Everton – Southampton 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Southampton á Goodison Park í dag, kl. 14:00. Leikurinn var ekki sýndur fyrr en rúmlega 16:00 þar sem lokaumferð íslenska boltans fór fram og því þurfti maður að útiloka allt áreiti í marga klukkutíma (síma, Internet, o.s.frv.) til að koma í veg fyrir að maður slysaðist til að sjá úrslitin í leiknum. Stöð 2 auglýsti að þeir myndu sýna upptöku af leiknum kl. 16:00 en voru svo að dóla sér þar til korter yfir og þá loksins byrjaði leikurinn.

Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Neville og Osman á miðjunni, Pienaar vinstra megin, Mirallas hægra megin og Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Anichebe með einhverja sýkingu sem kom í veg fyrir að hann byrjaði.

Fyrsta mark leiksins kom strax á 6. mínútu eftir hornspyrnu (vinstra megin) frá Southampton. Howard fór út úr markinu til að reyna að kýla boltann frá en var of framarlega og boltinn fór yfir hann til Gastón Ramirez sem skallaði beint í markið framhjá varnarmönnum Everton — enda enginn markvörður til að verja markið. 0-1 Southampton í fyrsta og eina skoti þeirra sem rataði á markið allan fyrri hálfleikinn. Ekki var maður sáttur við Howard í þessari sókn. Og ekki batnaði útlitið þegar sóknarmaður Southampton komst í dauðafæri einn á móti markverði en skaut framhjá í stað þess að koma Southampton tveimur mörkum yfir. Heitinga átti líka tækifæri á að jafna með skalla þegar hann stökk upp óvaldaður en skallinn slakur. Greinilega ekki okkar dagur, hugsaði maður.

Ég verð að viðurkenna að maður óttaðist að loftið hefði endanlega lekið úr Everton blöðrunni og staða liðsins meðal efstu liða væri bara blekking. Það er svo oft sem maður hefur haldið að þetta Everton lið sé að smella saman en svo kemur leikur eins og Leeds í bikarnum á dögunum eða undanúrslitin í FA bikarnum í fyrra eða Reading í FA bikarnum þar á undan. Chelsea í FA bikar-úrslitunum. Alltaf þegar væntingarnar aukast þarf maður að horfast í augu við blákaldan veruleikann.

En ekki í dag. Þrátt fyrir að lenda marki undir gáfust okkar menn ekki upp. Það tók næstum því 20 mínútur að jafna leikinn, sem gerðist þegar Mirallas sendir fyrir markið af hægri kanti á Jelavic, sem fellur við og skilur við boltann í frábæru dauðafæri fyrir Osman sem þarf bara að leggja boltann framhjá markverði. Osman gerði það með stæl, sendi boltann upp í vinkilinn hægra megin. Everton búið að jafna 1-1 og stemmingin á Goodison Park gjörbreyttist sem og lund Everton áhorfenda um allan heim.

Restin af leiknum snerist svo um Everton en innan við 15 mínútum síðar var Everton liðið búið að gera út leikinn. Everton fékk skyndisókn á 32. mínútu og eftir stutt þríhyrningaspil milli Fellaini og Mirallas, og frábæra móttöku á boltanum hjá Mirallas var bara formsatriði að senda boltann á Jelavic og koma honum í dauðafæri sem hann afgreiddi snyrtilega. 2-1 Everton.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hafði áhyggjur af Jelavic fram að þeim tíma. Hann virkaði slakur og frústreraður og lét sig detta við minnsta tækifæri. Tók skot úr færum sem buðu upp á það að gefa á samherja og maður hugsaði með sér að kannski væri síðasta tímabil bara undantekning. En hann var sko alls ekki hættur.

Aðeins 6 mínútum síðar var Coleman kominn upp hægri kantinn og sýndi hvers hann er megnugur; lék laglega á fyrst einn varnarmann Southampton og svo annan. Sólaði þá upp úr skónum, brunaði inn í teig og gaf fyrir markið á Jelavic sem var þar óvaldaður og náði föstum skalla sem markvörðurinn varði í eigið marknet. 3-1 fyrir Everton. Ég vona innilega að Coleman eigi eftir að verða þó ekki nema hálfur Baines, því þá verður Everton liðið eitrað á báðum köntunum. Coleman lofar góðu!

