Stoke – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Alltaf er maður feginn þegar útileiknum við Stoke lýkur því þessir leikir eru yfirleitt hundleiðinlegir. Ég ber ekki kala til þessa Stoke liðs, þó margir séu ósáttir við þeirra aðferðir til að næla sér í stig, en þeir eru þekktir fyrir að vera með þunga hávaxna turna um víðan völl og nýta sér hvert innkast, horn og aukaspyrnu — og jafnvel útspark — til að skalla boltann í netið. Það er ágætt að sjá liðin fara mismunandi leiðir að markmiði sínu og þeim hefur gengið ágætlega hingað til (í efri hluta deildar, sem er meira en sumir sem gefa sig út fyrir að vera léttleikandi sóknarlið), en það þýðir þó ekki endilega að maður hafi gaman af því að horfa á slíka leiki — því leikir Everton við Stoke eru eiginlega aldrei skemmtilegir, ekki síðari tíma leikir allavega. Stoke liðið virðist þó vera að fikra sig í átt að meiri léttleikandi bolta því þeir virtust reyna meira að spila boltanum sín á milli en mig minnir að hafi verið raunin oft áður. Flæðið í leiknum var þó almennt séð mjög lélegt miðað við venjulega.

Fyrri hálfleikur var ágætur svo sem. Stoke liðið var eiginlega betra liðið í fyrri hálfleik þó Everton væri meira með boltann, sýndu mun meiri sóknartilburði og ættu tvö hættulegustu færin í hálfleiknum sem nýttust ekki, Lítið að gerast í sókninni hjá Stoke.  Everton átti að fá víti snemma í leiknum þegar Pienaar átti skot sem varnarmaður fékk í hendina. West Ham fékk víti fyrir _nákvæmlega_ eins brot um síðustu helgi en vafaatriðið núna féll andstæðingum Everton í vil. Ekkert nýtt þar svo sem.

Jelavic og Naismith komust inn fyrir vörn Stoke á 30. mínútu og Jelavic (sem var nær) hitti ekki boltann en Naismith náði skoti yfir markvörð Stoke en Shawcross bjargaði á línu. Stoke áttu skalla úr horni stuttu áður en skallinn slakur, beint á Howard, sem betur fer.

Mark Everton kom á 36. mínútu þegar Pienaar reyndi að senda inn í teig Stoke og Shawcross, varnarmaður Stoke og hetja Stoke sem bjargaði á línu, framlengdi boltann glæsilega yfir eigin markvörð, algjörlega óverjandi. 0-1 fyrir Everton og hvaða sóknarmaður sem er hefði verið stoltur af því marki.

Osman fékk frábært tækifæri til að bæta við marki þegar Baines komst inn fyrir vörnina og gaf sendingu út í teiginn. Osman einn og óvaldaður, þurfti nánast bara að hitta á markið en skotið arfaslakt og framhjá. Moyes brjálaður á hliðarlínunni.

Hér hefði staðan geta verið 1-4 (víti, Naismith, sjálfsmark, Osman) en Everton farið illa með færin. Hvað tölfræðina varðar þá var ákveðið jafnræði með liðum í fyrri hálfleik (skot, skot sem rötuðu á mark, spjöld og svo framvegis) og aðeins brotafjöldi Stoke sem munaði og bitið í sóknarleiknum (Everton í vil).

Stoke óx ásmegin í seinni hálfleik og voru mun meira með boltann. Fengu fleiri færi en Everton en náðu ekki að nýta sér það. Mark þeirra kom á 51. mínútu upp úr nánast engu að því er virtist. Stoke menn með boltann við miðju, þruma honum fram þar sem Jones, sóknarmaður Stoke, stekkur upp og skallar boltann alveg við stöngina og í netið. Jagielka sofandi á verðinum (stekkur ekki einu sinni upp) og Howard sofandi líka. Howard var ekki langt frá boltanum þegar skallaboltinn kemur en það var eins og hann væri hræddur við að rekast á stöngina og þorði ekki að verja. Týpískt. Allir sóknartilburðir Everton í fyrri hálfleik orðnir að engu í seinni hálfleik.

Sami sóknarmaður Stoke komst inn fyrir vörn Everton stuttu síðar og nær að lyfta boltanum framhjá Howard en setur hann fyrir sig með hendi og hittir svo í hliðarnetið. Lítið um góð færi í seinni hálfleik og Stoke hélt áfram að vera betra liðið með fleiri færi. Ekkert þó jafn gott og færin sem Everton fékk í fyrri hálfleik.

Everton liðið lék verulega undir getu miðað við undanfarna leiki og minn maður Fellaini þar fremstur í flokki, var arfaslakur. Lang-lélegasti leikur hans í mjög langan tíma. Ég hef vissa samúð með honum því leikmenn Stoke fengu að hanga í honum (einn náðist á mynd með hann í fanginu) en það er alveg sama þó þeir togi, klípi í hann og stígi á ristina á honum, hann má ekki láta það fara svona í skapið á sér. Fellaini hefði átt að fá rautt í leiknum þegar upp úr sauð og hann rak hárkolluna framan í varnarmann Stoke. Ef ég hefði verið í sporum Moyes-ar hefði ég skipt Fellaini út af. Hann lét greinilega skapið hlaupa með sig í gönur og verðlaunin (fyrir að vera leikmaður nóvembermánaðar) stíga sér til höfuðs.

En það eru ekki mörg lið sem mæta á Brittania leikvöll Stoke City og fara með stig og skora mark (aðeins Man City hafa leikið það eftir) þannig að maður getur verið sáttur við útkomuna, sérstaklega miðað við hvernig seinni hálfleikur þróaðist. En þetta blessaða Everton lið verður að fara að klára leikinn í fyrri hálfleik. Þetta er ekki hægt.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 6, Jagielka 7, Coleman 6, Pienaar 7, Osman 6, Gibson 6, Naismith 6, Fellaini 5, Jelavic 7. Barkley kom inn á fyrir Naismith og fékk 6. Einkunnin sem Fellaini fékk fannst mér jafnvel full rífleg. Mjög vonsvikinn með hans leik í dag.

12 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Hundleiðinlegur leikur. Sanngjörn úrslit. Osman má ekki klúðra svona færi aftur. Fellaini var sér til skammar að skalla leikmanninn. Kannski væri best að selja Fellaini í sumar ef það fæst gott verð fyrir hann t.d. 40 millur hann fer hvort sem er einhvern tímann betra að selja hann þegar verðið er í toppi. Finnst að Everton ætti að reyna að kaupa Ba t.d. 8 millur og leigja eða kaupa Lescott 8-10 millur til að stækka hópinn.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Týpískt!!! Hvernig var Barkley??

  3. Ari G skrifar:

    Hann kom svo seint inná ekkert að marka það. Hann þarf meiri tíma til að sýna sitt.

  4. Gestur skrifar:

    afhverju skipti Moyes Fellaini útaf fyrst hann var svona lélegur?
    Bekkurinn var ágætur í gær og hægt að gera breytingar.
    Sammála því að selja Fellaini í sumar og stækka hópinn með
    2-3 leikmönnum.

    • Gestur skrifar:

      átti að vera: afhverju skipti Moyes Fellaini EKKI útaf…….

  5. Halli skrifar:

    Seinni hálfleikurinn er einhver slakasti hálfleikur sem ég hef séð Everton spila það var nánast enginn leikmaður á pari. Þetta mark sem við fáum á okkur á ekki að sjást eftir 5 flokk og það er alvg ljóst að liðið verður ekki í baráttu um evrópusæti með svona spilmennsku

  6. Halli skrifar:

    Hvað finnst mönnum um þessi atvik hja Fellaini um helgina

  7. Finnur skrifar:

    Greining Executioner’s Bong á leiknum:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/12/16/tactical-deconstruction-stoke-1-1-everton/

    Lið tímabilsins hingað til hjá Goal.com inniheldur tvo Everton leikmenn (Jagielka og Fellaini).
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/12/17/3600011/premier-league-team-of-the-season-so-far
    Aðeins Man United nær jafn mörgum inn, önnur lið með einn, flest náttúrulega með engan.

    Halli: Ég er stundum ekki viss hvort ég er að horfa á rúgbíleik eða fótboltaleik þegar Stoke spilar, Shawcross þar einna fremstur í flokki. En það er sama — þetta var náttúrulega bara kjánalegt. Andstæðingurinn notar það sem virkar og það virkar greinilega mjög vel að stoppa Fellaini með því að beita hann bolabrögðum og fá hann til að pirrast (eins og Executioner’s Bong kom inn á). Afsakar ekki það sem hann gerði. Hann á að vera yfir þetta hafinn.

    Ari: Demba Ba er falur fyrir 7 milljónir en Ba hefur mestan áhuga á að fara til Arsenal.

  8. Halldór S Sig skrifar:

    Mér finnst að við ættum ekki að grafa hann lifandi fyrir eitt svona atvik, en vissulega er þetta alvarlegt. Ef við horfum til baka þegar hann kom til Everton var hann mun meiri vandræða pési, safnaði gulum og rauðum kortum eins og fótboltamyndum og var alltaf í banni. Það hefur nefninlega ræst mjög vel úr honum, kann sig yfirleitt mjög vel inná vellinu og er ekki að fá heimskuleg spjöld lengur og það eru til mun meiri þrasarar en hann og svo er hann orðinn einn besti miðjumaður evrópu. Ég veit að hann sér mikið eftir þessu og það á að standa við bakið á honum en hann á samt skilið 3-4 leiki í bann. Mér finnst ekkert skrítið að hann snappar, það var oft í leiknum sem honum var haldið nyðri með báðum höndum, ýtt og sparkað í hann og dómararnir sjá þetta aldrei. Alveg greinilega skipun fyrir leikinn, og það finnst mér mjög alvarlegur hlutur. Og þetta er ekki fyrsti leikurinn sem þetta er gert. Fellaini kemst t.d. aldrei með tærnar þar sem Suarez er með hælana í óheiðarleika, þó fótstór sé. Sjáum allavega til með að selja hann þangað til tímabilið er búið, ef við náum 4 sætinu þá vill hann pottþétt vera áfram sem væri gott því hann er frábær leikmaður 🙂

  9. Finnur skrifar:

    Mikið rétt.

  10. Halli skrifar:

    Staðfest 3 leikja bann yfir Fellaini

  11. Finnur skrifar:

    Jamm, sjá: http://everton.is/?p=3358