikur. Baines maður leiksins. Hræðilegt markið sem Everton fékk á sig. Osman ótrúlegur klaufaskapur að skora ekki . Fyrsta markið var hreinasta snilld. Ótrúlegt að ekkert félag hefur boðið alvörutilboð í Baines.

 3. Einar G skrifar:

  Held nú alveg að Everton sé búið að fá fullt af alvöru boðum í Baines en þeir eru kannski ekkert að auglýsa það. En leikur kvöldsins var nokkuð góður. Fannst tengingin milli Baines og Peanut nokkuð góð og gaman að sjá Felli berjast eins og ljón. Mirralas er magnaður og bíð eftir að meira komi út úr honum. En mínusinn var að á köflum virtust okkar menn ekki alveg nenna þessu, mynnti á Liverpool gegn Oldham. Allt of mikið af mistökum til baka og greinilegt að Distin treystir Howard ekki alveg. Heitinga var mjög óheppinn að mínu mati, hann var allan tímann að bakka en samt sem áður var þetta allt honum að kenna, hann missti manninn þannig að Howard var þvingaður út úr markinu og var síðan seinn og alltaf að bakka. En þetta hafðist 🙂

 4. Orri skrifar:

  Sigurinn er aðalmálið. Það var allt annað sjá okkar menn í þessum leik en í leiknum á móti Southampton.

 5. Elvar Örn skrifar:

  Já ágætis leikur.
  Alveg skelfileg mistök hjá Heitinga, hann hreinlega gaf markið, en þess utan var hann reyndar frábær verð ég að segja.
  Vorum agalega nálægt því að skora þriðja markið fannst mér.
  Baines var geggjað góður, Pienaar var flottur og Anichebe var reyndar alveg fanta fínn í dag, barðist eins og ljón.
  Fellaini fannst mér líka fínn og Mirallas var kannski að reyna full mikið en djöfulli held ég að maðurinn sé góður þegar hann nær að komast í leikform. Ég held reyndar líka að ástand vallanna (hálir og mjög lausir í sér) um þessar mundir henti t.d. ekki Mirallas of vel en flott að sigra í dag.

  Það var einnig gaman að sjá að ekkert liðanna í kringum okkur vann svo þetta var góð umferð. Tottenham, Chelsea, Arsenal og Liverpool öll með jafntefli, já og WBA tapaði 🙂 .
  Þá er bara að flengja Aston Villa á Goodison um helgina áður en við kíkjum á Old Trafford til að endurtaka fyrri leik liðanna.

  Nú er bara um sólahringur að ég held í að leikmannaglugginn lokast og við gætum fengið að sjá ný andlit á morgun. Hvað segja menn um Alvaro Negredo og Odidja-Ofoe?

 6. AriS skrifar:

  Já ég var að lesa um Negredo og Ofoe. Lýst vel á að fá Ofoe.. veit ekki með hinn — þekki hann ekki….

  Okkar menn voru að standa sig vel í kvöld en þetta var erfitt og maður var smeykur í lokin en samt einhver ró yfir manni og liðinu þegar Gibson kom inná…. eða var þetta bara ég? Heitinga átti soldið í marki okkar og ég finn til með honum hann var að spila vel í kvöld fyrir utan þessi hræðilegu mistök.

  Ég segi eins og Orri … sigurinn og stigin þrjú er aðalmálið. Allt annað að sjá til liðsins í kvöld heldur en á móti Southampton…

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Veit svo sem ekkert um Ofoe annað en það sem Kompany sagði um hann sem var bara gott og Negredo er eða var í spænska landsliðinu.

 8. Halldór S Sig skrifar:

  Mér fannst Everton mjög solid í fyrri hálfleik og stjórnuðu leiknum vel. En svo í seinni hálfleik slökuðu þeir á (2-0 yfir) og hleyptu WBA mönnum inn í leikinn. En fyrir utan þetta klaufalega mark þá átti WBA enga stóra sénsa en þetta hleypti spennu í leikinn að fá markið á sig, sem maður hefði alveg verið til í að sleppa. Heitinga er að sýna batamerki og átti góðann leik fyrir utan þetta klúður, greykallinn. En í sambandi við þennann Southampton leik að þá var það fyrsti leikur með nýjann stjóra og þeir voru bara drullu erfiðir og þeir börðust eins og ljón allann leikinn og stemninginn í botni, mjög erfit að mæta svona liði og það á útivelli. Síðan voru þeir að spila í gær á móti Man.utd á old trafford og þeir voru alveg magnaðir, áttu t.d. 21 marktilraun á móti 11 held ég hjá Man.utd og ekki hægt að segja annað en þeir hafi verið mjög óheppnir.

 9. Finnur skrifar:

  Alvaro Negredo er enn bara á rumor stiginu en verð að viðurkenna að ég tek ég samt alltaf aðeins meira mark á sögusögnunum þegar BBC birtir fréttina:
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/21271211
  Klúbburinn hefur þó ekki staðfest að þeir séu á eftir honum.

  BBC segja að hann sé metinn á 13M punda en Seville sé í fjárhagsvandræðum og gæti mögulega selt hann fyrir minna. Einnig benda þeir á að hann hefur skorað 6 mörk í 12 landsleikjum fyrir Spán og 54 mörk í 122 deildarleikjum.

 10. Finnur skrifar:

  Baines var valinn í lið vikunnar að mati Goal:
  http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/01/31/3714004/premier-league-team-of-the-week-super-sub-adam-le-fondre

  Þetta er í sjöunda skipti sem hann er í liði vikunnar en enginn í liði vikunnar þessa vikuna allavega hefur náð þeim áfanga. Og nokkuð í næsta mann meira að segja því Bale og Rooney komast næst, með fjögur skipti samtals.