Everton – Watford 2-2

Mynd: Everton FC.

Einhvern veginn undanfarið virðist Everton alltaf eiga erfitt með upphafsleik tímabilsins og það varð einnig raunin í dag. Ef síðustu tímabil frá árinu 2010 eru skoðuð sést að aðeins 1-0 sigur á Man United árið 2012 sker sig úr hvað það varðar, restin voru töp (Blackburn og QPR) eða jafntefli. Þriðja árið í röð endar þetta svo með 2-2 jafntefli, fyrst Norwich, svo Leicester og nú Watford. Það er væntanlega í engu uppáhaldi hjá okkur að mæta nýliðum snemma á tímabilinu, hvað þá í upphafsleik, því þau lið eru oft full sjálfstrausts í byrjun tímabils og ná óvæntum úrslitum en dala þegar líður á, líkt og Leicester í fyrra. En, við verðum að bíta í það súra epli.

Uppstillingin: Howard, Galloway, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Barkley, Mirallas, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Oviedo, Kone, Naismith, Osman, Browning, McAleny.

Lukaku, Stones og Mirallas allir orðnir nógu góðir til að spila leikinn en staðfest var að Baines hefði meiðst á æfingu. Annað tímabilið í röð meiðist lykilmaður korter fyrir tímabil en í fyrra var það Barkley.

Leikurinn fór rólega af stað og ekki mörg færi fyrstu tíu mínúturnar, lítið um færi Everton megin. Watford vel skipulagðir og gáfu ekki færi á sér. Tvímenntu á Coleman alltaf þegar hann fékk boltann en ekki tókst Everton að nýta sér plássið sem skapaðist við það. Watford menn alltaf fljótir í sókn og viðvörunarbjöllurnar hringdu snemma þegar ungliðinn Galloway reddaði okkur sem aftasti maður með algjörlega frábærri tæklingu sem eyðilagði dauðafæri fyrir Watford.

En á 14. mínútu skoruðu Watford menn. Fyrirgjöf kom frá vinstri kanti, á Jagielka sem sparkaði frá en svo illa vildi til að boltinn fór beint til Layun sem var beint fyrir framan markið inni í teig. Og hann þrumaði inn. 1-0 Watford. Ekki alveg það sem við vonuðumst eftir.

Barry svaraði næstum strax með flottum skalla úr horni á 18. mínútu sem markvörður náði að slá yfir markið í horn. En ekkert kom úr horninu, frekar en öðrum hornum sem Everton fékk í hálfleiknum. Spilið of hægt og leikmenn Watford náðu alltaf að koma sér í stöðu áður en Everton náði að gera eitthvað. Everton gekk fyrir vikið erfitt að skapa sér færi.

Eitt færi kom þó eftir um hálftíma leik þegar Mirallas, Cleverly og Barkley náðu flottu spili sem setti Barkley í færi utarlega inni í teig en markvörður varði flott skotið yfir markið í horn.

Watford menn voru stálheppnir að missa ekki mann út af með rautt rétt fyrir hálfleik þegar sóknarmaður þeirra fór í tveggja fóta tæklingu í ökklann á Galloway sem var að fara að hreinsa út úr teig en dómarinn sá bara ástæðu til að gefa gult.

1-0 í hálfleik.

Everton átti sterka byrjun í seinni hálfleik og allt annað að sjá til liðsins en í þeim fyrri. Leikmenn greinilega fengið orð í eyra eftir dapran fyrri hálfleik.

Mirallas var sérstaklega líflegur á hægri kanti, en í eitt skiptið sendi hann Coleman inn fyrir bakvörðinn og einnig átti hann fína fyrirgjöf stuttu síðar á Cleverley sem flaug framhjá markinu og vantaði bara einhvern til að pota inn. Mirallas reyndi svo skot utan af kanti sem markvörður þurfti að verja í horn. Stuttu síðar fékk Lukaku dauðafæri en skallaði framhjá en þar hefði hann átt að gera mun betur.

Kone kom inn á fyrir Galloway á 51. mínútu og ekki laust við að maður andvarpaði yfir þeirri skiptingu, þar sem Kone hefur ekki verið að sýna neitt á undirbúningstímabilinu auk þess sem Barkley var í harðri samkeppni við Lukaku um að titilinn veikasti hlekkurinn í liðinu í dag, eftir röð feilsendinga og slæmra ákvarðana með boltann. En sem betur fer stýri ég ekki skiptingum því þeir þrír, Lukaku, Barkley og þá sérstaklega Kone, okkur að óvörum, áttu eftir að gjörbreyta leiknum. Kannski er líf í honum eftir allt saman?

Kone var ekki lengi að koma sér í fínt skallafæri eftir fyrirgjöf Cleverley utan af velli, en skallinn rétt yfir. Everton greinilega að færa sig upp á skaftið og Watford að þreytast.

Á 69. mínútu horfðum við á það sem virtust vera skelfileg ökklameiðsli hjá Mirallas sem gott ef ekki versnuðu og versnuðu með hverri endursýningunni. Hann var tæklaður niður af leikmanni Watford og ljót sveigja kom á fótinn og maður ímyndaði sér strax það versta: slitin liðbönd eða brotið bein, illa leit það allavega út — mánuðir af meiðslum. Það kom því mikið á óvart að hann skyldi harka þetta af sér og halda áfram en honum var þó skipt út af fyrir Oviedo nokkrum mínútum síðar.

Rétt áður en það gerðist, hins vegar, náði Everton að jafna með glæsilegum hætti. Cleverly vann boltann af varnarmanni á 75. mínútu og sendi á Coleman sem sendi fyrirgöf af hægri utarlega í vítateig á Kone, sem tók hann niður og lagði frábærlega fyrir Barkley sem þrumaði í samskeytin. Flott sveigja á boltanum og markið algjör „screamer“. Staðan orðin 1-1. Game on!

Það tók þó Watford því miður ekki langan tíma að komast yfir aftur og markið kom eiginlega upp úr engu. Þeir höfðu ekki fengið nein teljandi færi í seinni hálfleik og legið í vörn. En fengu nú langa sendingu fram, sem var framlengd á sóknarmann Watford sem var allt í einu kominn upp að teig með nokkra varnarmenn fyrir framan sig. Hann þóttist ætla að skjóta tvisvar og lék þar með á bæði Stones og Jagielka og þrumaði svo í hornið niðri hægra megin af nokkuð löngu færi. 2-1 fyrir Watford á 82. mínútu. Ekki mikill tími til að reyna að bjarga því sem bjargað varð.

En það þurfti heldur ekki mikinn tíma því aðeins fjórum mínútum síðar var Everton liðið búið að jafna. Lukaku fékk boltann við teiginn, hélt honum vel með varnarmann í bakinu. Kone kom á hlaupinu hægra megin inn í teig og þá framlengdi Lukaku á Kone sem setti hann í hliðarnetið vinstra megin framhjá markverði sem kom á móti. Staðan orðin 2-2!

Tvo Everton færi litu dagsins ljós það sem eftir var, Lukaku átti flott skot úr þröngu færi vinstra megin sem var varið og Kone sendi Naismith, sem hafði komið inn á á 90. mínútu fyrir Lukaku, inn fyrir vörnina með flottri stungusendingu en varnarmaður náði að hreinsa frá.

Lokastaðan 2-2.

Einkunnir Sky Sports: Howard (6), Galloway (5), Jagielka (6), Stones (6), Coleman (7), Barry (6), McCarthy (6), Cleverley (6), Barkley (7), Mirallas (7), Lukaku (5). Varamenn: Kone (8), Oviedo (6), Naismith (N/A). Kone maður leiksins að þeirra mati.

15 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Andskotans aumingjaskapur, tvö töpuð stig

  2. Ari G skrifar:

    Af hverju spilar Martinez með 3 varnarsinnaða miðjumenn vonandi hættir hann þessu og spilar með 4-4-2 leikkerfi Everton miklu betri þannig. Barkley er greinilega að ná sig á strik meðan við síðasta ár. Að vísu átti hann nokkrar feilsendingar en ég er mjög bjartsýnn fyrir hans hönd. Kone besti leikmaður Everton í dag vonandi héldur hann áfram að sýna svona leik eftir að komið af bekknum. Lukaku var hræðilegur í þessum leik. Mirallas flottur Galloway flottur furðulegt að taka hann útaf. Vörnin klikkaði mjög illa 2 sinnum 2 mörk þetta gengur ekki Everton yfirspilaðu Watford í seinni hálfleik en ná samt bara rétt jafntefli. Núna vill ég henta einum varnarsinnaða miðjumanni útaf og setaj Spánverjann unga í staðinn þá gengur þetta miklu betur.

  3. Eiríkur skrifar:

    Ætla taka það jákvæða út úr þesum leik.
    Barkley skoraði. Kone lagði upp og skoraði!
    Barry leit mun betur út enn á síðasta tímabili og mér fannst Cleverley komast ágætlega frá sínum fyrsta alvöruleik.

  4. Finnur skrifar:

    Sammála Eiríki að öllu leyti. Að auki vil ég nefna að í fyrra var stöðugt performance-vandamál með miðverðina okkar og liðið virtist ekki hafa úthald í heilan leik en þeir virðast hvað það varðar komast ágætlega undan undirbúningstímabilinu í ár og Stones og Jagielka eru að fúnkera vel saman.

    Það er sárt að missa Baines í meiðsli aftur og verður fróðlegt að sjá liðið þegar við náum loksins saman sterkustu framlínunni okkar með Baines og Coleman að pressa fram á við.

  5. Diddi skrifar:

    horfði ekki á leikinn en sá 20 mín. highlights áðan og get ómögulega séð að vörnin sé að standa sig, í þau tvö skipti sem reyndi á hana þá drullaði hún á sig. Ætla að spá því að eftir 5 umferðir verðum við í einu af þremur neðstu sætunum 🙁

    • Finnur skrifar:

      Yfirleitt líta varnir liðanna nú ekki vel út þegar mörk dagsins eru sýnd… 🙂

      • Diddi skrifar:

        akkurat

      • Diddi skrifar:

        vörnin hjá stoke leit ekkert illa út í markinu sem þeir fengu á sig í dag, stundum er hreinlega ekki hægt að gera neitt, en seinna markið sem við fengum á okkur var ekki boðlegt varnarlega að mínu mati.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eftir vonbrigði síðasta tímabils þorði ég ekki einu sinni að voga mér að vonast eftir góðri frammistöðu í þessum leik og viti menn, ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Það sem var jákvætt í þessum leik var frammistaða Kone þegar hann kom inná.
    Það sem er neikvætt. Martinez er enn stjóri Everton.

    • Orri skrifar:

      Sæll Ingvar.Ég var fyrir miklum vonbrigðum með mína menn í þessum leik þetta var leikur sem við áttum að vinna en eitt jafnteflið á móti liði sem við eigum að vinna.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Ömurlegt að vinna ekki þennan leik.
    Ég var mjög ósáttur við fyrri hálfleik en við áttum þann seinni.
    Vel gert að jafna (Bomba frá Barkley)og eftir að þeir komust yfir var maður orðinn hálf vonlítill að við næðum jafntefli hið minnsta.
    Fannst Barkley góður en Lukaku ekki að standi sig nægilega vel. Kone klárlega bestur hjá Everton þrátt fyrir að vera ekki í byrjunarliðinu, því bjóst ég allra síst við fyrir leik.

    Jafntefli þó niðurstaða og hefðum getað tapað þessu en vildum klárlega vinna en lið eins og Arsenal komu mun verr útúr fyrstu umferðinni svo best að grenja ekki of mikið.

    Slæmt að Mirallas skyldi meiðast, fannst þetta ljótt brot og hefði getað farið verr, hann er óviss fyrir næsta leik en Deulofeu og Besic eiga stóran séns á að taka þátt skv. Martinez.

    Tökum næsta leik.

    • Orri skrifar:

      Aæll Elvar.Því miður lagar það ekki okkur gengi að það gangi ekki vel hjá öðrum liðum.Ég er bara hundfúll yfir leik minna manna.

      • Elvar Örn skrifar:

        Auðvitað megum við vera fúlir enda áttum við að vinna þetta lið. Hinsvegar hefði þetta getað farið verr ekki sýst í ljósi þess að þeir komust yfir á 83 mínútu algerlega gegn gangi leiksins.
        Fannst Everton reyndar miklu betri í seinni en þeim fyrri.
        Verður gaman að sjá hvernig næsti leikur fer en við eigum gríðarlega erfitt prógramm framundan.

  8. Georg skrifar:

    [ Innskot ritstjóra: Georg kom hér með frétt af leikmannakaupum sem gerð var að sér færslu: Sjá: http://everton.is/?p=9693 ]