Everton – Norwich 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Norwich í dag og þetta er að verða að gamalli tuggu: Everton dómineraði leikinn með léttleikandi sóknarspili, einföldum þríhyrningum og útsjónarsömum sendingum, komust yfir í fyrri hálfleik en glutraði sigrinum niður á síðustu mínútunum.

Uppstillingin vakti athygli: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Jagielka (miðvörður í hægri bakverði í neyð í fjarveru Neville, Hibbo og Coleman). Oviedo á vinstri kanti, Osman og Hitzlsperger á miðjunni (Gibson hvergi sjáanlegur), Naismith á hægri kanti (Mirallas hvergi sjáanlegur), Pienaar (í fjarveru Fellaini) fyrir aftan Jelavic. Bekkurinn: Mucha, Hibbert, Gueye, Barkley, Vellios, Kennedy, Duffy.

Mike Jones dómari leiksins, sá sami og dæmdi tvö lögleg mörk af Everton á heimavelli gegn Newcastle.

Norwich léku með sitt hefðbundna two-banks-of-four í vörn sem mörgum liðum reynist erfitt að brjóta á bak aftur. Everton í 4-4-1-1. Everton náði ágætri pressu frá upphafi, var meira með boltann í fyrri (56% vs 44%) og það tók ekki nema um mínútu fyrir landsliðsmanninn okkar, Osman, að skjóta á markið en hárfínt framhjá fjærstönginni.

Á 4. mínútu lenti Pienaar í samstuði við leikmann Norwich og meiddist á hné. Var út af í um 3 mínútur en harkaði svo af sér. Maður andaði mikið léttar eftir það enda erfið törn fyrir höndum. Vil alls ekki missa Pienaar í þeim leikjum.

Á 10. mín pressar Osman vel á varnarmenn Norwich og vinnur innkast. Jagileka sendir fyrir. Skalli frá Jelavic en framhjá.

En á 11. mínútu kom markið sem Everton átti vel skilið. Boltinn barst hár til Oviedo upp vinstri kantinn. Hann tekur boltann á kassann og stýrir honum framhjá bakverði Norwich. Hleypur einn inn í teig vinstra megin og sendir boltann lágt aftur fyrir sig og fyrir markið þar sem Naismith er hárrétt staðsettur og dúndrar honum hátt í netið. Óverjandi fyrir Ruddy. Frábærlega tekið hjá Oviedo sem fíflaði bakvörðinn þeirra og vel klárað hjá Naismith.

Mínútu síðar liggur Jelavic á jörðinni og heldur um bakið. Hver leikmaður Everton á fætur öðrum að gera mann skelkaðann. Anichebe meiddur og ef Jelavic meiðist líka þurfum við að fara að spila með Fellaini einan frammi — eða ungliðann Vellios. En Jelavic harkaði það af sér líka, sem betur fer.

Norwich átti sitt fyrsta horn á 13. mínútu sem var eina framlag þeirra í sókninni þangað til en fram að því höfðu þeir alltaf misst boltann, fallið í rangstöðugildruna eða Grant Holt brotið af sér. Hann var stöðugt að atast í varnarmönnum Everton, toga og ýta, en hafði ekki erindi sem erfiði. Áhorfendur sáu þetta auðveldlega og púuðu vel á hann. Fyrsta skot þeirra kom upp úr horninu en Hoolahan lúðraði boltanum nánast í innkast af löngu færi.

Á 15. mínútu komst Baines einn inn fyrir vörn Norwich eftir einfaldan þríhyrning sem splundraði vörn Norwich. Baines nær flottu skoti sem stefnir stöngina og inn en Ruddy bjargar frábærlega fyrir Norwich. Þarna átti Everton að vera komnir 2-0 yfir en Norwich gátu prísað sig sæla. Frákastið barst til Osman sem hafði lítinn tíma til að hugsa og boltinn erfiður þannig að hann náði ekki góðu skoti sem fór þó rétt yfir.

Á 17. mínútu vildu margir fá víti þegar Naismith var felldur inni í teig en endursýning sýndi að varnarmaður fór í boltann fyrst. Ekkert víti. Baines átti frábæra fyrirgjöf fyrir markið á 19. mínútu en Jelavic náði ekki til boltans.

Norwich var svo að fá á sig 4. rangstæðuna (Holt með þrjár að mig minnir) og nákvæmlega ekkert að gerast í sókninni hjá þeim. Howard í afslöppun. Þangað til Holt nær að forðast þrjár tæklingar hjá Everton mönnum, böðla boltanum í átt að vítateig en skotið hátt yfir þegar hann nálgast vítateiginn enda úr jafnvægi. Fyrsta hálffæri þeirra.

Á 31. mínútu var Everton með pressu og sendi boltann fram og til baka við vítateig Norwich. Endar með skoti frá Osman en Ruddy ver.

Á 33. setur Jelavic Naismith inn fyrir með flottri sendingu. Naismith einn á móti Ruddy sem bjargar þeim meistaralega (aftur). Hér átti staðan að vera 3-0.

Á 40. mínútu fengu Norwich horn og fengu frían skalla (hvað er þetta með Everton þessa dagana að verjast ekki sköllum — skil þetta ekki?). Norwich maðurinn nær þó ekki góðum skalla, boltinn fer í öxlina og út af. Howard enn ekki þurft að verja bolta í leiknum.

Á 41. mínútu tekur Pienaar þríhyrning við Osman sem endar með því að Osman skallar boltann inn fyrir og tekur hann niður og er kominn í skotfæri en hittir boltann illa.

42. mínúta: Enn ein rangstaðan á Norwich. Sú sjötta í leiknum. Ekkert nýtt að gerast þar. Aukaspyrna þeirra á 46. mínútu – ekkert út úr því. Notice the pattern?

1-0 í hálfleik og enn á ný Everton ekki búið að gera út um leikinn þrisvar-fjórum sinnum í fyrri hálfleik. Ruddy upptekinn í fyrri hálfleik en Howard áhorfandi að leiknum, eins og þeir hjá Sky orðuðu það. Hvernig væri að fara að drepa þessa leiki í stað þess að leyfa andstæðingnum að komast aftur í leikinn? Norwich búnir að vera kátir með að leyfa Everton að vera meira með boltann (56% vs. 44%) á eigin vallarhelmingi (39% tímans innan Norwich þriðjungs vallarins, 20 og eitthvað prósent innan Everton þriðjungs). Everton með 4 skot á markið, 4 framhjá. Norwich með 3 skot, öll framhjá.

Norwich hefur samt fengið að heyra það í búningsklefanum því þeir byrjuðu líflega og komust betur inn í leikinn.

Áttu aukaspyrnu á 49. mínútu en ekkert kom úr því. Áttu skot en langt framhjá. Leikurinn að verða hálf „scruffy“ eins og enskurinn kallar það.

Á 55. mínútu reyndi loks á Howard — svo um munaði. Norwich fengu aukaspyrnu rétt utan teigs og Baines hefði verið sáttur við afgreiðsluna, yfir vegginn og við stöngina og Howard þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja það (og var næstum lentur í samstuði við stöngina í leiðinni). Fyrsta varða skot hans í leiknum. Frábær markvarsla.

Á 58. mínútu tókst Holt loksins að sprengja rangstöðugildruna, elti langan bolta inn í teig en Howard kom vel út á móti honum og náði að reka líkamann í boltann og stela honum af Holt. Howard með match-winner markvörslu, tvisvar í röð. Að vissu leyti heppinn líka í seinna færinu að ná að redda þessu.

Norwich að byrja seinni hálfleik betur. Everton komst á 60. mínútu aðeins betur inn í leikinn aftur. Áttu tvær flottar fyrirgjafir fyrir mark Norwich. Distin með skalla í þeirri seinni en varið/framhjá, sá það ekki. Everton átti horn á 63. mínútu og svo strax annað (leikmaður Norwich var of nálægt í fyrra, minnir að hann hafi varið skotið í horn). Jelavic skot hátt yfir. Vildi meina að boltinn hefði farið í brjóstkassa varnarmanns og út af en fékk ekki horn. Ekki viss um að þetta hefði verið snerting.

En svo skapaðist hætta í vítateig Everton á 65. mínútu, tæklingar út um allt en Everton nær ekki að eyða því fyrr en Hitzelsperger komst inn í sendingu og skokkar með boltann út úr teignum. Fór um mann, samt og maður hugsaði: Koma svo Everton! Drepa þennan leik. Ekki missa þetta niður!

En Norwich hélt áfram að fá færi. Á 68. mínútu ná þeir að koma sóknarmanni í færi í vítateig hægra megin. Howard út á móti en skotið framhjá honum. Sem betur fer þrír varnarmenn tilbúnir bak við Howard og Heitinga reddar með því að hreinsa af línu.

Oviedo, sem var líflegur í öllum leiknum, átti skot af löngu færi utan teigs á 72. Ruddy ver. En Everton var að komast meira inn í leikinn aftur.

Á 73. mínútu sýndi Baines algjörlega stórkostlega takta. Kemur á ferðinni og prjónar sig í gengum vörn Norwich, fer framhjá einum, tveimur, þremur, fjórum, sýndist þetta verða 15 Norwich menn sem hann sólaði að lokum 😉 og komst í færi, nær flottu skoti en Ruddy ver aftur meistaralega og Naismith er hársbreidd frá því að ná frákastinu. Þarna hefði Everton getað verið búið að skora fjórða markið í leiknum ef ekki væri fyrir meistaralega markvörslur frá Ruddy.

Norwich tekur Hoolahan út af, sem ég hélt að væri þeirra helsti skapandi leikmaður og uppspretta fyrir Holt. Jæja, hvað um það.

Everton náði flottu samspili á 75. mínútu en Osman nær ekki góðu skoti. „Búin að vera stöðug ógnun í Osman í öllum leiknum“, sagði enski þulurinn.

Á 80. mínútu fengu Everton horn og þá notuðu Norwich tækifærið og tóku Ruddy út af, en hann hafði verið að ströggla, meiddur á nára eða eitthvað. Ekkert kom úr horni.

Leikurinn fór svo að opnast upp með færum á báða bóga.

Á 83. mínútu sprengir Naismith rangstöðugildru Norwich, brunar upp hægra megin með Jelavic vinstra megin við varnarmann. Tveir á móti einum en arfaslök sending fyrir. Naismith brjálaður út í sig, hefði gefið Jelavic dauðafæri ef hann hefði bara sent lága sendingu fyrir markið.

Howard sýndi meistaratakta þegar hann varði skalla á 84. mínútu. Þurfti að vera snöggur niður því boltinn kom lágt, nálægt fótum hans.

Á 86. mínútu fékk Oviedo aukaspyrnu eftir að varnarmaður tók hann niður. Oviedo búinn að vera frískur og varnarmenn Norwich réðu illa við hann. Norwich menn færa sig nær og nær boltanum og þegar Baines tekur aukaspyrnuna er einn hlaupinn svo nálægt að hann fær gult. Önnur aukaspyrna, ennþá nær. Baines tekur hana aftur en rétt yfir slána.

Norwich skiptu Snodgrass út af og þar með að spila með þrjá frammi. Fundu að þeir áttu séns á stigi þar sem Everton liðið er svo aumingjagott þessa dagana að það neitar að klára leikina.

Á 90. mínútu gerðist það að leikmaður Norwich ætlar að senda en hittir ekki boltann og fellur við. Þar sem Baines stendur fyrir aftan hann (en snertir ekki) ákveður dómarinn, skiljanlega, að dæma aukaspyrnu. Ensku þulirnir ekki sáttir við þann dóm og maður starði bara á í forundrun. Moyes brjálaður á hliðarlínunni, sá atvikið vel.

Aukaspyrnan varð að fyrirgjöf fyrir markið þar sem Norwich fá frían skalla — enn og aftur — og loksins böðla þeir boltanum í markið. Howard næstum því búinn að verja. Allt erfiðið orðið að engu og tvö stig töpuð, enn á ný. Vellios inn f. Naismith á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki.

Enn eitt ótrúlega svekkjandi leikurinn þar sem Everton glutrar niður einhverju sem hefði átt að vera einfaldur sigur. Fimmta jafnteflið í sjö leikjum. Everton verður að fara að klára þessa leiki í fyrri hálfleik. Þetta gengur alls ekki. Í stað þess að vera einu stigi frá Chelsea getur Everton nú dottið niður í 7. sætið ef Arsenal og West Ham ná hagstæðum úrslitum. 0-0 hjá Arsenal í augnablikinu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 8, Distin 6, Heitinga 5, Jagielka 6 (í hægri bakverði), Oviedo 7, Hitzlsperger 7, Osman 7, Naismith 7, Pienaar 6, Jelavic 6. Norwich með svipaðar tölur, nema markvörðurinn Ruddy með 8 og varnarmaðurinn Bassong 8.

Sérstaklega gaman að sjá Oviedo standa sig vel og ná góðum takti með samherjum. Það er gott að vita til þess að nú erum við með tvo léttleikandi tekkníska leikmenn sem geta leyst Pienaar af ef á þarf að halda, bæði Mirallas og Oviedo. Einnig gaman að sjá Naismith skora enn á ný.

9 Athugasemdir

  1. Holmar skrifar:

    8 stig úr síðustu 7 leikjum er ekki ásættanlegt. Virðist vanta allt drápseðli og eitthvað þarf að fara skoða veitingarnar í hléi, menn virðast alltaf svo þungir í byrjun seinni hálfleiks. Liðið hefur einfaldlega ekki litið nógu vel út í nóvember ( ekki bara vegna mottanna sem leikmenn skarta) og Moyes að vanda seinn að gera breytingar þegar andstæðingarnir virðast hafa lært á okkar menn. Verður þó að virða honum til vorkunnar að meiðsli hafa gert það að verkum að það er fátt um fína drætti á bekknum.

    Nú tekur við erfið törn þar sem okkar menn verða að girða sig í brók og sýna að við eigum heima þarna í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Vonandi fara Hibbert og Gibson svo að detta inn. Einnig væri gott ef að Moyes fengi smá pening í Janúar til að breikka hópinn.

    Næstu leikir verða afgerandi varðandi framhaldið á tímabiliinu, verður þetta barátta um topp 4 eða verður þetta miðjumoð með möguleika á Evrópudeild. Ég bjartsýnn að vanda og spái sigri á Arsenal í næsta leik sem verður vítamínsprauta fyrir erfiða leiki sem á eftir fylgja.

    NSNO

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Held að það sé kominn tími á að hvíla Jelavic. Hann virðist vera algjörlega heillum horfinn, sama má eiginlega segja um Pienaar, hann hefur ekki verið góður í síðustu leikjum.
    En hvað er málið með Moyes og skiptingar???
    Mér hefur alltaf fundist það vera hans helsti veikleiki að nota ekki varamennina til að reyna að breyta gangi mála og hann hlýtur að hafa séð það í dag að það var ekkert að gerast frammávið. Hann hefði getað tekið t.d Pienaar út fyrir Barkley, því Pienaar var ekki góður í seinni hálfleik í dag. Kennedy eða Vellios hefðu getað komið inn fyrir Jelavic eða Naismith. Til hvers að vera með menn á bekknum ef þeir eiga ekki að fá sénsinn??? Að ég tali nú ekki um að kalla menn heim úr láni til að sitja á bekknum þar sem þeir þurfa að horfa upp á menn inni á vellinum sem ekki eru að standa sig.

    Hvað mark Norwich varðar þá má að miklu leyti skrifa það á Howard. Hann átti að koma út í þennann bolta það hefði í það minnsta truflað Norwichmanninn. Annars má Howard eiga það að hann var svo sannarlega betri en enginn í dag. Vil frekar að hann spili frekar en Mucha, hef enga trú á honum.
    Arsenal næst, vona að Gibson og Mirallas verði klárir í þann leik, ef ekki, þá líst mér ekki á það.

  3. Ari G skrifar:

    Moyes verður að kaupa eða leigja alvöru sóknarmann í janúar algjört forgangsatriði. Lýst vel á að hann miðherjan hjá Molde þótt ég hafi aldri séð til að auka breiddina. Fannst leikur Everton ekkert sérstakur þótt þeir stjórnuðu leiknum það er alls ekki nóg.

  4. Georg skrifar:

    Bjarti punkturinn úr leiknum í gær var hann Bryan Oviedo sem leit mjög vel út, held að hann eigi eftir að vaxa eftir því sem hann fær meiri séns. Frábær móttaka hjá honum og flott sending þegar Naismith skoraði.

    Hrikalega leiðinlegt að missa þennan leik niður í jafntefli á þennan hátt í uppbótartíma en það gladdi mig þó aðeins að Liverpool var að gera jafntefli við Swansea. Annars 3 erfið og krefjandi leikir framundan. En ef við ætlum okkur að keppa um 4-6 sæti þá þurfum við að sýna það gegn stærri liðinum að við getum tekið af þeim stig.

  5. Finnur skrifar:

    Georg: Naismith var líka flottur. Þriðja markið hans í 5 leikjum. Hitzelsperger líka að koma til — hans fyrsti byrjunarleikur á heimavelli. Liverpool hefur enn ekki náð að skora í neinum leik gegn Swansea í Úrvalsdeildinni og ekki líklegir til þess í dag. Og West Ham að tapa f. Tottenham sem minnkar skaðann af jafnteflinu. Annars eru fleiri en 3 mjög erfiðir leikir á næstunni. Stoke erfiðir úti, gerðum 1-1 jafntefli við þá úti í fyrra — á sjálfsmarki Crouch.

  6. Halli skrifar:

    Þetta eru leikir sem við verðum að vinna ef við ætlum í baráttu efstu liðanna þá verður heimavöllurinn að skila okkur mjög mikið af stigum

  7. Gestur skrifar:

    markið er verulega flott hjá Naismith. Gegni á okkar mönnum er í síðustu leikjum er alveg arfaslakt, ég skil ekkert í því að hafa einn af bestu varnarmönnum deildarinar í hægri bakverði. Ég er sammála Ingvar hér að ofan um skiptingar, Moyes er voða hræddur að setja nýja menn inná. Það er bara að vona að Everton fái eitthvað úr næstu leikjum því að liðin fyrir neðan eru búin að safna vel og fara fram úr með hraði ef þetta fer ekki að skána hjá okkur.

  8. Finnur skrifar:

    Það kom svo í ljós að Ruddy, fyrrum markvörður okkar reif lærvöðva í leiknum…
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/21078118