Helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

ATH: Munið Íslendingaferðina síðar í mánuðinum. Lokafrestur til að skrá sig er til hádegis á morgun, sjá hér.

Félagaskiptaglugginn er nú lokaður (fram í janúar), eins og við vitum, og margt hefur verið skrifað og skrafað varðandi niðurstöðuna. Því er þó ekki að neita að sjö leikmenn komu inn (Lukaku á nýju félagsmeti, Eto’o, Barry, Besic, Atsu, Galloway og Henen) og aðeins einn seldur (Duffy) plús tveir sem leystir voru undan samningi (Vellios og Gueye). Venjulega hefur maður áhyggjur af því að missa lykilmann rétt fyrir lokin en svo var ekki nú — enda bestu og efnilegustu mennirnir komnir á langtímasamning. Menn hafa misjafnar skoðanir á afrakstrinum úr félagaskiptaglugganum en mér fannst þessi grein hjá NSNO lýsa niðurstöðunni ágætlega.

Það var erfitt að kyngja úrslitunum í Chelsea leiknum, sem var ótrúlegur fyrir margra hluta sakir, ekki síst þar sem þarna mættust tvö af líklega bestu varnarliðum deildarinnar frá í fyrra en þegar uppi var staðið voru níu mörk skoruð. Það eru ekki bara stuðningsmenn sem þurfa að taka sig á, heldur er ýmislegt sem þarf að laga í varnarleik beggja liða eftir leikinn enda ekki oft sem þessi tvö lið fá jafn mörg mörk á sig. Það má þó ekki gleyma því að gæðin eru enn til staðar í báðum liðum, eins og Echo benti á í mjög svo skemmtilegri grein þar sem þeir skoðuðu tölfræðina hjá bakvörðum okkar og komust að því að Coleman ber höfuð og herðar yfir aðra varnarmenn, bæði í vörn og sókn — og Baines fylgir honum fast á eftir.

Það hefur þó vart farið framhjá okkur að hlé er nú á deildinni vegna landsleikja en þeir sem heima „sitja“ hafa verið á fullu í æfingum, eins og Graeme Jones, fór yfir í viðtali. Baines spilaði allan sigurleikinn með Englendingum gegn Noregi og Stones lungað úr leiknum líka. Jagielka fékk nokkrar mínútur í lokin — held að við séum sammála um að rétt hafi verið að skella honum á bekkinn. Gibson lék í 70 mínútur í sigurleik gegn Oman (gott að sjá Gibson aftur með landsliðinu) og McGeady fékk þriðjung úr leik — og er enn greinilega heitur: átti skot í þverslá. McCarthy, Lukaku og Mirallas voru hins vegar hvíldir.

Í öðrum fréttum er þetta helst að eftir tvo sigurleiki í röð töpuðu Everton U18 ára liðið (Englandsmeistararnir) sínum fyrsta leik á tímabilinu, 2-0 á útivelli fyrir Man City U18. Og sóknarmaðurinn Hallam Hope var lánaður til Sheffield Wednesday í hálft ár til að öðlast reynslu.

Í lokin er svo rétt að minnast á ferðina til Mekka fótboltans: Goodison Park. Samkvæmt síðustu talningu voru 7 (+1 á standby) skráðir í ferðina að sjá tvo Everton leiki í einni ferð, gegn Wolfsburg og gegn Crystal Palace. Sem er ótrúlegt miðað við það að við gátum bara gefið ykkur örfáa daga til að staðfesta þar sem seint kom í ljós að þetta væri möguleiki. Við náðum þó að kría út frest hjá ferðaskrifstofunni til hádegis á morgun (fimmtudag) til að skrá sig í ferðina og athugið að það er laust pláss fyrir einn stakan sem vill spara sér aukagjald (fyrir að vera einn í herbergi) eða hefur ekki fundið sér ferðafélaga.

Það er ekki oft sem tækifæri býðst til að taka tvo Everton leiki í einni ferð þannig að ekki missa af því. Sjá allar nánari upplýsingar hér.

10 Athugasemdir

 1. halli skrifar:

  Þađ er ađ verđa àr sìđan ég kom à Goodison mikiđ verđur gaman ađ koma þangađ aftur nùna à double header

 2. Finnur skrifar:

  Nákvæmlega. Þetta verður svakalegt! 🙂

 3. Diddi skrifar:

  Everton vann Stoke 4 – 0 í leik á Finch farm í dag, (á bak við luktar dyr) eins og þeir orða það svo skemmtilega í Englandi og Kone, já þið lásuð rétt KONE skoraði og Bryan Oviedo lék með og hin mörkin skoruðu Conor Grant 2 og Tiyas Browning 1, það var líka fréttnæmt að Charlie Adam hinn svo frábæri tæklari var beðinn að yfirgefa völlinn eftir hræðilega tæklingu á okkar manni Oviedo. Vonandi tekst okkar sterkasta liði að copyera þennan sigur gegn WBA, en bestu fréttirnar eru auðvitað þær að það styttist í KONE og OVIEDO 🙂

  • Halli skrifar:

   Gaman að sjá þetta Diddi

  • Finnur skrifar:

   Já, takk fyrir þetta Diddi.

   Svo var McGeady líka að skora fyrir Írana. Eldheitur greinilega. 🙂

  • Finnur skrifar:

   Heyrðu, ég var að lesa meira um þetta og þetta var greinilega kvöld Everton manna því McCarthy lagði upp fyrra markið hjá McGeady og Coleman það seinna (hjá McGeady). Ekki slæmt.

 4. Diddi skrifar:

  ég yrði manna ánægðastur ef ég þyrfti að éta ofan í mig það sem ég sagði um McGeady hér í upphafi tímabils en það er ekki komið að því ennþá 🙂

  • Ari S skrifar:

   Sammála þessu, ég held að hann hafi sýnt það í landsleiknum í gær að við höfðum einfaldlega rangt fyrir okkur. Hann var virkilega góður í gær, skoraði glæsileg mörk og ef hann héti McGeadioldo McGeadinho þá hefðu íþróttafjölmiðlar farið yfirum í umfjöllun það er nokkuð ljóst.

 5. Steini skrifar:

  Hann er fínn leikmaður í slakari deildum en þeirri ensku. Tölfræðin hans í skosku og rússnensku deildinni er frábær en í ensku er hún hræðileg. 22 leikir 1 mark og 3 stoðsendingar.
  Ömurleg tölfræði. En hann getur gert allskonar trix og flottheit með boltann. Kanski er það nóg fyrir everton aðdáendur til að finnast hann geggjaður 😀

  • Finnur skrifar:

   Alltaf gaman að sjá Liverpool menn grafast fyrir um tölfræði tengda Everton. Hvet þá til þess, enda saga klúbbsins bæði löng og glæsileg og margir flottir leikmenn sem hafa leikið þar. En þar sem þú virðist hafa sérstakan áhuga á McGeady er rétt að hjálpa þér að kynnast honum aðeins nánar: Hann kom í janúarglugganum í fyrra á free transfer (eða því sem næst). Hafði verið úti í kuldanum (í eiginlegri og bókstaflegri merkingu) hjá liði sínu í Rússlandi og þótti í lélegu formi þegar hann kom; var því notaður sparlega, aðallega sem varamaður undir lok leiks (held hann hafi fengið heil 3 tækifæri í byrjunarliðinu). Þessi tölfræði sem þú valdir að afmarka við 6 mánuði er því ekki sérstaklega lýsandi.

   Það er vel þekkt að menn þurfa tíma til að aðlagast ensku deildinni, mismikinn vissulega, en hann lítur mjög vel út það sem af er. McGeady er búinn að leika fjóra leiki á þessu tímabili með félags- og landsliði, skora í þeim þrjú mörk og ná einni stoðsendingu (sem gerir mark/stoðsending per leik). Og nema hann verði svo óheppinn að lenda í meiðslum þá á hann örugglega eftir að láta mun meira til sín taka en á síðasta tímabili. Þannig að það er aldrei að vita nema hann nái að gleðja þig með fleiri mörkum og stoðsendingum í framhaldinu. Sjáum hvernig þetta þróast.

%d bloggers like this: