Horft yfir farinn veg

Mynd: Everton FC.

Það er mjög gaman að lesa það sem fólk segir um Everton liðið þessa dagana því það er ekkert nema jákvætt og vel tekið eftir „belgíska vorinu“, eins og ég kalla það, þó nú sé árstíðin á Íslandi önnur — eins og væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum.

Ég horfði á útdrátt úr leiknum á Everton TV (20min) og taldi 6 færi í fyrri hálfleik sem hefðu getað gefið Everton mark og 8 í þeim seinni. Er von að Moyes hafi verið svekktur að Everton næði ekki að setja fleiri mörk! Executioner’s Bong kom inn á þetta í greiningu sinni á leiknum sem er, eins og venjulega, mjög áhugaverð lesning.

Mikið hefur verið rætt um að ekki eigi að meta byrjunina fyrr en að 10 leikjum liðnum en nú er komið að því og segir ákveðna sögu að maður er hundfúll miðað við spilamennskuna að vera bara í fjórða sæti!! Afraksturinn úr þessum fyrstu leikjum:

Everton 1-0 Man United – Algjörlega verðskuldaður sigur. Everton betra liðið í leiknum.
Aston Villa 1-3 Everton – Everton hefði getað unnið stærra, yfirburðirnir voru slíkir.
West Brom 2-0 Everton – Ekkert yfir þessu tapi að kvarta. Everton liðið var ekki upp á sitt besta.
Everton 2-2 Newcastle – Rán um hábjartan dag, tvö lögleg mörk tekin af Everton. 2 stig töpuð.
Swansea 0-3 Everton – Aldrei í hættu.
Everton 3-1 Southampton – Verðskuldað.
Wigan 2-2 Everton – Sárt að fá bara 1 stig hér: Wigan með rangstöðumark og Jelavic sparkaður niður í teig en ekkert dæmt. 2 stig töpuð.
QPR 1-1 Everton – Pienaar rekinn út af fyrir litlar sakir.
Everton 2-2 Liverpool – Bæði lið geta verið sátt við jafntefli (mark ranglega tekið af Suarez en hann átti að fá rautt fyrr í leiknum).
Fulham 2-2 Everton – Hvernig í ósköpunum vann Everton þennan leik ekki með fjórum, 5 eða jafnvel 6 mörkum?!? Óskiljanlegt! 2 stig töpuð.

Kíkjum á töfluna (efri hluta hennar):

Eftir 10 leiki er Everton því með 17 stig (1.7 stig er ágætis afrakstur per leik), 19 mörk skoruð (næstum tvö mörk í leik, sem er ansi gott — aðeins þrjú önnur lið hafa gert betur) og 13 mörk á sig (1.3 per leik), sem er aðeins of mikið en Moyes veit hvernig á að spila varnarleik og nær örugglega að þétta þetta þegar á líður. Mann langar líka mikið að sjá Gibson taka við hlutverki varnarsinnaða miðjumannsins, sem Neville hefur verið að leysa hann af í vegna meiðsla Gibson.

Á móti kemur líka að 6 af þessum 10 leikjum hefur Everton verið á útivelli, sem gerir tölfræðina bara ennþá meira tilkomumeiri. Það lofar líka góðu að Everton hefur verið að dóminera andstæðinginn og skapa sér tugi og stundum jafnvel vel á þriðja tug færa í leik. Everton skapar sér víst flest færi allra liða í Evrópu, þó mér skildist að Bayern Munchen hafi tekið efsta sætið fyrir Fulham leikinn — en það var skammlifað því Everton tók það strax aftur. Á heildina litið myndi ég segja, að síðustu leikjum gefnum, að Everton ætti skilið að vera með fleiri stig en taflan sýnir, sem óháð úttekt staðfestir.

Það er auk þess mjög jákvætt að sjá að það er ákveðin breidd í mörkunum. Þetta er ekki bara fyrirgjafir frá Baines sem leiða til skallamarka, við höfum séð báða kantana lifna við, séð þríhyrningaspil gegnum vörn andstæðinganna, séð skallamörk, mörk úr af færum úr nokkurri fjarlægð, hárfínar sendingar upp kantinn þar sem komist er bak við vörnina og sent fyrir markið, miðverðina okkar frammi að skora úr föstu leikatriði, og svona mætti lengi telja. Ekki vantar færin en því er ekki að neita að skotnýtingin mætti þó vera betri, eins og Executioner’s Bong minntist á í greiningu sinni þar að lútandi.

Gary Lineker sagði á MOTD áður en hann sýndi útdráttinn úr leik Everton við Fulham eitthvað á þessa leið: „Next up we see Fulham, who have been sensational at home, entertain Everton, who have been… pretty much sensational“. Held hann hafi hitt þar naglann á höfuðið. Match of the Day 3 valdi auk þess lið tímabilsins hingað til og þar eru hvorki fleiri né færri en þrír Everton menn! Eina liðið sem kemst nálægt því í fjölda leikmanna er Chelsea með tvo leikmenn. Önnur lið náðu bara einum manni inn.

Það var líka skemmtilegt að lesa viðtölin við Fulham mennina eftir leikinn við Everton, eins og til dæmis stjórann, Martin Jol: „They dominated us and [Alexander] Kacaniklic was nearly playing at left-back, while [Damien] Duff over the other side was the same. We had a spare man in midfield, but they were almost playing a 4-2-4 and Fellaini was more of a striker than a midfield player today and it’s a very good and brave style. […] The only thing that I can say that’s positive is that we never gave up. Everton were stronger than us, they are a very good team and they pressed us and their full-backs were almost playing like Barcelona’s do“. Jahá, það er ekkert annað. 🙂

Varnarmaðurinn Reicher hjá Fulham sagði auk þess: „I can understand why Everton are disappointed. They’re the best team we’ve played this season“. Ég get ímyndað mér að Roberto Mancini sé ekkert spenntur að heyra svoleiðis komment en þeir unnu Fulham á Craven Cottage fyrr á tímabilinu. 🙂 Það er kannski ekki skrýtið að Moyes er farinn að leyfa sér að tala um að Everton gæti endað í einu af efstu fjórum sætunum í lok tímabils.

Fellaini var svo valinn í lið vikunnar hjá Goal tímaritinu. Þetta er í fjórða skipti á tímabilinu sem hann er valinn, oftast allra þeirra sem nú voru valdir í liðið.

Í öðrum fréttum er það helst að U21 árs markvörður Bandaríkjanna, Zak MacMath, er byrjaður að æfa með Everton næstu þrjár vikurnar. Hann ku vera einn efnilegasti markvörður Bandaríkjanna og hefur verið viðloðandi Everton áður. Kannski honum sé ætlað að setja pressu á Howard, sem hefði getað mátt gera betur í fyrra marki Fulham (en honum til framdráttar verður maður líka að telja að hann varði frábærlega frá Berbatov síðar í leiknum). Líklegast þykir þó að Zak sé bara að halda sér í góðu formi þangað til tímabilið hefst á ný í bandarísku deildinni.

Everton U18 gerði 2-2 jafntefli við West Brom á útivelli en framherjinn Harry Charsley skoraði bæði mörk Everton. Everton U21 vann West Brom U21 2-1, með mörkum frá Matthew Kennedy og Hallam Hope. Barkley, ungstirnið okkar, skoraði fyrra mark Sheffield Wednesday í leik sem þeir unni 2-1 gegn Peterborough. Hann var auk þess á dögunum valinn leikmaður októbermánaðar af aðdáendum Sheffield Wednesday.

Og í lokin er rétt að geta þess að Distin er að vonast eftir nýjum samningi þegar tímabilinu lýkur en þá klárast núverandi samningur. Hann er 34. ára gamall en sýnir engin ellimerki enda ennþá einn fljótasti maðurinn í liðinu. Hvað segið þið? Finnst ykkur hann eiga það skilið?

6 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Og þeir halda ekki vatni yfir Barkley heldur, leikmenn Sheffield Wednesday…
  http://www.toffeeweb.com/season/12-13/news/22882.html

 2. Gestur skrifar:

  Enn og aftur frábær pistill.
  Með þessu áframhaldi, 1,7stig á leik fáum við 65stig sem er ekki nógu mikið til að vera í 4 efstu. Í fyrra 56stig 7sæti, 2011 54stig og 7sæti, 2010 61stig og 8sæti, 2009 63stig og 5sæti og 2008 65stig og 5sæti. Stigin þurfa að vera um 70 en ef Everton ætlar að enda tímabilið eins og undanfarin ár er ekkert að óttast.
  Distin á skilið að fá nýjan samning, hann er alveg þræl öflugur, stór og sterkur og fanta fljótur. Heitinga á ekki roð í hann í sprettum og fleiru.

 3. Finnur skrifar:

  > Með þessu áfram haldi, 1,7stig á leik fáum við 65stig
  > sem er ekki nógu mikið til að vera í 4 efstu

  Mikið rétt. Síðustu árin hefur þetta verið stigafjöldinn sem hefði nægt liði fyrir neðan 4. sætið að taka 4. sætið af liðinu sem lenti í fjórða sætinu það árið:

  04/05: 62
  05/06: 68
  06/07: 69
  07/08: 77
  08/09: 73
  09/10: 71
  10/11: 69
  11/12: 70

  En svo horfir maður líka á að það voru ansi mörg vafaatriði sem féllu á móti Everton á fyrstu 10 leikjunum og réðu úrslitum um stigafjöldann. Efast um að það verði svo allt tímabilið og svo er Gibson að koma aftur. Á móti kemur svo náttúrulega að formið gæti versnað og maður veit ekki hver meiðist en ef liðið heldur áfram að spila svona og er heppið með meiðsli þá er aldrei að vita hvað gerist. One can always hope. 🙂

 4. Halli skrifar:

  Það er líklegt að 4 sætið vinnist á færri stigum í ár en oft áður vegna þess hve liðin eru að taka mikið af stigum hvert á móti öðrum og lið eins og Arsenal, tottenham og rs virka töluvert veikari en áður svo eru að koma lið eins og Everton,wba og fulham sterkari til leiks. Distin á klárlega að fá framlengingu á sínum samningi. Barkley til baka okkur vantar mann með hans hæfileika á miðjuna.

 5. Gunnþór skrifar:

  döfull er Everton gott lið strákar og allir Everton menn eru toppmenn. 🙂

 6. Ari skrifar:

  Frábær lesning að venju hjá þér Finnur. Já pottþétt að bjóða Distin samning. Ég myndi bjóða honum eitt ár í einu kominn á þennann aldur. Jafnvel tvö ár…. Moyes getur metið það betur en ég.

  Það virðist ætla að heppnast frábærlega lánið á Barkley, það verður eins og að kaupa til sín besta unga leikmanninn á markaðnum í Englandi. Gæti gerst núna í nóv. (vonandi)

  Og vonandi kemur Ofoe (erþaðekki rétt nafn?) til okkar í jan.

  Neville er að dala mikið en reynir alltaf sitt besta samt. Okkur vantar sárlega miðjumann eða menn…. vonandi verður Hitzlsperger í formi fyrir okkur…….

  eitthvað svo mikið af „vonandi“ hjá mér en við erum með frábærtlið það er ekkert vonandi það er staðreynd…. 🙂