Everton vs. Liverpool

Mynd: Everton FC.

Nú er komið að derby leiknum við Liverpool en leikurinn er núna á mánudaginn kl. 20:00. Þetta ku vera aðeins í sjöunda skipti sem það hittist þannig á og við lítum á það sem gott merki því Everton hefur aðeins tapað einu sinni í hinum 6 derbyleikjunum sem fram fóru á mánudegi en unnið þrjá og gert tvö jafntefli.

Koeman er á svipuðum stað með Everton og Jurgen Klopp var með sitt lið á seinni hluta síðasta tímabils, eða um það bil — ekki búinn að ná að setja mark sitt að fullu á liðið og leikmannahópurinn lítið breyttur frá þeim sem hann erfði frá fyrri stjóra. Það leit reyndar þannig frá upphafi að umbreyting Koeman á Everton liðinu yrði afskaplega sársaukalaus þar sem liðið sló varla feilpúst í byrjun tímabils (eitt jafntefli og svo 5 sigrar í röð). En svo hætti sókn Everton allt í einu að skora mörk og sigurleikirnir breyttust í jafntefli eða töp og virtist ekki sjá fyrir endann á, þangað til nýverið en nú líður manni eins og liðið sé búið að finna rétta taktinn.

Vörn Everton hefur verið nokkuð stabíl frá upphafi en aðeins þremur Úrvalsdeildarliðum á tímabilinu hefur tekist að skora meira en eitt mark gegn Everton í 16 tilraunum og lengi vel var Everton með nískustu vörn deildarinnar ásamt Tottenham. Þess má svo geta að engu Úrvalsdeildarliðanna hefur tekist að leggja Everton á Goodison Park á tímabilinu.

Við gerum kröfu um að leikmenn Everton mæti eins stemmdir til leiks gegn Liverpool og þeir gerðu í síðasta leik (gegn Arsenal) því með þeirri baráttu og því hungri sem þeir sýndu þá standast fá lið þeim snúninginn. Liverpool vörnin er afar mistæk og brothætt og markverðirnir búnir að vera svolítið í ruglinu á tímabilinu þannig að góð pressa gæti gert gæfumuninn.

Það þarf ekki að segja Koeman það; hann hefur gott tak á Liverpool ef marka má síðasta tímabil en Liverpool náðu aðeins einu stig út úr þeim tveimur viðureignum.

Lukaku er með 5 mörk í 8 leikjum gegn Liverpool og er fyrsti maður á blað hjá mér. Jagielka er hins vegar í banni og Bolasie og Besic báðir frá vegna meiðsla. Líkleg uppstilling því: Stekelenburg, Baines, Funes Mori, Williams, Coleman, Gueye, Barry, Mirallas, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Hjá Liverpool eru nokkrir metnir tæpir — Emre Can, Joel Matip og… surprise surprise: Daniel Sturridge — en Coutinho og Marko Grujic eru frá vegna meiðsla. Búist er við að Liverpool spili með hinn varamarkvörð sinn, Mignolet, í markinu á mánudaginn en hann hefur fengið sinn skerf af gagnrýni líkt og Karius sem er búinn að vera arfaslakur.

Í öðrum fréttum er það helst að mikið hefur verið rætt um kaup á Depay og Schneiderlin frá United í janúar. Kæmi manni ekki á óvart þó þær þreifingar séu nú þegar í gangi enda styttist í opnun glugga. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist í janúarglugganum en peningavandamál undanfarinna ára eru leyst með nýjum eiganda og líkur á að Koeman fái dágóða summu til að styrkja liðið.

Everton klúbburinn tilkynnti einnig að skrifað hefði verið undir nýja samninga við Gareth Barry (1 ár), Leighton Baines (2 ár) og Mason Holgate (5 ár) en sá síðastnefndi hefur verið einn af yfirburðamönnunum í unglingastarfi Everton.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 er nú ósigrað í 13 leikjum í röð en þeir unnu Stoke U18 á dögunum, 2-0. Antony Evans skoraði bæði mörk Everton. Everton U23 sigraði svo Leicester U23, 4-1 (sjá vídeó), með mörkum frá Callum Connolly, Oumar Niasse, Harry Charsley og Courtney Duffus. Liðið er, sem fyrr, í efsta sæti ensku Úrvalsdeildar U23ja ára liða.

16 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  LIKE
  N.I.S.I.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Eigum við nokkuð að byrja með 10 leikmenn samt Finnur? Mæli með því að bæta Coleman við þessa upptalningu svo það sé jafnt í liðum.
  Höfum sko ekki riðið feitum hesti í viðureignum við Liverpool undanfarin misseri en þar tel ég Koeman vera lykilmann til að snúa þessu við og undirbúa hópinn almennilega. Held að menn verði að halda haus og missa sig ekki í fanta og ruddaskap (samt nauðsynlegt með gegn Liverpool), bara spila eins og gegn Arsenal og þá endar þetta vel fyrir Everton.

 3. Finnur skrifar:

  Þarf ekki nema 10 í þennan leik. Skyldusigur, eins og bróðir þinn orðar það. 😉

 4. Diddi skrifar:

  mér finnst nú engin ástæða til að Barry komi inn fyrir McCarthy og það er ekki nóg að byrja eins og við byrjuðum gegn arsenal, þá lendum við 0-3 undir, við verðum að mæta í leikinn eins og við byrjuðum eftir að hafa fengið á okkur markið gegn anal 🙂

  • Diddi skrifar:

   ég held að við höfum ekki unnið nema 5 leiki í röð eftir byrjunarjafnteflið gegn tottenham 🙁

 5. Orri skrifar:

  Everton vinnur leikinn 3-1 ekki spurning.

 6. halli skrifar:

  Það er enginn venjulegur mánudagur í dag. Heimaleikur við samborgara okkar í bláu borginni. Það er fátt sem truflar mig meira en að tapa fyrir Liverpool í Íþróttalífinu það er sambærilegt við að þegar mínir menn í KA tapa fyrir Þór enda er ekki hægt að halda með fótboltafélugum í rauðum búningum. Ég sé fyrir mér blá jól þetta árið við erum taplausir á heimavelli í deildinni og viljum endilega halda því gengi áfram. Ég er frekar bjartsýnn á leikinn eins og alltaf ég vil fara þannig inn í alla leiki til að vinna þá ég ætla að spá því að Ragnar klaufi fái rautt spjald í fyrri hálfleik og við vinnum 1-0 með marki frá Lennon

 7. Gunnþór skrifar:

  Er leikur í kvöld eða á morgun?

 8. Finnur Thorarinsson skrifar:

  Í kvöld, kl. 20:00. 🙂

 9. Eiríkur skrifar:

  Vona að ekki verði stillt upp of varnasinnuðu liði.
  Sókn er besta vörnin gegn þeim rauðu.

 10. Eiríkur skrifar:

  Ekki get ég sagt að þetta sé mjög varnalega sinnuð uppstilling 🙂
  Og Barry á bekknum

%d bloggers like this: