Everton vs. Southampton

Mynd: Everton FC

Everton mætir Southampton á laugardaginn kl. 14:00 (Uppfært: leikurinn sýndur á Stöð 2 kl. 16:00) en það eru um átta og hálft ár síðan þessi lið mættust síðast. Goodison Park hefur verið ákveðin grýla hvað Southampton varðar en Everton hefur á síðustu 20 árum (rúmum) aðeins tapað einu sinni á heimavelli gegn þeim — og aðeins þrisvar á tæpum 40 árum — í 30 leikjum, eða síðan 1974.

Southampton komu upp í Úrvalsdeildina eftir síðasta tímabil, eins og kunnugt er, og hafa átt erfitt uppdráttar en þeir náðu sínum fyrstu stigum í deildinni á dögunum þegar þeir unnu Aston Villa á heimavelli 4-1. Þessi töp segja þó ekki alla söguna því þeir fengu ekki auðveldustu byrjunina, mættu Man City, Man United og Arsenal í fyrstu fjórum leikjum sínum og töpuðu líka í millitíðinni fyrir Wigan. Mikið var rætt um að þeir hefðu fengið á sig fjórtán mörk í fjórum leikjum og róterað markvörðum og varnarmönnum en áður en þeir mættu B-deildar liði Sheffield Wednesday í deildarbikarnum um daginn höfðu þeir ekki náð að halda hreinu síðan gegn Wolves á undirbúningstímabilinu í ágúst. Það ætti að lofa góðu fyrir okkar menn. Það er þó ekkert gefið í þessum leik en Southampton var í 7. sæti yfir þau lið í Evrópu sem eyddu mestum pening í sumar í leikmannakaup. Þeir hjá Executioner’s Bong fóru yfir helstu styrkleika og veikleika liðs þeirra.

Miðjumaðurinn Jack Cork meiddist í deildarbikarnum hjá þeim og einnig er Tadanari Lee líklega meiddur. Vafi leikur einnig á að Emmanuel Mayuka og Luke Shaw geti spilað en að öðru leiti eru allir heilir og enginn í banni. Hjá okkur eru Gibson og Hibbert enn meiddir og vafi á að Coleman, Naismith og Anichebe geti spilað.

Það er erfitt að meta hver leysir af Gibson í leiknum og hver tekur hægri bakvörðinn og fer eftir því hverjir eru klárir af þeim sem eru tæpir. Ef Coleman er heill fer hann líklega í hægri bakvörð og Neville áfram á miðjunni. Ef Coleman er ekki heill gæti Neville tekið hægri bakvörðinn og kannski Distin komið í miðvörðinn og Heitinga á miðjuna. Ef Naismith er heill fer Mirallas kannski í holuna, Fellaini aftar á völlinn og Neville í hægri bakvörð. Erfitt að segja. Ein möguleg uppstilling: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Neville og Osman á miðjunni, Pienaar vinstra megin, Mirallas hægra megin og Fellaini fyrir aftan Jelavic.

Félagið rifjaði upp bráðskemmtilegan leik gegn Southampton í fjögurra mínútna vídeói sem tekið var í nóvember 1996, þegar Southampton kom í heimsókn á Goodison Park.

Goal hafði orð á því að Everton hefur hitt tréverkið sex sinnum á tímabilinu, oftast allra liða í úrvalsdeildinni á tímabilinu og átt flest skot allra liða á markið eða 102 skot. Southampton er eitt þeirra liða sem hefur fengið á sig flest skot sem hitta á markið eða 30 talsins.

Í öðrum fréttum er það helst að Moyes staðfesti að Hitzlsperger sé enn á reynslu en farið verður að engu óðslega með hann vegna þeirra meiðsla sem hann er að vinna sig úr. Einnig fékk goðsögnin Kevin Sheedy að vita á dögunum að aðgerðin til að losa hann við krabbamein í ristli hefði tekist með ágætum og að hann sé á batavegi og þurfi ekki frekari meðferð. Hann ætti vonandi að geta tekið við U18 ára liðinu áður en langt um líður.

Sjáumst á Ölveri kl. 14:00 16:00 á morgun.

14 Athugasemdir

  1. Ari skrifar:

    http://www.liverpoolecho.co.uk/everton-fc/everton-fc-news/2011/11/19/the-day-everton-fc-thrashed-southampton-8-0-exactly-40-years-ago-100252-29803581/

    Ég man eftir þessum leik nýbyrjaður að halda með Everton……:)

    1-0 nægir mér á morgunn… áfram Everton!

  2. Elvar Örn skrifar:

    Ef við vinnum ekki þá verð ég f….ing brjálaður. Rólegir strákar ég er nú bara að fíflast í ykkur tveimur.
    Ég er sammála því að Southampton hefur ekki verið að standa sig illa heldur hafa þeir átt gríðarlega erfitt prógramm og verið ótrúlega óheppnir að ná ekki fleiri stigum þar og spiluðu reyndar fantavel að mig minnir gegn Man Utd þar sem ég held að RVP hafi gert þrennu.
    Að okkar liði þá held ég að vandamálið sé helst að finna mann í stað Gibson þar sem hann er greinilega ótrúlega mikilvægur, þó svo að við hefðum ekki saknað hans mikið gegn Swansea. Ég held að Anichebe sé með einhverja kvefpesti svo Jelavic byrjar líklega og spurning hvort Vellios sé tilbúinn á bekknum.
    Það væri náttúrulega stórbrotið að vinna þennan leik og komast eilítið ofar í töflunni. Við erum jú í 3 sæti einnig miðað við árið 2012 í heild og þar er nú Liv…..úl í næst neðsta sæti.
    Ég vil sjá Heitinga meira fyrir framan miðverðina eða jafnvel Jagielka en ég hef alls ekki verið hrifinn af Neville í seinustu leikjum verð ég að segja
    Sendi á ykkur línu á morgun ef þið verðið á Ölveri.

  3. Finnur skrifar:

    Hahahahaha! 🙂

    Maður vill helst ekki sjá Neville á miðjunni en Ofoe var sá sem átti að leysa hann af þannig að það þýðir lítið að kvarta yfir því að Neville leysi Gibson af. Junior virðist ekki alveg tilbúinn, Barkley er í láni (ekki að hann sé endilega tilbúinn) og maður vill ekki missa Fellaini aftar á völlinn… 🙂 Ég væri reyndar til í að prófa Heitinga í stað Neville á morgun, ef svo ber undir að við þurfum annað hvorn þar…

  4. Elvar Örn skrifar:

    Já það hefði verið frábært að fá Ofoe, hefðum akkúrat verið í nokkuð góðum málum á þessu svæði ef kaupin hefðu ekki klúðrast.
    Coleman er reyndar tæpur svo það gæti verið að Neville verði í hægri bak en ég vil frekar hafa hann þar en á miðjunni, hehe. Já eigum við ekki bara að setja Heitinga fyrir framan miðverðina. Sammála með Fellaini, hann er bara svo geggjaður framar á miðjunni og í reynd er það eina sem ég get gagnrýnt þann pilt er það að hann hefur ekki verið nægilega grimmur á móti mönnum sem hafa verið að skjóta vel fyrir utan teig. Í nokkur skipti í seinustu leikjum hefur hann ekki blokkerað skot nægilega vel, en hann er bara svo drullu góður í öllu öðru að maður fyrirgefur honum. Verður líka gaman að sjá Mirallas spila meira, mér finnst hann lofa góðu og er að búa til færi sem ekki margir eru að gera hjá okkur, þ.e. búa til færi fyrir sjálfan sig. Spurning síðan hvort Oviedo fái að spila eitthvað í næstu leikjum en Moyse virðist hafa trú á honum þar sem hann byrjaði bara að æfa með okkur fyrir um 2 vikum síðan.

