Tökum upp léttara hjal

Mynd: Everton FC.

Ég setti inn grein hér áðan sem svarar gagnrýni Gerrards fullum hálsi, en hef ákveðið að taka hana út aftur til að vera ekki að kasta olíu á eldinn. Leikurinn er búinn og ég ætla ekki að velta mér (og lesendum) meira upp úr þessu. Það er kominn tími til að horfa fram á við og eyða orkunni í annað. Það eru alltaf heitar tilfinningar í gangi í kringum þessa leiki en ég held að á þessum tímapunkti sé rétt að allir dragi djúpt andann og slaki á. Þetta er bara leikur og réttara að eyða orkunni í eitthvað markverðara en að munnhöggvast hver við annan. Stemmingin meðal þessara tveggja liða sýndi batamerki fyrir leikinn eftir að stuðningsmenn tóku höndum saman í kjölfar Hillsborough fréttanna á dögunum og leiðinlegt ef þessi leikur verði til að skemma þar fyrir sem og að skemma ánægjuna af leiknum almennt séð. Bæði lið hafa farið höllum fæti á mismunandi tímum úr þessum derby leikjum en reynum að horfa á það jákvæða í þessu.

Mín lokaorð um þennan leik verða að segja að ég er stoltur af okkar mönnum fyrir að mæta vel stefndir til leiks, spila flottan bolta og leysa Pienaar vel af hólmi. Ég var smeykur að missa hann en Mirallas og Naismith komu sterkir inn á móti. Everton missti ekki þróttinn þó þeir hafi lent 0-2 undir, sem segir margt um karakterinn í þessu liði — sem hefur lent oft undir á tímabilinu og náð að jafna og stundum sigra. Næsti leikur er erfiður útileikur á móti Fulham.

En þá að öðrum fréttum sem hafa setið á hakanum vegna derby leiksins en ungstirnið okkar, Ross Barkley, er að gera það gott með Sheffield Wednesday. Þessi 18 ára miðjumaður skoraði tvö mörk lánsliðs síns í 3-0 sigri þeirra á útivelli gegn Ipswich.

Everton U18 ára liðið gerði 1-1 jafntefli við West Ham U18 á laugardeginum. Aðstæður til fótbolta voru erfiðar en mikið rok var á vellinum. Mark Everton kom í kjölfar þess að brotið var á Ryan Ledson inni í teig en hann stóð upp og skoraði jöfnunarmark Everton úr vítinu. Everton liðið var meira með boltann og sótti hart að West Ham en náði ekki að sigra. Everton U21 lék einnig við West Ham U21 á dögunum en tapaði 1-0 á útivelli.

7 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Ég er að hluta til sammála Gerrard, Neville brást honum Moyes alvarlega með þessari dýfu. Moyes hefur talað um að honum finnist þeir sem dýfa sér svindlarar. En auðvitað skilur maður Liverpool menn að skora löglegt mark, en svo dæmt að þeim.

 2. Finnur skrifar:

  Og já, ég er líka afskaplega stoltur af Moyes og já, líka Neville. Neville fyrir að skammast sín eftir leikinn fyrir að hafa látið sig detta og Moyes fyrir að láta hann heyra það í hálfleik. Mér finnst margir fleiri stjórar mættu fara að dæmi Moyes-ar. Læt vera að benda á hverjir ætti að gera það en það eru of margir sem koma til greina.

 3. Halldór S Sig skrifar:

  Leiðinlegt að heyra svona aumkunarvert væl hjá þessum annars ágæta leikmanni, sem ég by the way var að dásama í mínu síðasta komenti. En við vitum betur og höldum ótrauðir áfram, því það er bjart framundan. 🙂

 4. Halli skrifar:

  Eftir 9 umferðir í fyrra vorum við í 11 sæti með 10 stig og 1 mark í plus en núna eru stigin 16 sæti 5 og 6 mörk í plus er það ekki bros dagsins

 5. Finnur skrifar:

  Algjörlega. Næstum því tvö stig að meðaltali í leik. Líst vel á byrjunina á tímabilinu. Hún lofar góðu um framhaldið.

 6. Elvar Örn skrifar:

  Mér fannst dýfan hjá Neville agalega bjánaleg en mér fannst það sama um leikburði Gerrard þegar hann fiskaði aukaspyrnuna í lokin, hmmm.
  Everton hefur verið að spila frábærlega í vetur og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn.
  Framundan eru Fulham, Reading, Sunderland og Norwich svo við ættum að geta bætt nokkrum stigum í hús.

 7. Gunnþór skrifar:

  Gerrard hefur ekki efni á að tala um dýfur,hann er lúmskur dýfari og það er til syrpa með honum á youtube þar sem hann hendir sér hvað eftir annað leik eftir leik,hann er bara svo anskoti lúmskur það er munurinn á honum og Neville.