Everton – Norwich 3-0

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur tímabilsins var við Norwich en Everton liðið lék undir stjórn David Unsworth og Joe Royle. Þetta var jafnframt síðasti leikur Tim Howard fyrir félagið en hann skrifaði hjartnæmt kveðjubréf til stuðningsmanna fyrir leik (sem hægt er að lesa hér).

Everton liðið átti nokkuð náðugan dag gegn Norwich, voru mun betri og áttu nær öll færin í leiknum, skoruðu þrjú mörk og sendu stuðningsmenn Everton heim brosandi, eins og lagt hefur verið upp með fyrir leik. Allt annað að sjá til liðsins en í síðustu leikjum og gaman að sjá alla ungliðana sem fengu tækifæri leiknum og stóðu sig frábærlega.

Uppstillingin: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Pennington, Barry, McCarthy, Davies, Mirallas, Dowell, Lukaku. Varamenn: Robles, Lennon, Cleverley, Barkley, Osman, Connolly, Kenny.

Sem sagt — mjög unglegt byrjunarlið: kjúklingar á borð við Pennington, Davies og Dowell að fá tækifæri í byrjunarliðinu og ekki eru nú Stones og Lukaku gamlir heldur, þannig að meðalaldurinn á byrjunarliðinu var ekki mjög hár í þessum leik. Fín blanda af ungum og reyndum mönnum.

Everton fékk færi strax í upphafi leiks þegar Lukaku fékk sendingu inn fyrir vörn Norwich en Ruddy, fyrrum Everton maðurinn í marki Norwich, var vel á verði. Everton klárlega að spila beinskeyttari bolta en í undanförnum leikjum og ákveðnir að setja pressu á Norwich frá upphafi — og gerðu það vel.

Lukaku gerði harða hríð að marki Norwich með tveimur skotum í sömu sókn á 11. mínútu, en bæði varin af Ruddy.

Lítið að gerast hinum megin vallar hjá sóknarlínu Norwich og Everton gekk á lagið með marki á 19. mínútu. Davies fékk boltann frá McCarthy, tók hann að vítateignum, fékk mann í sig og var næstum búinn að missa boltann frá sér en hann rúllaði í áttina að McCarthy sem sá skotfæri af löngu og setti boltann hárnákvæmt rétt innan við nærstöng. Glæsilegt mark og staðan orðin 1-0 fyrir Everton.

Matthew Pennington meiddist á 30. mínútu og annar ungliði, Jonjoe Kenny, kom inn á fyrir hann í — að ég held — sínum fyrsta leik með aðalliðinu.

Mirallas var ekki langt frá því að bæta við marki stuttu síðar þegar hann tók sprettinn upp völl, fékk boltann og komst einn upp að marki vinstra megin inni í teig með varnarmenn Norwch á hælunum en hann setti boltann í utanverða stöngina og hliðarnetið. Hefði átt að gera betur þar.

Norwich áttu sitt fyrsta almennilega færi á 40. mínútu þegar Jarvis, utan vítateigs, fékk skyndilega ákjósanlegt færi en skaut boltanum hátt yfir.

Það dró svo aftur til tíðinda rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Barry sendi fyrirgjöf inn í teig á Lukaku sem var togaður niður. Dómarinn ekki í nokkrum vafa — víti. Lukaku búinn að klúðra víti nýlega þannig að Baines fékk að taka það og var öruggur á punktinum, eins og nær alltaf. Setti hann vinstra megin við Ruddy og staðan orðin 2-0 fyrir Everton — rétt undir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik. Og þannig var staðan í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af sama krafti og það byrjaði og endaði þann fyrri. Og ekki leið á löngu áður en mark leit dagsins ljós. McCarthy fékk boltann við teiginn hægra megin, beið eftir hlaupinu hjá Jonjoe Kenny sem kom á „overlap-inu“ og stakk sér inn fyrir varnarlínu Norwich. Sá fékk mjög flottan bolta frá McCarthy og sendi fyrir mark þar sem Mirallas var á auðum sjó og þrumaði inn. Staðan orðin 3-0 fyrir Everton og nýliðinn og kjúklingurinn Kenny kominn með stoðsendingu í sínum fyrsta leik. McCarthy var svo skipt út af á 53. mínútu fyrir Lennon.

Norwich átti flott skot á mark eftir rúmlega klukkutíma leik, sem Howard varði vel. Þetta reyndist fyrsta og eina skiptið sem Howard þurfti að vinna fyrir kaupinu sínu í leiknum en hann hefur örugglega verið mjög sáttur við að halda hreinu í sínum síðasta leik fyrir félagið.

Barkley kom inn fyrir Kieran Dowell á 69. mínutu og hann kom með fína innspýtingu í leikinn, skapaði tvö færi, eitt fyrir Lukaku og annað fyrir sjálfan sig með flottu hlaupi upp völlinn.

