Cheltenham – Everton 1-5

Mynd: Everton FC.

Everton mætti í kvöld á heimavöll Cheltenham í 3. umferð FA bikarsins. Það var greinilegt á uppstillingunni að Moyes ætlar að taka FA bikarinn mjög alvarlega en hann gerði þrjár breytingar en stillti þó upp sterku liði. Pienaar fékk loksins hvíld eftir að hafa spilað meiddur í gott ef ekki síðustu tveimur leikjum, Naismith út af fyrir Anichebe og Heitinga missti sæti sitt í byrjunarliðinu fyrir Coleman (Jagielka þar með færður aftur í miðvörðinn, flestum til mikillar ánægju). Slúðrið fór við þetta náttúrulega á fullt með það að Heitinga væri á leið frá Everton. Sjáum hvað setur.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Oviedo á vinstri, Anichebe á hægri, Osman og Neville á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Moyes stokkaði þessu reyndar vel upp gegnum leikinn (eins og hann er vanur) til að finna hvað gengi best upp en um tíma var Fellaini djúpur og Anichebe og Oviedo skiptu stundum um kanta, svo fátt eitt sé nefnt. Bekkurinn: Mucha, Duffy, Gueye, Vellios, Barkley, Hitzlsperger og Naismith.

Byrjunin á leiknum var róleg og lítið að gerast fyrstu tíu mínúturnar, Cheltenham átti í fullu tré við Everton þó ekki væri mikið um færi og leikurinn ekki mikið fyrir augað. Á 12. mínútu fóru þó Everton menn í gang og eftir nett samspil Oviedo og Fellaini við jaðar vítateigs vinstra megin náði Fellaini skoti í fjærstöng og Jelavic, eins og hrægammur, var eldfljótur að hugsa, tók frákastið og potaði boltanum inn. 0-1 fyrir Everton. Ágætis byrjun. Jelavic að koma sterkur inn; mark í dag (sjöunda á tímabilinu) og svo stoðsending sem gaf sigurmarkið í síðasta leik.

Baines átti eina af sínum margfrægu aukaspyrnum rétt utan teigs sem hefði sungið í netinu ef ekki hefði verið fyrir meistaralega markvörslu Scott Brown, markverði Cheltenham. Það var greinilega sannleikskorn í því þegar þeir sögðu hann hafa staðið sig frábærlega á tímabilinu því án hans hefði sigurinn verið nokkuð stærri.

Cheltenham átti einhver hálf-færi en fyrsta skotið sem rataði á markið kom ekki fyrr en á u.þ.b. 17. mínútu. Skotið þó beint á Howard. Lítil hætta.

Á 21. mínútu átti Phil Neville langt innkast inn í teig Cheltenham og varnarmaður Cheltenham bókstaflega klifrar yfir Fellaini inni í teig. Víti og ekkert annað og Kevin Friend dómari sammála. Markvörðurinn giskaði á rétt horn en vítin frá Baines eru þau öruggustu í bransanum og því aldrei spurning með mark úr vítinu. 0-2 fyrir Everton.

Það var ljóst hvert í stefndi með þessu en þó Cheltenham næði ágætum takti og pressu það sem eftir lifði hálfleiks gerðu þeir sig ekki mjög líklega til að skora. 0-2 í hálfleik.

Osman bætti þriðja markinu við stuttu eftir að dómari flautaði til upphafs seinni hálfleiks en Osman átti flott samspil við Baines og Anichebe og lék svo á varnarmann og nánast gekk með boltann í átt að markverði og skoraði. „Þetta er eins og í æfingabolta“ sagði enski þulurinn, sem var kannski frekar hart til orða tekið, þó vissulega þyrfti Osman ekki að hafa mikið fyrir markinu. 0-3 fyrir Everton.

Cheltenham náði marki aðeins tveimur mínútum seinna (51. mínútu) sem gaf áhorfendum loksins eitthvað til að fagna sem var ágætt því þeir stóðu sig vel í leiknum þó niðurstaðan gæfi annað til kynna. Markið þeirra var líka sérlega glæsilegt og hefði sæmt hverju Úrvalsdeildarliði sem er, opnuðu vörnina snyrtilega með frábærri sendingu sem sendi Penn, leikmann Cheltenham, (sem almennt séð átti mjög góðan leik), inn einan á móti markverði og vel afgreitt hjá honum framhjá Howard á nærstönginni. Staðan 1-3. Maður gat nú ekki annað en klappað fyrir því marki. Fagmannlega að verki staðið.

Cheltenham héldu að hér væri þeirra séns kominn en Coleman drap þá von aðeins nokkrum mínútum síðar, fékk frábæra sendingu frá Anichebe inn fyrir vörnina, færði boltann nær marki með algjörlega frábærri fyrstu snertingu og vippaði hárfínt yfir markvörðinn sem kom hlaupandi. 1-4 fyrir Everton (sjá mynd).

