Everton vs. West Brom

Mynd: Everton FC.

Everton mætir West Brom á Goodison Park á morgun, kl. 19:45. Everton fær þarna ágætt tækifæri til að hefna ófaranna á útivelli gegn West Brom, sem unnu okkar menn 2-0 við upphaf tímabils, en West Brom voru þá (öfugt við núna) í fantaformi.

Everton hefur gengið mjög vel gegn WBA á heimavelli, bæði í gegnum tíðina og núna nýlega en hlutföllin frá upphafi eru 46:16:16 (S:J:T) eða rétt tæplega 60% sigrar Everton í 78 leikjum. Everton hefur aðeins tapað einum af síðustu 14 heimaleikjum gegn West Brom í öllum keppnum en það tap var í nóvember 2010/11 og þarf að fara aftur til október 1980 til að finna næsta tap þar á undan. Everton er í 5. sæti fyrir leikinn (með 38 stig eftir 23 leiki) en West Brom í 8. (með 34 stig eftir jafn marga leiki). Sigur gæti þýtt að við tækjum 4. sætið af Tottenham (á markatölu) ef Tottenham feilar annan leikinn í röð (þeir eiga að spila á útivelli gegn Norwich). Tap gæti þýtt að við missum Arsenal fram úr okkur.

Kevin Mirallas verður líklega fjarverandi eftir að hafa farið út af meiddur í síðasta leik og Moyes staðfesti að Seamus Coleman verður frá næstu vikurnar. Lítið heyrist af Tony Hibbert, en hann var hvergi nærri bekknum í síðasta leik. Spurningin er hvort Darron Gibson, sem mætti á völlinn í bikarleiknum, verði orðinn heill — mig grunar þó að hann missi af þessum en kannski láti sjá sig næst. Nýi leikmaður Everton, Leroy Fer, verður hins vegar ekki gjaldgengur í leiknum en tekur væntanlega hringinn í hálfleik við mikinn fögnuð stuðningsmanna. Uppfærsla: Hann kemur ekki (féll á læknisskoðun).

Moyes hefur nokkra möguleika í uppstillingunni: Ef Hibbert nær leiknum tekur hann væntanlega hægri bakvörðinn, Neville færist þá á miðjuna (nema Gibson sé orðinn heill — þá verður Hibbert á bekknum) og Fellaini þá í holuna. Einnig gæti verið að Naismith taki hægri kantinn og þá Anichebe á bekknum eða frammi með Jelavic. Distin gæti verið hvíldur fyrir laugardagsleikinn og því gæti Heitinga byrjað inn á.

Eins og ég segi, ýmsir möguleikar í stöðunni en líkleg uppstilling svipuð og í síðasta leik (fyrir utan Mirallas): Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Pienaar á vinstri, Naismith á hægri, Fellaini og Osman á miðjunni. Anichebe og Jelavic frammi. Hjá West Brom eru Marc-Antoine Fortune, Zolton Gera, Claudio Yacob, Shane Long og Steven Reid meiddir og Odemwingie líklega á leiðinni burt. Þeim hefur gengið afleitlega í janúar, duttu út úr FA bikarnum gegn QPR á dögunum, töpuðu fyrir Reading og Fulham (og United sömuleiðis í lok árs) og náðu aðeins stigi í heimaleik gegn Aston Villa, sem var þar með eina stigið þeirra í deildinni af 12 mögulegum. Everton er taplaust í janúar í öllum keppnum, með þrjá sigra og tvö jafntefli.

Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér. Spái 1-0 sigri, Anichebe með markið (sem yrði 400. mark Everton á heimavelli í öllum keppnum undir stjórn Moyes). Hver er ykkar spá?

Til gamans má geta þess að klúbburinn setti á netið tvö vídeó af nýlegum sigrum Everton á West Brom, fyrst 2-0 sigur árið 2008/09 og svo 2-0 sigurinn í heimaleiknum á síðasta tímabili.

5 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Howard

    Neville Jags Distin Baines

    Fellaini Osman

    Pienaar Anichebe Oviedo

    Jelavic

    Ég mundi vilja sjá þessa uppstillingu ég er hræddur við Lukuaku og þar af leiðandi gott að hafa Fellaini ofaní honum.

    1-0 Anichebe

  2. Finnur skrifar:

    The Times var að greina frá því að Peter Odemwingie fari ekki með hópnum til Goodison þar sem hann sé ekki með rétta hugarfarið og sé að bíða eftir almennilegu tilboði frá QPR svo WBA geti selt hann.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Alveg sammála með að Oviedo spili frekar en Naismith en auðvitað vilja menn alltaf sjá Baines og Pienaar saman en ég held samt að önnur lið hafi verið að lesa þá of vel í seinustu leikjum. Oviedo hefur komið skemmtilega á óvart og gaman að sjá hann spila heilan leik.
    Svo virðist Anichebe alltaf vera bestur þegar hann kemur inná en ég bara man varla eftir góðum leik hjá honum þegar hann byrjar inná.
    Finnst hafa vantað uppá breidd hjá okkur í seinustu leikjum og meiðsli nokkurra leikmanna gerir bekkin veikann fyrir vikið.
    Spurning líka að nota Heitinga sem varnarsinnaðan miðjumann.
    Veit ekki alveg hve Hitzlesberger (andsk… nenni ekki að tékka hvernig nafnið hans er skrifað) er sterkur fyrir liðið, en hann hefur þó átt nokkur góð skot að marki, vantar kannski bara sjálfstraust kallinum?

    Ég held reyndar að Gibson sé mikið mikilvægari klúbbnum en margir halda, það virðist vera mikið meira flæði og öryggi þegar hann er með heldur en án hans. Held að Moyse verði að fara að nota Neville bara í neyð á þessari leiktíð.

    Svo er ég enn svolítið pissed af hverju Barkley fær ekki séns t.d. í bikar eins og margir aðrir minni spámenn, en vona að hann standi sig vel hjá Leeds og komi beint í miðjuna hjá Everton í kjölfarið. Er ég einn svona spenntur fyrir þessum dreng?

    Sigur í kveld strákar og málið er dautt.

  4. Finnur skrifar:

    Anichebe hefur vissulega reynst frábærlega sem super söbb á tímabilinu, oft betur en þegar hann byrjar — einhverra hluta vegna. Af nýlegum leikjum sem hann byrjaði inn á stóð hann sig frábærlega á móti Cheltenham í bikarnum á dögunum, átti tvær stoðsendingar og svo þátt í öðru marki til viðbótar. Ingólfur Örn sagði í kommentakerfinu eftir leikinn að Anichebe hefði verið „eins og Iniesta í þessum leik“. 🙂

  5. Orri skrifar:

    4 sætið eftir kvöldið er algjörlega okkar höndum,af því gefnu að Tottenham tapi.Þv´kemur ekkert annað en 3-0 sigur til greina.