Mynd: Everton FC.
Ég rakst á dögunum á grein á fotbolti.net (link) frá eldheitum Liverpool manni sem heitir Kristján Atli. Ég ákvað að bíða með að fjalla um greinina, melta hana í staðinn aðeins um tíma og velta um leið fyrir mér þeim punktum sem þar koma fram. Greinin er greinilega skrifuð í hita leiksins og maður er ekki sammála öllu sem þar kemur fram en mér finnst rétt að vekja athygli á greininni því þar má finna ýmsa góða punkta sem vert er að staldra við og hugleiða.
Tvennt gerir höfundur að sínu helsta umtalsefni í greininni. Hann vekur til dæmis athygli á hörkunni í umræðum um leikmenn annarra liða og ég tek heils hugar undir þau sjónarmið að umræðan er oft á tíðum afskaplega ljót. Hræsnin og óbilgirnin gagnvart leikmönnum annarra liða sem og blinda gegn leikmönnum eigin liðs er oft allsráðandi. Það þarf reyndar ekki Twitter leit um einstaka leiki til að finna slík dæmi; nóg er af þessu í pólitíkinni á samskiptavefjunum (innanlands sem utan) sem og í kommentakerfum á vefnum víðs vegar — og hefur verið lengi. Þetta virðist fylgja mannlegu eðli: Um leið og dregið er í dilka, skipt í lið (okkar menn og ykkar menn) þá byrja skotin. Því meira sem lagt er undir, því meiri völd og/eða peningar sem eru í spilinu og því hugleiknara sem viðfangsefnið er fólki, því lengra yfir strikið hætta menn sér, að því er virðist. Og er það miður. Ég tek heilshugar undir það að orðræðan fer oft yfir strikið og víða pottur brotinn í þeim efnum. Heilbrigður rígur er í lagi. Góðlátleg skot stuðningsmanna á milli eru í lagi (og oft á tíðum bráðfyndin). Allt tal um líkamsmeiðingar og ljótar uppnefningar, eins og dæmi í greininni sýna, eru alls ekki í lagi. Slíkt ber að fordæma.
„… mér finnst þetta hatur á milli stuðningsmanna liða hafa versnað fram úr öllu hófi síðustu eitt eða tvö árin.“
Ég get ekki fullyrt að þetta sé rétt. Það má vera að svo sé en ég held að þetta hafa verið slæmt mjög lengi og bendi á að það er líklega ekki tilviljun að Suarez kom til liðs við Liverpool í janúarglugganum fyrir einmitt rétt tæpum tveimur árum síðan, sem ég held að hafi mikið meira að segja fyrir upplifun Liverpool manna, á borð við Kristján Atla, á umræðunni en nokkuð annað.
Englendingar nota hugtakið „lightning rod“ þegar kemur að umdeildum mönnum og það á mjög vel við um Suarez. Hann hefur frábæra hæfileika til að spila fótbolta, er stórhættulegur framherji en stór böggull fylgir þar skammrifi því hann er með mjög dökka hlið. Frá upphafi hefur ógæfan og orðsporið elt hann. Hann var ekki nema 15 ára þegar hann skallaði dómara í leik (!) og eitt sinn beit hann andstæðing í öxlina í leik í Hollandi (!). Með Uruguay í heimsmeistarakeppninni 2010 kom hann í veg fyrir að Ghana sigraði verðskuldað þegar hann varði boltann á línu með hendi á lokamínútunum og kom þannig í veg fyrir mark. Stundum virðist sem öllum bolabrögðum sé beitt til að lið hans færi óverðskuldað áfram. Og til að bæta gráu ofan á svart þá stærði hann sig af því að hafa átt markvörslu keppninnar… Það er talað um einelti í bresku pressunni gagnvart honum en það er nú varla hægt að segja að hann sé alveg saklaus af þessu orðspori sem af honum fer.
Þessir brestir hefðu átt að vera forsvarsmönnum Liverpool að fullu ljósir því þetta gerðist allt áður en þeir keyptu Suarez. Sagan síðan þá er vel þekkt og óþarfi að endurtaka.
