Everton – Fulham 2-2

Mynd: Everton FC.

Fulham og Everton mættust í dag á Craven Cottage og skildu jöfn, 2-2, en ekki laust við að manni fyndist Everton hefði getað skorað milli 5 og 10 mörk í leiknum.

Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Osman og Neville á miðjunni. Sem sagt: Pienaar og Mirallas á köntunum. Fellaini fyrir aftan Jelavic. Pienaar og Heitinga inn, Naismith og Distin út. Fyrir leikinn var talið að Mirallas væri tæpur eftir að Suarez braut illa á honum í síðasta leik en það endaði svo að hann var leikfær en hitt fórnarlamb Suarez (Distin) var tekinn úr byrjunarliðinu frá í síðasta leik.

Það er skemmst frá því að segja að sjötta leikinn í röð byrjar Everton líflega en fær á sig suckerpunch mark gegn gangi leiksins á fyrstu 15 mínútunum og ekki laust við að maður fari að halda að þetta sé bölvun.

Fulham átti aukaspyrnu nokkuð utan við teig á 7. mínútu og taka þeir skot á markið. Howard reynir að slá boltann frá en fer ekki betur en svo að boltinn fór í stöngina innanverða, vinstra megin við Howard, og þaðan í bakið á honum og inn. Sjálfsmark. Annan leikinn í röð. Gjörsamlega óþolandi. Ekki laust samt við að maður spyrji sig hvort Howard hefði ekki átt að gera betur.

Sama má segja um Jelavic, sem klúðraði tveimur dauðafærum í fyrri hálfleik. Það lofaði þó góðu að Everton menn gáfust ekki upp frekar en fyrri daginn heldur tóku öll völdin á vellinum. Fellaini og Coleman voru báðir nálægt því að jafna en markvörðurinn bjargaði vel fyrir Fulham og Jagielka átti hættulegt skot.

En allt kom fyrir ekki. Staðan 1-0 í hálfleik.

Fellaini, sem var óstöðvandi í leiknum, setti tvö mörk á Fulham í seinni hálfleik. Það fyrra á 55. mínútu eftir góðan undirbúning Mirallas á hægri kanti þar sem Mirallas tímasetti hlaup upp í hornið fullkomlega (eða Coleman sendinguna eftir því hvernig á það er litið), fékk boltann frá Coleman, kemst einn upp að endamörkum og sendir lágt til baka fyrir markið og þar er Fellaini mættur óvaldaður og er ekki í nokkrum vandræðum með að afgreiða færið. 1-1.

Howard sá til þess að Fulham kæmust ekki yfir aftur með frábærri markvörslu frá Berbatov, sem slapp úr rangstöðugildru. En seinna mark Fellaini kom svo á 72. mínútu þegar Jagielka sendir langan bolta á Fellaini sem vinnur skallaeinvígi við varnarmann Fulham, tekur boltann niður og fær þrjá varnarmenn í sig en nær að skjóta lágt niðri í vinstra hornið, framhjá Schwarzer, markverði Fulham. Staðan orðin 1-2 fyrir Everton sem hér var komið mjög verðskuldað yfir.

Naismith kom inn á á 79. mínútu og var líflegur. Átti skot sem var bjargað á línu og skot sem markvörður bjargaði í horn. Fellaini átti fyrst skot sem breytti um stefnu og fór í stöngina en svo skot sem Schwarzer varði.

En, rétt áður en dómarinn flautaði til leiksloka hefndist okkar mönnum fyrir það að vera ekki búnir að klára leikinn fyrir löngu þegar sending Fulham kemur frá hægri kanti fyrir markið og þar missir Berbatov af boltanum fyrir framan markið en Sidwell er mættur og skorar.

Sérlega grátlegt að missa þetta niður í jafntefli í blálokin, sérstaklega þegar tölfræðilegir yfirburðir Everton eru skoðaðir. Everton með boltann 61% leiks, með 26 skot (!) þar af 15 (!) sem rata á markið (Fulham hitti fimm sinnum á markið). Moyes átti ekki orð í viðtali eftir leikinn yfir það hvernig Everton náði ekki að skora þriðja markið. Þó Fulham menn hefðu tapað fyrir Englandsmeisturum Man City á Craven Cottage þá sögðu þeir eftir leikinn að Everton liðið væri besta liðið sem mætt hefur þeim á heimvelli á tímabilinu, sem er ekki skrýtið í ljósi yfirburða Everton í leiknum. Einu sinni mátti alltaf búast við tapi þegar Everton mætti á Craven Cottage. Nú þessi síðustu ár er maður hundfúll með jafntefli. Það er þó allavega framför.

Fjórða jafnteflið í röð staðreynd og enn og aftur er Everton betra liðið. Samt náði Everton með jafnteflinu aftur fjórða sætinu af Tottenham, sem tapaði óvænt fyrir Wigan. Björtu punktarnir í þessu er að Everton er að spila fantavel og eins og vanti bara að fá Jelavic aftur í gang. Þegar sá maður nær að stilla kanónuna sína þá er aldrei að vita nema við fáum snemmbúna áramóta-flugeldasýningu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Heitinga 6, Jagielka 6, Coleman 6, Pienaar 7, Osman 7, Neville 7, Mirallas 8, Fellaini 8, Jelavic 6. Varamenn: Naismith og Distin, báðir 6. Átta leikmenn Fulham fengu 6, varnarmaðurinn Riether með 8 og Kacaniklic og Ruiz með 7.

7 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Ég er farinn að velta fyrir mér hvort að við þurfum nýjan markmann Howard er of mistækur í vetur

 2. Gestur skrifar:

  Ég er sammála með Howard, hann hefur ekki verið nógu traustur það sem af er. Ég var að horfa á klippur úr leiknum og það er alveg ótrúlegt að Everton skuli ekki hafa skorða þriðja markið. Í jöfnunar markinu finnst mér varnalínan léleg, allir að horfa á boltann og Coleman áttar sig ekki á að það er maður í bakinu á honum sem stingur sér fram fyrir hann og skorar. alveg hrikalega lélegt. Það er algjör synd að spila svona vel leik eftir leik og vera að gera alltaf jafntefli.
  Við hljótum að fá Everton sigur fljótlega. Áfram Everton

 3. Finnur skrifar:

  Hann má þó eiga það, hann Howard, að hann átti mjög glæsilega markvörslu með annarri hendi gegn Berbatov seinna í leiknum.

  Hann verður bara að taka sig á og sýna betri leiki í framhaldinu, annars er það bara Mucha inn á (gúlp). 🙂

 4. Halli skrifar:

  Er ekki bara málið að kaupa Butland u-21 árs markmann Englendinga frá Birmingham þeir eru víst blankir og allir til sölu strax í jan og setja fulla pressu á Howard

  • Gestur skrifar:

   það væri gott að fá meiri pressu á Howard, Mucha hefur ekki verið að meika það þegar hann hefur fengið tækifæri.

 5. Finnur skrifar:

  Það verður að setja meiri pressu á Howard, svo mikið er víst.

 6. Finnur skrifar:

  Það segir reyndar í Daily Mail að markvörðurinn Zac MacMath sé á Finch Farm, hvað sem það merkir…

  „The USA Under 20 international had a similar spell at Goodison last year and David Moyes will review his progress after he works alongside fellow countryman Tim Howard.“

  „At 21, MacMath is rated as one of his country’s hottest footballing prospects.“

  „He was the star man when Aston Villa played in the Union during a summer tour of the States, pulling of a series of impressive saves highlighting his ability.“