Everton – Arsenal 1-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin eins og ég spáði fyrir leikinn nema Gibson kominn aftur úr meiðslum: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Pienaar vinstra megin, Naismith hægra megin, Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini aftan við Jelavic. Mjög gott að sjá Gibson aftur á vellinum.

Everton fékk hins vegar á sig enn eitt suckerpunch markið í byrjun — í þetta skiptið eftir aðeins 51 sekúndu þegar Walcott komst upp vinstra megin í vítateig Everton, skaut að marki en boltinn breytti um stefnu og framhjá Howard í markinu. Enn eitt slysamarkið. 0-1 fyrir Arsenal. Andvarp.

Þegar litið er til árangurs Arsenal gegn Everton gegnum tíðina hefði maður fyrir leikinn verið sáttur við jafntefli — ekki síst eftir að Arsenal skoraði slysamark strax í upphafi. En Everton lét markið ekki á sig fá og komst ágætlega inn í leikinn og þegar upp er staðið er maður ósáttur við að ekki fengust öll þrjú stigin. Ekkert nýtt þar. Arsenal var nokkuð meira með boltann í fyrri hálfleik (54% vs 45% skv. BBC) en Everton voru skeinuhættari í sóknartilburðum. Everton áttu 7 skot í fyrri hálfleik, þar af 5 á markið, á móti þremur skotum hjá Arsenal, aðeins 2 á markið. Lengi vel var eina skotið sem þeir náðu á markið skotið hjá Walcott sem gaf markið á 1. mínútu. Týpískt. Sókn þeirra fuðraði oft upp þegar að vítateig Everton var komið en Everton var greinilega hungraðara liðið í hálfleik.

Það var ágætis tempó í fyrri hálfleik og boltinn gekk vel. Everton náði alltaf góðri pressu á þá leikmenn Arsenal sem voru með boltann og náðu að koma í veg fyrir að þeir næðu upp góðum takti, eltu alla bolta og settu pressu á markvörð. Akkúrat það sem maður vill sjá.

Jöfnunarmark Everton kom eftir kæruleysi leikmanna Arsenal þar sem Pienaar stelur fyrst boltanum af miðjumanni, nær að komast framhjá nokkrum og stingur boltanum inn fyrir vörnina á Jelavic á sprettinum en örlítið of langt og markvörður Arsenal nær fyrr til knattarins. Pienaar stelur honum svo aftur örskammri stundu síðar af varnarmanni og boltinn berst til Fellaini sem tekur skotið utan teigs, lágt út við stöng og boltinn söng í netinu. Staðan 1-1.

Á 39. mínútu framlengdi Fellaini skallabolta á Jelavic, sem tók boltann á kassann með varnarmann í bakinu rétt utan teigs, tekur boltann á lofti og snýr sér og skilur varnarmann Arsenal eftir og kemst einn á móti markverði… en lúðrar boltanum hátt upp í stúku. Frábærlega leikið á varnarmanninn, ömurleg afgreiðsla á boltanum. Ekki sá Jelavic sem við þekktum af síðasta tímabili. 1-1 í hálfleik.

Flæðið var minna í seinni hálfleik en þeim fyrri, allavega til að byrja með og meira um feilsendingar á báða bóga.

Jelavic átti flotta fyrirgjöf fyrir markið á 52. mínútu en Naismith náði ekki til boltans. Distin átti frábæran skalla eftir fyrirgjöf Baines á 57. mínútu sem var stórglæsilega varinn af markverði Arsenal, hátt við slána. Arsenal voru yfirleitt mættir með 3-4 leikmenn að reyna að stoppa Baines og Pienaar á vinstri kanti en það var unun að horfa á þá taka einfalt þríhyrningaspil og skilja Arsenal leikmennina eftir trekk í trekk. Everton hélt áfram pressunni og á 60. mínútu komst meira að segja Hibbert inn í teig með boltann og allt varð vitlaust á Goodison og áhorfendur öskruðu „Shoot! Shoot!“ en skotið blokkerað (ef ég man rétt). Felli átti skot lágt með jörðinni stuttu síðar en of laust.

Naismith fór út af stuttu síðar og Oviedo kom inn og örskömmu síðar komst Pienaar inn í teig með boltann með Arteta á eftir sér. Arteta setur höndina yfir öxlina á Pienaar og tekur hann niður með fætinum (snertir ekki boltann). Ekkert nema víti að mati þular (sammála því) en dómarinn dæmir horn — þó Arteta hafi ekki einu sinni snert boltann! Andvarp. Allt brjálað uppi í stúku, enda sáu allir vítið nema Michael Oliver dómari. Moyes benti á það eftir leikinn að fá vafaatriði hefðu fallið með Everton. Sem er svo sem í stíl við tímabilið hingað til.

Arsenal virtust eitthvað hvekktir við þetta og feilsendingarnar hjá þeim jukust. Everton betra liðið og með hættulegri sóknir. Wenger þakkaði örugglega fyrir að vera með eitt stig á þessum tíma. En um leið og maður fer að hugsa svona skapar Arsenal færi upp úr engu þegar Giroud fær sendingu inni í teig og skallar rétt framhjá.

Gibson fór út af á 72. mínútu og Hitzelsperger kom inn á. Hvort það olli því að Arsenal næði að komast betur inn í leikinn skal ósagt látið en þeir náðu upp svolítilli pressu á 74. mínútu þar sem þeir áttu tvö skot á markið í röð og Howard varði ágætlega. Leikurinn opnaðist nokkuð upp og Hitzelsperger og Jelavic áttu skot stuttu síðar (Jelavic úr aukaspyrnu) en bæði af löngu færi og ekki nægur kraftur þannig að markvörður varði.

Á 80. mínútu var þreytan farin að segja meira til sín, meira um feilsendingar og erfiðara fyrir vikið að byggja upp sóknir. Greinilegt að bæði liðin legðu áherslu á að tapa ekki.

Jelavic átti aðra flotta fyrirgjöf fyrir markið á 88. mínútu en vantaði mann í teiginn til að klára — Fellaini ekki langt undan. Rétt undir lok leiksins setti Everton góða pressu á Arsenal og um tíma var algjör glundroði í vörn Arsenal, fyrirgjafir fyrir markið og hreinsanir sem mistókust en ekki náði Everton að skapa mark úr því. Arsenal komst svo í skyndisókn og var næstum búið að komast í dauðafæri en Jagielka reddaði málunum með frábærri tæklingu eins og hans er von og vísa.

Jafntefli staðreynd. Ekki jafn svekkjandi jafntefli og undanfarið enda meira jafnræði með liðum en í undanförnum leikjum Everton. Ljósu punktarnir eru þeir að Everton lék fantagóðan varnarleik allan leikinn (kannski að fyrstu mínútu undanskilinni), sem hefur skort undanfarið. Gott að sjá Hibbert heilan svo Jagielka þurfi ekki að vera neyðarbakvörður lengur og gott að sjá Gibson svo Neville þurfi ekki að vera neyðarmiðjumaður lengur. Everton spilaði ágæta blöndu af öflugri vörn og flottum sóknarbolta en hingað til hefur varnarleikurinn stundum gleymst á móti veikari andstæðingum þar sem Everton liðið liggur í sókn mikið til. Finnst bara verst að ekki náðist að sigra Arsenal í þessum leik, því það er löngu kominn tími á það. Jafntefli ekki ósanngjörn úrslit, þó Everton hefði átt sigurinn vel skilið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 8, Distin 7, Jagielka 7, Hibbert 6, Pienaar 7, Osman 7, Gibson 6, Naismith 6, Fellaini 9, Jelavic 6. Varamenn: Oviedo 6, Hitzelsperger 6. Svipað hjá Arsenal, sexur og sjöur nema Walcott og Wilshere með 8.

5 Athugasemdir

 1. Ari G skrifar:

  Óþolandi víti tekið af Everton. Fannst vera flottur leikur hjá Everton en óheppnin eltir Everton. Leikur Leighton Baines var í heimsklassa. Hibbert flottur og gott að fá Gibson aftur. Lýst best á að hafa Distin og Jagielka saman í vörninni. Jelevic óheppinn að skora ekki. Núna sést greinilega að hafa engan alvöru sóknarmann til að leysa Jelevic af. Vonandi fer Miralles að koma aftur kaup á honum gæti verið kaup ársins í deildinni.

 2. Ari G skrifar:

  Hvernig lýst ykkur á Darren Bent hjá Aston Villa hann getur skorað fullt af mörkum. Everton ætti að spá í honum fæst ódýrt ca 5 millur nema Everton hafi aukapening til að kaupa dýrari leikmann.

 3. Halli skrifar:

  Ég er sammála Ara með Distin og Jags en Hibbó átti markið frá Walcott. Jela átti að gera betur í færinu sem setti yfir en tók ranga ákvörðun þegar hann og Bainsy voru komnir í gegn og gerði sig rangstæðan vil ekki taka liverpool sindrómið á þetta og tala um að dómararnir séu vondir við okkur en var þetta ekki víti á Arteta þegar hann tók Pienaar niður?

 4. Ari S skrifar:

  Þetta var svakaleg byrjun, maður er hættur að þola þetta, er þetta ekki metið 50 sek? Ég segi hingað og ekki lengra 🙂 Þetta getur ekki verið verra sucker punch en í kvöld.

  En í sambandi við leikinn þá voru okkar menn að spila ágætlega. 1-1 hefði getað verið verra, eitt sem ég man eftir (af því að þið eruð búnir að nefna allt hitt) er að Pienaar hefði getað með smá útsjónarsemi tekið chip á boltann og sett’ann í hornið fjær yfir markmnanninn þegar hann fékk besta færið sitt… en það er svo auðvetl að vera vitur eftir á sérstakelga þegar maður situr heima í stofu.

  Oooog… ég var pínu hissa að sjá ekki Barkley inná í lokin…….