  5. Finnur skrifar:

    Sammála. Ég hef reyndar ekki séð Fellaini feila að blokkera skot. Mér finnst veikleiki hans vera að það slökknar á honum í eigin vítateig þegar kemur að því að dekka menn í hornum og aukaspyrnum.

    Þetta er minn maður en ég var verulega fúll út í hann síðast þegar við töpuðum á heimavelli (0-1 á móti Arsenal í mars (!) á síðasta tímabili). Mánuði síðar gegn Looserpool í FA bikarnum. Nákvæmlega sama dæmi, einnig sigurmarkið. Leeds í síðasta leik — var það ekki nákvæmlega sama dæmið upp úr aukaspyrnunni (sigurmarkið)?

    Samt fyrirgefur maður honum alltaf allt… 🙂

  6. Ari skrifar:

    Góður Elvar….. he he 🙂

    Já mér lýst vel á að hafa Heitinga þarna en hvaðmeð Jagielka….? Hefur hann ekki getu til að spila þarna sem varnarmiðjumaður…? Bara svona pæling, Gibson er sárt saknað viðþurfum nýjan Gibson í dag…:)

    Já Finnur maður fyrirgefur honum Fella alltaf:) Enda er hann alltaf að bæta sig og það er eiginlega það magnaðasta viðhann.

  7. Halli skrifar:

    Jags spilaði á miðjunni hjá Sheff utd

  8. Finnur skrifar:

    Leiðrétting: Leikurinn er ekki í beinni heldur klukkan 4. Ég mun loka fyrir úrslit og mæta kl 4 á Ölver.

  9. Elvar Örn skrifar:

    Ég ætla nú bara að Streama leikinn svo ég horfi á hann beint.

  10. Finnur skrifar:

    Byrjunarliðið er klárt og svo virðist sem ég hafi giskað á rétt hér að ofan:

    Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Neville og Osman á miðjunni, Pienaar vinstra megin, Mirallas hægra megin og Fellaini fyrir aftan Jelavic.

  11. Elvar Örn skrifar:

    Það er alveg ásættanlegt að vera í öðru sæti eftir 6 umferðir. Hefði alveg verið til í að sjá Arsenal vinna Chelsea en er mjög sáttur.

  12. Gunnþór skrifar:

    ætli það sé að rætast sem sérfræðingarnir á sky sögðu í fyrra að þeir sæu everton liðið vera að berjast um topp fjögur sætinn á næstu 1 til 2 árum,þá vildu þeir meina að aldurssamaetninginn á liðinnu væri það góð að þetta væri raunhæft.

    • Finnur skrifar:

      Þetta er allt að smella. Ef þetta heldur svona áfram þá er ekkert að óttast. 🙂

  13. Halldór S Sig skrifar:

    Þetta byrjaði nú ekki glæsilega í dag með þessu slysamarki. Ég fékk á tilfinninguna að þetta yrði svona basl leikur eftir þetta mark, þar sem s.h.ton menn voru mjög ákveðnir í byrjun og spiluðu stíft. þetta leit þannig týpískt út eins og lið í neðri hluta deildarinnar skorar á fyrstu mínútunum og pakkar svo í vörn. En sem betur fer náðu okkar menn fljótlega heljartökum á leiknum og mössuðu þetta. Við erum að sjá nýja hlið á everton á þessu tímabili. Everton er farið að líta út eins og stórlið sem setur í fimmta gír þegar þess er þörf og gerir út úm leikinn og spilar síðan restina af leiknum í 3 gír en stjórnar samt leiknum. Þetta er einfaldlega besta Everton lið sem ég man eftir síðan ég byrjaði að fylgjast með síðan 80 og eitthvað. Mér fannst Coleman frábær í dag og ég vona að að hann sé kominn til að vera í þessari stöðu, svakalega ógnandi fram á við ágætur varnarlega. Verður klárlega betri varnarlega með tímanum. Gaman að sjá Heitinga aftur í liðinu, hann og Jag frábærir saman. Fellaini verður alltaf betri og betri með hverjum leiknum. Mirallas frábær, mjög ógnandi og greinilega hágæða leikmaður.