Leeds – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Leeds á Elland Road áðan í þriðju umferð deildarbikarsins. Steve Round sagði að Everton myndi stilla upp sterku liði sem hæfði markmiðum Everton í keppninni en þeir gerðu þó nokkrar breytingar á liðinu. Oviedo fékk sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu fyrir Baines, Distin kom inn á fyrir Jagielka, Mucha inn fyrir Howard, Junior inn á fyrir Osman og Gueye inn á fyrir Pienaar. Miðað við það sem sagt var fyrir leikinn átti maður von á að kannski 2-3 leikmenn yrðu hvíldir en Moyes endaði á að hvíla hálft liðið. Kannski er forgangsröðunin önnur en Steve Round vildi meina fyrir leikinn, eða þá að leikmenn hefðu ekki fengið skilaboðin um að þetta væri bikarkeppni sem væri erfiðisins virði, því þetta var slakasti leikur Everton á tímabilinu.

Uppstillingin: Mucha, Oviedo, Distin, Heitinga, Coleman. Junior og Fellaini á miðjunni, Gueye á vinstri kanti, Naismith á hægri og Mirallas og Anichebe frammi. Bekkurinn þéttsetinn af landsliðsmönnum.

Ég horfði á þennan leik með öðru auganu meðan ég undirbjó matinn og get því eiginlega ekki tjáð mig almennilega um hann og kannski best að segja sem minnst. Leeds skoraði fyrsta markið á 4. mínútu en það féll allt með þeim í þeirri sókn, sending frá Naismith sem var aðeins of löng fyrir Junior, sem leiddi til þess að Everton tapaði boltanum á hættulegum stað á miðjunni og Leeds sótti á vörn Everton. Tækling frá Fellaini, sem venjulega hefði gert út um sóknina, leiddi til þess að boltinn fór í sköflunginn á leikmanni Leeds sem svo varð til þess að hann komst í dauðafæri og afgreiddi boltann vel framhjá Mucha. Ah, Mucha. Það getur verið að hann sé besti markvörður Slóvakíu en mér finnst hann aldrei vera sannfærandi þegar Howard fær hvíld. Það er til lítils að kvarta yfir því að fá ekki að spila þegar menn nýta ekki sénsana þegar þeir fá að spila. Ekki það að ég sé að kenna honum um tapið. Alls ekki. Það vantaði þó nokkuð upp á hjá allt of mörgum.

Pressan stigmagnaðist á Leeds eftir markið en þegar þeir náðu seinna markinu (upp úr föstu leikatriði — aukaspyrnu) þá varð róðurinn mjög erfiður. Distin náði að minnka muninn undir lokin (stoðsending frá Anichebe) en þrátt fyrir þó nokkur færi hafði maður aldrei á tilfinningunni að þetta væri að smella hjá okkar mönnum. Anichebe og Naismith fengu báðir tækifæri til að setja inn mark og Anichebe átti að fá víti þegar Leeds maður klifraði yfir hann í vítateignum. En svo fór sem fór, Elland Road grýlan lifir góðu lífi. Skil ekki af hverju það gengur svona illa að vinna Leeds á þeirra heimavelli. En ef maður lítur á björtu hliðarnar er kannski ágætt að þetta sé frá svo hægt sé, með okkar litla hóp, að einbeita sér að stærri markmiðum.

En þá að öðrum fréttum en Steve Round staðfesti að Thomas Hitzlsperger, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands, væri nú á reynslu í tvær vikur hjá Everton. Hann hefur spilað 50 leiki með landsliði sínu og er væntanlega ætlað að auka breiddina á miðjunni, en eins og kunnugt er fór samningurinn við Ofoe forgörðum rétt undir lok gluggans, sem var væntanlega ætlað að veita Gibson samkeppni (Ofoe þ.e.a.s. en ekki samningnum né glugganum). Thomas hefur átt við meiðsli að stríða og er með lausan samning og ef hann getur sannfært Round og Moyes um að meiðslin séu að baki gæti verið að þeir fái hann til liðs við sig.

Einnig bárust þær fréttir að FIFA ætlar að skoða leikinn sem Naismith lék með Skotlandi með það fyrir augum að meta olbogaskot sem hann ku hafa gefið leikmanni Serbíu í undankeppni heimsmeistarakeppninnar. Ef hann verður fundinn sekur fær hann líklega allt að þriggja leikja bann með landsliðinu.

U21 árs fylgdi í kjölfar U18 ára liðsins og náði sínum fyrsta sigurleik á tímabilinu, í 1-0 sigri á Blackburn Rovers U21. Duffy skoraði markið fyrir Everton.

Og í lokin má geta þess að Everton skólinn hefur hafið störf, en félagið er fyrsta Úrvalsdeildaliðið til að setja á laggirnar skóla.

8 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var hræðilegur leikur hjá okkar mönnum. Mirallas náð sér aldrei á strik, Fellaini lélegur, Heitinga lélegur, Naismith skelfilegur, Guye??? Maður tók varla eftir að hann væri inni á vellinum fyrr en honum var skipt útaf. Coleman. Hvað getur maður sagt um hann?? Hann er fáviti sem við ættum að losa okkur við. Annað skipti sem hann kostar okkur bikarleik með heimskulegri tæklingu. Þá er ég að tala um seinna mark Leeds sem kom upp úr aukaspyrnu þar sem Coleman braut heimskulega á manni sem var bara á leiðinni útaf með boltann. Distin og Anichebe voru okkar skástu menn í gær og Pienaar var ágætur eftir að hann kom inná. Junior sýndi að hann er ekki tilbúinn í fullorðinsbolta, en hann sýndi samt líka að hann getur spilað og er efnilegur leikmaður. Jelavic kom inná, en of seint, náði sér ekki í gang. Veit að þetta var fyrsti leikur hjá Oviedo en hann var ekki að sýna neitt sem réttlætir kaupin á honum. Vona að hann geti betur en þetta.

 2. Halli skrifar:

  Ég er svo sammála Ingvari

 3. Finnur skrifar:

  Huh? Ótrúlegt að heyra menn drulla yfir leikmenn eigin liðs hægri vinstri. Ef ég vissi ekki betur hefði ég haldið að ég væri dottinn inn á Liverpool blogg.

  Varðandi Coleman: Sóknarmaðurinn var alls ekki á leiðinni út af með boltann heldur að komast einn inn í vítateig á móti markverði. Og ég sé nú ekki að þetta sé nein tækling — frekar að þeir reki lappirnar hvor í annan í baráttunni um boltann.

  Þegar þú vísar í annan bikarleik geri ég ráð fyrir að þú eigir við FA bikarleikinn í fyrra, þar sem Coleman braut óþarflega á Gerrard. Ég skrifa það mark á minn mann, Fellaini, því hann var algjörlega úti á þekju þegar kom að því að dekka Carroll í aukaspyrnunni sem þeir skoruðu úr.

  Coleman er auk þess ungur, enn að læra og verður að fá að gera mistök. Það er nú ekki langt síðan hann var að spila í írsku deildinni með Sligo Rovers en hann sýndi það á sínu fyrstu tímabili með Everton hvers hann er megnugur og kom okkur þá mikið á óvart.

  Ég held það hefði ekki þurft nema eitt af nokkrum atvikum að falla með okkur til að tónninn í umtalinu hefði breyst töluvert. Til dæmis ef Naismith hefði náð að hitta skallaboltann á markið einn á móti markverði eða þegar boltinn sleikti innanverða stöngina (en ekki utanverða) í skotinu hjá Anichebe. Að ég tali nú ekki um vítið sem var ekki dæmt þegar varnarmaður Leeds klifraði upp á bakið á Anichebe.

