Reading vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Áður en vikið er að næsta leik Everton er rétt að minnast á nokkuð sem fórst fyrir að nefna í síðustu færslu en það er að Osman, í sínum fyrsta landsleik með Englendingum, fékk næst-hæstu einkunn í leik Svía og Englendinga að mati Sky Sports. Aðeins Zlatan, sem skoraði fjögur í leiknum, fékk hærri einkunn þannig að Osman gaf landsliðsþjálfaranum Hodgson nóg að hugsa um fyrir næsta leik. Það fór líka framhjá ansi mörgum (mér meðtöldum) að Coleman var valinn maður leiksins í landsleik Íra gegn Grikklandi.

En þá að næsta leik Everton sem er gegn Reading á morgun (lau) kl. 15:00 á útivelli. Þessi lið hafa aðeins mæst 8 sinnum frá upphafi (!): Everton hefur unnið fimm sinnum, einu sinni jafntefli og Reading hefur unnið tvisvar. Síðast þegar það gerðist, hins vegar, var það tímabilið 2010/11 í FA bikarnum — nokkuð óvænt, rétt eftir að Everton sló út Chelsea á brúnni eftir vítaspyrnukeppni. Everton átti arfaslakan leik það kvöldið og tapaði verðskuldað 0-1 á heimavelli og Reading fór þar með áfram í bikarnum. Þessi leikur á morgun er, hins vegar, á heimavelli Reading þar sem Everton er með betra vinningshlutfall (66%) en á eigin heimavelli (60%), eins undarlega og það hljómar. Skýrist þó af sérlega fáum leikjum sem þessi tvö lið hafa leikið.

Everton er í fjórða sæti fyrir leikinn og hafa aðeins tapað einum af 11 leikjum (á útivelli gegn West Brom). Everton gæti reyndar (tölfræðilega) misst fjórða sætið fyrir leikinn því Arsenal og Tottenham eigast við í hádeginu en Tottenham þarf að vinna þann leik með 6 mörkum til að komast upp fyrir Everton. Reading eru sigurlausir í 18. sæti með 6 stig. Aldrei er maður rólegur að mæta liði sem hefur ekki náð að sigra leik í svona langan tíma, einhverra hluta vegna. Þeir hafa gert jafntefli í síðustu þremur deildarleikjum. Everton lenti undir í sjötta leiknum í röð gegn Sunderland í síðasta leik en komst hjá því að tapa sem er nýtt met í Úrvalsdeildinni. Fellaini og Jelavic tryggðu sigurinn, eins og kunnugt er.

Hjá Reading eru markvörðurinn Alex McCarthy og miðjumennirnir Danny Guthrie og Jem Karacan meiddir. Einnig er spurning með miðjumanninn Jimmy Kebe. Hjá Everton eru Gibson og Mirallas meiddir (sá síðarnefndi virðist þó hafa sloppið nokkuð vel) en „nokkrir aðrir tæpir“ samkvæmt Moyes. Hann fór þó ekki nánar út í það þó líklega eigi hann við Anichebe og Hibbert. Uppstillingin líklega sú sama og byrjaði síðasta leik, nema hvað Naismith kemur inn á fyrir Mirallas. Uppstillingin því: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Miðjan: Osman og Neville. Pienaar á vinstri, Naismith á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi.

Samningur Moyes við Everton rennur brátt út en bæði hann og Bill Kenwright eru rólegir yfir samningamálum. Það væri gott að klára það mál en sjáum hvað setur. Moyes sagði að hann teldi ekki líklegt að liðsstyrkur bærist í janúarglugganum. Ef liðið spilar eins og það hefur spilað og Everton liðið er heppið með meiðsli þá er svo sem ekki mikið við því að segja. Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér.

En í lokin, smá skemmtileg tölfræði: Everton er eina liðið með fleiri en einn leikmann sem hafa skorað fleiri en 5 mörk í deildinni í fyrstu 11 leikjunum: Fellaini með 6 mörk, Jelavic með 5. Jelavic þar með búinn að skora 16 sinnum í 23 leikjum sem hann hefur byrjað inná fyrir Everton. Leighton Baines hefur jafnframt skapað 47 færi á tímabilinu — 10 fleiri færi en næsti maður þegar fimm helstu evrópsku deildirnar eru skoðaðar! Ekkert lið á tímabilinu hefur jafn oft og Everton hitt slána eða stöngina án þess að skora eða samtals ellefu sinnum.

Með sigri nær Everton 23 stigum úr fyrstu 12 leikjum, sem jafnar árangur Everton liðsins árið 2004/05 sem var einmitt tímabilið sem Everton endaði í fjórða sæti í deildinni.

Everton hefur skorað um það bil 2 mörk per leik (rúmlega tvö ef síðustu átta eru skoðaðir) þannig að ég ætla að spá 1-3 sigri okkar manna. Jelavic, Naismith og Vellios með mörkin. Hver er ykkar spá?

Sjáumst á Ölveri.

9 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Spái 0-2 þar sem Everton verða fyrnasterkir. Fellaini með enn eitt markið og hmmmm segjum Jelavic.

 2. Kiddi skrifar:

  0-1 Bains skorar úr vítaspyrnu á 54 mínútu, sjáumst á Ölver

 3. Baddi skrifar:

  1-3 fyrir okkur, Jelavic 2 og Osman með 1 sjáumst allir hressir á Ölver

 4. Halli skrifar:

  Þetta er skyldusigur ég ætla að tippa á það óvænta og það er að við höldum hreinu 0-2 Pienaar og Naismith

 5. Orri skrifar:

  Góðann dag.Nú tökum við það lét 0-3 Jelavic með þrennu.

 6. Halli skrifar:

  Djö er ég ánægður með hvað menn eru bjartsýnir

 7. Finnur skrifar:

  Bjartsýni er stórhættuleg. 🙂

 8. Ari skrifar:

  Góðan daginn, sammála Orra þetta verður dagur Jelavic, þrenna í hús…….:)

  Og já bjartsýni er stórhættuleg…:)

  Við erum búnir að fá svo mikið „suckerpunch“ að undanförnu eins og þú kallar það Finnur að það getur eiginlega ekki verisvoleiðis endalaust….. hehe 🙂

 9. Ari G skrifar:

  Hræðilegt að horfa upp á þetta tap. Everton áttu fyrri hálfleikinn og það voru 2 vitaspyrnur teknar af þeim sá samt illa hvort boltinn fór hendina á varnarmanninum en er næstum því viss á því. Seinni hálfleikurinn var ekki góður og Everton klaufar að tapa leiknum. Vitið er frekar klaufalegt en samt réttur dómur.