Everton vs. Norwich

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Norwich á heimavelli á morgun kl. 15:00 en þessi lið hafa á síðustu 17 árum aðeins mæst 5 sinnum: Einu sinni á Goodison Park í FA bikarnum árið 2004 (Everton vann 3-1), tvisvar í efstu deild (Premiership) tímabilið þar á eftir (Everton vann bæði heima og úti) og tvisvar á síðasta tímabili (þar sem báðir leikir enduðu með jafntefli). Norwich er í 13. sæti fyrir leikinn með 14 stig eftir 12 leiki en Everton er í því fimmta með 20 stig eftir jafn marga leiki. Norwich er eitt af fimm liðum í deildinni sem hefur ekki sigrað á útivelli á tímabilinu (þrjú jafntefli, þrjú töp) en Everton er aftur á móti taplaust á heimavelli á tímabilinu, sem aðeins Man City á toppnum hafa leikið eftir. Það þarf reyndar að fara alla leið aftur til marsmánaðar á síðasta tímabili til að finna síðasta tap Everton á Goodison Park. Moyes hefur stjórnað Everton í fimm leikjum gegn Norwich og aldrei tapað; unnið tvisvar. Norwich hlýtur að vera annað uppáhalds lið Moyes-ar, Sunderland náttúrulega í langfyrsta sæti. Leikurinn er tvö hundraðasti heimaleikur Everton í deild undir stjórn David Moyes, 104 sigrar, 50 jafntefli og 46 töp.

Það er þó ákveðinn stígandi í leik Norwich manna þessa dagana en þeir lögðu Man United á heimavelli í síðasta leik, gerðu jafntefli á útivelli við Reading þar á undan og unnu Stoke, Arsenal og Tottenham með eins marks mun á heimavelli sínum (og gerðu jafntefli á útivelli gegn Aston Villa þar inn á milli). Þeir eru því taplausir í 6 leikjum og verða erfiðir viðureignar en nú fer í hönd mjög erfið törn þar sem reynir á þunnskipaðan (meiðsla)hóp okkar sem aldrei fyrr. Næstu leikir eftir Norwich leikinn eru Arsenal (H), Man City (Ú), Tottenham (H), Stoke (Ú). Og svo er leikur við Chelsea (H) ekki langt undan.

Fellaini verður í banni í leiknum vegna uppsafnaðra gulra spjalda og auk þess eru Neville og Anichebe meiddir og alls kostar óvíst með Mirallas, Gibson og Hibbert sem eiga allir mismikinn séns á að leika. Ég á erfitt með að sjá Hibbert — og Gibson sérstaklega — detta beint inn í liðið eftir löng meiðsli. Vil samt sjá Gibson fá einhverjar mínútur í leiknum. Skýt á að Mirallas verði ekki með, þó ég hafi ekkert fyrir mér í því annað en útlitið á honum þegar hann haltraði af velli um daginn. Uppstillingin því líklega: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Pienaar á vinstri, Naismith á hægri, Osman og Hitzelsperger á miðjunni. Eða kannski Barkley, hvur veit? Jelavic frammi með tja… Osman sér til aðstoðar í fjarveru Fellaini? Hjá Norwich hafa Kane og Martin verið meiddir en eiga að sögn séns í leikinn.

Upphitun Executioner’s Bong fyrir Norwich leikinn er hér en áður en við víkjum að öðrum fréttum er hér líka skemmtilegt upprifjunarvídeó af leik Everton og Norwich árið 2004 sem var mjög fjörugur og fimm mörk litu dagsins ljós.

Í öðrum fréttum er það helst að Fellaini lýsti því yfir að hann væri tilbúinn í að taka skref upp á við og fara að spila í Champions League, og helst vilji hann ná því markmiði með Everton — fyrir að gefa honum séns í enska boltanum og styðja við bakið á honum í gegnum tvö meiðslatímabil. En svo gæti náttúrulega farið að hann þurfi að leita annað. Hann er 24 ára og fer að nálgast hápunktinn á sínum ferli. Hann er auk þess metnaðargjarn og mjög hæfileikaríkur fótboltamaður og ekki skrýtið að hann vilji spila í eftirsóttustu keppninni. Hann skrifaði þó undir langtímasamning við Everton þannig að klúbbinum liggur ekki á að selja og ef það gerist þá verður það fyrir feita summu sem Moyes á örugglega eftir að nýta mjög vel. Við skulum bara vona að þetta verði samherjum hans hvatning til að gera betur og klára mýmörg færin, sem manni finnst oftast vera það eina sem vantar upp á.

En þá að tveimur öðrum leikmönnum en Jagielka var valinn leikmaður októbermánaðar í athöfn á Hilton hótelinu. Til hamingju með það, Jagielka. Moyes sagði einnig að Barkley, sem var kallaður aftur úr láni eftir að Neville meiddist, hefði staðið sig vel sem lánsmaður með Sheffield Wednesday og að útlegðin hefði gert honum gott. Hann líkti láninu jafnframt við lánið á Osman til Derby County á sínum tíma, en Osman kom sterkari til baka. Barkley sagðist í viðtali hafa notið tímans, lært mikið og væri betri leikmaður en þegar hann fór.

Norwich á morgun! Nú er um að gera að sýna að við eigum Champions League sætið skilið.

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Mér líst eiginlega ekkert of vel á þetta. Óttast að þetta verði fyrsta tap okkar á heimavelli í vetur.

 2. Halli skrifar:

  Við meigum ekki við að tapa punktum í þessum leik miðað við leikjaprógrammið sem er að koma reyndar vill maður aldrei tapa punktum. Ég mundi vilja sjá Distin í stað Heitinga í liðinu og svo var Moyes að gefa það út að Gibbson gæti verið með sem væri gott afþví að Fellaini er í banni. Þeir hafa ekki unnið á útivelli eigum við ekki að seigja bara 2-1 langar til að seigja 2-0 en treisti ekki á að halda hreinu.

 3. Ari skrifar:

  Ingvar, þetta er ágætis tilbreyting. Eftir að við unnum Manchester United í fyrsta leiknum þá höfum við búist við sigri í hverjum einasta leik (allavega ég) held að við skíttöpum þessum leik endaNorwich með fantagott lið…..

  Gibson og Bakrley á miðjunni og kannski Mirallas spili aðeins… þá getur allt gerst… við gætum jafnvel náð jafntefli og einu stigi…. 🙂

  Góða helgi félagar. kv. Ari

 4. Ari skrifar:

  Finnur, góður punktur með samherjahvatninguna frá Fellaini, var einmitt að hugsa það sama í gær…. 🙂