Upphitun fyrir sunnudaginn

Mynd: Everton FC.

Ég er hóflega bjartsýnn fyrir leikinn á sunnudaginn.

Jú, Pienaar er í banni (og já, ég er enn ósáttur við dómarann fyrir fáránlegt seinna gult spjald). Hans verður sárt saknað (Pienaar, þeas. ekki dómarans) en liðið okkar er betra en í fyrra og nú erum við komnir með meiri breidd þannig að fjarvera Pienaar hefur vonandi minni áhrif. Gæti trúað því að Mirallas taki þetta að sér (hann og Baines ættu að geta náð ágætlega saman) og Naismith komi þá inn hægra megin — eða þá Gueye taki stöðu Pienaar en hann og Baines náðu mjög vel saman á vinstri kantinum í FA bikarleikjunum, í fjarveru Pienaar. Ég á síður von á að Oviedo sé tilbúinn í það hlutverk, þó honum hafi verið ætlað að fylla í skarð Pienaar/Baines þegar á þurfi að halda. Stóra spurningarmerkið er enn við Fellaini sem missti af landsleikjunum og leiknum við QPR en meiðsli hans eru sögð ekki alvarleg og mikilvægt að fá hann í gang aftur fljótt. Gibson, lukkutröllið okkar, gæti átt séns í leikinn þó ég eigi síður von á að hann byrji og Hibbert hefur allur verið að koma til.

Hjá þeim er Borini nýbúinn að fótbrjóta sig, Lucas Leiva er partur af innréttingunni á sjúkradeildinni, Pippi Reina er að jafna sig af flóka í hári og bakvörðurinn Kelly Osbourne er meiddur á hné.

Liverpool hefur á tímabilinu aðeins náð tveimur sigrum í deild og sitja þeir í 12. sæti eftir 8 leiki með 9 stig. Markatalan hjá þeim er 10-12 eða rétt rúmt eitt mark skorað í hverjum leik að meðaltali og eitt og hálft fengið á sig. Það segir þó aðeins hálfa söguna því ef Norwich leikur þeirra er undanskilinn þá væri markatalan 5-10 og þar kannski kristallast slæmt gengi þeirra á tímabilinu (0,7 mörk per leik). Þá vantar slúttara og sá eini af framherjunum sem er heill í augnablikinu (og ekki í útlegð) er Suarez, sem (eins og hefur margoft sýnt sig) kann varla að slútta hjólreiðaferð. Okkar menn sitja aftur á móti í fjórða sæti og hafa skorað 15 mörk í 8 leikjum (næstum tvö í leik) og fengið á sig 9 (rétt yfir eitt mark í leik).

Það sem mér finnst eiginlega magnaðast í þessu öllu saman er að hugsa til þess hversu mörg stig við gætum verið með ef lykilákvarðanir dómara hefðu fallið með Everton: t.d. tvö mörk dæmd af Everton af gegn Newcastle (endaði með 2-2 jafntefli). Ólöglegt mark dæmt gilt hjá Wigan og vítaspyrnu á Jelavic sleppt (2-2 jafntefli). Pienaar rekinn út af fyrir litlar sakir gegn QPR og aftur vítaspyrnu sleppt á Jelavic (1-1 jafntefli). Og þetta er ekki hugarburður Everton aðdáanda — þetta er það sem fréttamiðlar og þulir hafa bent á. En þrátt fyrir þetta er Everton í fjórða sæti og gæti í raun verið í öðru sæti ef þetta hefði fallið aðeins meira með okkar mönnum! Og það sem meira er, ef West Brom útileikurinn er undanskilinn þarf að fara aftur til mars mánaðar til að finna síðasta tapleik — 0-1 gegn Arsenal, sem má auk þess deila um hvort þeir hafi átt skilið. Og þar á undan var síðasta tapleikur heima gegn Bolton í janúar 2012 í leik þar sem rokið var svo mikið að markvörðurinn Howard náði að skora mark!

En það getur allt gerst í þessum derby leikjum og leikformið virðist skipta engu eins og sýndi sig í fyrra. Ég hef svolitlar áhyggjur af óheiðarlega otrinum sem eyðilagði heimaleikinn á því tímabili og er hann vís með að reyna að blekkja dómarann hægri vinstri. Það er ágætt að hann er komið með orðspor á sig fyrir dýfingar, enda er hann nógu vitlaus í kollinum til að reyna alltaf eina aumkunnarverða dýfu þegar umræðan um hann fer sem hæst (sbr. Stoke). Og hver man ekki eftir þessari rúgbítæklingu hans á Heitinga (ekki veit ég hvað hann var að reyna að fiska):

Dómarinn í leiknum er annars Andy Marriner, sá hinn sami og dæmdi fyrsta leik Everton á tímabilinu gegn United. Mér fannst hann fínn í þeim leik — hann sleppti reyndar tveimur vítaspyrnum í leiknum, en þar hallaði fannst mér á hvorugt lið því þær vítaspyrnur hefðu fallið gegn sitt hvoru liðinu. Ég hefði líka verið til í að sjá Howard Webb, sem mér finnst einn besti dómari Englands.

Kíkjum aðeins á tölfræðina í lokin en þá kemur í ljós að síðustu fjögur tímabilin hafa Everton og Liverpool skipst á að ganga illa gegn hinu. Þetta byrjaði sæmilega jafnt tímabilið 08/09, einn sigur á hvort lið og tvö jafntefli. Tímabilið 09/10 léku liðin tvo leiki og Everton vann hvorugan. Tímabilið 10/11 léku liðin tvo leiki og Liverpool vann hvorugan. Í fyrra léku liðin þrjá leiki og Everton vann engan. Ég ætla því að færa rök fyrir því að kominn sé tími á að Liverpool fari sigurlausir í gegnum tímabilið gegn Everton. 🙂

Þess má svo til gamans geta að á sunnudaginn verða 34 ár upp á *dag* (!) síðan þessi tvö lið mættust á Goodison Park og Andy King skoraði eftirminnilegt mark sem reyndist eina markið. [Uppfært 25.10: Þess má geta að þá, alveg eins og nú, gerði Everton jafntefli við QPR 1-1 á útivelli í leiknum þar á undan]. Læt því Andy King hafa „lokaorðið“:

5 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Koma svo allir að mæta á Ölver vera tímanlega og hressir á því.

  2. Finnur skrifar:

    Þeir eru ágætir hjá Blue Kipper… 🙂
    http://www.bluekipper.com/funnies/blubber/5343-forget_channel_five/images/6506.html

    Þetta gæti verið dagskráin á Liverpool TV þessa dagana? 🙂

  3. Halli skrifar:

    Þeir eru miklir humoristar.

  4. Baddi skrifar:

    Allir að mæta timanlega á morgun ( líka Óðinn djók. ) kv. Baddi

  5. Finnur skrifar:

    Hahaha! Óðinn klikkar ekki á svona smáatriði. Allavega ekki fyrir þennan leik! 🙂