Fréttir liðinnar viku

Mynd: Everton FC.

Ég ætlaði að vera löngu byrjaður að fjalla um leikinn á sunnudaginn næsta (við litla bróður) en sökum anna í vinnu hef ég ekki komist í það. Reyni að bæta úr því. Lítum á fréttir liðinnar viku.

Það styttist brátt í að Moyes gefi út álit sitt á því hvort byrjun Everton á tímabilinu sé góð eða ekki 🙂 en 8 leikir eru búnir og Everton í fjórða sæti. Hann vildi meina að það væri aðeins hægt eftir tíu leiki en hefur þó látið undan aðeins fyrr því hann virkað heitur í fréttamiðlum og stefnir á sæti í Champions League enda hefur hann náð að styrkja liðið vel síðan í janúarglugganum síðasta. Það verður þó mjög erfitt að ná því sæti eins og alltaf en árangurinn hingað til minnir um mjög á árangurinn 2005, þegar það gerðist síðast.

Landon Donovan hefur einnig verið áberandi í fréttum undanfarið en hann útilokaði ekki endurkomu til Everton. Hann hefur, eins og kunnugt er, verið tvö stutt tímabil á láni hjá Everton á meðan hlé hefur verið á bandarísku deildinni en samningur hans hjá LA Galaxy er nú að renna út. Donovan lýsti því yfir að klúbbur fólksins, eins og Moyes orðaði það svo eftirminnilega, hefði stolið hjarta sínu um leið og hann gekk inn á Goodison og að allir, frá stjóranum Moyes til starfsfólksins á vellinum hefðu tekið honum frábærlega. Samband hans við félagið, sagði hann, að hefði byrjað eins og sakleysislegt daður en endað í framhjáhaldi. Þessi dvöl hans í Everton borg hefur greinilega snert hann djúpt og mér datt í hug frasinn hans Alan Ball: „Once Everton has touched you nothing will be the same“. Maður tæki glaður við Donovan aftur, enda var hann frábær þau tvö stuttu tímabil sem hann var hjá okkur — þó hann þurfi að hafa mun meira fyrir því að komast í liðið núna en hann gerði þá.

U21 árs lið Everton mætti sterku Arsenal liði á dögunum með þá Jack Wilshere, Sagna, Frimpong innanborðs. Everton fékk óskabyrjun þegar Vellios skoraði strax á fjórðu mínútu en hann stal boltanum af sofandi varnarmanni Arsenal og skoraði framhjá markverðinum. Hann er búinn að vera duglegur að skora undanfarið og hlýtur að koma að því að hann fái séns með aðalliðinu. Arsenal jafnaði 6 mínútum síðar og komst yfir á 34. mínútu og leikurinn því endaði 1-2. Arsenal stöðvaði þar með sigurgöngu U21 árs liðsins sem hafði unnið þrjá leiki í röð þar á undan og gert jafntefli í einum. U18 ára liði Everton gekk öllu betur en þeir unnu Arsenal U18 3-1 með mörkum frá Ryan Ledson, Chris Long og George Waring. Þetta var fyrsti leikurinn undir stjórn Kevin Sheedy sem sneri aftur eftir veikindahlé.

Stóra spurning vikunnar er hverjir verða heilir fyrir næstu helgi. Fellaini missti af leiknum gegn QPR og var í meðferð í Belgíu á dögunum. Helst vonar maður að hann verði orðinn góður. Gibson er einnig byrjaður að æfa aftur og við þurfum að fá hann í leikform fljótt. Hibbert sömuleiðis, en hann hefur verið styttra frá og er kominn aðeins lengra á veg því Hibbo lék með U21 árs liðinu. Hitzlsperger lék einnig þann leik eftir að hafa setið á bekknum gegn QPR.

Ross Barkley fékk lán sitt til Sheffield Wednesday framlengt en hann hafði leikið fyrir þá 7 sinnum og skorað 1 mark. Lánið á þessum bráðefnilega 18 ára gamla miðjumanni er nú á vikulegum grundvelli ef vera skyldi að Everton missi fleiri miðjumenn í meiðsli, en slíkt er leyfilegt þar sem Barkley er það ungur að hann er enn hluti af Everton akademíunni. Búast má við að hann leiki í kvöld með Sheffield Wednesday gegn Blackburn á útivelli.

Rooney skaut upp kollinum í fréttunum en 10 ár eru liðin síðan hann skoraði sigurmarkið fræga gegn Arsenal. Moyes lét hafa það eftir sér á dögunum að hann myndi glaður taka við Rooney aftur. Sagði að hann gæti spilað í marki, ef svo bæri undir, í gríni að sjálfsögðu. Moyes er ekki vanur að tala um leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum liðum en hann gerði undantekningu hér á, enda hefur Rooney sérstakan sess í sögu Everton og mætir oft á Goodison Park til að sjá Everton spila. Það kæmi mér ekkert á óvart þó hann snúi aftur þegar hann er búinn að hlaupa af sér hornin hjá United.

Thomas Hitzlsperger er kátur með samninginn, þó hann sé aðeins til áramóta, en hann átti viðtal við Everton TV í kjölfarið. Hann er greinilega vel máli farinn og ekki laust við að það sé mun auðveldara að hlusta á viðtal við hann en mörg viðtöl við fótboltakappa, víðs vegar um heiminn. 🙂 Thomas fær treyju númer 16 og ætlar greinilega að reyna að sanna sig svo hann fái lengri samning. Hann gæti byrjað það með því að koma inn á þegar 10 mínútur eru eftir á sunnudaginn og þruma einum bolta inn með vinstri af löngu færi, eins og „hamarinn“ er frægur fyrir, gegn Pippi Reina.

FIFA hefur hafið prófanir á nýrri tækni sem hjálpar dómurum að meta það hvenær boltinn hefur farið yfir línuna. Það er löngu kominn tími til að taka þetta upp og þetta hefði til dæmis komið sér vel á móti Newcastle á dögunum.

En endum þetta á fögrum orðum sem Howard fór um Jagielka sem er búinn að vera algjörlega frábær í miðverðinum undanfarið og Howard segir að eigi miðvarðarstöðuna í enska landsliðinu fyllilega skilið. Get ekki verið annað en sammála því.

6 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  frábær pistill, gaman að geta lesið svona mikið um liðið
  sitt á einum stað.
  það verður gaman á sunnudaginn, allir í minni fjölskyldu eru púllarar

 2. Finnur skrifar:

  Hefði gert +1 ef þú hefðir sleppt síðustu setningunni. 😀

 3. Einar G skrifar:

  Frábær pakki hér á ferð 🙂 Hlakka til sunnudagsins verður hittingur á Ölveri??

 4. Finnur skrifar:

  Já, það er meiningin að hittast á Ölveri.

 5. Halli skrifar:

  Mikið vildi ég geta verið með ykkur á Ölver en svona er þetta bara. Þetta verður hörku leikur en við eigum mjög góða möguleika í þessum leik okkar lið er að spila fínan fótbolta í flestum leikjum og eru ógnandi en menn þurfa að hætta að gefa 1 mark í forskot einsog í einum 4 leikjum á þessu tímabili þá verður þetta allt auðveldara. ÁFRAM EVERTON

 6. Finnur skrifar:

  Þetta er bara til að gera leikinn meira spennandi. 🙂 Gefa hinu liðinu smá von. 🙂