Þar með var þetta algjörlega búið fyrir Cheltenham og leikurinn datt eiginlega niður við þetta, þó að Everton ætti eftir að bæta við fimmta markinu. Anichebe aftur með stoðsendingu — fyrirgjöf frá vinstri sem Fellaini potaði í netið (níunda mark hans á tímabilinu). 1-5 staðreynd og frábært að sjá Everton nýta færin svakalega vel. Everton liðið var í raun ekki að fá neitt meira af færum en þeir fá í venjulegum Úrvalsdeildarleik en nýtingin var einfaldlega frábær í leiknum. Nokkuð sem hefur sárlega skort í flestum leikjum á tímabilinu. Vonandi verður þessi leikur til þess að breyting verði þar á og Everton fari að nýta færin betur í deildinni.

Cheltenham geta gengið frá leik með höfuðið hátt. Það var ekki jafn langt á milli liðanna og sætafjöldinn í deild eða markatalan í leiknum gefur til kynna og þeir náðu að láta reyna á Howard allavega þrisvar sinnum, skv. talningu Sky Sports (10 skot á rammann hjá Everton). Ágætis stemming á leiknum og allir miðarnir seldust upp fyrir leikinn en tekjurnar af sjónvarpsútsendingunni ætti að vera þeim mikilvægur bónus. Stjóri þeirra getur nýtt tekjurnar úr leiknum til að fjárfesta í nýjum leikmönnum, sagði stjórnarformaðurinn fyrir leikinn. Everton komið áfram í næstu umferð eftir fína spilamennsku. Osman valinn maður leiksins.

Næsta umferð (fjórða) í FA bikarnum lítur svona út (deild innan sviga):

Norwich City (1) vs Luton Town (5)
Oldham Athletic (3) vs Liverpool (1)
Macclesfield Town (5) vs  Bournemouth (3)/Wigan (1)
Derby County (2) vs Blackburn Rovers (2)
Leyton Orient (3)/Hull City (2) vs Barnsley (2)
Middlesbrough (2) vs Aldershot Town (4)
Millwall (2) vs Aston Villa (1)
Birmingham (2)/Leeds United (2) vs Tottenham Hotspur (1)
Brighton & Hove Albion (2) vs Arsenal (1)/Swansea City (1)
Stoke City (1)/Crystal Palace (2) vs Manchester City (1)
Manchester United(1)/West Ham (1) vs Blackpool (2)/Fulham (1)
Brentford (3)/Southend United (4) vs Chelsea (1)
Reading (1) vs Sheffield United (3)
Huddersfield Town (2) vs Leicester City (2)
WBA (1) eða QPR (1) vs  Milton Keynes Dons (3)/Sheffield Wednesday (2)
Sunderland (1)/Bolton (2) vs Everton (1).

Af úrvalsdeildarliðunum eru Newcastle og Southampton þegar dottin út í þriðju umferð og ljóst að annaðhvort Arsenal eða Swansea, annaðhvort Man United eða West Ham og annaðhvort WBA eða QPR ljúka keppni eftir endurtekna leiki í þriðju umferð. Svo bætast Stoke, Man City og Fulham við þau Úrvalsdeildarlið sem detta mögulega út í fjórðu (og Sunderland skulum við vona) en hin Úrvalsdeildarlið fengu neðrideildarlið til að spila við, öll á útivelli nema Norwich og Reading. Þetta verður spennandi.

Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleikina. Hverjir stóðu upp úr að ykkar mati?

6 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Flottur sigur í höfn og Everton liðið einfaldlega mun sterkara. Engin þörf á ólöglegu marki með hendi svo að stjórinn slyppi við að svara erfiðum spurningum um það hvers vegna svo lítið hefði skilið að liðin í spilamennsku. 😉 Þetta var einfaldlega öruggt allan tímann.

 2. Ingólfur Örn skrifar:

  Anichebe var eins og Iniesta í þessum leik 😀 Gaman að sjá hvað hann virðist loksins vera að blómstra á þessu tímabili.

 3. Finnur skrifar:

  Ég spáði fyrir tímabilið að Anichebe myndi koma mest á óvart á tímabilinu, að við myndum fara sneypuför í League Cup (sem varð raunin) og að við myndum vinna FA Cup. Nú er bara að vona að ég hafi rétt fyrir mér þar líka. 😀

 4. Halli skrifar:

  Ef við förum í úrslitaleik á Wembley verðum við þar 😀

 5. Halli skrifar:

  Jæja þá er komið á hreint að við mætum Bolton á útivelli í næstu umferð er það ekki bara tilhlökkun kanski að Howard setjann aftur

 6. Finnur skrifar:

  Hmm… ég var nú eiginlega að vonast eftir Sunderland. :/ Alltaf miklu skemmtilegri leikir á móti þeim og þeir ekki unnið okkur í um 10 ár, ef mér skjöplast ekki… (des 2001 síðast).