Seinna umtalsefnið í greininni er dómgæslan á Englandi því Liverpool vermir botnsætið í óháðri úttekt á því hvernig vafaatriði hafa fallið með eða á móti liðum. Everton er ekki nema einu sæti ofar en Liverpool í þeirri töflu þannig að saman hafa þessi lið fengið fæst allra vafaatriða dæmd sér í hag.
Þó verulega hafi hallað á Everton á tímabilinu (eins og greinilega Liverpool) get ég samt ekki tekið undir það að dómgæslan sé að eyðileggja leikinn, nema þá kannski að um mútugreiðslur sé að ræða — sem ég tel ekki að sé um að ræða hér. Dómarar og línumenn gera mistök, mismörg um hverja helgi — alveg eins og leikmenn og það er partur af leiknum. Dómarar munu alltaf gera mistök og svo lengi sem svo er er óhjákvæmilegt að einhver lið vermi neðstu sætin í úttektinni sem minnst var á. Í ár kemur það í hlut Merseyside liðanna tveggja.
Ég hef verið spurður hvort mér finnist ég ekki vera stálheppinn að sleppa með jafntefli úr leiknum þar sem hallað hefði svo mikið á Liverpool í leiknum í dómgæslunni. Ég get ekki tekið undir það, sem ég mun útskýra hér að neðan. Ég hef líka séð því haldið fram að Everton hafi með svindli stolið sigrinum af Liverpool í leiknum, líkt og gefið sé í skyn að Everton hafi stjórnað dómaratríóinu eða mútað því. Slík ummæli dæma sig sjálf.
Horfum fyrst framhjá lokamarkinu aðeins um stund (humor me) og hugleiðum hvað hefði gerst ef leikurinn hefði endað á 93. mínútu en ekki mínútu síðar. Þá hefði umræðan um leikinn verið allt önnur að mínu mati. Tölfræðin hjá hlutlausum aðilum sýnir að Everton var betra liðið, nánast sama hvar litið er: Everton með boltann 60% leiks, meira með boltann á vallarhelmingi andstæðings (territorial advantage), fleiri sendingartilraunir en andstæðingurinn og fleiri heppnaðar sendingar, fleiri sendingar fram völlinn vs. aftur, fleiri færi, fleiri tilraunir að marki og fleiri skot (eða skallar) sem rötuðu _á_ markið. Liverpool var með fleiri brot og vann kýla-boltann-fram tölfræðina (eins mikil íronía og það er sbr. orð Gerrards eftir leikinn sem hann svo dró til baka og afsakaði sig fyrir — og er maður meiri fyrir vikið).
En víkjum þá að Liverpool markinu sem var ranglega dæmt rangstöðumark undir lokin. Hér sannast enn og aftur að til að fá rétta tilfinningu fyrir því hvað er sanngjarnt og hvað ekki, er ekki nóg að skoða eitt atvik úr samhengi heldur verður að skoða leikinn í heild sinni. Flestum þætti það til dæmis mjög ósanngjarnt ef leikmaður andstæðinganna sem á að vera búinn að fá þrjú spjöld fyrr í leiknum (þar af eitt sem hefði getað verið hreint og klárt rautt) skorar sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins. Þrjú spjöld? Hvernig fæ ég það út?
Fyrsta spjaldið átti að líta dagsins ljós þegar Suarez dýfði sér í „fagninu“ fyrir framan Moyes. Ég skal viðurkenna að ég er farinn að sjá húmorinn í dýfunni, en skv. reglunum er þetta gult spjald fyrir að ögra. Það má deila um hvort það séu sanngjarnar reglur, svipað og þegar menn fagna með því að fara úr að ofan, en Graham Poll (dómari) benti á að dómari leiksins hefði gert mistök hér með því að gefa ekki gult spjald. Reglur eru reglur, eitt skal yfir alla ganga.
Það sást jafnframt augljóslega að Mirallas olli miklum usla á vinstri kantinum í fjarveru eins besta manns Everton (Pieanar). Ég er náttúrulega litaður (bláu) 🙂 en ég get ekki betur séð en að Suarez hafi ákveðið að taka málin í sínar hendur áður en Liverpool fengi á sig þriðja markið og stígur að mínu mati viljandi á ristina á honum þegar Suarez hleypur framhjá Mirallas. Mirallas, sem var mest skapandi leikmaður Everton í leiknum ásamt Baines, yfirgaf Goodison Park á hækjum eftir þetta brot sem hefði auðveldlega getað brotið bein í ristinni. Stórhættuleg tækling, búinn að missa af boltanum. Bara farið í manninn. En fær ekki einu sinni gult spjald. Þarna á Suarez með réttu að vera farinn út af með tvö gul spjöld.
Þriðja atvikið var svo enn ljótara þar sem Suarez stígur aftan á ökklann á Distin. Aftur var enginn séns hjá Suarez að ná til boltans, bara vaðið í manninn aftan frá, setur sveigju á ökklann á Distin og hefði auðveldlega getað brotið hann. Ég myndi kaupa það að þetta hafi verið óvart ef þetta hefði verið Sterling eða einhver með aðeins jákvæðara orðspor, því ef saga Suarez er skoðuð, bæði fyrir og eftir að hann kom til Englands, þá finnst mér líklegra að allavega annað og líklega bæði þessi brot hafi verið ásetningur.
Og það er ekki bara ég sem held því fram að hann hafi átt að fá rautt í leiknum, þetta hefur komið fram á Liverpool bloggi frá gallhörðum Liverpool manni, sem er mjög góð og holl lesning.
Nei, segi ég. Það hallaði ekki á Liverpool í leiknum þó dómarinn hafi gert mistök. Þau komu niður á báðum liðum. Í stað þess að halda fram að Everton hafi sloppið vel myndi ég segja að bæði lið voru stálheppin að tapa ekki leiknum. Sterling hefði getað klárað flott færi fyrir Liverpool — algjört dauðafæri. Jelavic, Fellaini og Naismith fengu allir mjög gott tækifæri til að klára leikinn. Niðurstaðan var hins vegar jafntefli sem maður er að sjálfsögðu ósáttur við þegar tölfræðin er skoðuð en teljast ekki ósanngjörn úrslit úr annars óvenju fjörugum og spennandi leik, sem er ekki alltaf raunin með þessa derby leiki.
En hvað er þá að eyðileggja knattspyrnuna, ef eitthvað er? Að mínu mati er það ekki dómgæslan heldur kannski frekar þessi „win-at-all-cost“ hugsunarháttur. Fólskuleg og stórhættuleg brot á lykilmönnum andstæðinganna. Já, ég tel þar með traðkið á Suarez í Stoke leiknum. Þetta á ekki að sjást, frekar en allir þessir blekkingarleikir gagnvart dómaranum — reyna að fiska aukaspyrnur, dýfa sér í teignum, kynþáttaníðið þegar enginn nema fórnarlambið heyrir til. Það er sama hvort það er Drogba, Suarez, Terry, Ronaldo eða Neville. Þetta er kýli sem verður að stinga á með því að félögin, stjórarnir og fyrirliðarnir viðurkenni vandamálið og vinni í því. Stjórar: Ekki grafa hausinn í sandinn og segjast í viðtölum ekki hafa séð atvikið. Þið horfið á leikinn aftur. Við vitum það. Fyrirliðar: Ekki benda á aðra leikmenn og segja þeir gera þetta líka. Takið á þessu vandamáli. Af hverju má ekki fara að dæmi David Moyes, stjóra Everton, og leggja leikmönnum sínum línuna fyrir tímabilið (standið í fæturna, ekki fiska vítaspyrnur!) og láta þá heyra það í hálfleik þegar þeir láta sig detta til að fá aukaspyrnu (eins og Neville í síðasta leik)?
Leikmaður sem reynir að svindla með öllum mögulegum aðferðum (alveg sama hver á í hlut) skemmir ekki bara ánægju stuðningsmanna andstæðinganna sinna á vellinum (og hlutlausra). Smám saman fær leikmaðurinn á sig stimpil sem leiðir til þess að mótherjarnir fara að sleppa með refsingu eftir brot á honum (úlfur úlfur og allt það). Sem gerir stuðningsmenn leikmannsins æfa. Fyrir vikið magnast upp spennan milli liða, ásakanirnar ganga á báða bóga og orðræðan verður ennþá ljótari. Áhorfendur missa áhugann á íþróttinni. Með öðrum orðum, allir tapa.
heyr, heyr.
Sem Liverpool maður varð ég bara að setja hérna nokkur orð..
Í fyrsta lagi, frábær pistill, og er ég sammála öllu því sem kemur fram hjá þér..
Langar reyndar að koma fram minni skoðun á tæklingu Suarez á Mirallas, miðað við vidjóið held ég að traðkið á ristinni hafi ekki verið það versta heldur er að Suarez sparkar í legginn innanverðann á stoðfætinum, og fyrir utan það hvað það getur verið vont, þá getur það beinlínis ollið fótbroti ef nógu fast er sparkað.. Ég er sammála þér með gula spjaldið í þessu tilfelli..
Ég sem Liverpoolmaður er ósáttur með úrslitin, ekki vegna þess að það var tekið af okkur „sigurmark“ heldur vegna þess að mín skoðun er sú, að Liverpool átti ekki skilið einu sinni 1 stig úr þessum leik.. Suarez hefði ekki átt að klára leikinn, og aðrir voru bara ekki góðir..
En annars, frábær pistill 🙂
Takk kærlega fyrir það. Ég virði það við Suarez að hann stóð í lappirnar í þessum leik — allavega tók ég ekki eftir því að hann léti sig detta auðveldlega. Það er samt erfitt að feta línuna í svona umfjöllun, mjög auðvelt að detta í skotgrafirnar og maður veit aldrei hvað menn lesa milli línanna þannig að ég hafði miklar áhyggjur að menn myndi túlka þetta sem hit-piece á Suarez, sem var ekki ætlunin. Það er bara ekki hægt að verjast ásökunum um að hafa svindlað/stolið
sigrinumjafnteflinu án þess að minnast á þátt Suarez-ar í leiknum. Ég andaði þó mun léttar þegar ég las þetta svar frá þér. Takk fyrir það.> að Liverpool átti ekki skilið einu sinni 1 stig úr þessum leik…
Tja, það er nú ekki eins og Liverpool hafi ekki skapað sér dauðafæri í þessum leik. 🙂
Frábær samantekt og grein hér á ferð, vel gert. Ég er alveg sammála þessu með að allir verði að taka sig á. Það er óþolandi að horfa á suma leiki, mér finnst til dæmis að Moyes ætti að tala við Neville núna og taka af honum fyrirliðabandið í einn leik, það finnst mér sjálfsagt og ég veit að Neville myndi taka því af stórmennsku. Dýfingar eru óþolandi og þessi brot sem maður sér orðið oftar þar sem lið ákveður í sameiningu að brjóta sem mest og illa á einhverjum ákveðnum leikmanni í hinu liðinu, eins og virtist vera raunin með Mirallas í síðasta leik. Asskoti var illa og mikið brotið á honum. Burt með þetta 🙂
Það er ekki svo slæm hugmynd. Það myndi senda fín skilaboð að gera Jagielka fyrirliða í Fulham leiknum, þó ekki væri nema í einn leik.
Jújú vissulega sköpuðu þeir sér færi, en ég hef bara vissann standard til að vera sáttur við sigurleiki hjá liðinu mínu 🙂
Góð grein Finnur:)
Mögnuð samantekt. Miðað við þessi video er það engin vafi að hann er að gera þetta af ásetningi, því miður. En það sem fer mest í taugarnar á mér í boltanum í dag er þessi leikaraskapur. Þetta er eitthvað sem á að refsa fyrir t.d. með með því að skoða upptökur eftir leiki. Það þarf að gera eitthvað svo menn hætti þessu, senda menn í leikbann. Því þetta er bara alvarlegt svindl.
Flott umfjöllun Finnur
Frábær grein Finnu 🙂