Staðan tekin

Mynd: Everton FC.

Það er ýmislegt búið að ganga á í Everton heiminum undanfarna daga.

Fyrst tilkynnti Everton klúbburinn að liðið væri hætt við þáttöku í Java Cup í Indónesíu en mótið átti að hefjast þann 26. þessa mánaðar. Það rann á fólk tvær grímur þegar Galatasaray hætti við þátttöku í keppninni og sagt var að Nacional frá Úrúgvæ hefði tekið þeirra stað, en skipuleggjendur gátu síðan ekki staðfest það og eftir að fleiri atvik áttu sér stað og reynt hafði verið árangurslaust að fá útskýringar á því hvað væri í gangi var ákveðið að hætta við þátttöku í stað þess að leggja upp í langferð til Indónesíu upp á von og óvon. Það nýjasta í málinu er svo að skipuleggjendur sögðust ætla að kæra til að fá endurgreitt fyrir þann kostnað sem þeir hefðu lagt í keppnina. Í stað flugferðar ætlar liðið að halda sig á Bretlandseyjum og halda áfram æfingum. Kæmi mér þó ekki á óvart þó settir verði upp aðrir vináttuleikir á næstu dögum.

Enn berast engar fréttir af væntanlegum félagaskiptum hjá Yobo (sala) og Pienaar (kaup) og því tóku fréttamiðlar upp á því að skálda upp fréttir, að því er virðist. Sagt var að Yobo hefði hætt við að ganga til liðs við Fenerbache, sökum samskiptaleysis og skorts á skuldbindingum frá Fenerbache og í kjölfarið kom upp orðrómur um að þeir hefðu í staðinn boðið 5M í Heitinga. Oliwashina Okeleji hjá BBC World Service hafði það svo eftir umboðsmanni Yobo að ekki væri neitt til í því að Yobo væri hættur við og aðeins smáatriði stæðu í vegi fyrir að salan gangi í gegn. Tenging Fenerbache við Heitinga virtist ennþá farstæðukenndari þar sem Heitinga á 2 ár eftir að samningi sínum og lýsti nýlega því yfir hvað hann sé ánægður hjá Everton.

Og þá að Tim Cahill en mikill meirihluti lesenda Goal.com er á þeirri skoðun að rétt hafi verið að selja hann (63% sammála, 37% á móti). Það er samt hálf undarlegt að hugsa til Everton liðsins án hans eftir algjörlega frábæra frammistöðu á heildina litið en allt hefur sinn enda og tímasetningin rétt fyrir bæði leikmann og félag, að mínu mati. Set hér inn nokkrar skemmtilegar minningar, sem ég safnaði saman um Tim Cahill úr kommentakerfinu og víðar: hér (vídeó frá klúbbum), hér (vídeó), hér (vídeó), hér, hér og hér.

Orðið er annars laust í kommentakerfinu hér að neðan fyrir það sem ykkur brennur á hjarta.

6 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Distin setur stefnuna á að komast í Champions League og sigra ensku deildina!
    http://www1.skysports.com/football/news/11671/7928819/
    🙂

    Ég held annars að við ættum að stefna á Evrópusæti í ár — helst vill maður náttúrulega að Everton detti inn í Champions League en ég væri svo sem ekkert ósáttur við Europa League.

  2. Finnur skrifar:

    Ég var annars algjörlega sannfærður um að Pienaar tilkynningin myndi detta inn í gær og refresh-aði síðurnar fram yfir miðnætti en allt kom fyrir ekki…

  3. Elvar Örn skrifar:

    Eins og ég sagði, þá hafa bara slæmar fréttir verið að berast seinustu daga en auðvitað vonar maður að það gerist eitthvað á jákvæðu nótunum eins og að Pienaar komi og amk einn til.
    Yobo verðum við að selja og sú sala hefur dregist allt allt of lengi. Nú set ég spurningamerki við Heitinga þar sem hann á bara 1 ár eftir af samning, klúbburinn má ekki við því að missa hann á free transfer næsta sumar og því er betra að selja hann núna ef hann vill ekki framlengja samningi. Við erum jú með Jagielka í sömu stöðu. Hvað varðar Baines þá vona ég bara að Everton gefi honum nýjan samning til að senda út þau skilaboð að hann sé Everton maður.
    Mér finnst hrikalegt að Everton missi út tvo leiki á undirbúningstímabilinu en ekki veitir af að undirbúa sig fyrir byrjun leiktíðar en við höfum verið að byrja illa seinustu ár. Ég vel sjá fleiri leiki við sterkari lið í Evrópu því þar vill klúbburinn jú keppa í Evrópu og Meistaradeild.
    Vona að klúbburinn nái einum leik amk í staðinn fyrir þessa tvo en stórefa að hann verði sýndur beint enda hefur Everton TV endurgreitt fyrir þessa tvo leiki.

  4. Finnur skrifar:

    Ég skil ekki hvaðan þetta kemur að Heitinga eigi eitt ár eftir (hef séð þessu haldið fram annars staðar líka). Heitinga kom til okkar í september 2009 og samdi til 5 ára. Hann á því væntanlega tvö ár eftir af samningi sínum og ég get ekki séð að stemmingin hjá honum sé neikvæð í augnablikinu, hann hefur lýst því yfir að hann sé ánægður og var eins og klettur í vörninni á síðasta tímabili.

    Baines skrifaði undir 5 ára samning í júní 2010, þannig að hann á 3 ár eftir: http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/teams/e/everton/8778107.stm

    Sammála með leikina, nema hvað ég held enn í vonina að þeir verði sýndir ef þeir eiga sér stað. 🙂

  5. Elvar Örn skrifar:

    Já ég er mjög hissa ef Heitinga á bara 1 ár eftir en þetta hefur verið nefnt á nokkrum miðlum, sjáum hvað setur, það eru bara um 3 vikur í fyrsta leik.