Everton – Tottenham 1-0

Nokkrar breytingar áttu sér stað á liðsuppstillingunni fyrir leikinn við Tottenham en Jelavic fékk sitt fyrsta start (og sinn fyrsta heimaleik) í sókninni, Hibbert vék fyrir Neville í hægri bakverðinum, Osman kom inn á miðjuna við hlið Fellaini, Coleman tók vinstri kantinn og Drenthe á hægri. Eftir á að hyggja hefði maður geta sagt sér að þessar útáskiptingar væru eðlilegar þar sem Stracqualursi var slakur á móti QPR, Osman hefur staðið sig ágætlega með varaliðinu (og setti inn mark á dögunum) og Neville hefur í síðustu þremur leikjum gegn Tottenham pakkað Gareth Bale saman. Það var því kannski ekki skrýtið að Harry Redknapp prófaði að setja Bale á hægri kantinn í leiknum til að reyna loksins að virkja hann gegn Everton (eða reyna að nýta sér veikleika Baines?) en það virtist ekki skipta máli því hann virkaði nánast eins og farþegi í leiknum. Pienaar var í stúkunni og fylgdist með (þar sem hann mátti ekki spila) en Saha, sem heiðursmannasamkomulag var um myndi ekki spila leikinn nema af algjörri neyð, var á bekknum. 10 ára afmæli Moyes handan við hornið (næsta miðvikudag) og Moyes eldri mættur í stúkuna. Von á góðu.

Bæði lið byrjuðu leikinn ágætlega og baráttan í algleymingi. Coleman virtist staðráðinn í að setja mark sitt á leikinn en náði ekki að klára sóknirnar vel og virtist stirður. Drenthe átti fyrirgjöf en varnarmaður Tottenham skallaði frá og Coleman átti slakt skot. Fyrsta almennilega færið kom því ekki fyrr en á 15. mínútu þegar Defoe slapp úr rangstöðugildrunni en Heitinga fylgdi vel á eftir og reddaði málunum með tæklingu inn í teig, sem Defoe var ósáttur við en dómarinn sá ekkert athugavert við. Ég hef ekki séð endursýninguna en tæklingin leit út fyrir að vera lögleg frá mínum bæjardyrum séð.

Þetta virtist lífga við Everton liðið sem fór að sækja betur og stuttu síðar átti Fellaini skot (eftir sendingu frá Jelavic) sem Friedel varði með fætinum. Á 22. mínútu gerðist það svo að Baines við miðlínuna fann Osman vinstra megin rétt fyrir utan teig, sem snýr af sér varnarmanninn Kaboul og brunar inn í teig, hefði getað skotið en sendir frekar út á Jelavic sem er utarlega í miðjum teignum og nýtir sér það að Friedel er illa staðsettur (of langt til vinstri) og skorar flott mark með fyrstu snertingu. 1-0 fyrir Everton. Fyrsta mark Jelavic, sem held ég sé með þessu marki jafnvel búinn að jafna markafjölda Andy Caroll með Liverpool (og vantar bara… hvað… ca. eitt mark í Suarez á tímabilinu?).

Mjög vel gert hjá Osman sem var einfaldlega stórkostlegur í fyrri hálfleik en fyrir utan að leggja upp markið var hann duglegur að brjóta niður sóknir Tottenham, meðal annars í fjórum sóknum Tottenham í röð þar sem var eins og allt spil Tottenham strandaði á Osman.

Stuttu síðar átti Drenthe skot sem breytti um stefnu af varnarmanni Tottenham en Friedel varði vel. Bale átti skot vel utan við teig en framhjá. Everton fékk aukaspyrnu á ákjósanlegum stað sem Jelavic tók (!), öllum að óvörum (allir bjuggust við að Baines myndi taka spyrnuna og Drenthe var reiðubúinn líka) en Friedel vel á verði í markinu og reddaði Tottenham fyrir horn. 1-0 í hálfleik — fínn fyrri hálfleikur, flott mark, fín barátta og ekkert yfir þessu að kvarta.

Harry Redknapp hefur þó sennilega lesið vel yfir hausamótunum á sínum mönnum því það var breytt Tottenham lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik og greinilega staðráðið í að tapa ekki þriðja leiknum í röð. Það tók innan við hálfa mínútu fyrir Defoe að ná skoti sem Howard átti ekki í erfiðleikum með en Tottenham efldust eftir því sem á leið. Á ákveðnum tímapunkti voru þeir komnir með 8 hornspyrnur gegn engri frá Everton, sem verður að teljast afar óvenjulegt á Goodison Park. Tottenham náði ágætri stjórn á leiknum á þessum tímapunkti en náði þó ekki að skapa sér nógu góð færi á meðan lítið var að gerast í Everton sókninni.

Saha kom inn á á 54. mínútu og sannaði þar með hversu mikill heiðursmaður Harry Redknapp er (ekki) en Rodwell kom inn á fyrir Drenthe á 65. mínútu til að stemma stigu við sóknarleik Tottenham (Osman yfir á hægri kant). Aukaspyrna Tottenham rétt utan við teig fór langt yfir. Sandro var svo skipt út af fyrir Van der Faart á 68. mínútu og hjá okkur komu Stracqualursi inn á fyrir Jelavic á 78. mínútu og Jagielka fyrir Coleman á 82. mínútu. Livermore kom inn á fyrir Scott Parker á 86. mínútu en allt kom fyrir ekki, erfitt að koma sér í almennileg færi. Van der Faart átti reyndar skot í viðarverkið og Defoe náði á 73. mínútu að setja boltann í netið hjá Howard og hélt að hann væri búinn að jafna en var rangstæður svo munaði um hálfum kílómetra.

Tottenham jók pressuna jafnt og þétt það sem eftir lifði leiks (og við héldum boltanum ekki nógu vel) og það voru því taugastrekkjandi síðustu 10 mínúturnar en Moyes skellti Jagielka inn á fyrir Coleman til að þétta vörnina (og spilaði þar með með 5 í vörninni) til að passa upp á að ekki læki inn mark á síðustu mínútunum. Dómarinn bætti við 5 mínútum við leikinn (!!) — sem var í raun óskiljanlegt þar sem enginn íkorni né köttur hljóp inn á völlinn, enginn hlekkjaði sig við stöngina og enginn Tottenham leikmaður lá og velti sér í grasinu við minnstu snertingu eins og Suarez er gjarn á að gera. Saha reyndist svo samkvæmur sjálfum sér (á Goodison) í blálokin (löngu eftir að búið átti að vera að flauta leikinn af) og náði ekki að skora þrátt fyrir að komast í ákjósanlegt færi sem endaði með stangarskoti.

En, fínn 1-0 sigur á Tottenham staðreynd — níundi taplausi leikurinn í röð (!). Miðverðir okkar (Distin og Heitinga) sem og Osman áttu fantagóðan leik að mínu mati; mjög ánægður að sjá Osman stiginn upp úr meiðslum. Það verður þó ekki af Tottenham tekið að þeir spiluðu betri bolta (í seinni hálfleik allavega) en til dæmis bæði Man City og Chelsea (sem við lögðum á Goodison á dögunum) en það dugði einfaldlega ekki til. Harry Redknapp hundfúll eftir leikinn enda í fyrsta skiptið sem Tottenham tapar þremur leikjum í röð undir hans stjórn (#geisp#, whatever…). Síðast þegar það gerðist var skipt um kaptein á brúnni hjá þeim. Hvað um það, frábær úrslit — Everton stökk úr 13. sæti upp í það 9. og ef við vinnum næsta leik á þriðjudaginn í deildinni (Liverpool) eigum við séns á að taka 7. sætið af þeim (eða bara komast upp fyrir Liverpool ef Sunderland vinnur líka).

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Baines 7, Distin 7, Heitinga 7, Neville 6, Drenthe 7, Fellaini 7, Osman 7, Coleman 6, Cahill 6, Jelavic 7. Varamenn: Jagielka 6, Rodwell 6, Stracqualursi 5. Einkunnir Tottenham voru mjög breytilegar: Kaboul, Sandro, Adebayor og Scott Parker fengu 5 (!) í einkunn, þrír með sexur, Bale og Defoe með 8 og Friedel og Modric með 7.

Ég er reyndar hissa á því að Bale hafi fengið 8 í leiknum, því mér fannst hann slakur (sérstaklega í fyrri hálfleik) eins og í síðustu fjórum leikjum okkar gegn Tottenham enda sungu stuðningsmenn Tottenham undir lokin „Gareth Bale, he plays on the left“ (!). 🙂 Defoe var aftur á móti hættulegur.

 

3 Athugasemdir

  1. Tóti skrifar:

    Nú er það vara Liverpool á þriðjudaginn!

  2. admin skrifar:

    Og þá erum við komnir upp fyrir Liverpool!

  3. Finnur skrifar:

    Já, það þurfti ekki meira en svo! 😉