Fulham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir botnliði Fulham á þeirra heimavelli á sunnudag kl. 12:30. Fulham eru að berjast fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni og gengur ekkert allt of vel því eini sigur þeirra í síðustu 12 leikjum var 1-0 sigur gegn Newcastle á heimavelli (og aðeins Sunderland er með verri árangur á heimavelli þegar allt tímabilið er skoðað). Þetta er þriðja viðureign Everton gegn Fulham á tímabilinu og jafnframt þriðji stjóri Fulham sem Martinez mætir (fyrst Martin Jol, svo Rene Meullensteen og nú Felix Magath). Everton hefur mætt þeim á Craven Cottage á tímabilinu, eins og við þekkjum vel, en þeir slógu Everton út í League Cup 2-1. Heimaleikur Everton gegn þeim á tímabilinu var 4-1 sigur.

Eftir óverðskuldað 1-0 tap Everton á Brúnni gegn Chelsea hafa fylgt fjórir flottir sigurleikir í röð í deild og mikilvægt að missa ekki dampinn til að setja pressu á Arsenal, sem virðast vera að fatast flugið eftir mjög stórt tap gegn Chelsea og jafntefli gegn Swansea í síðustu leikjum. Sigur gegn Fulham væri nauðsynlegt skref í baráttunni um Champions League sæti.

Jagielka er orðinn heill og er í hópnum fyrir leikinn. Stones er einnig heill en með átta spor í enninu eftir samstuð við sóknarmann Newcastle í síðasta leik. Pienaar, Kone, Gibson, Oviedo og Traore eru enn frá og líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Coleman, Mirallas, Barry, McCarthy, Deulofeu, Barkley, Lukaku. Hjá Fulham er Damien Duff frá, sem og Scott Parker og Kostas Mitroglou. Varnarmaðurinn Fernando Amorebieta er í banni og því er búist við að okkar fyrrum maður, Heitinga, taki hans stöðu.

Martinez sagði í viðtali að hópurinn þyrfti að vera um 26-28 leikmenn til að geta keppt bæði á heimavígstöðvum sem og í Evrópu og sagðist vera bæði að hugsa um að stækka hópinn sem og að bæta æfingaaðstöðuna. Koma auknar tekjur vegna sjónvarpsútsendinga til með að hjálpa til þar. Eitthvað af nýju leikmönnunum munu að sjálfsögðu koma úr unglingaliðinu og hafa nokkrir þeirra farið á lán til annarra liða (eins og komið verður inn á síðar).

Í öðrum fréttum er það helst að Blue Kipper tók saman skemmtilega tölfræði en þar kom fram að Baines er eini leikmaðurinn frá stofnun Úrvalsdeildarinnar sem er með 100% árangur úr vítum (af þeim sem hafa tekið 10 víti eða fleiri). Taflan sýnir hann reyndar með 11 mörk úr vítum en hann skoraði 12. markið úr víti gegn Swansea á dögunum.

Af ungliðunum er það helst að frétta að klúbburinn lánaði nokkra ungliða til annarra liða. Matthew Kennedy fór til MK Dons til loka tímabils og Vellios til Blackpool, einnig fram að lokum tímabils. Svo bárust fregnir af því að John Lundstram hefði verið lánaður til Leyton Orient í einn mánuð, Matthew Pennington til Tranmere (til loka tímabils) og Hallam Hope til Bury (til loka tímabils).

Everton U21 tapaði á útivelli í vítaspyrnukeppni fyrir Bootle U21 í  undanúrslitum Liverpool Senior Cup. Hvorugu liðinu tókst að skora en Bootle höfðu þetta í vítaspyrnukeppninni, 7-6.

Fulham á sunnudaginn, í beinni á Ölveri.

18 Athugasemdir

 1. Jónatan skrifar:

  Leikurin er kl 12:30

 2. Finnur skrifar:

  Mikið rétt! Þessi leikur var settur á dagsetningu fyrir klukkubreytinguna í Bretlandi en var svo frestað eftir hana og ég athugaði aldrei að færa til tímasetninguna. Takk fyrir ábendinguna! Leiðréttist hér með. Leikurinn er kl. 12:30! 🙂

  • Finnur skrifar:

   Nei, þetta var víst rétt hjá mér í upphafi. Leikurinn _er_ kl. 13:30 (ekki 12:30) og Bretland er ekki búið að breyta klukkunni fyrir daylight savings. Þetta leiðréttist hér með.

   • Finnur skrifar:

    Nei, var að sjá að Bretarnir _eru_ búnir að breyta klukkunni. Leikurinn er klukkan 12:30 að okkar tíma, ekki 13:30. Afsakið ruglinginn.

 3. Gunnþór skrifar:

  Vona að við vinnum þennan leik,er pínu þreyttur á að þegar við eigum séns á einhverju þá klikkum við það er bara þannig, búið að vera svoleiðis síðustu 10 ár, vona að Martinez snúi við blaðinnu góða og við förum að láta taka okkur alvarlega.

 4. Ari S skrifar:

  Gunnþór minn, við endum með 81 stig, við færum Liverpool titilinn með sigri á Manchester City í næst síðasta heimaleiknum okkar á tímabilinu með nokkrum kolbrjáluðum Íslendingum á svæðinu og endum sjálfir í því þriðja…….

  Þetta er aðeins ein myndin af mörgum sem upp gæti komið. 🙂

  En vonandi náum við að halda haus og næla okkur í 71 stig (Martinez segir það nóg) og enda í 4. sætinu, það er góður möguleiki á því en fyrsta verkefnið er að sigra Fulham.

  kær kveðja,

  Ari

 5. Ari S skrifar:

  … næst síðasta leiknum og síðasta heimaleiknum ætlaði ég að segja hér að ofan…

 6. Halli skrifar:

  Ég vil sjá framhald af forminu frá síðasta leik og vinna annan góðan útisigur. Frábært að fá Jags aftur inn og ég væri til í þessa breytingu sem Finnur er með Mirallas inn fyrir Osman. Leikurinn fer 1-3 Coleman,Lukaku 2 með mörkin

 7. Trausti skrifar:

  0-5!

 8. Hallur skrifar:

  verður ljotur en samt rosalega fallegur 1-0 sigur fyrir Everton og heitinga gerir sjálfsmark

 9. Ari G skrifar:

  Hef engar áhyggjur af þessum leik. Everton vinnur 4:1 Lukaku, Barkley, Mirallas og Baibes með mörkin. 8 leikir eftir þurfum að vinna Arsenal algjört lykilatriði þá gæti dugað ca 72-75 stig í 4 sætið allavega ekki minna.

 10. Diddi skrifar:

  Get því miður ekki fylgst með þessum leik sökum anna en er á því að Fulham komi á óvart og taki stig. Við höfum haft þann leiða sið að drulla á okkur þegar við sjáum eitthvað gott framundan, en vona að mér skjátlist 🙂

 11. Diddi skrifar:

  ég held líka eftir að hafa séð leikjaprógrammið hjá okkur vs. Arsenal þá muni þeir ná fjórða sætinu en við verðum að hanga á því fimmta eins og við eigum lífið að leysa 🙂

 12. Diddi skrifar:

  neikvæður, nei bara raunsær 🙂

 13. Elvar Örn skrifar:

  Ef Everton vinnur seinustu 8 leiki tímabilsins er meistaradeildar sæti tryggt, sama hvernig aðrir leikir fara. Bara áhugaverð staðreynd.
  Ef Everton vinnur þá tvo leiki sem þeir eiga inni á efsta liðið Chelsea þá munar bara 6 stigum á Everton og Chelsea. Bara áhugaverð staðreynd.

  Ef Everton vinnur í dag þá eru bara 4 stig í Arsenal sem situr í 4 sæti og við mætum þeim einmitt næstu helgi á Goodison. Sú staða væri meira en lítið áhugaverð. Ég er amk á þeirri skoðun að meistaradeildar sæti sé ekki ómögulegt en eins og Gunnþór og fleiri hafa talað um þá virðist sem Everton klikka alltaf þegar þeir fá séns á einhverju. En eigum við ekki bara að tengja það við Moyes, og segja að allt gangi upp með Martinez?

 14. Ari S skrifar:

  Elvar 81 stigin eru okkar. Við endum ansi ofarlega ef það myndi gerast. Annars held ég að þetta hrapi niður í 79 strax í dag. Við gerum 1-1 jafntefli við Fulham sem er að berajst fyrir lífi sínu og veru í deildinni.

  Ég hef það samt á tilfinningunni að liðið okkar sé að byrja nýjan kafla eða byrjaði nýjan kafla fyrir fjórum leikjum síðan. Ég spái því að við endum með 75 stig í deildinni og það tryggir okkar meistaradeildina. Kannski vinnum við bara stórt í dag?

  kær kveðja, Ari

  ps. verð því miður að sjá af leiknum í dag. Vegna anna eins og Diddi sagði… ég verð í vinnunni en fylgist vel með 🙂

 15. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vonast eftir útisigrum í bàðum leikjunum í dag en óttast illilega hið gagnstæða.

 16. Finnur skrifar:

  Innan við klukkutími í leik. Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=7063

%d bloggers like this: