Everton – L. Orient 5-0 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Leyton Orient á Goodison Park áðan í annarri umferð deildarbikarsins. Leikurinn var ekki sýndur beint þannig að maður þurfti að láta sér nægja að hlusta á lýsingu af leiknum á vefsíðu Everton.

Uppstillingin 4-4-2 að ég held: Mucha, Baines, Heitinga, Jagielka, Neville. Miðjan: Gueye, Osman, Naismith, og Coleman. Mirallas og Anichebe frammi. Dagskipunin var sóknarbolti.

Algjör einstefna var í fyrri hálfleik en Everton átti fjölmörg skot sem rötuðu langflest á markið hjá Orient. Það var því mikið að gera hjá markverði Orient, sem er fyrrum Everton ungliði, en hann var líklega að vonast eftir betri útkomu gegn sínum fyrri félögum.

Everton skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik. Fyrst Mirallas á 15. mínútu eftir stoðsendingu frá Naismith. Gott að sjá hann skora sitt fyrsta mark fyrir Everton en aðeins 6 mínútum síðar (á 21. mín) lagði Mirallas upp mark fyrir Osman. Mirallas var svo alls ekki hættur því hann skoraði sitt annað mark á 28. mínútu eftir stoðsendingu frá Gueye og Mirallas toppaði þetta svo með því að leggja upp annað mark (!) fyrir Anichebe (á 35. mínútu). Tvö mörk og tvær stoðsendingar frá Mirallas í sínum fyrsta byrjunarleik og sá lofar aldeilis góðu!! 4-0 í hálfleik en Everton liðið hefði getað skorað mun fleiri mörk enda átti það fullt af skotum á markið.

Í seinni hálfleik skipti Moyes inn á Barkley (fyrir Osman), Duffy (fyrir Jagielka) og Garbutt (fyrir Baines) og við það riðlaðist leikur Everton nokkuð. En það kom þó ekki að sök því Coleman lagði upp mark fyrir Gueye sem skoraði fimmta og síðasta mark Everton. Þó að Neville færi út af meiddur á 75. mínútu og engin kæmi í hans stað (Moyes búinn með skiptingarnar) þá náðu Orient ekki að klóra í bakkann og minnka muninn. Leikurinn endaði því 5-0 fyrir Everton. Alls ekki slæm byrjun á tímabilinu, þrír sigurleikir með markatöluna 9-1.

Graeme Sharp hjálpaði til við að lýsa leiknum og valdi Coleman sem mann leiksins. Ég sá náttúrulega ekki leikinn en miðað við það sem ég heyrði (og las) þá kom það mér á óvart að Mirallas skuli ekki vera valinn maður leiks. Hvað um það — sigurinn er það sem máli skiptir. Vonandi fáum við heimaleik í næstu umferð en dregið verður á fimmtudagskvöld en leikið verður vikuna 24. september. Hægt verður vonandi að sjá highlights úr þessum leik í kvöld en á heimasíðunni stóð að þeir myndu reyna að ná því kl. 11 að íslenskum tíma.

Í öðrum fréttum er það helst að ungliðinn Jake Bidwell var lánaður aftur til Brentford til að öðlast meiri reynslu en lánið er til eins mánaðar. Og slúðurvélin er komin á fullt þar sem félagaskiptaglugginn lokar á föstudaginn. Ég væri alveg til í að loka honum strax í dag þó ég viti að Moyes vill bæta einum til tveimur leikmönnum við hópinn.

5 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Af hverju að eyða 35M punda í framherja þegar hægt er að fá menn á borð við Jelavic og Mirallas fyrir 5-6M hvorn um sig? 🙂

 2. Gunnþór skrifar:

  flott úrslit virtist vera frekar átakalítið sá mörkinn á sky áðan og menn voru mjög rólegir þegar þeir voru að skora sem sagt höfðu ekki mikið fyrir þessum sigri sem er jákvætt.

 3. Finnur skrifar:

  Steve Round var kátur með þetta í leikslok.
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/08/29/round-praises-blues-attitude

 4. Finnur skrifar:

  Hmm… þeir mega víst ekki sýna highlight utan Bretlands og EU fyrr en á morgun. Líklega verður opnað fyrir þetta kl. 11
  í fyrramálið.

 5. Finnur skrifar:

  Búið er að opna fyrir löngu highlights-in (tæpar 20 mín)
  http://www.evertonfc.com/evertontv/home/7696
  Hægt að finna styttri líka.