En leikurinn fjaraði þó eiginlega út eftir þetta, enda Norwich menn þegar fallnir eftir síðasta leik og höfðu að engu að keppa lengur og Everton höfðu efni á að taka fótinn af bensíngjöfinni og sjá til þess að Norwich kæmu ekki inn í leikinn aftur — nokkuð sem hefur sárlega vantað á síðustu tveimur tímabilum.

Everton fór upp um eitt sæti við sigurinn og endar því í 11. sæti eftir tímabilið. Einkunnir Sky Sports: Howard (7), Baines (7), Stones (6), Jagielka (7), Pennington (4), McCarthy (7), Barry (7), Davies (7), Lukaku (7), Mirallas (7), Dowell (7). Varamenn: Kenny (7), Lennon (5), Barkley (5). Ungliðinn Tom Davies var valinn maður leiksins að mati Sky Sports.

Everton.is þakkar ykkur lesendum samveruna á tímabilinu.

45 Athugasemdir

 1. Robert skrifar:

  Ætli Oumar fái að spila meira? http://www.bbc.com/news/uk-england-merseyside-36296116

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég held að liðið sýni sitt rétta andlit og pakki Norwich saman 5-0
  Howard skorar fjórða markið úr víti.

 3. Diddi skrifar:

  Við töpum 1-2

  • Gunni D skrifar:

   ER eitthvert „face off“ í gangi?

   • Diddi skrifar:

    gamla jinx ið Gunni, klikkar aldrei 🙂 En djöfull er gaman að fylgjast með þessum Davies, hann er ekki með neina minnimáttarkennd, yfirsýn og flottar sendingar, er ekkert að dvelja á boltanum eins og hinn ólétti Barkley…… líkur Adrian Heath á velli og ekki leiðum að líkjast 🙂

    • Diddi skrifar:

     sumir leikmenn eiga að skammast sín fyrir sitt framlag í mörgum undanförnum leikjum, það ætti að draga af þeim nokkurra vikna laun vegna þess að þeir hafa ekki lagt sig fram og þar með eyðilagt mikið fyrir liðinu og Martinez, menn voru að leggja sig fram í dag og uppskáru……. já það eru nokkrir sem ættu að líta í eigin barm og drulluskammast sín

 4. Ari S skrifar:

  Ingvar hefur rétt fyrir sér. Ég er sammála Ingvari. Ingvar er bestur 🙂

  5-0

 5. Ari S skrifar:

  Þetta er allt annað lið. Gleðin skín úr andliti mana. Kannski hafði ég vitlaust fyrir mér með Martinez?

  Bið Ingvar og félaga afsökunar á villu minni. En Martinez er góður strákur og fær vonandi vinnu fljótlega.

  Mér finnst Davies vera skemmtilegur leikmaður og gaman að sjá þessa þrjá… fjóra ungu gaura í liðinu. Pennington, Davies, Dowell og Kenny. Ég hlakka gríðarlega til seinni hálfleiksins.

  Góðar stundir.

 6. Tryggvi Már skrifar:

  Einn ánægjulegasti leikur tímabilsins – sammála Ara – þetta er allt annað lið. Gaman að sjá ungstirnin – þegar ég gúgglaði Tom Davies þá var ekki einu sinni til Wikipedia grein um hann – en mér fannst hann annars vera maður leiksins.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég missti af fyrri hálfleik og öllum mörkunum en það sem ég sá var virkilega gaman á að horfa.
  Flottur sigur sem var aldrei í hættu, allavega ekki í seinni hálfleik.
  Ungu pjakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og það var allt annað að sjá liðið.

  Maður getur svo velt því fyrir sér hvað hefði getað orðið hefði Martinez og hans menn fengið sparkið fyrr.

 8. Elvar Örn skrifar:

  Nú eru margir netmiðlar að skrifa um að Everton sé búið að hafa samband við Morinho (eða umbann hans) um að hann taki við Everton en flestir telja það samt nokkuð ólíklegt þar sem hann hefur jú verið sterklega orðaður við Man Utd.

  Ég væri mjög til í að sjá Morinho taka við klúbb eins og Everton, væri nú nýtt challenge fyrir kallinn.

 9. Teddi skrifar:

  Takk fyrir góða pistla og semi líflegt spjall í vetur, hlakka til eftir 3 mánuði þegar að Everton heldur áfram þessum góða bolta.

  Finnst nú í hreinskilni sagt Móri vera orðinn e-ð nett klikkaður í hausnum miðað við blaðamannafundi og sjúkraþjálfaramálið hjá Chelsea. Vonandi einhver af þessum Hollendingum sem mætir á svæðið.

 10. Gunnþór skrifar:

  Sammála þér með móra er efins með hann en gefum honum séns ef hann verður ráðinn.

 11. Ari G skrifar:

  Móri er kannski létt klikkaður en hann er frábær stjóri það er það skiptir máli vill hann. Sá ekki leikinn í dag og gott að enda tímabilið á sigri. Howard takk fyrir öllum árin gangi þér allt í haginn. Núna vill ég sjá metnað í sumar og byrja á bestu stjórunum annars hef ég alltaf mikið álit á Hollendingum nema Gaal. Takk fyrir síðuna frábært framtak. Eigið allir hér gleðilegt sumar og sjáumst hressir hér þegar keppnin byrjar aftur í enska.

 12. Gunnþór skrifar:

  Það verður ekkert sumarfrí á þessari síðu það verður nóg að gera við að fylgjast með ráðningu stjóra Og leikmanna flottir ungu strákarnir í leiknum þessu er maður búinn að bíða eftir ansi lengi. Menn voru brosandi og hőfðu gaman að því að spila fótbolta.

 13. Diddi skrifar:

  Steini, ef þú kemur hingað inn einhverntíman á næstunni (á ekki von á því) þá langar mig bara að segja þér hve hrikalega leitt mér þótti að þið skylduð tapa í kvöld 🙂 Hélt meira að segja að þegar Joe Allen kom inná, myndi leikurinn snúast ykkur í hag 🙂 ha, ha, ha, ha

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Ef Sakho hefði spilað, þá hefði hann örugglega haft Coke í vasanum ?

  • Steini skrifar:

   Til hamingju með merkasta sigur þinn lengi. Þetta hlýtur að vera þín stoltasta stund í mörg ár verandi everton maður.
   Við munum berjast um fleiri titla í nánustu framtíð.

 14. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hver vill Coke???

 15. Diddi skrifar:

  til gamans má geta þess að okkar maður Alan Stubbs vann í dag skoska bikarinn sem þjálfari liðs Hibernian 🙂

  • Diddi skrifar:

   og David Weir er aðstoðarstjóri Rangers sem tapaði fyrir Hibs í þessum leik 🙂

 16. Elvar Örn skrifar:

  Nú hefur Lukaku gefið út að hann sé ákveðinn hvað hann muni gera í næsta skrefi. Ég les ekki annað útúr þessu en að hann sé á leiðinni frá Everton. Svolítil synd þar sem uppbygging er að hefjast í klúbbnum og virðast til nægir peningar. Eins og hann hefur nú staðið sig vel þá hefur hann verið mjög dagur í seinustu 10 leikjum.

  Við þurfum nýjan stjóra innan tveggja vikna, helst bara sem fyrst.

  • Orri skrifar:

   Sæll elvar.Við eigum ekki að hlusta á allt bull sem við heyrum.Ég eld að Lukau ráði ekki alveg sinni för í þessu dæmi.Hefur félagið ekki eitthvað með það að gera.

   • Elvar Örn skrifar:

    Ef hausinn er annars staðar er lítið hægt að gera. Eina sem gæti bjargað þessu er stjórinn,,, en hann vantar.

    • Orri skrifar:

     Sæll aftur Elvar.Við verðum að vona að nýr stjóri verði ráðinn helst núna í vikuni.

 17. Diddi skrifar:

  orðrómur, ég veit, en samt spennandi : http://www.hitc.com/en-gb/2016/05/22/breaking-reports-everton-to-hold-talks-with-unai-emery-about-rep/? P.s. Lukaku ræður ekki alveg einn hvort hann fer 🙂

 18. Elvar Örn skrifar:

  Nú er talað um að Steve Mandanda markmaður Marseille sem var að enda á samning sé mögulega á leiðinni til Everton, áhugavert. Amk er ljóst að Everton mun fjárfesta í markmanni fyrir næstu leiktíð.

  • Diddi skrifar:

   Hann hefur 3svar verið kjörinn markv. Deildarinnar í France, held ég að ég hafi lesið

 19. Gunnþór skrifar:

  Þarf að vanda valið á markmanni vel.

  • Elvar Örn skrifar:

   Nei nei það þarf ekkert, spurning um að fá snillinginn sem fann Niasse í það verk að finna nýjan markmann. #sagðienginn

 20. Elvar Örn skrifar:

  Markmaður Sevilla virðist vera svakalega góður líka.
  Annars er mikið talað um Pellegrini í stjóra stöðuna í miðlum í dag.

 21. Elvar Örn skrifar:

  Svo er Luis Van Gaal laus frá og með deginum í dag, hehe.

 22. Elvar Örn skrifar:

  Og svo er Ryan Giggs líklega laus þar sem hann vill ekki vera í teymi með Morinho. Það er bara allt að gerast,,,, nema nýr stjóri hjá Everton.

 23. Gestur skrifar:

  Það er voðalega rólegt yfir þessu. Bíð samt spenntur eftir nýjum stjóra.

 24. Elvar Örn skrifar:

  Finnur, búa til nýja slúður frétt, ég nenni ekki alltaf að skrolla svona 🙂

  Annars er Unai Emery stjóri Sevilla talinn líklegastur til að taka við Everton skv. veðbönkum, væri bara mjög áhugavert verð ég að segja. Er meira en til í það. Næstir koma Frank de Boer og síðan Pellegrini, allt fínir stjórar held ég.

%d bloggers like this: