Mynd: Everton FC.
Fyrsti leikurinn á tímabilinu er ekki langt undan; heimaleikur gegn Manchester United kl. 19:00. Undirbúningstímabilið er búið að vera sæmilegt hjá okkar mönnum, þrátt fyrir að Java Cup hafi fallið niður: 3 sigrar í 7 leikjum, 2 jafntefli og 2 töp — og mark hjá Tony Hibbert sem toppar undirbúningstímabilið. Pienaar, Naismith og Mirallas voru keyptir, fjármagnað að hluta með sölu á Cahill, Rodwell, Joao Silva og Yobo (og ungliðum), sem höfðu allir haft tiltölulega lítil sem engin áhrif á gengi aðalliðsins á síðasta tímabili (þeir tveir síðastnefndu ekkert spilað og Rodwell sáralítið).
Úrslitin (á undirbúningstímabilinu) skipta þó minnstu máli en öllu meira máli skiptir að leikmenn öðlist leikæfingu og náði að stilla saman strengina fyrir tímabilið. Það var sérstakt ánægjuefni að sjá að enginn meiddist á undirbúningstímabilinu, samanber Coleman fyrir síðasta tímabil (eftir ljóta tækling frá þekktum tudda, leikmanni Villareal — að mig minnir) sem ég vil meina að hafi eyðilagt fyrir Coleman tímabilið síðasta. Hann var sæmilega lengi frá og virtist alltaf vera að reyna vinna upp tapið. Nú eru allir heilir fyrir leikinn við United og er það vel.
Það er töluverð bjartsýni ríkjandi meðal stuðningsmanna þó Everton sé ekki þekkt fyrir að byrja tímabilið vel, eins og ungliðarnir sýndu á dögunum en U18 ára liðið tapaði 1-0 fyrir West Brom U18, þrátt fyrir að hafa töluverða yfirburði, að sögn Kevin Sheedy. U21 árs liðið tapaði einnig fyrir West Brom U21 3-1, í leik þar sem Shane Duffy skoraði eina mark Everton, en hann skoraði einnig mark með aðalliðinu gegn Motherwell, sælla minninga.
En þá að leiknum á morgun. Everton hefur gengið afleitlega í fyrsta leik á undanförnum tímabilum (6 töp í 10 deildarleikjum á síðasta tímabili) og þetta verður alvöru prófraun. Everton er almennt séð talið hafa kostað United titilinn með 4-4 jafntefli á Old Trafford undir lok síðasta tímabils (þó menn gleymi í því samhengi afleitu tapi þeirra á heimavelli gegn Blackburn, að mig minnir, og Manchester City, svo eitthvað sé nefnt). Þeir eiga því harma að hefna og horfðu til þess í fyrstu umferð að City vann á heimavelli og setti þar með tóninn.
United hefur verið í smá basli með meiðsli á undirbúningstímabilinu, en Smalling, Evans og Jones eru taldir ekki eiga möguleika á að spila vegna meiðsla og Rafael gæti fengið að hvíla sökum þáttöku hans í úrslitaleiksins á Ólympíuleikunum. Hjá okkur er fullskipað lið, eins og áður var nefnt. Einng var Rio Ferdinand sagður hafa náð sér í einhverja tognun sem gæti leitt til þess að hann spili ekki. Vidic er þó orðinn góður eftir langvarandi meiðsli á síðasta tímabili. Á von á að persneska teppið byrji á bekknum og fái séns í síðari hálfleik.
Ég ætla að skjóta á að liðsuppstillingin Everton verði eftirfarandi:
4-2-3-1: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka og Hibbert ‘Chuck’ Norris í vörninni. Gibson og Fellaini á miðjunni. Osman aðeins framar en þeir, Pienaar á vinstri kanti og Naismith á hægri. Jelavic frammi. Á von á að Mirallas verði á bekknum og komi inn undir lokin og fái að sprikla. Gæti reyndar líka verið að Distin og Coleman fái séns en Coleman hefur til dæmis átt góða spretti á undirbúningstímabilinu. Gaman að sjá að hann er kominn með almennilega samkeppni því Osman, Mirallas og Naismith geta allir spilað þá stöðu. Kannski hann verði prófaður öðru hvoru í hægri bakverðinum á tímabilinu, eins og upphaflega var lagt með.
Leikir Everton við United hafa yfirleitt verið vel þess virði að horfa á þá. Everton hefur skorað 10 mörk gegn United í síðustu 5 leikjum, þannig að Moyes veit hvernig á að skora gegn þeim — þó að aðeins 5 stig hafi komið upp úr krafsinu. Sagan sýnir að við vinnum tæplega helming leikja gegn United á heimavelli en þar sem þetta er fyrsti leikur og hefðbundið að Everton tapi honum þá ætla ég að vera hóflega bjartsýnn og spá jafntefli, sem ég væri ánægður með að öllu undangengnu. Kannski náum við að stela þessu með eins marks sigri, en sjáum hvað setur.
Tímabilið um það að hefjast hjá Everton. Ég myndi meta það eftir fyrstu þrjá leikina hvort tímabilið sé að byrja vel eða illa en loksins fáum við að sjá hvernig endurnýjaða liðið sem Everton setti saman í sumar stendur sig í deildinni. Í tilefni leiksins á morgun rifjaði klúbburinn upp mjög skemmtileg mörk sem Everton hefur skorað gegn United gegnum tíðina. Vonandi setjum við nokkur eftirminnilega mörk á morgun.
Koma svo bláir! Sjáumst á Ölveri.
Á meðan við bíðum eftir leiknum… Hverju spáið þið um gengi Everton á tímabilinu:
– Sæti í deild
– Árangur í FA bikar
– Árangur í deildarbikar
– Leikmaður tímabils
– Hver þarf að sanna sig
– Hver kemur mest á óvart
Því miður fær Mirallas ekki að koma inn á á mánudaginn þar sem hann var ekki skráður í liðið fyrir miðjan dag á föstudag. þannig að hann verður að bíða þar til gegn Aston Villa. En hann verður vonandi góð viðbót við hópinn 🙂
– Sæti í deild – 5
– Árangur í FA bikar – Semi Final
– Árangur í deildarbikar – 5. umferð
– Leikmaður tímabils – Pienaar
– Hver þarf að sanna sig – Coleman
– Hver kemur mest á óvart – Coleman
Ég ætla að spá enn einu árinu í hægri framför:
– Sæti í deild — 6. sæti og Europa League
– Árangur í FA bikar — Úrslit og sigur (dolla í ár!)
– Árangur í deildarbikar — 4. umferð (spái sneypuför, sem kveikir neistann í okkar mönnum)
– Leikmaður tímabils — Jelavic
– Hver þarf að sanna sig — Coleman
– Hver kemur mest á óvart — Anichebe
Er það bara ég eða lítur nýja treyjan hjá Man Utd svolítið út eins og borðdúkur? 🙂
Sæti í deild – 7
FA – 4 umferð
League Cup – Sigur
Leikmaður tímabils – Fellaini
Hver þarf að sanna sig – Coleman
Kemur mest á óvart – Gibson
Sæti í deild – 7 sæti
Árangur í FA bikar – 3 umferð
– Árangur í deildarbikar – vinnum
– Leikmaður tímabils – Jelly
– Hver þarf að sanna sig – Coleman
– Hver kemur mest á óvart – Hibbert (skorar aftur 😉
Alberto: við skulum vona að Hibbo skori þá á útivelli svo ekki þurfi að endurbyggja Goodison Park! 🙂