Newcastle – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Ótrúlega fjörugur leikur að baki en afraksturinn þrjú stig í hendi. Þriðji sigurleikurinn í fjórum leikjum (með Fellaini mest megins í banni) og ekki hægt að biðja um meira en að taka 5. sætið af Arsenal, sem tókst ekki að sigra Southampton í gær. Aðeins tvö stig í Chelsea (sem töpuðu fyrir QPR í kvöld) og þrjú stig í Tottenham í þriðja sætinu. Ekki slæmt.

Það var sárt að tapa fyrir Chelsea í síðasta leik (sérstaklega í ljósi spilamennskunnar) en þessi umferð bætti fyrir það með mjög spennandi leik þar sem bæði lið hefðu getað landað sigrinum og hitt liðið hefði ekki getað kvartað. Everton liðið var hungrað eftir tapleikinn gegn Chelsea — og að ógleymdum tveimur stigum sem Newcastle stal af Everton á Goodison Park, sem var ekkert annað en rán um hábjartan dag! En þrátt fyrir hetjulega baráttu náði Newcastle ekki þeirri niðurstöðu sem þeir voru að vonast eftir og ekki var það sökum þess að hafa ekki skapað sér fjölmörg færi. Yfirleitt Everton í þeirri stöðu að ná ekki að klára færin, en við grátum ekki að vera á hinum endanum í þeirri jöfnu.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Jagielka (aftur í neyðar-hægri-bakverði). Osman og Neville á miðjunni. Pienaar á vinstri. Naismith á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Helstu fréttir frá Newcastle liðinu að Demba Ba var ekki með, en hann var að skrifa undir hjá Chelsea og um leið sjá þá tapa fyrir QPR. Gleðilegt að sjá ekki bara Fellaini aftur í liðinu heldur líka Neville, sem er kærkomið í fjarveru Gibson. Það var unun að sjá Fellaini aftur taka hvern boltann á fætur öðrum á kassann og niður og koma honum í leik, sem og Pienaar sem virðist alltaf geta skilað af sér klassasendingu, jafnvel þó hann sé á leiðinni í jörðina eftir að andstæðingurinn er búinn að djöflast í honum.

Newcastle fékk óskabyrjun í leiknum þegar þeir tóku aukaspyrnu á annarri mínútu á eigin vallarhelmingi (Jelavic hafði verið dæmdur rangstæður enn og aftur). Markvörður þeirra bombaði boltanum fram á við og Heitinga (með Distin sér við hlið og sóknarmann í sér) hitti ekki boltann þegar hann reyndi að skalla frá. Boltinn skoppaði inn í vítateig þar sem „litli Demba“ (Papiss Cisse) var mættur á hárréttum stað, einn á móti markverði og skallaði boltann yfir Howard, sem hljóp fyrst á móti honum en hætti svo við þegar hann sá hvert í stefndi. 1-0 Newcastle og leikurinn varla byrjaður. Stoðsending hjá markverði Newcastle. Er þetta ekki dæmigert fyrir heppni Everton á tímabilinu?

Og það var eins og Everton liðið væri ekki komið almennilega í gang því Newcastle fékk strax færi aftur, stuttu síðar en Cisse náði ekki að bæta við. Felli átti skot sem var varið en svo var Everton liðið stálheppið að fá ekki á sig mark á 29. mínútu þegar James Perch hjá Newcastle skallaði í stöng eftir aukaspyrnu. Pienaar hefði getað jafnað á hinum endanum en Krul bjargaði Newcastle. Cisse vildi fá vítaspyrnu stuttu síðar fyrir að kasta sér á Neville. Hefði ekki verið vítaspyrna þó Manchester City hefði beðið um hana. Á heimavelli.

Leikurinn var annars almennt séð nokkuð opinn og skemmtilegur og nóg af færum, þó Newcastle hefði forskotið í fjölda færa (enda á heimavelli). Það var ekki að sjá að þeir væru í vandræðum með að ná sér í stig, miðað við spilamennskuna í kvöld. En bæði lið fengu nóg af færum, svo mikið að ég á eiginlega í vandræðum með að telja þau öll upp.

Baines var þó atkvæðamikill í leiknum en Tim Krul varði vel frá honum tvisvar í leiknum (einu sinni úr aukaspyrnu) áður en Baines skoraði jöfnunarmarkið á 43. mínútu eftir að Fellaini fiskaði aukaspyrnu (sem ég get ekki séð að hafi verið aukaspyrna) nokkuð utan teigs. Baines, sem venjulega lyftir boltanum yfir vegginn í nærhornið, ákvað nú að breyta til og negla bara í fjærhornið, framhjá veggnum. Þvílík aukaspyrna sem hann tók af löngu færi og boltinn söng í netinu. 1-1, rétt fyrir hálfleik. Mark umferðinnar og mjög líklega mark mánaðarins hjá Everton.

Newcastle var næstum komið yfir aftur en Ameobi skaut rétt framhjá stönginni. Átti að gera betur þar.

Á 59. mínútu kom svo það sem reyndist sigurmark Everton þegar Jelavic fékk sendingu frá Fellaini og geystist upp vinstri kantinn, lék á varnarmann Newcastle og sendi frábæra sendingu fyrir markið þar sem Anichebe, supersöbbinn okkar enn á ný — í sinni fyrstu snertingu (nýkominn inn á) — setti boltann í netið. 1-2 Everton. Annað árið í röð skorar Anichebe sigurmarkið á útivelli í fyrsta leik okkar á nýju ári (síðast gegn West Brom).

Cisse fékk tvö tækifæri í sömu sókninni á 69. mínútu til að jafna, fyrst skalli beint í hausinn á Heitinga og svo skotið úr frákastinu beint á Howard.

Fellaini var ekki langt frá því að skora þegar hann náði óvænt að vippa yfir Krul í markinu en Krul reddaði því (í horn, að mig minnir). 6 mínútum bætt við. Þetta var svo rausnarlegt við heimaliðið að maður hélt maður væri bara kominn á Old Trafford? En ekki náðu Newcastle menn að nýta sér það.

Ef færin eru talin höfðu Newcastle yfirhöndina en, líkt og heima á móti Chelsea er það nýtingin sem skiptir öllu máli. Þrjú stig á útivelli sem reynist Everton yfirleitt erfiður. Grátum það ekki. Everton hefur nú skorað í 18 deildarleikjum í röð og hefur skorað í öllum leikjum tímabilsins í öllum keppnum að einum leik undanskildum (West Brom úti í deild). Öllu verra er að Everton hefur einnig fengið mark á sig í 16 leikjum í röð, en á meðan liðið er í og við Champions League sæti þá kvartar maður ekki mikið yfir því. Loksins sigur á hvað-sem-þeir-kalla-leikvanginn-í-dag vellinum. Coleman og Mirallas væntanlega klárir í næsta leik, heima gegn Swansea.

Bluekipper benti á það að stjóri Newcastle, Alan Pardew, hefði bent á það í fyrra (þegar Newcastle var að berjast um Champions League sæti) að Newcastle væru að spila í annarri deild en Everton og ef þeir halda áfram á sömu braut í ár væri aldrei að vita nema þeir myndu enda í annarri deild, eftir allt saman! 🙂 Get ekki annað en sagt að þetta sé verðskuldað eftir að hafa horft upp á strikamerktu drengina (með eigin augum) stela stigi með glæpsamlegum hætti á Goodison Park fyrr á tímabilinu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 8, Distin 7, Heitinga 7, Jagielka 6, Pienaar 8, Neville 6, Osman 6, Naismith 6, Fellaini 7, Jelavic 7. Varamenn: Oviedo 7, Anichebe 8. Newcastle voru með þrjár sjöur (markvörðurinn Krul, markaskorarinn Cisse og Obertan), fimm með sexur og þrír með fimmur.

8 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Það var ekki bara Demba Ba sem skipti um lið í dag. Daniel Sturridge gerði það líka (til Liverpool). Það á vissulega eftir að koma í ljós hversu vel Sturridge nýtist þeim en sagan hingað til segir okkur að Sturridge er með 26 mörk í 96 leikjum á ferlinum — 0,27 mörk í leik að meðaltali. Aðeins einu sinni hefur hann náð tveggja stafa markatölu á einu tímabili (11 mörk í 30 leikjum).

  En það athyglisverðasta er að Liverpool borguðu 12M punda (!) þegar Demba Ba var á lausu fyrir 7M (!!). Til samanburðar er Demba Ba með 103 mörk í 201 leikjum á ferlinum — þar af 36 mörk í 66 leikjum í ensku (55%).

  Eru enn sömu menn að stjórna leikmannakaupum Liverpool og þegar Andy Christmas-Carroll var keyptur??

 2. marinó skrifar:

  Mig er allvega sléttsama hver skorar fyrir liverpool 🙂 þeir meiga fá messi min vegna eingin fer frammhja hibbo 🙂

 3. Ingólfur Örn skrifar:

  Langt síðan manni hefur liðið svona vel um jól hvað Everton varðar, það er snilld. Mér fannst liðið spila ágætlega í gær, sérstaklega í fyrri hálfleik.

  Stutt um janúar gluggann:

  Vörnin er mikið áhyggjuefni. Við ráðum illa við háa bolta og fáum oft á okkur aulaleg mörk, t.d. markið heima gegn Wigan og bæði mörkin gegn Chelsea. Mörk sem væri auðveldlega hægt að koma í veg fyrir. Ég er mikill aðdáandi hans, en ef það kemur tilboð í Heitinga í janúar má selja hann mín vegna og fá Vegard Forren inn í staðinn eða Lescott á láni.

  Hvað framherjastöðuna varðar, þá væri ég til í að sjá Hourau koma á láni ef það er möguleiki. Jelavic þarf einhvern til að anda ofan í hálsmálið á sér til að halda honum heitum. Moyes virðist vera mjög tregur að starta Anichebe einum frammi – hvað þá Vellios.

  Að mínu mati mætti bæta við miðjumanni. Vadis Odjidja Ofoe átti að koma í ágúst og hann virðist vera svona „powehouse“ týpa. Hef lesið á einhverjum spjallborðum að lánssamningur út tímabilið með möguleika á varanlegum samningi, sé í kortunum. Það er auðvitað spurning hvort hann sé nógu góður til að spila strax, en hann gæfi þó allavega nauðsynlega breidd á miðsvæðið, þar sem Gibson virðist gjarn á meiðsl.

  Síðast en ekki síst, þarf að endurskoða markmannsstöðuna. Þetta verður þó ekki gert fyrr en í sumar. Howard verður að hafa mann sem Moyes treystir til að spila þegar Howard stendur sig ekki. Æ oftar erum við að sjá hann gera furðuleg mistök sem kosta mörk eða færi. Jack Butland er möguleiki, en hann virðist eftirsóttur og mun þar að auki kosta tæplega 10m – ólíklegur kostur.

 4. Finnur skrifar:

  Mjög góðir punktar, Ingólfur. Sammála.

  En að öðru: Baines í liði vikunnar hjá Goal:
  http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/01/03/3644144/premier-league-team-of-the-week-manchester-united-striking

 5. Ari G skrifar:

  Flottur leikur. Samt skil ég ekki af hverju Phil Nevil spilaði ekki sem hægri bakvörður og Heitinga sem aftasti miðjumaður finnst ekki sniðugt að breyta vörninni svona. Mark Baines var hreinasta snilld það eru ekki margir hægri bakverðir betri en hann í heiminum allavega man ég ekki eftir neinum. Anichebe er einstakur markheppinn eina sem mætti gagnrýna hann að vera duglegri það má Jelavic eiga hann er að vinna mikið og hleypur mikið en hann mætti nýta tækifærin betur.

 6. Finnur skrifar:

  Baines er reyndar *vinstri* bakvörður, en rétt hjá þér samt — það eru heldur ekki margir hægri bakverðir sem standast honum snúning. 🙂

 7. Ásgeir Þorvaldsson skrifar:

  Mér líkar við flest af því sem kemur fram hér oð ofan. Mér finnst samt Naismith of oft í byrjunarliðinu, Anichebe er betri leikmaður og þarf fleiri sénsa í byrjunarliðinu.. Ef við fengum mann í líkingu viðBains hægra megin standa fá lið gegn okkar mönnum. Ég er þeirrar soðunar að Bains sé besti vinstri bakvörður í Englandi og þó víðar væri leitað Gleðilegt ár allir sem eru Everton menn.