Everton vs. Tottenham

Mynd: Everton FC.

Á morgun kl. 15 tekur Everton á móti Tottenham á heimavelli. Everton hefur ekki tapað fyrir Tottenham á heimavelli síðustu 5 leikjum en Everton vann síðustu tvo leiki (1-0 í fyrra — sjá vídeó og 2-1 þar áður, sjá vídeó). Í tveimur leikjum þar á undan gerðu liðin þrjú jafntefli þannig að Everton hefur ekki tapað fyrir Tottenham síðustu 6 árin eða svo. Myndin hér að ofan sýnir Coleman skora sigurmarkið í 2-1 sigrinum heima fyrir tveimur tímabilum síðan.

Leikurinn í fyrra var merkilegur fyrir þær sakir að Jelavic skoraði sigurmarkið í sínum fyrsta heimaleik fyrir Everton. Everton gengur yfirleitt vel á móti Tottenham á heimavelli, tölfræðin segir 44% : 33% : 23% (Sigur:Jafntefli:Töp) í samtals 82 leikjum. Þau ykkar sem ekki hafa fengið nóg af sigrum gegn Tottenham þá er hér vídeó af 3-1 sigri árið 2004.

Tottenham eru á góðri siglingu þessa dagana og virðast loksins vera að smella undir stjórn AVB, taplausir í fimm leikjum eða síðan þeir töpuðu illa fyrir Arsenal, 5-2. Þeir eru í fjórða sæti með 26 stig en Everton í því sjötta með 23 stig. Sigur gefur möguleika á þriðja sæti, tap gæti þýtt að Everton falli alla leið niður í 10. sæti, einu sæti fyrir ofan Liverpool. Ef Everton ætlar sér fjórða sætið á tímabilinu er sérlega mikilvægt að vinna þennan leik. Aðeins Man United hefur skorað fleiri mörk á útivelli (18) en Tottenham (15) þannig að það getur brugðið til beggja vona. Tottenham hefur auk þess skorað fleiri mörk á útvelli en Everton á heimavelli!

Meiðslalistinn lengdist ekki eftir síðasta leik og bæði Kevin Mirallas og Seamus Coleman eiga séns í leikinn, að sögn Moyesar, en Anichebe og Neville eru áfram meiddir. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Osman og Gibson á miðjunni. Pienaar og Naismith á köntunum. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Ef Mirallas er heill grunar mig að hann verði á bekknum og Naismith fái að spila lungað úr leiknum, kannski 65 mín eða svo og Mirallas komi svo inn á. Ef Heitinga spilar leikinn þá verður það 100. leikur hans í deildinni fyrir Everton. Ef hann (eða einhver annar Everton leikmaður) skorar mark verður það þúsundasta mark Everton frá stofnun Úrvalsdeildarinnar.

Tottenham verður með nokkuð breytt lið en verið hefur en Bale er sagður meiddur sem og Michael Dawson, Scott Parker, Benoit Assou-Ekotto og Younes Kaboul. Modric og Van der Vart eru náttúrulega farnir eftir síðasta tímabil en Tottenham eru þó með mjög góða leikmenn innanborðs. Einn af þeim, sóknarmaðurinn Defoe, hefur verið í miklu stuði undanfarið og rétt að hafa góðar gætur á honum. Ef Everton spilar eins og í undanförnum leikjum þá er ekkert að óttast, frekar en venjulega.

Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér. Ég ætla að leyfa mér að skjóta á 2-1 sigur Everton. Rangers mennirnir (Jelavic og Naismith með mark hvor) og Defoe með eitt fyrir Spurs. Kevin never-a-Friend-of-Everton dæmir leikinn en hann sleppti tveimur vítaspyrnum (!) gegn Wigan á dögunum. Hmmm. :/ Búast má við nóg af spjöldum í leiknum.

Í öðrum fréttum er það helst að Robert Elstone (Everton FC CEO) sat fyrir svörum hjá BlueKipper á dögunum. Hægt er að lesa viðtalið hér. Einnig vann Everton U21 Bolton U21 3-1 með mörkum frá Vellios, Kennedy og Barkley. Þeir tryggðu sér þar með sæti í nýstofnaðri efstu deild  (‘Elite’ Group) U21 árs liða fyrir næsta ár. Flottur árangur hjá ungliðunum.

10 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Fínn pistill, passlegur orðafjöldi fyrir minn smekk 🙂 🙂

  Get ekki annað en spáð 1-1, við erum svo gjafmildir á stigin þessar síðustu vikur.

 2. Halli skrifar:

  Vil sigur og að Howard taki framhald af leiknum við Man C og verði góður 2-0 Beinsy úr auka og Osman

 3. Ari S skrifar:

  Vel skrifað eins og vanalega 🙂

  Þori eiginlega ekki að spá um úrslit. En ég ætla þó að leyfa mér að vera bjartsýnn……. 🙂

 4. Gestur skrifar:

  þetta verðu erfiður leikur, en hver veit hvað gerist ef Everton skorar á undan.

 5. Gunnþór skrifar:

  sammála Ara þori ekki að spá núna,en vonandi verða úrslitin okkur í hag í dag.

 6. Elvar Örn skrifar:

  Ég held þetta sé einn mikilvægasti leikurinn sem af er leiktíð. Með tapi þá erum við stigi frá 11 sæti en með sigri þá komumst við í 4 sætið. Jafntefli kæmi auðvitað ekki á óvart en það er einfaldlega kominn tími á sigur.
  Væri ekki amalegt að ná fjórða sæti og eiga bara 3 stig í þriðja sæti sem Chelsea skipar.
  Verður Mirallas með í dag?
  Já og spái 2-0, Fellaini og Mirallas (ef hann spilar) annars Jelavic.

 7. Finnur skrifar:

  Búið að tilkynna liðið og bæði Mirallas og Coleman koma báðir inn:

  Howard, Baines, Jagielka, Distin, Coleman, Pienaar, Osman, Gibson, Mirallas, Fellaini, Jelavic.

 8. Halli skrifar:

  Hvað var þetta geggjað

 9. Teddi skrifar:

  🙂 🙂 🙂 🙂 🙂
  Gleðileg JóL

 10. Gunnþór skrifar:

  þetta slapp alveg,áttum þetta skilið eftir úrslit síðustu leikja.