Og ekki var slakað á því Everton átti fleiri dauðafæri, Fellaini skallaði í slána og átti annað gott færi en Mirallas, Jelavic og Osman voru nálægt því að setja inn mörk en mörkin í leiknum urðu þó ekki fleiri. Everton náði við þetta öðru sætinu en þegar Tottenham vann United var ljóst að Everton myndi halda því eftir umferðina.

Þarf eitthvað að ræða þetta frekar?

Okkar mönnum gekk mjög vel að finna glufur á vörn Southampton og létu boltann ganga vel manna á milli (87% sendinga rötuðu rétta leið). 16 skot á markið, þar af helmingur sem rataði á rammann þannig að markvörður Southampton hafði í nóg að snúast. Pienaar, Baines og Fellaini náðu mjög vel saman á vinstri kantinum en hægri kanturinn er að verða öflugri með hverjum leiknum sem líður og það verður gaman að sjá hversu langt Mirallas og Coleman ná saman. Fyrir utan leikinn við Leeds og ákveðna kafla í West Brom leiknum hefur verið unun að horfa á þetta nýja Everton lið. Ég vona bara að Everton liðið sleppi með alvarleg meiðsli á tímabilinu og þá er aldrei að vita hversu langt það nær.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Jagielka 6, Heitinga 6, Coleman 7, Pienaar 7, Osman 8, Neville 6, Mirallas 8, Fellaini 8, Jelavic 9. Varamenn: Oviedo 6, Anichebe 6, Distin 5. Hjá Southampton fengu 8 af fjórtán (!) leikmönnum þeirra (varamenn meðtaldir) einkunnina 5. Fjórir fengu 6 og tveir 7 (þar með talið markvörðurinn).

En þá að málum er varða klúbbinn en það gengur ágætlega að uppfæra félagatalið því 21% af félagsmönnum hafa svarað kallinu og sent inn nýjar upplýsingar um sig. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Við getum þó gert mun betur og þau ykkar sem enn hafa  ekki sent okkur upplýsingarnar (hvort sem þið voruð á skrá eða ekki) megið endilega senda tölvupóst á everton.a.islandi (hjá) gmail punktur com og gefa upp: Fullt nafn, heimilisfang (með póstnúmeri), kennitölu og skyrtustærð (medium, XL, o.s.frv).

11 Athugasemdir

 1. Georg skrifar:

  Flottur sigur í dag og mjög góð 3 stig. Þetta leit ekki vel út í byrjun að fá þetta mark á sig og smá rið í mönnum eftir deildarbikarinn en menn voru fljótir að jafna sig. Við höfum átt 2 lélega leiki í vetur (WBA og Leeds) og það jákvæða við liðið er að menn eru ekki að staldra við á lélegum úrslitum heldur svara fyrir sig með góðum leikjum. Ef liðið heldur þessi dampi áfram og lykilmenn haldast heilir þá held ég að við getum vel blandað okkur í baráttu við „stóru“ liðin.
  Áfram Everton NSNO

 2. Gunnþór skrifar:

  Georg Everton er eitt af stóru liðunnum á Englandi.

 3. Halli skrifar:

  Næsti heimaleikur er baráttan um borgina ég get varla beðið eftir því
  COYB

  • Dyncla skrifar:

   OK, Everton í góðu formi og Liverpool í slæmu formi en það segir ekki neitt. Við höfum tapað oftar en ekki seinustu derby leikjana (er ekki með tölfræði fyrir framan mig, reyndar) Ég er skíthræddur yfir þennan leik.

 4. Ari skrifar:

  Frábært að sjá Coleman taka syrpuna í leiknum.

  COYB

 5. Finnur skrifar:

  Sammála öllu hér að ofan.

  Svo er Executioner’s Bong með fína greiningu á leiknum við Southampton. Ágætis lesning.
  http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/09/30/tactical-deconstruction-how-osman-and-his-wide-boys-schooled-saints/

 6. Georg skrifar:

  Gunnþór ég er sammála enda setti ég gæsalappir utan um „stóru“ liðin 😉

 7. Gestur skrifar:

  sammála

 8. Sigurbjörn skrifar:

  Maður þreytist ekki á að horfa á svipmyndir úr leiknum á evertontv. Mörkin voru hvert ððru magnaðara og þó annað markið hafi verið hrein snilld og frábær rispa Coleman í þriðja markinu þá var ekki síðra að fylgjast með aðdraganda fyrsta marksins. Ég taldi 22 sendingar í röð áður en Osman plantaði honum í skeytin.

  • Finnur skrifar:

   Hann var kaldur hann Osman í þessari sókn. Það kom ekkert annað en glæsimark til greina! 🙂