Everton – Liverpool 0-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Stekelenburg, Baines (fyrirliði), Funes Mori, Williams, Coleman, Gana, McCarthy, Valencia, Lennon, Barkley, Lukaku. Varamenn: Robles, Holgate, Kenny, Barry, Cleverley, Mirallas, Calvert-Lewin.

Almenn ánægja með fyrri hálfleikinn hjá Everton — flott pressa, ákefð, gredda og barátta frá upphafi. Leikurinn að spilast nokkuð hratt og Everton liðið gaf leikmönnum Liverpool lítinn tíma á bolta. Ekki mikið um færi, sama hvoru megin vallar það var en allar áhyggjur okkar af slæmri byrjun Everton í leikjum hurfu strax á fyrstu mínútu. Everton mun betra liðið í fyrra hálfleik og líklegra liðið til að skora. Allar sóknir Liverpool runnu út í sandinn án mikillar ógnar. Funes Mori var svo ekki langt frá því að skora upp úr horni undir lok fyrri hálfleiks. Fékk frían skalla en náði ekki að stýra boltanum á mark. 0-0 í hálfleik. Barry skipt inn á fyrir McCarthy í hálfleik sem hafði meiðst undir lokin.

Klopp las greinilega yfir hausamótunum á Liverpool sem höfðu verið algjörlega arfaslakir í fyrri hálfleik og þeir byrjuðu hálfleikinn sterkari, án þess að skapa sér nein almennileg færi lengi vel, frekar en Everton.

Allt í járnum og lítið að frétta þangað til markverði okkar, Stekelenburg, var skipt út á 63. mínútu eftir samstuð við Baines. Stekelenburg reyndi að harka þetta af sér en á endanum varð hann að hætta og Robles skipt inn á. Valencia var svo skipt út af fyrir kjúklinginn Dominic Calvert-Lewin á 72. mínútu. Veit að hann er búinn að standa sig vel með U23 ára liðinu en maður hefði viljað sjá Mirallas inn á frekar.

Everton fékk þó færi á 74. mínútu þegar Williams átti skalla eftir aukaspyrnu (frekar en hornspyrnu, að mig minnir) en beint á Mignolet í markinu. Fimm mínútum síðar átti Firmino loksins skot á mark upp úr engu en Robles varði algjörlega frábærlega.

Rétt undir lok uppbótartíma kom svo mark hjá Liverpool og var frekar mikill heppnisstimpill á því en langskot utan af velli endaði í stöng og Sadio Mane var rangur maður á röngum stað fremstur og potaði frákastinu inn. Everton búið að lesa vel sóknarmenn Liverpool í öllum leiknum og alltaf mættir í hlaupaleiðina til að eyða allri hættu. Lengi vel leit út fyrir 0-0 jafntefli og ljóst að þyrfti eitthvað sérstakt upp á herslumuninn og bara spurning hvoru megin það félli. Því miður var það Liverpool megin í kvöld.

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (6), Coleman (6), Funes Mori (6), Williams (6), Baines (6), Gueye (6), McCarthy (5), Lennon (5), Barkley (4), Valencia (5), Lukaku (5). Varamenn: Robles (6), Barry (6). Ekki ósvipaðar einkunnir hjá Liverpool, Mane sá eini sem stóð upp úr með 8.

15 Athugasemdir

 1. Gunnþór skrifar:

  Finnst eins og það liggji í loftinu að Liverpool steli sigrinum í kvöld vonandi að ég hafi rangt fyrir mér.

 2. Steini skrifar:

  Boom baby!!!

 3. Gunnþór skrifar:

  Þessir bláu virðast endalaust getað toppað sig í lélegheitum.

 4. Diddi skrifar:

  við eyddum allri okkar orku í fyrstu 30 mínúturnar í leiknum og gátum ekki neitt eftir það. Ég myndi bíta höndina af spurs ef þeir byðu 30 mills í Barkley eins og talað er um 🙂

 5. Ari S skrifar:

  Meinar þú að þú viljir láta Barkley fara?

  Orri biður að heilsa þér Diddi, kær kveðja, Ari.

 6. Gestur skrifar:

  Drulla í jólagjöf

 7. Gestur skrifar:

  Eru allir jafn gáttaðir á þessu liði og ég?

  • Ari S skrifar:

   Ég er gáttaður á þér Gestur, þú ert ert nú meiri stuðningsmaðurinn. Hefur til dæmis aldrei sagt neitt gott um liðið okkar síðan ég byrjaði að lesa hérna eitthvað eftir þig.

   En hey auðvitað er það þitt mál. Vertu bara gagnrýninn á liðið þá hljótum við að verða alveg svakalega góðir í framtíðinni. kær kveðja, Ari.

   🙂 🙂 🙂 Ég skil eftir þrjá broskalla handa þér Gestur minn.

   • Gestur skrifar:

    Ég tel það ekki rétt hjá þér, ég hef stundum hrósað leikmönnum Everton en tækifærin eru nú ekki mörg, en þú er kannski ánægður með gang mála. Takk fyrir broskallana og ég óska þér gleðilegra jóla.

 8. Georg skrifar:

  Ótrúlega kaflaskiptur leikur. Mér fannst við miklu betri fyrstu 30 mínúturnar í leiknum og vorum yfir þeim í baráttunni, síðustu 15 mín af fyrri hálfleik voru nokkuð jafnar. Hinsvegar var seinni hálfleikur vægast sagt slakur hjá okkar mönnum og náðum við ekki að byggja upp neitt marktæki.

  Ég hugsa hvort að skiptingin á Barry fyrir meiddan McCarthy í hálfleik hafi haft svona gríðarleg áhrif. Við áttum að mínu mati miðjuna í fyrri hálfleik með Gana og McCarthy á fullri ferð. Barry er búinn að vera frábær en mér finnst hann ekki henta í leiki gegn hröðum liðum þar sem kallinn er jú orðinn 35 ára. Svipað og með Weir og Stubbs á sínum tíma, flottir gegn hægari liðum en áttu erfitt gegn hröðum liðum.

  Það hjálpaði klárlega ekki að þurfa að eyða annari skiptingu í markmanninn og þannig þurfti Koeman að bíða með síðustu skiptinguna nokkuð lengi. Hefði líka viljað fá Mirallas inn á.

  Þetta var alveg ótrúlega ljótt mark sem þeir skora, Sturridge hittir ekki boltann og Robles átti að mínu mati að gera betur, átti að taka eitt skref til hliðar áður en hann skultaði sér þar sem að þetta var mjög laust skot. Ashley Williams gerði líka að mínu mati misstök þar sem hann stóð kyrr og horfi á boltann fara í stöngina og rúlla til baka á meðan Mane les þetta vel og kemur á ferðinni og setur hann í markið.

  Hvað getur maður tekið jákvætt úr leiknum? Fyrstu 30 mínúturnar voru mjög flottar og varnarleikurinn var í raun mjög flottur í leiknum. Liverpool fékk ekki mörg afgerandi færi í leiknum.

  Hvað var neikvætt? féllum allt of mikið til baka í seinni hálfleik í stað þess að pressa framar og þora að bera boltann upp völlinn. Vorum ómarkvissir á sendingum fram völlinn og Lukaku hefur átt betri daga, hann var ekki að ná að taka við þessum sendingum og halda boltanum. Fannst hann virka þreyttur í leiknum.

  Það er nokkuð ljóst að við þurfum að fara vinna fleiri leiki og væri flott að byrja strax í næsta leik gegn Leicester.

  • Gunnþór skrifar:

   Málið er goggi að poolaranir mætu bara til leiks í seinni á þá kom munurinn á liðunum í ljós.

 9. Gunnþór skrifar:

  Ari það á að gagnrýna liðið annars ertu að gera liðið verra og eðlilega eru menn fúlir út í seinni hálfleik þar sem við komumst varla framyfir miðju þetta var ágætis fyrri hálfleikur ekkert meira en það flott barátta en á kostnað fótboltans sem er ókey en í seinni hálfleik mætu poolararnirétt til leiks og hvað skeði?erum bara með því miður með of marga leikmenn sem eru ekki með þessi gæði sem við þurfum kom bersýnilega í ljós í þessum leik.

  • Ari S skrifar:

   „Drulla í jólagjöf“ er ekki gagnrýni.

   Ég er sammála þér Gunnþór það kom í ljós í seinni hálfleik hver er munurinn á liðunum. Miðjan hjá okkur er hreinlega bara léleg. Gareth Barry er alltof seinn og það kom strax í ljós. Þetta slapp á meðan McCarthy var inná en samt finnst mér hann lélegur, Ég er búinn að fá nóg af honum. Liverpool keyrðu yfir okkur á hraðanum og betri leik og Barry var bara ekki tilbúinn í það. Klopp vissi það líka.

 10. Gunnþór skrifar:

  Þarna erum við sammála .Mccarthy er fínn varnarlega en ekki sterkur sóknarlega lennon ekki nógu góður barkley er því miður langt frá sínu og valencia var skelfilegur í gær en hann kom ágætlega út á móti arsenal .þarna erum við með of marga sem eru ekki að skila nóg til liðsins í svona topp leik en eru kannski betri á móti lakari andstæðingum

%d bloggers like this: