Man City vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Man City á útivelli kl. 15:00. Árangur Everton gegn Englandsmeisturum City er athyglisverður því Everton hefur sigrað átta af síðustu tíu leikjum gegn þeim. Af fimm síðustu leikjum á útivelli gegn City sigraði Everton fjóra og það án þess að fá á sig mark í þremur leikjum (og ekki er árangurinn gegn þeim á heimavelli síðri). Það er þó ansi hár þröskuldur að ná að vinna City á þeirra eigin heimavelli þessa dagana en þeir hafa ekki tapað 36 heimaleikjum í röð, eða í næstum tvö ár (síðasta tap þeirra var í desember 2010). Þess má þó geta að Everton var það lið sem sigraði Man City þá, með mörkum frá Baines og Cahill. Síðan Úrvalsdeildin var stofnuð hefur Everton unnið 16 leiki en City 10. Það er ekki furða að Mancini finnist ekki gaman að mæta Everton. Joy Royle átti jafnframt ágæta punkta í viðtali sínu við Everton TV.

Ég hlakka alltaf til leikja sem Everton spila og pínulítið aukalega þegar Everton mætir ákveðnum andstæðingum. Sunderland, til dæmis (vil alls ekki sjá þá falla niður í næstu deild), Fulham heima og Manchester City, til dæmis. Everton hefur nefnilega ekkert að óttast þegar Man City er annars vegar, eins og Pat Nevin sagði.

Meiðslin á Leighton Baines eru stóra spurningamerkið — hvort hann nái leiknum því hann kláraði leikinn við Arsenal þó hann meiddist á læri þegar um 15 mínútur voru eftir. Þetta er þó alltaf spurning um hversu alvarleg meiðslin voru. Ég ætla að skjóta á að hvorki Mirallas (sem er byrjaður að æfa aftur) né Baines nái leiknum — og svo eru Neville, Anichebe og Coleman meiddir. Mirallas þarf reyndar að hafa fyrir því að slá Naismith úr liðinu því Naismith hefur skorað þrjú mörk í 6 leikjum núna. Gibson sagðist hafa fengið högg á fótinn í leiknum gegn Arsenal en sagði það ekki alvarlegt og að hann ætti að ná leiknum. Uppstillingin því: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka, Hibbert. Gibson og Osman á miðjunni. Pienaar vinstra megin, Naismith hægra megin. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Ef Mirallas nær leiknum gæti verið að Fellaini verði færður aftar til að fylgja Silva eins og skugginn. Hjá City eru Gael Clichy, Micah Richards og Jack Rodwell (surprise surprise) meiddir. James Milner er auk þess tæpur.

Everton nær yfirleitt upp góðri stemmingu í leikjum gegn ríkisbubbunum í Man City og það verður örugglega raunin núna. Þeir eru ennþá með frábært lið þó þeir hafi ekki sýnt alveg sömu takta og á síðasta tímabili. Þrátt fyrir mörg frústrerandi (og oft á tíðum mjög svo ósanngjörn) jafntefli á leiktíðinni væri ég sáttur við jafntefli úr þessum leik. 1-1, Naismith með markið.

Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér. Holl lesning eins og venjulega.

1 athugasemd

  1. Halli skrifar:

    Meistararnir það er erfitt verkefni en við.förum fullir sjálfstrausts inní þetta 1-2 all in