  Anyway. Moving on. Bikarleikurinn er búinn.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Ókeeii! Það hefði kannski verið nær fyrir mig að segja að okkar menn hefðu spilað frábærlega og þetta hefði allt verið dómaranum að kenna, eða hvað Finnur?? Ég held ekki. Þá hefði ég virkilega hljómað eins og poolari. Ef þú skoðar betur atvikið þar sem Coleman braut á Leedsaranum. Þá sérðu að Coleman er að gera rétt í því að halda honum frá markinu með því að vera fyrir innan manninn en allt í einu tekur hann skrefið útfyrir manninn og hleypir honum inn fyrir sig. Ef það er ekki fávitaskapur þá veit ég ekki hvað er það. Mér er alveg sama þó hann sé ungur og hafi bara spilað á Írlandi áður en hann kom til okkar, menn þar hljóta að vita að svona gerir maður ekki. Og jú ég er að tala um bikarleikinn í vor þar sem Coleman braut af sér í svipaðri stöðu algjörlega að óþörfu. Að lokum ein spurning. Hvers er Coleman megnugur? Hann hefur ekkert bætt sig síðan tímabilið 2010-2011. Hann getur hlaupið hratt og er óhræddur við að taka menn á sem er fínt en það kemur ekkert út úr því auk þess sem hann virðist ekki geta gefið frá sér boltann með vinstri fæti. Ég var líka mjög hrifinn af honum fyrst, en ekki lengur. Hann er orðinn 23 eða 24 ára og ætti að hafa tekið meiri framförum á þeim tíma sem hann hefur verið hjá okkur.

   • Finnur skrifar:

    Coleman var frábær á fyrsta tímabilinu sínu með okkur og flottur á undirbúningstímabilinu þar á eftir, alveg þangað til hann meiddist í groddalegri tæklingu í síðasta leik fyrir tímabilið og var frá í e-a mánuði. Hann missti því af góðum kafla á síðasta tímabili og náði ekki fyrri hæðum það tímabilið. Það er nú varla hægt að ætlast til að hann toppi 2010-11 tímabilið nýstiginn upp úr slæmum meiðslum?

    Þeir léku flestir vel undir getu í bikarleiknum gegn Leeds en ég veit ekki betur en að Coleman hafi komið ágætlega undan öðrum leikjum á þessu tímabili, hvað þá á undirbúningstímabilinu, þar sem hann var oft sá frískasti á vellinum.

    • Elvar Örn skrifar:

     Coleman var jú manna bestur á þessu undirbúningstímabili og hefur verið að skila fínasta framlagi í vetur. Það er jú rétt að hann fór illa í seinasta leik undirbúningstímabilsins í fyrra sem skemmdi fyrir á seinustu leiktíð. Ég hef trú á kappanum í vetur, amk vil ég gefa honum sénsinn í vetur.
     Sjáum hvað setur félagar.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Ég er ósammála Ingvari og Halla varðandi Coleman. Vil sjá hann mikið frekar á velli en t.d. Neville sem mér finnst ekki hafa verið að spila vel seinustu leiki. Þessi aukaspyrna sem dæmd var á Coleman var ranglega dæmd að mínu mati og myndi ég frekar gagnrýna ömurlega dekkningu þegar aukaspyrnan var tekin.
  Rétt hjá þér Finnur að klárlega áttum við að fá víti þegar Anichebe var skellt í jörðina.
  Frammistaða Naismith var nú reyndar kórónuð með þessum skalla sem þið þú talar um því það er bara BANNAÐ að reyna að sneiða boltann þegar það er mígandi rigning, átti að setjann í fjærhornið (Alveg rétt hjá Gumma B. þar).
  Ég held að menn verði líka að fá að tjá sig og mér finnst orðaval hér bara í besta lagi og langt frá því að vera jafn ömurlegt og á öðrum síðum aðdáendaklúbba hér á Íslandi (nefni engin nöfn).
  Fyndið að ég var búinn að gleyma að Guye hafi tekið þátt, hann bara sást ekki.
  Anichebe fær hrósið frá mér því hann barðist frábærlega.
  Þessi leikur var klárlega ekki við bestu aðstæður fyrir okkar óreyndu menn en ég verð að segja að þessi leikur var nánast jafn lélegur af okkar hálfu og þeir tveir seinustu hafa verið bæði góðir og skemmtilegir. Það er engin skömm af því að tapa fyrir LEEDS en það er skömm af því að spila svona illa.
  Það verður breyting á næstu helgi þar sem Southampton verður slátrað (í jákvæðri merkingu fyrir þá sem þola lítið, hehe).

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Sammála. Þetta var ömurleg dekkning. Líka sammála með Anichebe. Hann stóð sig mjög vel og var okkar besti maður.