Leeds vs. Everton í 3. umf. deildarbikarsins

Everton á leik kl. 18:45 við Leeds á Elland Road á morgun í þriðju umferð deildarbikarsins.

Fyrirliði Leeds, Lee Peltier, er tæpur fyrir leikinn og David Norris og Paul Green eru meiddir. Hjá okkur er Gibson meiddur og Hibbert líklega tæpur en Jelavic kemur aftur í hópinn (mjög góðar fréttir) eftir að hafa misst af einum og hálfum deildarleik út af meiðslum á hné eftir samstuð. Líklegt þykir einnig að Distin verði með í þessum leik eftir að hafa fengið að verma bekkinn í leiknum gegn Swansea.

Það verður erfitt að spá um uppstillingu í leiknum þar sem stutt er í bæði síðasta og næsta leik á eftir bikarnum. Everton ætlar að taka bikarkeppnirnar alvarlega á tímabilinu og fróðlegt að sjá hvaða lið verður inni á. Ég á mjög erfitt með að spá um liðið. Oviedo verður líklega inn á, gæti ég trúað, en hvort það verður fyrir Baines eða Pienaar veit ég ekki. Mirallas gæti verið í nokkrum stöðum fyrir aftan Jelavic. Moyes gæti hvílt Fellaini til að halda honum ferskum. Ætli sé ekki best að láta lesendur giska… hvaða lið haldið þið að byrji inni á?

Þessi tvö lið áttust reglulega við einu sinni, eða þangað til Leeds féll úr Úrvalsdeildinni tímabilið 2003/04 en liðin hafa mætst 115 sinnum, og Leeds unnið 50 af þeim leikjum en þrjátíu og þrjá leiki hefur Everton unnið (þrjátíu og tvisvar sinnum hefur orðið jafntefli). Tölfræðin lítur því alls ekki vel út, sérstaklega ekki þegar aðeins leikir á heimavelli Leeds eru skoðaðir því Everton hefur aðeins unnið 5 leiki þar í 57 viðureignum (Leeds unnið 37 og 15 jafntefli). Everton gerði 1-1 jafntefli á Elland Road tímabilið sem Leeds datt úr Úrvaldsdeildinni en tapaði leiknum tímabilið á undan, stuttu áður en Moyes tók við Everton. Hann stýrði svo Everton til sigurs á Leeds á Goodison Park, 4-0 rétt tæpu ári síðar. Moyes hefur því ekki tapað með Everton gegn Leeds. Þessi lið hafa hins vegar tvisvar áður mætst í deildarbikarnum og vann Leeds báða leikina 4-1, annan heima, hinn úti.

Það eru þó aðrir tímar nú og allt aðrir leikmenn sem koma til með að spila þennan leik á morgun.

Ánægjulegt að sjá að Victor Anichebe er að sýna af hverju Moyes hefur haldið tryggð við hann en á árinu 2012 eru aðeins um 96 leikmínútur milli marka hjá honum og aðeins 66 mínútur milli marka ef bara þetta tímabil er skoðað — ef löglega markið sem dæmt var af gegn Newcastle er tekið með í reikninginn. Jelvic leikur líklega bikarleikinn á morgun en ég myndi hafa hann á bekknum í næsta deildarleik og gefa Anichebe séns.

Það er búið að vera ýmislegt í fréttum undanfarna daga, til dæmis það að John Terry lýsti því yfir að hann væri hættur að spila með landsliðinu. Þetta ætti að vera Jagielka hvatning til að taka stöðu hans í liðinu og vonandi nýtir hann það vel. Baines og Moyes voru líka í fréttum en Baines sagði að hann hefði ekki leikið í betra Everton liði en núverandi liði og Moyes sagði að Evrópukeppni ætti að vera raunhæft markmið fyrir Everton í ár.

Einhver tók það saman hver staðan í deildinni væri ef hún hefði byrjað 1. janúar 2012 og þar er Everton í þriðja sæti rétt á eftir Manchester liðunum (United efst). Neðst af þeim liðum sem léku í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili eru QPR, Liverpool og Aston Villa.

Í öðrum fréttum er það helst að ungstirnið okkar, Ross Barkley, tryggði Sheffield Wednesday stig á móti Bolton þegar hann jafnaði úr víti og bakvörðurinn Bidwell framlengdi lán sitt hjá Brentford um mánuð. Einnig er U18 ára liðið komið á sigurbrautina en þeir lögðu Blackburn U18 3-1 með tveimur mörkum frá Chris Long og einu frá bakverðinum Ibou Touray. U21 árs liðið leikur við Blackburn U21 á morgun á sama tíma og aðalliðið leikur bikarleikinn.

15 Athugasemdir

 1. Georg skrifar:

  Ég held að hann blandi þessu aðeins:

  ——————–Mucha—————-
  Coleman-Heitinga-Duffy eða Distan-Oviedo
  ———————Neville—————-
  Naismith——-Osman————-Gueye
  —————-Mirallas———————–
  ————————Anichebe————

  Það kæmi mér allavega ekki á óvart ef hann hvíli Jagielka, Baines og Fellaini, semsagt að þeir byrji á bekknum og svo er Jalavic að koma úr meiðslum og fær hugsanlega 20-30 mín eða svo. Kannski fær Vellios eða Junior sénsinn. Verður spennandi að sjá liðið.

 2. Haraldur Anton skrifar:

  Við fjölmennum á Ölver á morgunn ekki spurning 🙂

 3. Georg skrifar:

  Pienaar vantaði í upptalninguna hjá mér fyrir þá sem hann hvílir á bekknum

 4. Finnur skrifar:

  Já, mér þykir þetta ekki ólíklegt. Það væri gaman að sjá Junior fá séns í bikarleiknum fyrir Neville. Langar að sjá hvernig hann reynist þar.

 5. Halli skrifar:

  ———-Mucha———–
  Coleman-duffy-Distin-Oviedo

  Naismith-junior-Osman-Gueye

  ———-Anichebe——-

  ———-Vellios——–

 6. Gunnþór skrifar:

  væri til í að hvíla pienaar,jagielka baines.og fellaini nota þessa keppni í að aðrir leikmenn fái að spila og slípast við liðið og taka svo stóru bikarkeppnina af fullum þunga.

 7. Finnur skrifar:

  Drátturinn í heild sinni lítur annars svona út:

  Bradford vs Burton Albion
  Chelsea vs Wolves
  Crawley vs Swansea
  Leeds United vs Everton
  Man City vs Aston Villa
  MK Dons vs Sunderland
  Preston vs Middlesbrough
  Southampton vs Sheff Wed
  Swindon vs Burnley
  West Ham vs Wigan
  … og á morgun …
  Arsenal vs Coventry
  Carlisle vs Tottenham
  Man Utd vs Newcastle
  Norwich vs Doncaster
  QPR vs Reading
  West Brom vs Liverpool

  Allir leikirnir hefjast í kringum kvöldmatarleytið, 18:45 (einn kl. 19:00).

 8. Elvar Örn skrifar:

  Skíta frammistaða. Junior var viðbjóður, Naismith viðbjóður, flestir langt undir pari. Anichene barðist vel og Fellaini ágætur sem og Oviedo. Neville kemur inná, má ég slátra einhverjum fyrir þá ákvörðun? Það er sjálfsagt að prufa nýja menn en þetta var allt of breytt lið. Ég fyrirgef Moyse ef hann vinnur í deildinni um helgina, ef ekki þá verður einhver tjaraður og fyðraður.

 9. Gunnþór skrifar:

  Elvar ég er sammála djöfull voru menn lélegir.

 10. Ari skrifar:

  Aðeins að róa sig með að kalla leikmenn Everton viðbjóð Elvar….. Gefðu Junior smá séns…….:)

  Þetta var slakur leikur hjá okkur og Leeds átti þetta skilið. (sá bara seinni hálfleikinn en það var nóg)

  Við erum samt vonandi ekki orðnir svo ógeðslega hrokafullir þó við séum í 3. sætinu að við séum farnir að kalla leikmenn okkar (varamennina nota bene) svona bjánalegum nöfnum eftir tapleiki.

  Þetta skrifast á Moyes að mínu mati, við erum ekki orðnir þetta góðir að við getum leyft okkur að hvíla svona marga lykilmenn. Nema hann hafi hreinlega viljað detta út…?

  Kannski (ég held það sé skýringin) er ástæðan sú að Moyes er skítsama um þessa keppni og var að vona að við myndum slegnir út til þess að geta einbeitt okkur að deildinni og Bikarnum sem að byrjar í jan…

  Við skulum ekki fara að verða viðbjóðslega hrokafullir stuðningsmenn eins og stuðningsmenn annarra liða hafa sýnt að þeir geti verið…

  Eigið þið allir góðan dag 🙂

 11. Ari skrifar:

  Mér fannst eitt frekar hallærislegt hjá Gumma Ben……. hann sagði að Pienaar kynni ekki að sparka bolta og hefði aldrei kunnað það…..?? Kannski hann hafi verið að meina það að Pienaar ætti erfitt með að skjóta á markið og væri lítil ógn við það að skora mörk…? ..að hann væri sennilega einn sá allra besti í heiminum ef hann gæti það…… oh… þessir spekingar:(o

 12. Finnur skrifar:

  Ummæli Gumma Ben segja þá bara meira um hann sjálfan en Pienaar.

 13. Elvar Örn skrifar:

  Ég er nú reyndar eiginlega alveg sammála Gumma Ben þar sem að Pienaar kann ekki að sparka á markið, en hann getur sett-ann og sent-ann. Ég tel mig alveg vita hvað hann á við og finnst sorglegt að þegar hann fær boltan í fæturnar og hefur lítinn tíma til að SKJÓTA, þá klúðrast það nánast alltaf. Ég er mjög hrifinn af Pienaar en þetta er hans Akkilesarhæll.
  Ari minn, það er ekki Moyse að kenna þegar menn spila VIÐBJÓÐSLEGA illa, en ég er sammála að Moyse hafi getað stillt liðinu betur upp, þ.e. ekki gera svona svakalega margar breytingar. Ég er einnig ósammála um að honum hafi verið sama að tapa þessum leik þannig séð, því hann var gríðarlega ósáttur við tapið.
  Ég vona að það sé enn Ritfrelsi hér við lýði og ef það má ekki nota orðið „viðbjóður“ þá er nú Tepruskapurinn orðinn full mikill fyrir minn smekk. Ég skal dæla einum köldum í þig þegar við hittumst næst og vona að þú verðir þá sammála mér, hehe.
  Ég er miklu ósáttari við frammistöðu liðsins og þá sérstaklega einstakra leikmanna heldur en við tapið sjálft og telst ekki hrokafullur vegna þessa er það?

 14. Ari skrifar:

  Auðvitað er ég enginn frelsishetja með leyfi til að ybba mig hérna……

  En þetta var bara mín skoðun í morgun þegar ég var nývaknaður..(byrjaði að vinna kl 10) held ég hefði sennilega ekki sett þetta fram núna í lok dags.. he he … en pældu samt hvað við erum nokkuð sammála um leikinn í gær Elvar minn þ.e. of margir leikmenn sem við hvíldum? Já ég þigg bjórinn ef ég má síðan gefa þér annann í staðinn næst þegar við hittumst…..:) ok?

  Gleymi aldrei þegar kappinn settist fyrir utan The Brick á sínum tíma…. það var gaman þá….:)

 15. Elvar Örn skrifar:

  Já málið er nefnilega að ef við ætlum að leyfa ungu mönnunum að spila þá er betra að við komumst áfram svo þeir fái fleiri leiki, ekki satt? Þetta er því aðeins vanhugsað hjá Moyse vil ég meina. Er samt sáttur við leiktíðina og allt en ekki þó frammistöðuna í þessum leik.
  Já Ari minn það var nú gaman þegar við vorum í Everton-borg fyrir skemmstu, hmm.