Everton – Tottenham 2-1

Mynd: Everton FC.

Tvær breytingar á liðinu. Mirallas loksins kominn aftur úr meiðslum, inn á fyrir Naismith og Coleman inn fyrir Hibbert. Kannski hálf harkalegt gagnvart Naismith þar sem sá síðarnefndi var búinn að standa sig ágætlega í fjarveru Mirallas og skora 3 mörk í fimm leikjum fyrir ekki svo löngu síðan. Uppstillingin: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Coleman. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri. Osman og Gibson á miðjunni og Fellaini fyrir aftan Jelavic.

Leikurinn byrjaði líflega, Tottenham nokkuð meira með boltann en náðu lítið að gera með hann. Vörn Everton vel á verði og braut niður allt sem kom nálægt vítateig. Einu skot Tottenham í fyrri hálfleik (sem ég man eftir) voru tvö skot af löngu færi, annað úr aukaspyrnu.

Sama var ekki uppi á teningnum hjá Everton sem var sínu hættulegra með boltann og alltaf að banka á dyrnar hjá Lloris, markverði Tottenham. Coleman og Mirallas voru sérlega líflegir á hægri kanti, Coleman þindarlaus í hlaupunum fram og til baka og átti nokkrar fyrirgjafir fyrir markið.

Strax á fyrstu mínútu leiksins komst Osman í ákjósanlegt færi inni í teig en skotið blokkerað.

Dembele átti skot á 7. mínútu af mjög löngu færi en Howard varði þetta fyrsta framlag Tottenham í leiknum. Coleman átti aðeins um mínútu síðar frábæra tæklingu inni í teig sem stöðvaði færi hjá Tottenham. Tottenham fengu svo aukaspyrnu á 15. mínútu og tóku skotið af löngu færi en varið auðveldlega. Þar með voru skot Tottenham í fyrri hálfleik upptalin ef mér skjöplast ekki.

Mirallas átti fyrirgjöf á 17. mínútu innan úr teig hægra megin en Tottenham björguðu í horn. Spurning hvort Jelavic hefði náð honum því sendingin var aðeins fyrir aftan hann. Mirallas var auk þess oft nálægt því að stela boltanum af miðjumönnum Tottenham sem sváfu stundum á verðinum en náðu þó að redda sér fyrir horn.

Everton sífellt að banka en vantaði bara herslumun að komast í dauðafæri. Tveir leikmenn Tottenham fengu gult á tveggja mínútna kafla, Defoe fyrir að tefja í aukaspyrnu á 34. mínútu og Vertonghen á 35. mínútu fyrir að klippa niður Coleman á sprettinum í sókn.

Á 38. mínútu áttu Baines, Fellaini, Pienaar og Osman nokkra einfalda „þríhyrninga“ sín á milli sem leiddi til þess að Osman var kominn inn fyrir vörnina en skotið framhjá marki.

Baines fékk gult á 41. fyrir að vera of seinn í tæklingu og taka niður Lennon á sprettinum.

Rétt fyrir hálfleik vildu Everton menn fá tvær vítaspyrnur, fyrst á 43. mínútu þegar boltinn virtist fara í hendina á Dempsey og aftur á 44. þegar Gallas virtist verja skot frá Pienaar með hendi. Endursýningar sýndu að fyrra atvikið var ekki hendi (boltinn í öxl) en seinna atvikið sá ég ekki betur en að væri víti.

Rétt í blálokin átti Osman skot í ákjósanlegu færi en varið í horn. Góð pressa í lokin á Tottenham liðið og glundroði í teignum þeirra en ekki tókst Everton að nýta sér það og fyrri hálfleikur endaði því markalaus.

Hvorugur markvörður hafði þurft að taka á honum stóra sínum í fyrri hálfleik, varnirnar héldu og maður hafði það á tilfinningunni að það þyrfti einhver mistök eða stórkostlega heppni til að annað hvort liðið næði að brjóta ísinn.

Naismith kom inn á í hálfleik sem varúðarráðstöfun því Mirallas fannst hann ekki alveg 100% og Everton saknaði hans mikið í seinni hálfleik því hann hafði verði mjög líflegur í fyrri hálfleik.

Everton byrjaði þó seinni hálfleik af nokkrum krafti og hélt boltanum á við Tottenham. Osman var tekinn niður utan teigs og aukaspyrna Baines fór í vegginn og barst til hans aftur. Hann reyndi annað skot en boltinn endaði (mögulega af varnarmanni Tottenham) hjá Naismith sem var skyndilega kominn í dauðafæri — en áttaði sig ekki nógu fljótt á því að boltinn væri hjá honum og náði ekki að nýta sér það. Jelavic átti svo skot inni í teig á 48. mín en skotið fór í varnarmann.

Tottenham átti skot af löngu á 51. mínútu en varnarmaður blokkeraði í horn. Tottenham fengu tvær hornspyrnur en ekkert kom úr því. Fín byrjun á leiknum. Tottenham svo með aukaspyrnu á 54. mínútu, skutu beint á markið af löngu færi en á mitt markið hjá Howard, hátt uppi og Howard slær í horn. Hornið endaði með skalla frá leikmanni Tottenham en auðveldur bolti fyrir Howard. Sama var uppi á teningnum hinum megin á 61. mínútu, Fellaini með skalla en auðveldlega varið.

Pienaar átti frábæra stungusendingu á Baines sem setti hann inn fyrir bakvörð Tottenham á 66. mínútu, Baines einn upp og inn í teig, sendir fyrir út í teiginn til Osman sem skýtur vel yfir. Illa farið með enn eitt gott skotfærið. Osman svo með gult á 69. mín. fyrir að taka niður Walker. Walker hleypur áfram eftir brotið en fattar svo að hann getur náð gulu á Osman og lætur sig detta. Jú jú, gult á Osman. Ekkert við því að segja. Lennon út af á 71. mínútu, Huddlestone inn á.

Everton náði góðri pressu á þessum tímapunkti, héldu boltanum vel og leituðu sífellt að glufum í vörninni. Sóknin endaði þó með fínu skoti Osman rétt utan við teig en markvörður varði mjög vel. Á 70. mínútu stóð ég mig að því að hugsa: 10 mínútur í viðbót og þá eru möguleikar Tottenham á sigri líklega úr sögunni því Tottenham hefur ekki skorað mark á síðustu 10 mínútum neins leiks á tímabilinu (sagði einhver).

Og það var eins og við manninn mælt: rétt áður en að því kom (á 75. mínútu) fengu Everton á sig enn eitt óþolandi slysa-sucker-punch markið. Dempsey fær boltann utan teigs, tekur skot og hittir í löppina á Distin og boltinn tekur sveig yfir Howard í markinu. Gjörsamlega óþolandi að fá á sig enn eitt slysamarkið því það leit ekki út fyrir að Tottenham væri að fara í skora í leiknum nema með slysamarki af löngu færi, akkúrat af þessu tagi.

Leikurinn datt nokkuð niður við þetta og maður horfði frústreraður á Everton sem virtist ætla að hætta að spila þennan léttleikandi sóknarbolta sem þeir hafa verið þekktir fyrir á tímabilinu og fara að reyna að kýla boltanum fram í andleysi.

Gylfi inn á fyrir Dembele og Vellios inn fyrir Naismith á 80. mínútu. Vellios með ljótustu hárgreiðsluna í deildinni, mun ljótari en sumar sem Daniel Agger hefur sportað. Fellaini færður aftar á völlinn, í 4-4-2 uppstillingu.

Gylfi næstum búinn að lauma inn marki, átti skot upp úr litlu sem endaði í slá. Líklega besta færi Tottenham í öllum leiknum. Hér fór um mann. Ekki bara tap á heimavelli í augsýn heldur Tottenham að eflast í leiknum. Mann hryllti við tilhugsuninni að þetta gæti endað 0-2? Defoe út af á 84. mínútu og Falque inn. Ekki mikið sést til Defoe í leiknum, varnarmenn Everton náð að halda honum niðri og hann fengið litlu úr að moða.

Mínúturnar liðu og andleysið virtist alls ráðandi. Ekkert að gerast. Boltinn kýldur fram. Þunglyndi. Erum við að horfa upp á fyrsta tap á heimavelli síðan í mars á síðasta tímabili? Ætlar enn eitt suckerpunch markið að koma í veg fyrir að Everton taki öll þrjú stigin!? Tap hefði væntanlega þýtt miðjumoðsbaráttu með liðum á borð við Norwich, Liverpool og Stoke! Er virkilega allur vindur úr þessu Everton liði eftir frábæra byrjun á tímabilinu?

Ó nei. Síður en svo. Naismith vann boltann á 89. mínútu rétt utan teigs, sendi strax á Coleman sem sendi fyrir markið þar sem Pienaar mætti askvaðandi og skallaði af nokkuð löngu færi framhjá Lloris markverði Tottenham. Maður hefði guðslifandi feginn tekið jafntefli nokkrum mínútum áður, en nú var Everton liðið loks komið í gang. Aðeins 88 sekúndum eftir fyrra markið kom annað mark. Í þetta skiptið upp úr fyrirgjöf Gibson inn í teig, Vellios reynir hjólhestaspyrnu utarlega í teignum en náði ekki góðu skoti. Boltinn barst til Jelavic sem kláraði færið í fyrsta. 2-1 fyrir Everton. Allt brjálað á Goodison Park. Everton að næla sér í öll þrjú stigin á lokamínútunum. Loksins (loksins!) snerist gæfan Everton í vil og þurrkaði út skaðann af suckerpunch marki.

Jelavic þar með að tryggja Everton eins marks sigur á Tottenham annað tímabilið í röð og fékk gult fyrir að fagna of mikið (ekki lái ég honum það!). Honum var svo kippt út af stuttu fyrir leiks lok og fékk high-five frá öllum á bekknum og hefði getað haldið því áfram alla leið upp í stúku þar sem áhorfendur stóðu og klöppuðu fyrir honum. Heitinga inn á fyrir Jelavic en Everton gerði nóg til að halda Tottenham í skefjum það sem eftir lifði leiks. Flottur 2-1 sigur í höfn og Everton aftur komið í fjórða sætið.

Mjög ljúfur sigur í höfn. Everton taplausir í 12 deildarleikjum heima og árangurinn fínn í erfiðri törn undanfarið: óheppnir að vinna ekki Arsenal á dögunum, náðu góðu stigi á útivelli gegn City þar sem Everton dómineraði góðan hluta leiks og nú þrjú stig tekin af Tottenham. Meira svona, takk!

Engar einkunnir frá Sky Sports fylgja — virðast ekki ætla að gefa þær út fyrir þennan leik. :/

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Frábær leikur og frábær úrslit. Hef ekki verið mikill Coleman aðdáandi en hann er hægt og rólega að vinna mig á sitt band. Hann var frábær í dag.

  2. Finnur skrifar:

    Ekki verra að fá þær fréttir í dag líka að Fellaini gefur lítið fyrir sögusagnir um að hann sé að fara og að hann sé 100% fókuseraður á að standa sig með Everton.
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/12/09/3589608/my-future-is-with-everton-declares-fellaini

  3. Halldór S Sig skrifar:

    Set spurningamerki við markið sem Everton fékk á sig, mér fannst Howard vera full framalega og þar af leiðandi smá sökudólgur. Hefði vel tekið þetta hefði hann verið aðeins aftar, held ég.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Geðveikur sigur í dag. Vona að Mirallas sér heill, missti af 20 fyrstu mínútunum í seinni hálfleik en sá hann kveinka sér á ca 42 mín. Everton gafst aldrei upp og ótrúlegur endir.
    Væri gaman að elta Chelsea þar til við leikum gegn þeim 30 des. Væri ekki slæmt að ná því þriðja um áramótin. Jú Gunnþór það er alveg séns 🙂
    Pakkinn fyrir neðan okkur er svakalega þéttur og mikilvægt að hanga á fjórða sætinu í næstu leikjum .

  5. Halli skrifar:

    Þetta var frábær sigur og sýnir að leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar. Að mínu mati voru Mirallas í fyrri hálfleik og Pienaar bestu menn leiksins hjá okkur og Coleman og Gibson mjög góðir

  6. Georg skrifar:

    Gríðarlega mikilvægur sigur. Það leit allt út fyrir að við myndum vera 6 stigum á eftir Chelsea og Tottenham en frábær endir og verðskuldaður sigur skilaði okkur að hlið Tottenham og bara 3 stigum eftir Chelsea. Ég er sammála þér Halldór að Howard var full framalega í markinu þó svo að boltinn hafi lyftst aukalega með snertingu Distan þá hefði Howard varið boltann hefði hann staðið á línunni, full groddaralegt að standa 3-4 m frá marklínu þegar leikmaður er 25-30m frá markinu.
    Maður hugsaði að þetta væri einn af þessum leikjum sem við værum búnir að vera sterkari en værum ekki að fá stigin 3 eins og við höfum svo oft átt skilið í vetur.
    Gaman að sjá hvað Coleman og Mirallas linka vel saman á kantinum og ég held að Coleman hafi saknað aðeins Mirallas, því að maður sér ekki sömu samvinnu hjá Coleman og Naismith. Mirallas kemur alltaf með nýja vídd inn í leikinn og því er gríðarlega mikilvægt að hann haldist heill og bara vonandi að hann verði klár í næsta leik. Hann var tekinn út af í hálfleik bara af varúðarráðstöfunum sem var skynsamlegt. Í mínum augum þá er hann strax orðinn einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins og líta út fyrir að vera ein af mörgum frábærum kaupum Moyes.
    Finnst að Gibson komi með meiri festu og gæði á miðjuna fram yfir Neville. Gibson og Osman eru að gera flotta hluti á miðjunni. Einnig var frábært að fá mark frá Jelavic til að koma honum í gang.

    Áfram Everton!

  7. Ari G skrifar:

    Mjög ánægður. Varnarleikurinn hefur stórlagast eftir að Gibson kom aftur. Everton gæti náð 70 stigum en þá þurfa þeir að vera mjög heppnir að missa ekki marga leikmenn í meiðsli og kaupa eða leigja 2-3 í janúar.

  8. Orri skrifar:

    Ég sá ekki leikinn.En er búinn að sjá mörkin.Ég er gríðrlega stoltur af okkar mönnum með sigurinn.

  9. Finnur skrifar:

    Greining Executioner’s Bong á leiknum:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/12/10/tactical-deconstruction-everton-2-1-spurs/
    (Svolítið seint – var á ferðalagi milli heimsálfa). 🙂

  10. Finnur skrifar:

    Missti af þessu! Baines var valinn í lið vikunnar eftir leikinn við Tottenham:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2012/12/11/3593621/premier-league-team-of-the-week-rooney-stars-again-after