Everton vs. Newcastle

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur er á mánudaginn við Newcastle á heimavelli kl. 19:00.

Þessi lið hafa leikið 162 leiki (sá fyrsti árið 1898) samtals og helminginn af þeim (81) á heimavelli Everton. Vinningshlutfall Everton þar er 56% : 19% : 26% (sigrar : jafntefli : töp). Það eru 6 ár síðan Everton vann síðast fyrstu tvo heimaleikina sína á timabilinu en það gerðist tímabilið 2006/07 eftir sigra á Watford og Liverpool. Vermaelen hjá Arsenal er síðasti leikmaður annars liðs til að skora á Goodison Park og það gerðist í mars á síðasta ári. Athyglisvert.

Everton hefur síðan í apríl 2003 aðeins tapað einum af síðustu 9 leikjum gegn Newcastle á Goodison Park (unnið 6 og gert tvö jafntefli). Markatalan í þeim viðureignum er 18-8 en það helst í hendur við söguna frá upphafi því Everton skorar að jafnaði 2 mörk í leik gegn Newcastle á Goodison (1.94 mörk per leik hjá Everton og 1.16 hjá Newcastle). Á síðasta ári slökkti Everton eftirminnilega rostann í Alan Pardew sem sagði fyrir leikinn að Newcastle væri í öðrum gæðaflokki en Everton (eins og Jagielka kom inn á á dögunum) en þeir áttu þá, með sigri, möguleika á að tryggja sér 4. sætið í deildinni. Everton fór þó illa með Newcastle í þeim leik og vann öruggan 3-1 sigur með mörkum frá Heitinga, Pienaar og Jelavic, sælla minninga. Það kom svo reyndar á daginn að 4. sætið hefði ekki einu sinni dugað þeim því Chelsea vann meistaradeildina og fékk að verja titilinn, á kostnað Tottenham sem endaði í 4. sæti eftir allt saman. Þess má til gamans geta að myndin hér að ofan er af marki Cahill gegn Newcastle undir lok 2004/05 en það mark fór langt með að tryggja okkur 4. sætið á því tímabili.

Það er nokkuð um meiðsli í herbúðum Newcastle en þeir eru ekki með náttúrulegan hægri bakvörð ómeiddan í liðinu eftir að Danny Simpson fór meiddur af velli í síðasta leik. Einnig meiddust fyrirliðinn Coloccini (miðvörður) og markvörður þeirra, Tim Krul, í landsliðstörninni sem var að ljúka en sá síðarnefndi var sagður kannski eiga möguleika í leikinn. Sama gildir ekki um Sammy og Shola Ameobi, sem báðir eru meiddir á læri, né Ryan Taylor sem meiddist á hné. Cheik Tiote mun verða metinn á leikdag.

Það ætti að henta Baines og Pienaar vel að Anita mun líklega leika sem hægri bakvörður Newcastle en er óreyndur í þeirri stöðu. Vonandi ná þeir að nýta sér það en Newcastle hefur aðeins náð að halda hreinu í einum af sínum 9 leikjum á tímabilinu (þar með talið undirbúningstímabilinu). Þeir hafa jafnframt fengið á sig mark í öllum þremur deildarleikjunum hingað til.

Hjá okkur ku allir vera heilir en Pienaar og Gibson eru sagðir hafa hrist af sér þau meiðsli sem hrjáðu þá í landsleikjahléinu. Það eru mjög góðar fréttir og vonandi að rétt reynist enda báðir mjög mikilvægir hlekkir í liðinu. Executioner’s Bong tók framlag Gibson fyrir á dögunum og það er mjög áhugaverð lesning.

Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Gibson og Osman á miðjunni, Pienaar til vinstri, Mirallas til hægri og Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Ég skýt á að Mirallas verði valinn fram yfir Naismith en held þeir eigi svipaðan möguleika. Ef Gibson er ekki orðinn nógu góður mun Neville líklega taka hans stöðu og Hibbo koma inn í hægri bakvörð í stað Neville. Uppfærsla kl. 14:15: Moyes var að greina frá því að Gibson komi til með að missa af leiknum við Newcastle og næstu þremur til fjórum leikjum þar á eftir en Pienaar á hins vegar að vera heill heilsu.

Í öðrum fréttum er það helst að Ross Barkley hefur verið lánaður út til Sheffield Wednesday í einn mánuð (til að byrja með) með það fyrir augum að öðlast meiri reynslu en hann fengi annars við að sitja á varamannabekknum.

12 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Slæmar fréttir: Gibson missir af leiknum við Newcastle og verður líklega ekki orðinn góður fyrr en í byrjun næsta mánaðar.
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/09/14/gibson-to-miss-newcastle

    🙁

  2. Teddi skrifar:

    Fínn upphitun.

    Eins og það er nú skemmtilegt að fá mánudagsleik er glatað að þurfa að bíða eftir sínu liði að spil’ann. 🙂

    Hefð fyrir markaleikjum á kvöldin svo ég spái 2-2.

  3. Finnur skrifar:

    Nákvæmlega! 🙂
    Spái 2-1 sigri.

  4. Gunnþór skrifar:

    spái 3-1 fyrir everton

  5. Elvar Örn skrifar:

    Gunnþór, þú ert alveg magnaður, hvar er svartsýnin núna?
    Skemmtilegt að komast í þriðja sætið með sigri, það væri allt í lagi, hmmm.
    Spái 1-0 fyrir Everton.

  6. Elvar Örn skrifar:

    Eigum við að ræða þennan leik eitthvað?

  7. Gunnþór skrifar:

    þetta var rán,miklu betra liðið en svona er fótboltinn. veit einhver um meiðslin á jelovic

  8. Finnur skrifar:

    Elvar, ég bara varð að ræða leikinn — það er ekki hægt að fara á Goodison og halda svo bara kjafti. 🙂 (sjá nýjustu færsluna). 🙂

    Og jú, við þurfum að láta vita af okkur, klárlega. Getum rætt þetta á fundinum á laugardaginn.

    Gunnþór: Mikið rétt. Alveg sammála. Hef ekkert heyrt um meiðslin á Jelavic en ég hef líka mestmegnis verið Internetlaus síðan um helgina (bilaði þráðlausa netið á Hilton hótelinu!). Ég þarf klárlega að reyna að grynnka á Everton fréttunum á morgun — hef ekki náð að gera það almennilega ennþá síðan ég skrifaði síðustu færslu.

  9. Finnur skrifar:

    Elvar, ég var að senda þeim póst þarna á efcfeelinblue.com. Sjáum hvað þeir segja.

  10. Finnur skrifar:

    Elvar: Þeir bara birtu póstinn. 🙂
    http://efcfeelinblue.com/the-official-everton-fan-club-of-iceland/

  11. Ari skrifar:

    Þetta er fott hjá þér Finnur:)