Landsleikir og nýir menn

Mynd: Everton FC.

Helgin nálgast óðfluga en næsti leikur (við Newcastle) er ekki fyrr en eftir vel rúma viku (mánudaginn 17. sept). Þær fréttir berast nú úr herbúðum Newcastle að hver leikmaðurinn á fætur öðrum sé að meiðast, nú síðast var það miðvörðurinn þeirra Collocini (sem einnig er fyrirliði Newcastle) sem tognaði á kálfa í landsleik með Argentínu og er metinn tæpur í leikinn við Everton. Þeir voru einnig í vandræðum með stöðu hægri bakvarðar en Danny Simpson meiddist gegn Villa og Anita var látinn spila þar (þar sem varnarmennirnir Ryan Taylor og James Perch eru einnig meiddir). Hér gæti verið færi fyrir Baines og Pienaar að nýta sér það að Newcastle virðist ekki eiga „náttúrulegan“ hægri bakvörð sem er heill. Goal.com segir auk þess að Samuel Ameobi (sóknarmaður), Shola Ameobi (sóknarmaður) sem og Tiote (varnarsinnaður miðjumaður) séu meiddir en Perch og Tiote eru metnir eiga séns í leikinn á Goodison Park. Við sjáum hvað setur. Ljóst er hins vegar að stjóri þeirra, Alan Pardew, verður fjarri góðu gamni þar sem hann er í banni eftir að hafa stjakað við aðstoðardómara.

Enn hefur ekkert heyrst af félagaskiptum Ofoe og ekki laust við að maður sé farinn að hafa smá áhyggjur þó að bæði belgíska og enska knattspyrnusambandið væru búin að staðfesta lánssamninginn. FIFA var sagt geta tekið mögulega fram á miðvikudag síðastliðna í að staðfesta félagaskiptin en þeir ætla greinilega að fara sér í engu óðslega. Bryan Oviedo, nýi varnarmaðurinn okkar, þarf ekki að hafa neinar svoleiðis áhyggjur þar sem hans félagaskipti eru gengin í gegn en einn þeirra sem þekkir feril hans í Danmörku vel fór fögrum orðum um hann í ágætis grein á vefsíðu Everton.

Svo virðist sem ungliðarnir okkar haldi uppteknum hætti en U21 árs liðið tapaði á dögunum 3-0 fyrir Arsenal U21 í jöfnum leik þar sem Arsenal fékk óverðskuldað víti eins og endursýning sýndi. Stubbs var alls ekki sáttur við dómarann enda sleppti hann víti sem Hallam Hope átti að fá hinum megin á vellinum. Hvað um það. U18 ára liðið tapaði einnig fyrir Arsenal, 2-1, eftir að George Waring hafði komið Everton yfir. Spurning með að einhver láti piltana vita að löngu er orðið úrelt þetta slen-fyrirbæri í upphafi tímabils.

Leighton Baines hefur mikið verið í umræðunni eftir að Ashley Cole meiddist enn á ný og því færi fyrir Baines að láta ljós sitt skína með landsliðinu, enn á ný. Phil Jagielka er einnig í hópnum sem mætir Moldóvu annað kvöld í undankeppni næsti heimsmeistarakeppni. Jagielka skoraði einmitt mark í leik gegn Ítölum nýverið og hefur verið í fantaformi í fyrstu leikjum Everton á tímabilinu þannig að vonandi verður hann valinn fram yfir vandræðagripinn Terry. Svo er annar leikur gegn Úkraínu á Wembley fjórum dögum síðar. Baines er staðráðinn í að standa sig vel.

Það er hópur af öðrum leikmönnum á ferðalögum með landsliðum sínum: Coleman með Írlandi (gegn Oman), Fellaini og Mirallas með Belgíu gætu mætt Jelavic með Króatíu. Belgía mætir síðan Wales en Króatar mæta Makedóníu. Tim Howard fer með Bandaríkjunum (mætir Jamaíku tvisvar, heima og heiman) og hinn aðalmarkvörður Everton, Jan Mucha, er með Slóvökum (sem mæta Litháen og Lichtenstein). Heitinga er með Hollendingum (sem mæta Tyrklandi og Ungverjalandi) og Steven Naismith er með Skotum (sem mæta Serbíu og Makedónum). Nýi maðurinn okkar, Bryan Oviedo fer með Kosta Ríka-mönnum og mætir Mexíkóum. Bæði Duffy og Vellios verða með U21 árs liðum sínum (Írlandi og Grikklandi) í undankeppni Evrópumeistaramóts U21 árs liða. Einnig eru Johan Hammar og Gethin Jones með Svíþjóð U19 og Wales U19. Leikjaplan landsliðanna má sjá hér (sjá neðst á síðunni).

Í lokin má svo geta þess að dómsmáli gegn Pienaar vegna einhverrar meintrar líkamsárásar sem átti að hafa gerst í Suður-Afríku var frestað fram að 12. október vegna meiðsla sem Pienaar hlaut í leiknum við WBA í síðustu viku. Lögmaður Pienaar var viðstaddur og afhenti dómara læknisvottorð. Pienaar hefur neitað ásökunum.

1 athugasemd

  1. Haraldur Anton skrifar:

    Like.