Malaga – Everton 1-0

Everton leikur við Malaga á heimavelli þeirra síðarnefndu. Everton í svörtu útibúningunum en engin nöfn aftan á skyrtunum og engin klukka uppi í horninu. Þetta er bara eins og í gamla daga. 🙂

Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Hibbert í vörninni. Neville, Osman, Pienaar, Coleman á miðjunni. Naismith og Jelavic frammi. Varamenn: Mucha, Rodwell, Distin, Gueye, Barkley, Vellios, Anichebe, Junior, Duffy. Enginn Fellaini sjáanlegur (sagður meiddur — say it aint so!). Sýnist þetta reyndar vera 4-5-1 en erfitt að segja, þar sem ekki mikið er búið af leiknum.

0 mín: Everton hefur leikinn.

7 mín: Róleg byrjun á leiknum. Liðin að þreifa fyrir sér.

8 mín: Horn sem Everton á, hægra megin. Coleman sendir fyrir en ekkert kemur úr því. Everton með boltann. Leikmaður Malaga liggur eftir. Leikurinn stöðvaður.

9 mín: Leikur hafinn á ný.

12 mín: Ekki mikið um færi enn sem komið er. Malaga meira með boltann en ekki komist í færi.

13 mín: Skot af löngu færi frá Malaga en auðvelt fyrir Howard. Grípur boltann.

15 mín: Skot af löngu færi frá Malaga en hátt yfir.

17 mín: Hibbert tekur innkast. Konur víðs vegar um heiminn finna til veikleika í hnjánum.

18 mín: Áhorfendur láta vel í sér heyra með trumbuslætti og söngum. Minnir á stuðningsmenn Afríkuliðanna á síðustu HM keppni. Vantar bara vuvuzela. Ummmm… nei.

19 mín: Skot frá Malaga manni innan í teig vinstra megin. Howard vel á verði. Lítil hætta.

20 mín: Aukaspyrna sem Everton á. Baines tekur hana. Framhjá.  Hibbert hefði sett’ann.

23 mín: Osman setur boltann á Jelavic gegnum vörn Malaga en Jelavic dæmdur rangstæður. Endursýning sýnir að þetta sé rétt. Flott færi samt sem áður.

26 mín: Malaga með boltann inni í teig Everton en ekkert kom út úr því.

28 mín: Naismith í færi inni í teig en hittir ekki boltann.

31 mín: Boltinn berst marka á milli, endar með fyrirgjöf frá Malaga en enginn til að taka á móti.

33 mín: Sóknarmaður Malaga kominn einn á móti markverði en dómarinn flautar rangstöðu. Hibbert steig aftur og reddaði málunum, enn á ný.

39 mín: Fyrirgjöf frá vinstri hjá Malaga. Skalli frá sóknarmanni en engin hætta. Howard grípur auðveldlega.

40 mín: Fyrirgjöf frá hægri hjá Malaga. Jagielka hreinsar frá. Engin hætta. Malaga enn í sókn. Vörnin heldur.

43 mín: Malaga að reyna að komast upp vinstri kantinn. Hibbert fastur fyrir, tæklar í innkast. Sóknarmaður Malaga má þakka fyrir að halda öllum limum heilum.

43 mín: Leikmaður Malaga stígur á ristina á Jagielka. Sárt, en Jagielka virðist í lagi þó. Eins gott að þeir reyndu þetta ekki með Hibbert.

45+1 mín: Leikmaður Malaga brýtur á Coleman þegar Everton er að komast í sókn. Á að fá gult en fær ekki.

45+2 mín: Dómari flautar til hálfleiks. Ekki mikið um færi í hitanum. Varnir beggja liða halda.

47 mín: Leikur hafinn að nýju (fyrir 2 mínútum). Missti af fyrstu tveimur mínútunum (var að svæfa strákinn minn) en mér sýnist allir 11 leikmenn Malaga séu heilir sem hlýtur að merkja að Tony Hibbert hefur haldið sig hægan hingað til.

56 mín: Malaga meira með boltann og  í sókn en ná ekki að gata vörn Everton.

60 mín: Sóknarmaður Malaga næstum kominn inn fyrir vörn Everton en dæmdur rangstæður.

61 mín: Malaga skiptir inn á leikmanni. Sá heitir Góða Nótt (Buanonotte) — ef (litla) spænskukunnátta mín bregst mér ekki.

62 mín: Pienaar á sendingu frá vinstri yfir á Coleman. Coleman í færi en ranglega dæmdur rangstæður.

63 mín: Boltinn í netinu hjá Everton. Fyrirgjöf af vinstri og Jelavic setur boltann í netið en rangstæða dæmd. Sá ekki hvort það var rétt eða ekki.

64 mín: Baines tekur sprettinn upp vinstri kant, nær samspili með Pienaar en skortið varið. Horn fyrir Everton. Anichebe inn á. Ekkert kemur úr horninu.

65 mín: Malaga maður í færi. Howard ver en dómari dæmir rangstöðu. Rangur dómur, sýnir endursýningin.

66 mín: Anichebe fær gult eftir að hafa stokkið í skallabolta. Sá ekkert athugavert við þetta. Dómarinn ekki alveg með á nótunum, miðað við síðustu mínútur?

67 mín: Skot af löngu færi hjá Malaga, lágt skot en Howard hirðir það.

68 mín: Fallegt spil milli Baines og Pienaar á vinstri kanti, boltinn endar hjá Osman sem hleypur til hægri rétt við teiglínuna og er í fínu færi utarlega í teignum, skýtur en markvörður Malaga ver.

69 mín: Aukaspyrna hjá Malaga langt frá marki. Endar í horni. Ekkert kemur úr því.

71 mín: Algjörlega óþarfa brot á Baines hjá Malaga manni við hliðarlínuna. Sleppur við spjald. Aukaspyrnuna þarf að endurtaka eftir stypmingar í vítateignum. Aukaspyrna tekin en upp úr því dæmd rangstæða á Everton. Skipting hjá Malaga. Francisco Junior að gera sig kláran að koma inn á.

73 mín: Everton næstum komnir gegn en Anichebe dæmdur rangstæður. Ekki viss um þennan dóm en hvað um það.

74 mín: Aukaspyrna frá Malaga frá hægri. Malaga skorar úr aukaspyrnu. Enginn að valda manninn sem skallar framhjá Howard utan úr teig. 1-0 Malaga.

77 mín: Fyrirgjöf frá hægri frá Malaga en Hibbert skallar frá.

78 mín: Skipting hjá Malaga. Skipting hjá Everton: Junior kominn inn á, sá ekki hver fór út af. Neville?

79 mín: Buanonotte á skot en í hausinn á Jagielka. Innkast. Malaga meira með boltann.

81 mín: Skot frá Malaga frá vinstri helming vítateigs en hárfínt framhjá hægra megin stangarinnar. Flott skot!

82 mín: Gueye inn á fyrir e-n. Naismith?

83 mín: Anichebe fellur í teignum. Sýndist það ekki vera neitt en nú sé ég lítinn skurð á sköflunginum á honum. Önnur skipti hjá Malaga og Barkley inn á fyrir Jelavic.

85 mín: Aukaspyrna utarlega og Barkley skallar boltann rétt yfir. Dæmdur rangstæður.

88 mín: Horn hjá Malaga vinstra megin. Skalli rétt framhjá fjærstöng.

89 mín: Malaga maður næstum kominn inn fyrir en dæmdur rangstæður. Hann skýtur engu að síður (framhjá) til að tefja tímann en fær ekki spjald. Howard ekki sáttur.

90 mín: Brotið á Anichebe aftur þar sem Everton var að komast í skyndisókn. Ekkert spjald. Tveimur mínútum bætt við. Ef Everton jafnar mun vítaspyrnukeppni dæma um hvor vinnur (einhverra hluta vegna).

91 mín: Horn fyrir Everton. Markvörður grípur. Skyndisókn hjá Malaga, tveir á móti Hibbert en Hibbert nær að hreinsa með skalla (en ekki hvað) þegar annar Malaga maðurinn reynir fyrirgjöf yfir á hinn. Dómarinn flautar leikinn af þar sem Hibbert hefur lokið sinni varnarvinnu og ekki ástæða til að halda áfram.

Malaga fær einhvern bikar fyrir leikinn sem er álíka stór og Leon Osman. Ekki viss um hvers vegna verið er að gefa bikar fyrir leikinn, en hvað um það.

Á heildinga litið heldur rólegur og daufur leikur. Ekkert á við síðasta leik. Ekki mikið um færi. Hefði átt von á 0-0 jafntefli miðað við hvernig leikurinn þróaðist og hversu lítið var um færi. Malaga skoraði sigurmarkið úr aukaspyrnu og Everton hefði átt að gera betur í að valda manninn sem skoraði en svo fór sem fór. Malaga ágætlega að sigrinum komnir. Aldrei sáttur að sjá Everton tapa en mér finnst ágætt að leikmenn fái spark í rassinn fyrir fyrsta leik tímabilsins. Everton spilaði svo sem ekki illa en þarf að spila betur en þetta og skapa sér fleiri færi til að sigra Man United. Ekki missa af þeim leik.

Síðasti vináttuleikur fyrir tímabilið því að baki og þar með síðasta „beina lýsing“ tímabilsins á everton.is einnig lokið. Kem ekki til með að lýsa leikjunum á tímabilinu beint þar sem ég mun að horfa á leikina og reyna að njóta þeirra án þess að vera að vélrita hvað gerist á hverri mínútu. Þakka samfylgdina á undirbúningstímabilinu.

3 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  „18 mín: Áhorfendur láta vel í sér heyra með trumbuslætti og söngum. Minnir á stuðningsmenn Afríkuliðanna á síðustu HM keppni. Vantar bara vuvuzela. Ummmm… nei.“

  *hehe* brilliant !

 2. Holmar skrifar:

  Rodwell til City fyrir 15 milljónir punda hvað finnst mönnum um það?

  Persónulega finnst mér þetta ágætis díll svo lengi sem peningarnir fara í að kaupa öflugan hægri kantara og vonandi ágætan back up striker.

 3. Finnur skrifar:

  Kemur mér á óvart, sérstaklega eftir síendurtekið meiðslatímabil hans í fyrra. Ég myndi segja að 15m sé líklega ágætis díll fyrir klúbbinn, unglingastarfið að virka greinilega. Vonandi náum við að styrkja liðið aðeins meira, treysti Moyes ágætlega til að finna út úr því.