Everton – West Ham 1-1 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Barry, Besic, Barkley, Mirallas, Naismith, Lukaku. Varamenn: Griffiths, Stones, Browning, Garbutt, McGeady, Kone.

Athygli vakti að Baines var ekki í liðinu né á bekknum en hann mun hafa meiðst á æfingu stuttu fyrir leik. Ekkert alvarlegt þó, að sögn, og hann ætti að vera heill fyrir næsta leik.

Everton fékk tvö hálffæri á fyrstu fimm mínútunum. Lukaku fékk ágætis skotfæri á 12. mínútu, setti fast skot á markið sem markvörðurinn varði en náði ekki að halda boltanum og Mirallas næstum búinn að komast í frákastið en varnarmaður náði að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

Heldur meiri pressa frá West Ham fyrstu tuttugu mínúturnar en eina uppskeran þeirra reyndist röð horna. Everton komst betur inn í leikinn eftir því sem leið á og höfðu yfirhöndina það sem eftir lifði hálfleiks.

Naismith átti skot af löngu færi á 19. mínútu en rétt framhjá stöng og svo komust sóknarmenn Everton tvisvar inn fyrir vörnina vinstra megin, fyrst setti Barkley Lukaku í færi með stungusendingu en skotið frá Lukaku hárfínt rétt framhjá stönginni (heyrðist þulirnir reyndar segja að markvörður hefði reddað þeim, en er ekki viss). Í seinna skiptið setti Lukaku Naismith inn fyrir en boltinn aðeins of langur og Naismith skaut úr þröngu færi upp við endalínu vinstra megin en boltinn rúllaði meðfram endalínunni, alveg við markið. Enginn til að pota inn. Mikið betra frá Everton.

West Ham svöruðu þó með skyndisókn þar sem Valencia var næstum kominn í gegn en boltinn skoppaði ekki vel fyrir hann og varnarmenn náðu að eyða hættunni áður en hann komst í færi.

Mirallas átti svo algjörlega eitraða fyrirgjöf á fjærstöng utan af vinstri kanti á 36. mínútu. Coleman mættur á fjærstöngina og var alls ekki langt frá því að ná til boltans og stýra honum í opið markið. Þar hefði staðan auðveldlega getað verið 1-0 fyrir Everton en því miður náði hann ekki til knattarins.

Barkley var svo ekki langt frá því að setja Lukaku í algjört dauðafæri í skyndisókn en Winston Reid réttur maður á réttum stað fyrir West Ham og rétt náði að koma í veg fyrir það.

West Ham komust í skotfæri innan teigs rétt fyrir hálfleik en sóknarmaður þeirra skaut hátt yfir.

Everton átti sínar skyndisóknir líka og í einni fór Lukaku með boltann alveg frá miðju að vítateig og skaut föstu skoti sem markvörður West Ham náði (aftur) ekki að halda og Mirallas (aftur) mættur í frákastið en náði ekki til hans og boltinn í horn.

0-0 í hálfleik og nokkurt jafnræði með liðunum — ekki mikið skilið þau að. Hvíldin undanfarið leit út fyrir að gert Lukaku gott en hann virkaði heitur í fyrri hálfleik. Everton liðið líklegra til að skora að mati sparkspekinganna sem greindu leikinn í hálfleik.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Fyrsta færið kom Everton megin þegar Naismith skóp færi fyrir Mirallas fyrir utan teig og Mirallas vel vakandi; sá að markvörður West Ham var of framarlega og reyndi að vippa en boltinn vildi ekki niður nógu fljótt og fór því rétt yfir.

Bakvörður West Ham svaraði með því að sóla Oviedo, að mér sýndist, upp úr skónum inni í teig og komast inn fyrir en Robles varði vel í horn sem West Ham náðu ekki að nýta.

Mirallas og Barkley voru báðir ekki langt frá því að komast einir á móti markverði stuttu síðar en varnarmenn West Ham náðu að komast fyrir stungusendinguna, eins og svo oft í leiknum.

