Everton vs. Chelsea

Mynd: Everton FC.

Á morgun (lau) kl. 13:30 mætir lið Chelsea, stundum kallaðir Gazprom drengirnir, á Goodison Park í 20. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar, sem verður síðasti leikur Everton á árinu. Chelsea eru fyrir leikinn í 4. sæti með 35 stig eftir 18 leiki en Everton í því 6. með 33 (eftir 19 leiki). Með sigri getur Everton því komist upp fyrir bæði Chelsea (á stigum) og Tottenham (á markatölu), en þeir síðarnefndu eru í 3. sæti.

Chelsea hefur gengið illa á Goodison Park í gegnum tíðina, aðeins unnið 18 af 80 leikjum en Everton vinnur jafnan um helming þessara leikja. Everton hefur aðeins tapað tveimur leikjum af u.þ.b. 30 á heimavelli í deildinni (síðasta tapið var gegn Arsenal í mars 2012 og var óverðskuldað) en gegn Chelsea hefur Everton unnið síðustu þrjá og ekki tapað fyrir þeim á heimavelli síðan í apríl 2008 (þá 0-1) en þá voru þeir í miklum slag um Englandsmeistaratitilinn við Man United. Síðasti heimaleikur Everton við þá vannst 2-0 á mörkum frá Pienaar og Stracqualursi en André Villa-Boas, þáverandi stjóri þeirra, var rekinn eftir þann leik. Chelsea eru að finna sitt gamla form aftur undir enn einum nýja stjóranum, Rafael Benitez (fyrrum stjóra litla bróður Everton), en Chelsea hafa unnið 6 af síðustu 7 leikjum í öllum keppnum undir hans — væntanlega tímabundinni — stjórn, virðast hafa náð að þétta vörnina vel og eru enn mjög beittir í sóknarleiknum. Þeir hafa þó verið að spila við lið við miðju eða botn deildar undanfarið en ekki lið í efri hluta deildar.

Everton, aftur á móti, hefur ekki fengið jafn mörg stig (68) á einu ári síðan Everton vann deildarmeistaratitilinn árið 1987 en til gamans má geta að Chelsea endaði það árið í 14. sæti og féllu niður um deild árið þar á eftir.

Þetta er síðasti leikur Fellaini í banni (í bili allavega) og er þar stórt skarð fyrir skildi, þó að Everton liðinu hafi gengið mjög vel án hans (2 sigrar og eitt jafntefli). Gibson verður ekki í banni í leiknum en óvíst hvort hann verði heill eftir að hafa verið kippt út af í hálfleik í sigurleiknum gegn Wigan. Ég ætla að skjóta á að hvorki hann né Coleman (og náttúrulega Mirallas og Hibbert) verði klárir í leikinn og því uppstillingin svona: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Á miðjunni Osman og Hitzlsperger. Pienaar á vinstri og Naismith á hægri. Jelavic og Anichebe frammi. Ef Coleman nær leiknum gæti verið að Neville taki stöðu Hitzlsperger.

Hjá Chelsea hefur Ramirez verið tæpur en gæti spilað. John Terry, Ryan Bertrand og Oriol Romeu eru þó meiddur en Daniel Sturridge verður jafnframt líklega ekki með þar sem hann er sagður á leiðinni í minna lið.

Everton hefur skorað í síðustu 16 síðustu deildarleikjum í röð, sem er mesti fjöldi leikja nokkurra liða á núverandi tímabili í Úrvalsdeildinni. Sama gildir þó á hinum endanum því Everton hefur fengið á sig mark í 14 leikjum í röð. Í því ljósi (og því að leikir þessa liða eru yfirleitt í járnum) ætla ég að spá 2-2 jafntefli. Anichebe með fyrsta og svo Pienaar með annað, sem yrði þá 400. mark Everton undir stjórn David Moyes. Þetta er enn ein prófraunin fyrir fjórða sætið og þó Everton hafi hingað til náð mjög góðum árangri gegn efstu liðnum (taplausir eftir sigur á United og Tottenham, og jafntefli á móti Arsenal heima og City úti) þá á ég mjög erfitt með að spá sigri okkar manna þar sem nokkuð margir eru frá og Chelsea menn mjög heitir þessa stundina. Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér.

Þess má til gamans geta að það tók Dixie Dean aðeins 27 mínútur að skora 5 mörk gegn Chelsea í nóvember 1931, þar af þrjú skallamörk á 10 mínútum sem stóð sem met í enska boltanum þangað til leikmaður Huddersfield sló það árið 2009.

Í öðrum fréttum er það helst að janúar-glugginn nálgast óðfluga og Moyes hefur sagt að ekki sé stefnan að selja en ekki sé heldur stefnan að kaupa en slúðursögurnar segja að Baines sé á leiðinni burtu (sem er fastafrétt í hverjum glugga) en nú er líka talað um að Heitinga sé að hugsa sér að fara annað. Sú frétt þykir mér öllu líklegri því hann hefur ekki fengið marga sénsa á tímabilinu og ekki nýtt vel þá sénsa sem hann hefur fengið á tímabilinu. Líklega þó allt saman bara hugarórar blaðamanna, eins og venjulega.

Koma svo Everton! Ljúka þessu frábæra ári með glæsilegri frammistöðu! Leikurinn er í beinni á Ölveri. Sjáumst!

4 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Daily Mail var að velja „Everpool“ liðið (samsuða úr bestu leikmönnum tímabilsins frá Merseyside). Liðið er: Howard, Baines, Jagielka, Agger, Johnson, Gibson, Osman, Gerrard, Fellaini, Jelavic og Suarez.

  2. Orri skrifar:

    Ég á því að við höldum bara okkar striki í dag,og vinnum leikinn 3-1.Við ljúkum árinu með stæll,það er líka metnaður hjá liðinu að 10 starfsári Moyes endi á sigri.

  3. Halli skrifar:

    1-1 Naismith þetta eru of líkleg úrslit

  4. Elvar Örn skrifar:

    Góður leikur en ömurleg úrslit. Vorum í heild betra liðið og hefðum átt að komast í 3-0 í fyrri hálfleik. Ég skil ekki af hverju Moyse notar Heiginga í miðaverði í stað Jagielka. Svo er Hitzlesberger bara með samning til áramóta, myndi vilja sjá framlengingu á þeim samningi. Barkley gerði lítið þessari 13mín sem hann fékk en af hverju ekki að leyfa honum að byrja leik? Skilst reyndar að Moyse hafi valið Hitzlesberger í seinustu leikjum til að meta hvort hann fái framlengingu á samningnum. Ekki mikið hægt að sakast út í spilamennskuna né einstaka leikmenn.
    Greinilegt á uppstillingu liðsins að við erum með of mikil meiðsli þessa dagana.
    Hefði verið gaman að sjá Jagielka í sinni stöðu með Coleman í hægri bakverði og Fellaini og Gibson á miðjunni og Mirallas á kantinum, hmmm.
    Nú er bara að sigra í næsta leik.