Matt Jarvis hjá West Ham náði skoti á mark sem fór í Distin og í horn og upp úr horninu skoraði miðvörður West Ham Collins með skalla. Distin sýndist mér einfaldlega skilja hann eftir og leyfa honum að hlaupa á nærstöng og skalla inn. 0-1 fyrir West Ham. Og stuttu síðar leit út fyrir að þeir væru að fara að sökkva okkur þegar Robles okkur með frábærri markvörslu í horn með því að slá boltann yfir slána.

Lukaku átti stuttu síðar skot sem var bjargað á línu af Collins (markaskoraranum). Við héldum svo að Everton hefði jafnað þegar Lukaku kom boltanum í netið með frábærum skalla eftir fyrirgjöf inn í teig sem markvörður náði ekki að verja en Lukaku, því miður, dæmdur brotlegur í aðdragandanum.

Everton greinilega þó ekki af baki dottnir og svörunin við markinu góð. West Ham skiptu inn djúpum miðjumanni fyrir Matt Jarvis til að freista þess að halda fengnum hlut.

Eto’o kom inn á á 65. mínútu fyrir Mirallas og það er varla Everton leikur án meiðsla þessar vikurnar því Distin fór út af meiddur nokkrum mínútum síðar og Stones kom inn á.

Lukaku fékk svo frábæra sendingu á fjærstöng á 83. mínútu en með varnarmann fyrir sér náði hann ekki að slengja fæti í boltann. Barkley komst stuttu síðar á hlaupið upp allan völlinn og komst inn í vítateig vinstra megin en ætlaði að skora með skoti upp í hornið vinstra megin sem var of auðvelt fyrir markvörð að verja. Hefði átt að skjóta lágt á fjærstöng og þá hefði seinni bylgjan kannski náð að pota inn ef markvörður hefði varið.

McGeady inn á fyrir Besic á 85. mínútu.

Coleman fékk svo fínt skallafæri á 90. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri en náði ekki að stýra boltanum á markið.

Maður hughreysti sjálfan sig með því að minnast þess að West Ham menn hafa aldrei haldið hreinu á útivelli og ekki gerðist það í kvöld því Lukaku náði loks að jafna í uppbótartíma. Oviedo komst upp vinstra megin inn teig og sendi beint á Lukaku sem var beint fyrir framan markið. Lukaku lyfti boltanum upp aðeins og hamraði honum svo í netið áður en varnarmaður náði að komst til hans, við mikinn fögnuð á Goodison, eins og vera ber! Staðan 1-1. Game on!

Tvær mínútur eftir og Everton setti þumalskrúfurnar á West Ham í lokin en náði þó ekki að setja annað mark þrátt fyrir ágætis pressu.

Jafntefli staðreynd og því verður leikurinn endurtekinn á heimavelli West Ham. Ekki kannski það sem maður hefði óskað sér en úr því sem komið var hlýtur maður að taka því.

Mikil batamerki á leik Everton frá undanförnum leikjum. Lukaku greinilega að hitna aftur og var skeinuhættur allan leikinn.

Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleikina. Hvaða einkunn mynduð þið gefa?

22 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Everton mættir til leiks og sprækir sóknarlega fyrstu 25 mín.
  Sem betur fer því að
  W.Ham voru alveg jafn líklegir til að skora fyrsta korterið.

 2. Diddi skrifar:

  það er nú bara pínu gaman að fylgjast með okkar mönnum í kvöld. Það er helst Jagielka sem er eitthvað utanvið sig og eins finnst mér Barkley ekki alltaf nógu fljótur að losa sig við boltann en Barry er búinn að standa sig vel eins og flestir 🙂

 3. Gunnþór skrifar:

  Sammála Diddi þetta er betra en í venjulegu árferði værum við búnir að skora í það minsta tvö mörk gegn vængbrotnu west ham liði.

 4. Diddi skrifar:

  er hættur að horfa á þetta helvíti 🙂

 5. Gestur skrifar:

  jæja, fleiri tapleikir

 6. Diddi skrifar:

  LUKAKU, hætti auðvitað aldrei að horfa á leiki og er á því að þetta er ein besta frammistaða hjá okkur í vetur og við áttum aldrei skilið að tapa þessu 🙂

 7. Halldór Sig skrifar:

  Frábær barátta í lokin og hrikalega jákvætt að setja loksins mark og líka þetta glæsilega mark! þetta kveikir örugglega í liðinu. Robles er bara allur að koma til.

 8. Finnur skrifar:

  Ég myndi nú reyndar segja að það hafi verið tvö vængbrotin lið inni á vellinum. Aðeins tveir af okkar fyrstu fimm valkostum í vörninni voru í byrjunarliðinu (vantaði Howard, Baines og Stones) og svo vantar okkur líka McCarthy á miðjuna. Osman sem lék alla leikina á síðasta tímabili, ef ég man rétt; okkur vantar hann mikið til að finna holur á milli varnar og miðju andstæðinganna svo flæðið batni og menn hætti að senda boltann frá vinstri til hægri og til baka sífellt. Svo veit maður heldur ekki hverjir eru tæpir — Mirallas virðist til dæmis ekki vera 100% þar sem hann hefur ekki fengið mjög margar mínútur undanfarið (ætli það séu eftirköst af tæklingu Charlie Adam hjá Stoke?).

  Svo má ekki gleyma heldur að það vantar líka Hibbert í framlínuna…

 9. Diddi skrifar:

  Lukaku var bara eins og vindurinn í kvöld, þvílík yfirferð og vilji 🙂

 10. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var léttir. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað menn virkuðu baráttuglaðir. Vonandi að markið hans Lukaku hafi verið þessi margumtalaði vendipunktur fyrir tímabil okkar manna.

  • Orri skrifar:

   Sæll Ingvar. Ég held að bjartsýni þín hafi komið okkur á skrið í kvöld. Ég er sammála þér verum bjartsýn árið 2015.

 11. Elvar Örn skrifar:

  Lukaku var frábær í dag og andinn í liðinu ótrúlega góður. Mjög margt gott í spili Everton í dag og margir að spila betur en í undanförnum leikjum. McGeady kom svakalega flottur inn og Ovieido með flottan leik og stoðsendingin frá honum mögnuð. Lukaku átti sannarlega skilið að skora í dag, var klárlega okkar besti maður í dag að mínu mati.
  Heilt yfir var vörnin að standa sig vel en Jagielka var nokkrum sinnum úti á þekju eins og svo oft í vetur.

  Mér hefur fundist Everton vera bitlaust í seinustu leikjum og ekki nægilega grimmir og graðir. Mér fannst annað uppi á teningnum í dag en klassískt að fá mark á okkur fyrst.
  Ég er ósammála Gumma Ben að West Ham hafi verið betri í fyrri hálfleik, veit ekki betur en að Everton hafi átt um 3-4 góðar sóknir en man bara ekki eftir skoti frá West Ham að okkar marki í fyrri hálfleik.

  Everton gafst aldrei upp í dag og minnti það á Everton í fyrra og fögnuður og samstaða við jöfnunarmarkið var mjög innileg og sannfærandi, kannski er þetta vendipunkturinn í vetur, hver veit.

  Fáum amk aukaleik gegn þeim í næstu viku sem er besta mál og vonandi komumst við í næsta leik sem yrði útileikur gegn Bristol eða Doncaster ef ég man rétt.

  Þá er bara auðveldur leikur næst gegn Man City um helgina.

 12. Ari G skrifar:

  Ekki alveg sammála flestum hér. Fannst leikur Everton mjög köflóttur í kvöld. Mjög góðir inná á milli og svo fannst mér alltof margar feilsendingar. Finnst Barkley frábær stundum er að koma til en hann missti of oft boltann en hann á eftir að blómstra ef hann meiðist ekki aftur. Hissa að Kone var ekki settur inná Eto´o er alveg heillum horfinn undanfarið. Lukaku maður leiksins ekki spurnig og vörnin ok en finnst óþarfi að hafa 2 varnarmiðjumenn á móti svona miðlungsliði hefði t.d. tekið Barry útaf og sett t.d. inná í staðinn mín skoðun.

  • Finnur skrifar:

   Já, Eto’o veldur mér heilabrotum þessa dagana. Mér fannst það ekki góð skipti (Mirallas fyrir Eto’o, þeas, en Mirallas er náttúrulega ekki alveg heill — væntanlega). Hugsunin hjá Eto’o er alltaf frábær en það var bara ekkert að ganga upp hjá honum, kallinum.

   En á móti kemur að Martinez gerði breytingu á liðinu og hún skilaði jöfnunarmarki. Maður veit ekki hvað hefði gerst ef Kone hefði komið inn á en ekki Eto’o — þetta er alltaf svolítið random.

 13. Finnur skrifar:

  Kíkið endilega hér, snöggvast:
  http://everton.is/?p=8629
  Við viljum gjarnan heyra frá ykkur öllum.

 14. Gunnþór skrifar:

  Sammála Ara þetta var upp og niður en batamerki á liðinu vantar allt kantspil er mjög auðvelt að verjast okkur þegar við notum ekki vængina meira flott barátta í kvöld oviedo á bara eftir að verða betri sem og besic hann verður hrikalega flottur með tímanum. Spurning um að hvíla baines svolítið meira hann er ekki búin að vera líkur sjálfum sér þar sem af er. ÁFRAM EVERTON

 15. Georg skrifar:

  Á köflum í dag þá sá maður Everton liðið eins og það var að spila í fyrra. Lukaku átti einn sinn besta leik í vetur og var virkilega líflegur, það hafa verið mikið af fréttum um hann í vikunni hvort Everton hafi borgað of mikið fyrir hann, en þegar hann spilar svona og bara 21 árs þá mun hann klárlega koma til með að borga sig upp. Gummi Ben sagði West Ham heldur sterkari í fyrri hálfleik en svo þegar það voru sýnd highlights úr fyrrihálfleik þá voru þetta nánast eingöngu sóknir Everton og hann dró aðeins til baka þá fullyrðingu.

  Það sem maður var að sjá í dag var meira af hröðum sóknum. Eins og Andy Gray var að tala um þá skiptir engu máli hver er frammi ef við spilum fram og til baka aftar á vellinum. Loksins sá maður liðið spila hraðar upp völlinn.

  Það hefði verið gríðarlega svekkjandi að tapa þessum leik þar sem mér fannst við heilt yfir sterkari og eiga mun fleiri hættulegri færi.

  Gríðarlega mikilvægt mark bæði fyrir Lukaku og Everton liðið, þetta ætti aðeins að rífa upp andlegu hliðina í liðinu og bæta sjálfstraustið. Maður sá nokkra leikmenn brosa eftir leik sem maður hefur ekki séð lengi.

  Vonandi að þetta sé ákveðinn vendipunktur á leiktíðinni.

 16. Gunnþór skrifar:

  Sammála Georg

 17. Teddi skrifar:

  Til að taka þátt í bjartsýninni þá vona ég að einhverjir rugludallar í indversku ofurdeildinni kaupi Eto’o í janúar, vil frekar sjá Hibbert hanga frammi og pota inn einu í lok ferilsins.

 18. Elvar Örn skrifar:

  Eto’o hefur verið dapur í seinustu leikjum en mér fannst hann ekki lélegur þegar hann kom inná í þessum leik. Græðum ekkert á að losa okkur við hann, svakaleg reynsla og stóð sig vel í fyrstu leikjunum fyrir klúbbinn. Ég er klárlega ekki búinn að afskrifa Eto’o.

  Hér er player ratings á Goal.com þar sem Lukaku er maður leiksins.

  http://www.goal.com/en/match/everton-vs-west-ham-united/1973885/ratings

 19. Elvar Örn skrifar:

  Já og Atsu (sem hefur ekki getað blautann hjá Everton) gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrir Ghana í æfingaleik fyrir Afríkumótið, er þetta nokkuð typical?

  http://www.evertonfc.com/news/2015/01/07/atsu-scores-in-ghana-win?

 20. Diddi skrifar:

  Atsu hefur reyndar ekki fengið mörg tækifæri hjá okkur til að geta blautan skít 🙂

%d bloggers like this: